10.12.1971
Neðri deild: 25. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er búið að ræða þetta mál allítarlega. E.t.v. er það ekki óeðlilegt, að stjórnarandstæðingar hafi ýmislegt við þetta að athuga. Hins vegar hygg ég, að ótti þeirra sé að ýmsu leyti ástæðulaus.

Ég er ekki í vafa um það, að ef þetta frv. verður að lögum, þá getur það orðið til góðs. En það er ævinlega undir framkvæmdinni komið, hvernig svona hlutir reynast. Og aðalatriðið er því, að þetta sé framkvæmt á réttan hátt, þessi stofnun verði rekin vel og viturlega. Ég álít, að það sé ekki hægt að hafa hlutina eins og þeir hafa verið síðastu tvö árin. Það er ekki hægt að reka Atvinnujöfnunarsjóð á þann hátt, sem hann er rekinn. Lánin hafa verið veitt af þingkjörnum mönnum, sem hafa ekki gefið sér tíma til að athuga nægilega, hvernig með féð er farið, sem hefur verið lánað. Og Framkvæmdabankinn var fluttur upp í Seðlabanka, og við vitum ósköp vel, hve erfitt er að ná sambandi við þessa bankastjóra Seðlabankans. Menn hafa orðið að bíða hér í fleiri daga og svo fyrir einhverja milligöngu fengið að hafa tal af þessum mönnum, því að þeir hafa ýmislegt annað að gera. Það var ekki til að gera það auðveldara fyrir þá, sem lán þurftu að fá úr Framkvæmdasjóðnum, að flytja hann upp í Seðlabanka. Það átti að vera til hagræðingar. Það má vel vera, að það hafi verið ódýrari rekstur á honum. En þessar ráðstafanir eiga líka að vera til hagræðingar og geta orðið það, ef rétt er með alla hluti farið.

Ég hef því lýst yfir því, þrátt fyrir það, að ég sé ekki að öllu leyti ánægður með allt í þessu frv., að ég muni þó greiða atkv. með því, því að þótt eitthvað sé við lögin að athuga í byrjun, og það kemur oftast í ljós með reynslunni, þá á að vera hægt að laga það.

Hv. sjálfstæðismenn hafa mikið talað um, að þarna verði einhliða pólitísk stjórn. Virðist liggja í orðunum, að þeir óttist, að á þeim verði níðzt. Ég hef ekki trú á því, að það verði gert. Það er yfirleitt ekki viturlegt. Sturla Bárðarson var vitur maður, og er hann leiddi Snorra einu sinni heim frá lauginni, hafði hann yfir kviðling. Þeir voru að tala um, að Snorri ætti valdamikla tengdasyni og Sturla kvað:

Eiguð áþekkt mægi

orðvitr sem gat forðum,

— ójafnaðr gefskjafnan

illa, — Hleiðrar stillir.

Ég held satt að segja, að ríkisstj., sem misnotar vald sitt, hvort það er í útlánum eða öðru, tapi á því, en ekki þeir, sem verða fyrir óréttinum. Ég hef þá trú á hæstv. forsrh., að hann muni ekki leggja það til við þá stofnun, sem hann hefur yfir að segja, að hún misnoti vald sitt. Ég held satt að segja, að hann sé of vitur maður til þess og lífsreyndur.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa nú ráðið í 12 ár, og við höfum verið í minni hl. Ég held, að þeir hafi ekki haft neinn sérstakan áhuga á því, að við værum í meiri hl. í þessum lánastofnunum. Við höfum ekki verið að halda hér hrókaræður um, að það væri níðzt á okkur pólitískt. Ég held, að þeir hafi verið í meiri hl. í Landsbankanum. Þeir hafa bara kunnað vel við, að við hefðum engan bankastjóra í Búnaðarbankanum. Ég held, að þeir hafi ráðið yfir Framkvæmdabankanum. Eini bankinn, sem þeir ekki hafa meiri hl. í, er Útvegsbankinn, þar sem stjórnarliðar hafa verið í meiri hl. Stjórnarandstaðan hefur yfirleitt reynzt mér betur en mínir eigin flokksmenn í lánastofnunum. Þegar ég yfirgaf Landsbankann, fékk ég ekki að hafa viðskipti við Útvegsbankann, því að þetta bankakerfi hjá okkur er eins og var hjá einokunarkaupmönnunum. Þeir ákveða það, Útvegsbankinn og Landsbankinn, hvernig þeir eiga að skipta útgerðarmönnunum á milli sín, og þar verða þeir að vera, hvernig sem við þá er gert.

