01.03.1972
Neðri deild: 45. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (3107)

185. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég vænti þess, að það verði ekki álitin framhleypni af mér, þó að ég leggi nokkur orð í belg hér um þetta mál, þar sem ég á sæti í stjórn Mjólkursamsölunnar og hef átt það nú um allmörg ár, og er þar af leiðandi meðsekur um öll þau víti, sem á samsöluna hafa verið borin í grg, með því frv., sem hér liggur frammi til umr., og fram komu einnig að nokkru í ræðu hv. frsm. eða 1. flm.

Það eru taldar sakir á hendur samsölustjórn, að hún hefur ekki viljað láta hvaða verzlun sem um það hefur sótt hafa mjólk og aðrar mjólkurvörur til sölu og ekki viljað leggja niður allar sínar búðir eða mikið af sínum mjólkurbúðum, þar sem það gæti þýtt t. d. að leggja niður tugi af eigin búðum, þær þyrfti að selja, koma þeim í verð, og það er engin trygging fyrir að ná því fé, sem í þessum eignum stendur, með sölu. Auk þess mundi slík breyting, ef hún væri gerð, þýða það, að Mjólkursamsalan yrði að segja upp jafnvel hundruðum af starfsfólki. Í þjónustu Mjólkursamsölunnar vinna nú 450–460 manns, og mjög mikið af þessu starfsfólki vinnur í mjólkurbúðum samsölunnar.

Það er náttúrlega ekkert nýtt fyrirbæri, þó að ýmsir gangi með þá grillu í höfðinu um Mjólkursamsöluna og störf hennar, sem hér hefur komið fram, bæði í ræðu flm. fyrir þessu frv. og í blöðum og víðar á undanförnum árum. Það má segja, að frá því að þetta fyrirtæki var stofnað 1935, hafi verið í gangi alls konar misskilningur um þessa stofnun og starfsemi hennar, og það er þess vegna henni jafngamalt og tekur ekki að kippa sér upp við það. Og þessa gamla misskilnings gætir mjög í sambandi við flutning þessa frv., og þar koma fram, sérstaklega í grg. og raunar í framsöguræðu, sömu atriðin sem deilt hefur verið um í sambandi við þessa stofnun allt frá upphafi, frá því að hún var stofnuð.

Þær fullyrðingar ýmsar, sem í grg. með frv. standa, eru áreiðanlega sprottnar að verulegu leyti af ófullnægjandi upplýsingum. Það er alltaf galli, að menn afli sér ekki nægilegra og fullra upplýsinga um þau málefni, sem þeir eru að fást við. Og ég þykist vita það, þegar litið er á, hverjir eru flm. þessa frv., að þeir séu opnir fyrir fræðslu um þessi mál og vilji hafa það, sem sannara reynist. Ég er ekki í neinum vafa um það. Þess vegna er nú, að mig langar til þess að reyna að gefa hér nokkrar upplýsingar, sem bæði flm. og aðrir hv. alþm. munu hafa gott af að heyra og kynna sér.

Stjórn Mjólkursamsölunnar er kosin af framleiðendum, eins og lög mæla fyrir um. Í grg. eru þær sakir bornar á þessa stjórn, að hún hafi ekki haft fyrir augum hagsmuni framleiðenda og því síður neytenda. En þrátt fyrir það hafa þessir menn sumir, sem þar hafa verið og eru í stjórn, verið endurkosnir hvað eftir annað, áratug eftir áratug af framleiðendum, svo að ekki er að sjá, að framleiðendur hafi talið, að þeir hafi svikið þá með störfum sínum. Undarlegir mættu nú þessir menn vera, ef þeir vildu fyrir alla muni bera fyrir borð hagsmuni neytenda, sem þeir vilja fá fyrir góða viðskiptavini sína. Og ég er það kunnugur störfum þeirra manna, sem þarna hafa stjórnað málum, að ég get sagt það með fullri vissu, að þeir vilja fyrst og fremst laða til sín viðskiptavini og gera þeim til geðs, eftir því sem þeir telja, að mögulegt sé og eðlilegt að koma fram, enda væri allt annað óeðlilegt. Ég vil taka það fram, að ég álít, að Reykvíkingar og aðrir viðskiptamenn Mjólkursamsölunnar hafi verið og séu enn í dag mjög góðir viðskiptavinir. Út á það er ekkert að setja af okkar hálfu, sem stjórnum Mjólkursamsölunni.