Ég kunni þessu illa, því að ég er alinn upp eins og frjáls maður, og fór til Magnúsar Jónssonar og spurði, hvort hann vildi ekki taka mig í viðskipti. Það var velkomið, og ég hef aldrei þurft að setja þar neina tryggingu nema mitt eigið nafn. Þannig hafa þeir reynzt mér bezt. Hins vegar hafa sjálfstæðismenn sagt mér það, að það hafi engir menn reynzt þeim eins vel í Landsbankanum og Útvegsbankanum eins og framsóknarmenn. Það sé langtum betra að fara til þeirra en sinna eigin manna. Það hafa ýmsir sjálfstæðismenn sagt mér þetta, svo að þetta virðist vera algild regla.

Ég held satt að segja, að þroskaðir menn telji það ekki framaveg eða ávinning stjórnmálalega að beita menn órétti. Ég tel óviturlegt af mönnum að vilja einhliða ráða yfir lánastofnunum. Þetta á að vera sjö manna stjórn, til þess að allir flokkar geti átt þar fulltrúa. Ég geri ráð fyrir, af því að við erum í meiri hl. núna, sem styðjum ríkisstj., að það verði fjórir frá okkur og þrír frá hinum. Þetta er alveg hliðstætt, bara ofurlítið snúið við því, sem verið hefur, þ.e. við höfum fjóra menn, en þeir hafa haft það í Atvinnujöfnunarsjóði. Það hefur verið ágætt samkomulag hjá þeim, og þeir hafa aldrei afgr. neitt nema með shlj. atkv.

Við höfum nú fengið að vita af því úti í kjördæmunum, að þeir hafa ráðið hlutunum. g er hræddur um, að þeim hafi nú skilizt það í kjördæminu mínu, að Eyjólfur vinur minn Konráð hefði eitthvað að segja í þessum Atvinnujöfnunarsjóði. Ég hef heyrt meira að segja, að fyrir norðan Öxnadalsheiðina hafi verið látið liggja að því, að Magnús réði þar nokkuð miklu. Ég er ekkert að lá þeim þetta, þeir voru í meiri hl., og ég hef heldur aldrei verið að bera það á þá, að þeir hafi misnotað vald sitt. Þeir hafa komið vel og drengilega fram við okkur þessi l2 ár, sem þeir hafa ráðið yfir þessum fjármunum, og það eru engar líkur til, að við séum þeir ódrengir að fara að vinna að því, að þeir verði órétti beittir, þó að við séum í eins atkvæðis meiri hl. í þessari stjórn, ég hef ekki trú á því. Meira að segja veit ég um hæstv. sjútvrh., að hann er mjög greiðvikinn við pólitíska andstæðinga og hugsar um þá eins og sína menn. Vel get ég farið til hans og beðið hann að gera mér greiða, ég ætti ekkert bágt með það, alveg eins og til minna flokksmanna og ekkert síður. Sjálfstæðismenn eru samt hræddir við þetta. Hinu held ég fram, að það sé ekki hægt að reka Atvinnujöfnunarsjóðinn eins og verið hefur. Við getum tekið t.d. Slippstöðina á Akureyri. Það er verið að leggja á borðin hjá okkur skýrslu um fjögurra ára rekstur. 60 millj. kr. tapi er skýrt frá. Hvaða vit er nú í þessu að hafa ekki eftirlit með stjórn slíkra fyrirtækja? Það má einnig nefna sútunina á Sauðárkróki. Það er ekki nokkur vafi á, að það hefði átt að undirbúa það mál betur en gert var. Þessir menn, sem þurfa að stjórna þessu, þurfa að gera fleira en að ákveða upphæðina, sem á að lána. Það verður að fylgjast með þessum fyrirtækjum. Það er ekki nóg að lána tugi millj. í eitthvert fyrirtæki. Það þarf að sjá um, að það sé einhver til þess að stjórna því.

Það er hárrétt hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., að yfirleitt aðhyllast Íslendingar ekki þjóðnýtingu, meiri en þörf er á, eða ríkisrekstur, en hitt er annað mál, að þegar einstaklingarnir í byggðunum hafa ekki bolmagn til þess að afla atvinnutækja, hafa ekki fjármagn til þess eða getu á einhvern hátt, þá verða ríki og bæjarfélög að hlutast til um, að þetta sé gert, ef fólkið á ekki að flytja frá þessum stöðum.