Það hefur verið talað um það oft og einatt, að Mjólkursamsalan fylgdist ekki með nýjungum á því sviði, sem henni ber að fylgjast með. Þessu mótmæli ég. Ég tel, að Mjólkursamsalan hafi alltaf verið opin fyrir öllum nýjungum. Hún hefur t. d. lagt hvað eftir annað í mjög dýrar breytingar í sambandi við umbúðirnar, umbúðir um mjólkina, til þess að fylgjast með kröfum tímanna. Og ég held, að neytendurnir hafi yfirleitt virt þetta við stofnunina og verið þakklátir fyrir þær breytingar, sem þar hafa verið gerðar. Það hefur stundum tekið sinn tíma að koma þessu fram eins og öðru, sem þarf að framkvæma og dýrt er, en ég veit ekki annað en yfirleitt sé sæmileg ánægja með þetta hjá neytendum. Mjólkin og mjólkurvörurnar eru, eins og allir vita, einhver viðkvæmasta vara, sem til sölu er á markaði. Um þessa vöru verður seljandinn að hlíta mjög ströngum heilbrigðissamþykktum og eftirliti frá þeim aðilum, sem eiga að framfylgja þessu eftirliti. Mjólkursamsalan er vitanlega sótt til saka, ef eitthvað ber út af í þessum efnum, og það stundum jafnvel þótt hún eigi ekki sök á, og við því er ekkert að segja. Það er eðlilegt, að um þessa hluti verði að gilda strangar reglur.

Á öllu sölusvæði Mjólkursamsölunnar, sem eins og kunnugt er nær frá Skeiðarársandi að austan allt til Gilsfjarðar að vestan, hefur Mjólkursamsalan 159 útsölustaði fyrir mjólk — 159 útsölustaði. Þar af eru 80 þessara útsölustaða hér í Reykjavík, 12 eru í Kópavogi, 2 eru í Garðahreppi og 9 í Hafnarfirði, svo að ég nefni sérstaklega Reykjavíkursvæðið. Af þessum 159 útsölustöðum hefur Mjólkursamsalan sjálf 75 útsölustaði, en aðrir aðilar hafa 84. Sem sagt, aðrir aðilar hafa mun fleiri búðir heldur en samsalan sjálf. Þó er henni borið það á brýn, að hún ein hafi söluna svo að segja. Af þessum tölum, sem ég hef hér nefnt, verður auðséð, að sú fullyrðing er alröng.

Nú er verið að gera athugun af hendi Mjólkursamsölunnar á því, hvernig þessar búðir, sem hafa mjólk til sölu, fullnægi settum reglum um meðferð vörunnar. Ein slík athugun er, eins og ég sagði, nú í gangi. Henni er ekki að fullu lokið. Það er búið að athuga núna 139 búðir, en það er eftir að athuga 20. Og af þessum 139, sem athugunin nær enn þá til, fullnægja 96 reglugerðinni, sem ber að fylgja, en 43 fullnægja henni ekki. Af 75 búðum samsölunnar voru aðeins 3, sem þóttu athugaverðar og voru ekki að fullu í lagi, en af 64 búðum annarra aðila, sem búið er að athuga nú, voru 40, sem ekki fullnægðu reglugerðinni. Þessi athugun fer fyrst og fremst fram til að ganga úr skugga um, hvort fullnægt sé heilbrigðisreglum og kælibúnaði. Og eins og ég sagði, þá varð niðurstaðan þessi. En eftir er að athuga 20, og sú athugun heldur nú áfram. Hvernig halda menn svo, að ástandið væri, ef allar búðir ættu að vera með mjólk? Og hvernig halda menn, að eftirlitið yrði? Halda menn ekki, að það yrði dálítið erfitt að fylgjast með því, ef allar matvörubúðir á þessu svæði hefðu þessa vöru til sölu? Ég er ákaflega hræddur um, að það mundi reynast erfitt.