Ég álít, að það sé ekkert við það að athuga, þó að þessi stofnun eigi einhvern hluta í fyrirtækjunum. En það er mikið við það að athuga að lána stórfé án þess að fylgjast með, hvernig því er varið, og sjá um, að þeim fyrirtækjum sé vel stjórnað, sem féð er lagt í. Það eitt er ærið verkefni.

Það eru ýmis atriði í frv., sem ég hefði óskað, að væru á annan hátt, og frv. var breytt ofurlítið í Ed., en yfirleitt ekki atriðum, sem skipta miklu máli. Ég sé ekkert við það að athuga, og það er á engan hátt árás á núv. ríkisstj., þó að orðalagi sé eitthvað breytt í n. Þetta er frv., sem þrír flokkar standa að, og vitanlega er ómögulegt að koma fram slíku máli þannig, að allir séu ánægðir með allt, sem í því er.

Í 1. gr. er sagt um þessa stofnun, að hún eigi að hafa með höndum heildarstjórn fjárfestingarlána og lánveitingar samkv. lögum þessum. Þarna virðist mér vera óþarflega fast að orði kveðið.

Hv. 1. þm. Reykv., fyrrv. bankamálaráðh., talaði um, að þetta væri ægilegt vald, sem fylgdi þessu þriggja manna framkvæmdaráði. Ég er ekki sammála þessu, því að ég sé ekki annað en þetta virðulega ráð sé nú fyrst og fremst í þjónustu þessarar virðulegu stjórnar, og þessi framkvæmdastjórn er undir stjórn ríkisstj. og á að framkvæma vilja hennar. Og svo á að leggja ákvarðanirnar fyrir þingið, a.m.k. skýra þinginu frá þeim. Ég sé ekki annað en hér séu þjónar þjónanna, og fyrrv. landbrh., hv. 1. þm. Sunnl., var nú að nefna, að einhver af þessum þremur væntanlegu herrum hefði verið að tala um, að hann yrði með voldugustu mönnum landsins. Ég get ekki skilið, hvernig hann á að verða það. Hann hefur yfir sér þrefaldan hring af húsbændum. Ég sé ekki annað en hann sé þarna þjónn þjónanna. Ég hefði enga ánægju af að vera í þessu embætti. Það er áreiðanlegt, að það gefur engin sérstök völd, og svo má segja þeim upp með mánaðar fyrirvara, ef á þarf að halda, og uppnefna þá og skamma þar að auki. Ég sé ekki, að þetta sé eftirsóknarvert starf. Mig mundi ekki langa til að vera í þessu embætti. Ég segi það eins og er.

Ég held, að þarna sé of fast að orði kveðið, að hafa með höndum heildarstjórn fjárfestingarmála og lánveitingar samkv. lögum þessum. Ég sé ekki annað en þarna ætti frekar að tala um að gera tillögur um heildarstjórn fjárfestingarmála, því að það er það vitanlega, sem þetta ráð á að gera. Það á að gera tillögur til stjórnarinnar. Og svo skilst mér, að það eigi a.m.k. að skýra Alþ. frá þessu, þannig að þarna væri réttara að segja minna.

Þá er það þessi þriggja manna stjórn eða ráð, sem fer í taugarnar á stjórnarandstöðunni. Ég fyrir mitt leyti teldi hagkvæmara, að það yrði einn framkvæmdastjóri. Hann gæti tekið á móti þeim, sem kæmu að biðja um fyrirgreiðslu í stofnuninni, og haft yfirstjórn á hlutunum, og þeir, sem væru ráðnir við þessa stofnun fyrir utan hina þingkjörnu stjórn, yrðu ráðnir eftir hæfni, en ekki eftir stjórnmálum. Þá gætu þessir menn starfað undir hvaða stjórn sem væri, það þyrfti ekki alltaf að vera að hrekja þá burt, því að það er réttilega tekið fram hjá 1. þm. Reykv. og fleirum hér, að menn geta unnið fullkomlegal heiðarlega, þó að þeir séu ekki pólitískt sammála þáim manni, sem er yfirmaður þeirra í þetta og hitt skiptið. Við höfum margfalda reynslu fyrir því. Hvaða magni dettur t.d. í hug að fara að skipta um ráðuneytisstjóra í fjmrn., þó að skipt sé um fjmrh., ef það er á annað borð vel hæfur maður! Það væri mikil heimska að gera slíkt. Fyrir mitt leyti teldi ég það hagkvæmara að hafa einn mann, sem hefði yfirstjórn á stofnuninni og ég held, að stjórn stofnunarinnar gengi betur á þann hátt. Og svo yrðu menn ráðnir eftir hæfni í deildirnar, þeir eðlilega ynnu sín daglegu störf í stórum dráttum eftir þeim fyrirmælum, sem gefin væru, og svo væri það lagt fyrir stjórn stofnunarinnar og ríkisstj. Í stjórn stofnunarinnar verða, eins og ég hef áður talað um, þrír menn frá stjórnarandstöðunni og fjórir frá stjórnarliðinu. Ef einhver ósómi gerist þarna, ættu þremenningarnir að hafa kjark og einurð til að segja þjóðinni frá því, að þarna væri um hlutdrægni að ræða og rangindi.