Það er ósköp eðlilegt, að kaupmenn vilji fá mjólk í búðirnar sínar. Það geta allir skilið. Og það dettur engum annað í hug en það sé hægt að treysta mörgum þeirra til þess að hafa þetta með höndum, enda hafa margir kaupmenn mjólkursölu með höndum og hafa reynzt ágætlega, margir þeirra. Mjólkina vilja kaupmennirnir vitanlega allir fá, ekki af því, að það sé neitt gróðavænlegt að selja sjálfa mjólkina, heldur vegna þess, að allir verða að kaupa mjólk, neytandinn verður alltaf að fara í búð daglega til þess að kaupa sér mjólk, og kaupmaðurinn hyggur þá vitanlega, að fleira sé keypt í leiðinni, ef mjólkin er á boðstólum í búðinni. Þetta er allt skiljanlegt.

Flm. gat þess, að á síðasta ári hefðu Kaupmannasamtökin hér í Reykjavík óskað eftir viðræðum við stjórn Mjólkursamsölunnar um þessi mál. Þetta er allt rétt, sem hann sagði um það. Áður en mjólkursamsölustjórnin svaraði bréfi Kaupmannasamtakanna, þá vildi hún hafa samráð við aðalfund, sem haldinn var snemma í apríl um það, hvaða viðhorf bæri að hafa í viðræðum við Kaupmannasamtökin. Af þeim ástæðum dróst það hjá samsölunni að svara bréfi kaupmannanna. Aðalfundur Mjólkursamsölunnar, sem er skipaður fulltrúum framleiðenda, tók þessi mál til yfirvegunar, ræddi þau og gerði um þau ályktanir, og eins og flm. gat um, þá taldi fulltrúafundurinn, að það væri í rauninni ekki á valdi Mjólkursamsölunnar að breyta þessum málum og spila mjólkinni út til allra, sem vildu hafa hana. Ef á því ætti að gera breytingu og ætti að setja mjólk í hverja einustu matvörubúð, sem óskaði þess, þá yrði það að vera löggjafarsamkoman, sem ákvæði það. Mjólkursamsölustjórnin vill ekki bera ábyrgð á þeirri breytingu. Og á þeim grundvelli var gerð samþykkt á aðalfundinum, og síðan var fundur haldinn. Þátttakendur í þeim fundi voru stjórn Kaupmannasamtakanna og stjórn Mjólkursamsölunnar. Þar voru þessi mál rædd aftur á bak og áfram í fullri vinsemd, og ég verð að segja það, að það var skemmtilegur og ánægjulegur fundur. Síðan var kosin þar nefnd, menn frá báðum aðilum, til þess að halda áfram að athuga þetta. Sú n. hefur nú haldið einn eða tvo fundi síðan. Ég veit, að kaupmönnum þykir illa ganga, illa rekin tryppin. Þeir vilja hraða þessu máli. En ég geri ráð fyrir því, að það fari þannig, að Mjólkursamsalan treysti sér ekki til þess að bera ábyrgð á því að láta alla hafa mjólk, sem þess óska. Þar yrði löggjafarsamkoman að koma til, ef hún hefði áhuga á slíku. En ég fyrir mitt leyti mun ekki ráðleggja löggjafaþingi Íslendinga að gera það. Það er annað mál.

Við þetta má bæta þeim upplýsingum, að á s. l. hausti komu fulltrúar kaupmannanna, sem mjólkina höfðu í búðum sínum, til samsölustjórnarinnar og kröfðust þess, að sölulaunin yrðu hækkuð. Þeir treystu sér ekki til að hafa mjólkina í búðum sínum fyrir þau sölulaun, sem þeir hafa nú. Þessu neitaði samsalan. En hvernig halda nú menn, að þessu máli hefði lyktað, ef samsalan sjálf hafði ekki þessar búðir sínar í gangi og kaupmennirnir og bakararnir eða aðrir aðilar, sem mjólkina hafa nú, hefðu verið einir um hituna? Ég ætla ekki að svara því. Ég held, að hver og einn geti svarað því fyrir sig sjálfur. Svo segja hv. flm. þessa frv. í grg., að samsölustjórnin hafi með afstöðu sinni brotið gegn hagsmunum bænda og neytenda. Þetta eru allstórar fullyrðingar, finnst mér. Nú get ég upplýst það til viðbótar í sambandi við þetta, að nýlega ætlaði Mjólkursamsala.n að leggja niður eina af sínum búðum og láta kaupmann, sem þar var í grenndinni hafa mjólkursöluna, og var búið að ákveða þetta. En hvað gerist þá? Þá taka neytendur sig saman, sem bjuggu þar og höfðu haft skipti við búð samsölunnar, söfnuðu undirskriftum og harðneituðu því, að mjólkurbúðin yrði lögð niður og mjólkin sett í búðina til kaupmannsins. Þannig var nú afstaða þessara neytenda. Ég veit ekkert, á hverju hún byggðist, en hún var þannig. Og þess vegna var hætt við þetta, a. m. k. um sinn, af þessum ástæðum, svo að það er ekki alveg einhlítt, að neytendur mundu æskja eftir þeirri breytingu, sem hér er verið að óska eftir.

Í grg. með frv. er vitnað til þess, hvernig mjólkursölumál hafi þróazt í Danmörku, og að dreifingarkostnaður mundi lækka hér, ef sú fyrir mynd yrði notuð, sem þar er nú eftir að fara samkv. síðustu breytingu, sem þar hefur verið gerð á þessu. Mjólkursamsalan er vakandi fyrir því að fylgjast með því, sem frændur okkar á Norðurlöndum gera í þessum málum, og samsölustjórnin samþykkti á s. l. sumri að senda forstjóra Mjólkursamsölunnar til Norðurlanda til þess að kynna sér nákvæmlega það fyrirkomulag, sem þar er á þessum málum, og þær breytingar, sem gerðar voru á s. l. ári í Danmörku. Forstjórinn fór til Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs til þess að kynna sér þessi mál. Eins og hér hefur komið fram hjá hv. 1. flm. í framsöguræðu hans, þá tóku ný lög gildi í Danmörku um mjólkursölu og dreifingu á mjólk 1. jan. 1971. Nú langar mig til þess að láta hv. alþm. heyra þá skýrslu, sem forstjórinn hefur gert um þessa ferð sína. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að leyfa mér að lesa upp að meginhluta þessa skýrslu. Og þá byrjar þetta á upplýsingum frá Danmörku:

Áður en nýju lögin gengu í gildi í Danmörku í ársbyrjun 1971, var mjólkursölu nær eingöngu hagað sem hér segir:

1. Danskur mjólkuriðnaður hafði engar mjólkurbúðir sjálfur á sínum vegum.

2. Mikill hluti mjólkurinnar var seldur í svonefndum „ísmejeríum“, sem voru mjólkurbúðir með nokkru úrvali af öðrum vörutegundum, sem takmarkaðar voru með ákvæði í reglugerð. „Ísmejeríin“ voru rekin af einkaaðilum, venjulega lifði ein fjölskylda á slíkri smábúð. Nokkuð var um heimsendingar frá „ísmejerium“, sem þó hafði farið mikið minnkandi undir það síðasta, sökum þess að þær reyndust of dýrar og fólk fékkst ekki í slíka vinnu. Nokkuð af mjólk var selt úr vögnum, sem ekið var á vissum tíma dags, hverjum um sitt ákveðna hverfi, samkv. samningi við ákveðin mjólkurbú. Þessir ökumenn gerðu ýmist að selja mjólkina á götunni eða skilja hana eftir við dyr fólks, allt á sína ábyrgð og áhættu og voru eigin herrar. Þessi aðferð hafði einnig gengið sér til húðar. Hún var orðin of dýr, og fólk fékkst ekki til að sinna þessu lengur.