Satt að segja hefur mig grunað, að þessi regla þeirra að vera alltaf sammála í Atvinnujöfnunarsjóði undanfarið hafi að einhverju leyti stafað af því, að þeir hafi ekki óskað eftir „krítiskri“ endurskoðun á verkum sínum, það væri bezt fyrir alla að hafa þetta svona í friði. Ég er ekkert að hæla því, að það sé ráðlegt að hafa allt of mikinn frið, en a.m.k. ættu þeir að hafa fullkomna aðstöðu til þess, stjórnarandstaðan, að finna að, ef til þess er ástæða.

Þá er sagt í 10. gr.: „Stjórn Framkvæmdastofnunarinnar ákveður, í hvaða röð skal unnið að áætlanaverkefnum og hver vera skulu markmið og forsendur hverrar áætlunar.“ Þetta er ekki rétt. Það er ekki eingöngu stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, sem ákveður þetta, heldur ríkisstj. Ég vildi því, að þarna yrði ekki eins fast að orði kveðið og það yrði sagt: Stjórn Framkvæmdastofnunarinnar gerir tillögur um það til ríkisstj., í hvaða röð unnið skuli að verkefnum. Það væri eðlilegra og réttara.

Þá er í 11. gr.: „Áætlanir skulu sendar ríkisstj. til samþykktar, og gerir hún Alþ. grein fyrir þeim.“ Samkv. þessu virðist mér, að það þurfi ekki að leita samþykkis Alþ. Ég tel, að þarna sé a.m.k. um vafaatriði að ræða. Réttara væri að fá samþykki Alþ. fyrir þessum áætlunum, þarna sé ekki verið að ganga fram hjá þinginu.

Við höfum oft verið að finna að því, eða ég a.m.k. og fleiri í okkar liði, þegar það vald var tekið af Alþ. að skrá gengi krónunnar og ákveða vexti. Það vald var fengið Seðlabankanum, en í raun og veru var það lagt í hendur ríkisstj., því að hún ræður yfir Seðlabankanum, og ríkisstj. vildi óáreitt hafa þetta vald í sínum höndum. Þarna væri e.t.v. réttara að hafa: og leggur ríkisstj. þær fyrir Alþ. til endanlegrar samþykktar. Um þetta má deila. Má vera, að núv. ríkisstj. vilji, að ekki sé leitað samþykkis Alþ. fyrir þessu. En ég mundi kunna betur við hitt, að Alþ. samþykkti þetta.

Þá er 12. gr., sem mikið er búið að tala um, en þar segir: „Engri stofnun er þó skylt að veita lán, sem hún ekki telur eðlilega tryggð.“ Vitanlega eru það allmikil liðlegheit af ríkisstj. að skylda bankana ekki til að lána, ef engin trygging er. Það er þó ekkert til að skemma að hafa þetta. En ef ég ætti að sjá um framkvæmd á þessu máli, þá óskaði ég ekki eftir, að orðalag greinarinnar væri eins og er í 12. gr., en hún hljóðar þannig:

„Framkvæmdastofnunin getur sett almennar reglur um, hvers konar framkvæmdir skuli hafa forgang umfram aðrar. Skulu þá opinberir sjóðir og lánastofnanir haga lánveitingum í samræmi við það.“

Í fyrsta lagi þá er þetta ekki á valdi Framkvæmdastofnunarinnar, þar eð ríkisstj. er yfir hana sett, og það ætti þá frekar að vera ríkisstj., sem hlutaðist til um þetta við lánastofnanirnar, ef á þyrfti að halda. Ef ég ætti að stjórna þessari stofnun, þá vildi ég heldur, að það yrði orðað á vægari hátt og væri þannig, að Framkvæmdastofnunin leitaði samstarfs við aðrar lánastofnanir, en ekki, að þetta væri skilyrðislaust húsbóndavald. Ég held, að þetta sé dálítið hæpið. Bankarnir eru sjálfstæðar stofnanir, og það er dálítið hæpið að láta þessa menn fá þetta vald. Ég er ekki að efast um, að þetta verða góðir menn, hálfgerðir viðvaningar í atvinnumálum, eins og gerist og gengur, en ég efast ekkert um, að það verði góðir menn, því að við höfum lítið af slæmum drengjum hér innan veggja. En ef ég væri í þeirra sporum, vildi ég heldur orða þetta á annan hátt en gert er þarna. Síðasta setningin er vitanlega meinlaus. Það skemmir ekkert, þó að það eigi ekki að lána tryggingarlaust.

Þá er Í6. gr.: „Lánadeild getur, ef hagkvæmt þykir, haft vörzlu og bókhald þeirra sjóða, sem eru í umsjá Framkvæmdastofnunar ríkisins.“ Mitt álit er, að þetta sé það stór stofnun, þó að ég álíti eigi, að þeir hafi marga milljarða til umráða árlega, því að mikið af þessum lánum er bundið, þannig að hreyfanlikinn er ekki mikill. En ég álít, að stofnunin eigi skilyrðislaust að hafa bókhaldið og innheimtuna, því að satt að segja jaðrar víð, að lán sé ekki takandi hjá Atvinnujöfnunarsjóði, ef Landsbankinn á að innheimta það. Lengi var nú Björn Ólafsson frammámaður hjá þeim í Landsbankanum að innheimta, og hann hafði mikla ánægju af að rukka. Ég vildi ekkert skulda Atvinnujöfnunarsjóði, ef Landsbankinn ætti að innheimta. En það segir nú hver fyrir sig í því efni.

Ég held, að þetta séu aðalatriðin. Í 22. gr. segir þó: „Framkvæmdasjóði Íslands er heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. að taka lán til starfsemi sinnar, bæði innanlands og erlendis. Ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar Framkvæmdasjóðs Íslands.“

Þarna er gengið fram hjá því, að Alþ. heimili lán eða ábyrgðir. Ég hef nú ekki kynnt mér það lagalega, hvort það muni vera löglegt. (Gripið fram í.) Já, en yfirleitt hefur það verið venja og lög, að það hefur verið leitað samþykkis Alþ. fyrir lánum, og ég hélt því, að það væri réttara að orða það þannig: að fengnu samþykki ríkisstj. og Alþ. Það má vera, að þetta sé löglegt, ég skal ekki fullyrða það. En venjan hefur verið sú, ef tekin eru erlend lán, að það er fengin heimild til þess. Og ég veit ekki, hvort það er nein fyrirmynd að fara að sniðganga Alþ. með þessa hluti, því að vitanlega er ríkisstj. á hverjum tíma vön að fá það samþ. í þinginu, sem hún álitur nauðsynlegt og réttlátt.

Þetta eru þau atriði, sem ég vildi leyfa mér að benda á. Ég bað um orðið, vegna þess að það er yfirleitt ekki til neins að koma með brtt., eftir að n. er búin að skila áliti. Ef ekki næst einhver samstaða í n. um það, þá tekst ekki að fá fram breytingar, þess vegna hef ég bent á þessi atriði við l. umr.

Þó að þessi atriði, sem ég hef nú vakið athygli á, verði ekki samþ., þá mun ég greiða atkv. með frv., því að ég tel, að þetta geti orðið til bóta. Ég sé ekkert við það að athuga, þó að fleiri sjóðir verði sameinaðir þessari stofnun, ef henni er vel og viturlega stjórnað. Þetta eru orðnir óteljandi sjóðir, og það er betra að hafa þetta sem mest á einni hendi. Ég efast ekkert um, að ef eitthvað kemur í ljós, þegar farið er að starfrækja þessa stofnun, sem er óhagkvæmt, þá muni þeim lagaákvæðum verða breytt. Það er öllum ríkisstj. ljóst, að það borgar síg ekki að liggja undir réttmætum ásökunum fyrir hlutdrægni eða rangindi, þannig að ég hygg, að stjórnarandstaðan þurfi ekkert að óttast, að það verði níðzt á þeim, enda væri þeim þá illa launuð mildi og réttsýni, sem þeir hafa sýnt okkur í stjórnarandstöðunni undanfarið.