Stór-Kaupmannahöfn hefur 1.3 millj. íbúa, og er talið, að þar séu um 500 þús. heimili í borginni. Þar eru 7 mjólkurstöðvar, sem starfa saman. Hafði hver sitt umdæmi og einkasölu þar. Svæðamörk voru þó breytanleg eftir þörfum. Miðað var við, að eitt „ísmejerí“ væri fyrir hverja 800–1200 íbúa. — Það er ósköp svipað og við höfum hér á bak við hverja mjólkurbúð í Reykjavík. — Svæði hverrar mjólkurstöðvar kölluðust réttindasvæði. Sveitar- og bæjarstjórnir ákváðu smásölu- og heildsöluverð. Þegar sjálfsöluverzlanir tóku að gerast algengar og líklegt var orðið, að hið gamla fyrirkomulag um mjólkursölu dygði varla miklu lengur, var nefnd sett á laggirnar í febrúar 1965. Viðskmrh., Lars P. Jensen, skipaði nefndina, sem átti að rannsaka, hvort þörf væri á að breyta gildandi reglum um mjólkursölu, en þær voru frá árinu 1958. Um verkefni n. er þetta fram tekið:

Sú þróun, sem átt hefur sér stað, einkum á síðari árum á sviði neyzluvörudreifingar, gerir það að áliti verzlunarmálaráðuneytisins eðlilegt að hlutast til um athugun á áðurnefndu atriði með það fyrir augum að aðhæfa fyrirkomulag mjólkursölunnar þessari þróun, ef ástæða þykir til. Og síðan voru skipaðir í n. fulltrúar frá 23 aðilum í Kaupmannahöfn. Ég ætla að lesa upp, hverjir þessir aðilar voru, sem fengu fulltrúa í þessari n. Það var verzlunarrn., innanríkisrn., landbrn., einokunareftirlitið, heilbrigðiseftirlitið, félag danskra dýralækna, sveitarstjórnir í smábæjum, félag danskra kaupstaða, mjólkurnefnd Stór-Kaupmannahafnar, samtök mjólkurstöðva í Stór-Kaupmannahöfn, samtök danskra neyzlumjólkurstöðva, samtök danskra mjólkurframleiðenda, samtök danskra mjólkursmásala, samtök danskra bakara, neyzluráð danskra húsmæðra, heimilisrekstrarráð ríkisins, samtök danskra verzlunarfélaga, samtök kaupmannafélaga í Danmörku, samtök kaupfélaga í Danmörku, atvinnuráð verkalýðshreyfingarinnar, fagfélag starfsfólks í mjólkurbúum, samband mjólkuriðnaðarmanna, vinnuveitendasamtök neyzlumjólkurbúa.

Störf n. leiddu að lokum til setningar nýrra laga, sem tóku gildi 1. jan. 1971. Samkv. þessum nýju lögum fá allir, sem hafa leyfi heilbrigðisyfirvalda, leyfi til þess að selja mjólk. Leyft er að breyta eldri mjólkurbúðum og „ísmejeríum“ í alhliða verzlanir. Smásöluálagning var gefin frjáls. Sett var stofngjald eða stoppgjald, gjald fyrir að mjólkurflutningabílarnir stoppuðu við dyr mjólkurbúðanna eða verzlananna. Það var sett 8 kr. danskar fyrir hverja viðkomu, sem varð að greiða um leið og mjólkurflutningatækið stanzaði við búðina og verður að greiða um leið og það stanzar við búðina. Þetta var ekki gert til þess að fjölga útsölustöðum, heldur til þess að reyna að takmarka fjölda sölustaðanna. Og þetta kemur vitanlega harðast niður á smákaupmönnum. Stóru fyrirtækin, svo sem t. d. H. B., sem samsvarar KRON í Reykjavík, og IRMA fengu nú mjólk til sölu. Afleiðing breytingarinnar varð í stuttu máli sú, að sölustöðunum fjölgaði í fyrstu um 250–300 samkv. þessari skýrslu. Sum fyrirtæki, svo sem H. B. og IRMA, fóru í verðstríð og lækkuðu mjólkina verulega til þess að laða að sér viðskiptavini og eyðileggja smáu kaupmennina. Nú er talið, að svo margir hinna smærri hafi helzt úr lestinni, að tala sölustaða sé núna, samkv. símskeyti frá Kaupmannahöfn í fyrradag, ekki orðin nema um 5%, eins og málið stendur í dag 5%, síðan 1971, að lögin gengu í gildi, og söluaukning hefur ekki orðið, stendur í hinu sama símskeyti. Söluaukning hefur ekki orðið. Smáu kaupmennirnir gefast upp við að selja mjólkina af þremur eftirtöldum ástæðum:

1. Vegna stoppgjaldsins, sem er þeim ofviða, enda þótt sumir þeirra taki vörur til tveggja daga í einu til þess að létta sér stoppgjaldið.

2. Vegna samkeppninnar við stóru fyrirtækin, sem undirbjóða þá. Það er annað atriði til þess að eyðileggja smákaupmennina.

3. Vegna tegundafjöldans, en allir þeir, sem selja mjólk og rjóma, eru samkv. nýju lögunum skyldir til þess að hafa á boðstólum allar tegundir mjólkurvara. Það er eitt, sem fylgir þessari lagabreytingu, að á boðstólum skulu vera allar tegundir mjólkurvara, sem mjólkurbúin framleiða, en fjölbreytni á því sviði er á Norðurlöndum orðin mjög mikil og væntanlega fer svo einnig hér, og er nú í undirbúningi hjá okkur í mjólkuriðnaðinum mjög aukin fjölbreytni í framleiðslu.

Síðan bætist það við þetta, að ákvæðin í lögum hjá þeim þar í Danmörku um aðbúnað og meðferð mjólkurinnar í verzlununum eru mjög ströng. Þessi n., sem ég gat um áðan, að saman er sett frá 23 aðilum, er látin halda áfram starfi, þó að lögin hafi tekið gildi. Og það er gert ráð fyrir því, að hún skili innan skamms annarri skýrslu og þá verði heildsöluálagningin einnig gefin frjáls að lokinni þeirri skýrslugerð. Forustumenn í dönskum mjólkuriðnaði virtust una breytingunni vel og töldu hana miða í rétta átt. Rök þeirra virtust mér vera þessi, segir forstjóri Mjólkursamsölunnar í þessari skýrslu sinni, og skal ég nú lesa þau:

1. Gamla sölufyrirkomulagið var orðið úrelt og ófullnægjandi. Ég er hræddur um, að það hefði þótt ófullnægjandi hér, það fyrirkomulag, þar sem hægt var að fleygja mjólkinni við hvers manns dyr og við búðardyr úti.

2. Sala gömlu tegundanna, neyzlumjólkur og rjóma, minnkar hægt og hægt, en vegið er upp á móti því með aukinni fjölbreytni, sem er fólgin í margskonar tilsetningu bragðefna í mjólk og sýrða mjólk og fjölgun súrmjólkurtegunda. Þeir telja, að þessar vörur seljist ekki í nægjanlegu magni í venjulegum mjólkurbúðum, en hins vegar miklu betur í hinum stóru sjálfsafgreiðsluverzlunum, „súpermörkuðunum“. Þessi rök telja þeir mikilvægust.

3. Þeir virðast trúa því, að „súpermarkaðirnir“ verði mjög mikilvægir á sviði verzlunar í framtíðinni og þess vegna mikilsvert að nota aðstöðuna þar, töluðu þó um, að smáar verzlanir ættu mikinn rétt á sér undir ýmsum kringumstæðum, en treystu því ekki, að þær stæðust samkeppni.

4. Heimsending er að hverfa úr sögunni í Danmörku, sögðu þeir þar. Kannske nemur hún 10% núna, en fer minnkandi. Heimsendingarkostnaður er 11 danskir aurar á hvern mjólkurlítra.

Þá er lokið þessari skýrslu, sem forstjórinn gaf um sína Danmerkurferð, en ég hef hér aðeins líka upplýsingar um þessi mál í Svíþjóð og svo í Osló.

Um Svíþjóð er þetta að segja:

Þegar breyting var gerð á mjólkursölu í Svíþjóð og hún látin í hendur kaupmanna árið 1966, hafði Mjólkursamsalan í Stokkhólmi, sem tekur yfir Stokkhólm, Uppland, Västermanland, Södermanland og Östergotland, stofnað dóttur fyrirtæki, sem annaðist mjólkursöluna og rak þá ca. 400 búðir, sem þeir gátu auðveldlega selt þeim aðilum, sem yfirtóku söluna, við góðu verði. Tel ég þetta stafa af því, að það hefur gerzt á hagstæðum tíma. Rökin fyrir því, að sænskur mjólkuriðnaður taldi breytinguna skref í rétta átt, voru svipuð og í Danmörku:

1. Tilkoma „súpermarkaðanna“ og trúin á það, að þeir tækju til sín með tímanum meginhluta viðskiptanna. Þeir sögðu, að nú væri ca. 40% af mjólkinni seld í „súpermörkuðum.“

2. Mikil fjölgun vörutegunda.

3. Ákveðinn vilji neytenda og kaupmanna, sem virðist hafa verið tekið mikið tillit til. Stoppgjaldið er 2.80 sænskar kr. fyrir hverja afgreiðslu. Bændur fá ca. 50% af andvirði seldrar vöru, og virtist mér, að þeir teldu það eðlilegt. Nokkuð bar á verðstríði fyrst eftir breytinguna, en er nú horfið. Ríkisvaldið tekur ákvarðanir um verðbreytingar. Smásöluálagning er ákveðin með samkomulagi á milli mjólkurbúa og kaupmanna, en er að öðru leyti frjáls. Smásöluálagning er ca. 10% á mjólk, en ca. 20% á venjulegum heimilisvörum. Rökin fyrir því, að smásöluálagningin á mjólk eigi að vera helmingi lægri en á venjulegum heimilisvörum, eru þau, að andvirði mjólkurinnar komi svo miklu fyrr í kassa kaupmannsins, og kaupmennirnir fallast á þessi rök. Greiðslufyrirkomulag: Kontantgreiðsla alls staðar þar sem því verður við komið, en 10–15 daga greiðslufrestur er nokkuð algengur. Algengt er þó, að fyrirtækið lætur nokkra upphæð liggja inni hjá heildsala til tryggingar á greiðslu. Þetta er svipað bæði í Noregi og Danmörku.

Í Osló: Þessi skýrsla nær ekki nema til Oslóar, en í Osló rekur Fellesmejeriet — mjólkursamsalan þar — tvær mjólkurbúðir sjálft; af gömlum vana, skildist mér, segir forstjórinn. Flestar búðir voru í leiguhúsnæði, þegar kaupmenn yfirtóku söluna. Auðvelt var að selja hinar. Stoppgjaldið er 2 norskar kr. fyrir hverja afgreiðslu, ef teknir eru 75 lítrar á dag eða minna. Þeir, sem meira taka, greiða ekki stoppgjald. Þeir viðurkenndu, að þetta væri of vægt, sölustaðir væru allt of margir og salan því allt of dýr. Ríkisvaldið þar ákveður bæði heildsölu- og smásöluverð.

Þá hef ég gefið þetta yfirlit, og mér finnst satt að segja, þegar ég dreg mínar ályktanir af þessu, að þá séu þessar upplýsingar frá nágrannalöndum okkar ekki verulega hvetjandi til þess að láta fjölga mikið frá því, sem nú er, mjólkurverzlunum eða mjólkurbúðum eða fjölga útsölustöðum mjólkur hér á landi eða taka þau mál að einhverju eða öllu leyti úr höndum Mjólkursamsölunnar. Þess var einhvers staðar nýlega getið í blaði, og það kom einnig fram í framsöguræðu hv. 1. flm., að þessi breyting, sem gerð var í Danmörku og staðið hefur nú í eitt ár, hafi gefið þá reynslu, að bændurnir hafi grætt mikið á þessu, og hv. 1. flm. sagði í ræðu sinni áðan, að salan hefði aukizt úr 615 millj., ef ég tók rétt eftir, í 675 millj. danskra kr. Í símtali við forstjóra þessara mála í Kaupmannahöfn kvaðst hann ekki geta sagt neitt ábyggilegt um það efni, hvort orðið hefði gróði eða tap á þessum umskiptum. En hann sagðist geta sagt annað, og það var það, að mjólkurverð í Danmörku hefði hækkað mjög mikið á s. l. ári og þar í mundi liggja að meginhluta sá mismunur, sem kemur fram í þeim fréttum, sem hér hafa verið um þessi mál.

Ég mun nú senn ljúka máli mínu. Mér finnst, að það sé nokkuð hart vegið að Mjólkursamsölunni og þeim mönnum, sem henni hafa stjórnað, með ýmsu því orðalagi, sem viðhaft er í grg. þessa frv. og í ræðu hv. 1. flm., þar sem hann m. a. sagði, að samsölustjórnin virtist hafa eða mundi vilja hafa það áfram að geta deilt og drottnað í þessum málum, — deilt og drottnað. Það er nú ekki óvenjulegt hér hjá okkur Íslendingum, að við tökum mikið upp í okkur og séum stórorðir, svo að þetta fær náttúrlega ekki mikið á mann. En ekki held ég, að það sé neitt þjóðráð, ef menn eru óánægðir með eitthvert fyrirkomulag á einhverju og ætla að fá þar einhverju breytt, að byrja þá starfsemi með stóryrðum og fullyrðingum, sem ekki fá staðizt. Mér þykir þetta miður, og satt að segja, ég hef ekki á móti því, að það séu gerðar ýmsar breytingar, ef ég er sannfærður um, að þær geti orðið öllum aðilum til góðs.

Ég vil vona, að þessi frv.-flutningur, sem hér er nú um að ræða, geti orðið til nokkurs gagns með því móti, að menn fari að skoða þetta mál frá raunhæfu sjónarmiði og þá eyðist alls konar misskilningur, sem hefur verið á sveimi um þetta að undanförnu. Það er sjálfsagt fyrir alla aðila, bæði stjórnvöld, mjólkurframleiðendur og neytendur, að vera vakandi fyrir öllu, sem stendur til bóta, en einnig finnst mér að varast beri líka öll gönuhlaup, en fyrir fram sé fengin full vissa fyrir því, að breytingarnar leiði til aukins hagræðis fyrir alla þá, sem eiga að njóta góðs af. Gróðasjónarmið nokkurra manna mega ekki neinu ráða um skipulag, dreifingu og meðferð og sölu mjólkurafurða. Þar á allur almenningur að mínu viti slíkra hagsmuna að gæta, bæði framleiðendur og neytendur, að það má ekki vinna að málinu með það sjónarmið fyrst og fremst í huga, að einhverjir menn, sem vilja hafa mjólkurvörur í búðum sínum, geti hagnazt af því. Það eru allt önnur sjónarmið, sem eiga að koma þar til greina. Og ég er ekki í miklum vafa um það, að slík sjónarmið verða ofan á, því að ég er sannfærður um, að neytendur heimta það.

Herra forseti. Ég held, að ég eyði ekki lengri tíma í þetta mál nú að sinni. Ég hef reynt að upplýsa málið, eftir því sem ég hef tök á, og ég vænti þess, að áfram haldi enn um sinn athugun á því, hvort beri að fjölga útsölustöðum mjólkur eða ekki. Stundum eru þau rök færð fyrir því, að það sé erfitt að komast í búðir. Ég sá í blaði um daginn, að þar var viðtal við húsmæður hér í einu hverfi borgarinnar, margar húsmæður, og birtar myndir af þeim. Og þar voru þær spurðar, hvort það væri ekki afskaplega erfitt að ná í vörur og komast í búðir. Engin þeirra taldi það, en ein tók það sérstaklega fram, að sér væri ánægja að því að þurfa að ganga dálítinn spöl í búðina, það væri bara holl hreyfing. Og þá var ég sammála, því að ég álít, að við þurfum að ganga svolítið og hreyfa okkur. Mér þykir eiginlega vænt um þessa húsmóður síðan, þó að ég hafi aldrei séð hana, af því að hún skuli hugsa svona í þessum málum.