01.03.1972
Neðri deild: 45. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (3111)

185. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að bæta um betur eftir mína fyrstu framsögu og fjalla nokkuð um ræðu þá, sem hv. 2. þm. Sunnl. flutti hér, að því er manni virtist Mjólkursamsölunni til varnar. En eftir að ég hef hlýtt á ræðu hæstv. félmrh., þá hvarflaði að mér, að jafnvel væri óþarfi fyrir mig að fara hingað upp, því að svo skilmerkilega og skýrt hefur hann tekið fram, hvað sé meginkjarninn í þessu frv. og hversu vel samsölustjórnin megi við þetta frv. una, að betur getur það ekki verið gert, og þykir mér vænt um þá stuðningsyfirlýsingu, sem frá ráðh. kemur. Jafnframt hef ég fengið upplýsingar um, að hæstv. viðskrh., Lúðvík Jósepsson, hafi gefið sams konar yfirlýsingar á fundum Kaupmannasamtaka Íslands nú í síðustu viku. Þessar yfirlýsingar áhrifamanna og ráðamanna í núv. ríkisstj. eru því mikilsverðari þar sem svo virðist sem enn þá séu einhverjir hleypidómar á ferðinni hjá einstökum hv. þm. í þessum málum.

Hv. 2. þm. Sunnl. endaði sína ræðu með því að gefa í skyn, að það, sem vekti fyrir flm. þessa frv., væri að styðja við gróðasjónarmið einhverra ákveðinna hagsmunasamtaka hér í borg eða annars staðar á landinu. Enn fremur virtist mér sem svo að hann hefði ekki meiri skilning á neytendasjónarmiðinu en svo að hann taldi út af fyrir sig ekkert óeðlilegt við það, þó að einhverjir ákveðnir neytendur þyrftu að ganga sem allra lengst í viðkomandi verzlanir til þess að ná í þá vöru, sem nauðsynleg er til heimilis. Þessi tvö sjónarmið lýsa kannske að nokkru leyti þeirri afstöðu, sem hefur einkennt sjónarmið og skoðanir þeirra manna, sem hafa ráðið ferðinni hjá samsölustjórnum, bæði hér í Reykjavík, á þessu svæði, og annars staðar á landinu. Það eru vissir hleypidómar, þeir hafa ekki tamið sér að hlýða á rök og sjónarmið annarra, og því miður féll hv. 2. þm. Sunnl. sömuleiðis í þessa gryfju, þar sem hann gaf sér ákveðnar forsendur í upphafi ræðu sinnar og rakti síðan sitt mál út frá þeim. Hann gaf sér rangar forsendur.

Eins og skýrt kom fram, bæði í upphafsræðu minni hér, sem ég vil nú mótmæla að hafi verið stóryrt, því að ég reyndi að fara með gát í þeirri ræðu, og eins í síðustu ræðu hæstv. ráðh., þá liggur það alveg ljóst fyrir, að það er samsölustjórnin sjálf, sem tekur allar ákvarðanir, sem setur öll skilyrði og kröfur þessu aðlútandi og hefur þessa hluti algerlega í hendi sinni. Þess vegna er algerlega óþarfi að vera að fullyrða nokkuð um eða lýsa fyrir okkur ástandinu í Danmörku, Svíþjóð og í Osló og rekja þróun mála þar. Það er með allt öðrum hætti og breytir alls ekki afstöðu minni né þeirra manna, sem vilja hér breytingar á.

Ég sagði aldrei og það felst ekki í þessu frv., að það eigi að gefa alla mjólkursölu frjálsa. Það eru ýmsir, sem vilja það, og mér er ljóst, að Kaupmannasamtökin settu fram á sínum tíma kröfu um það að gefa þessa mjólkursölu frjálsa. Og kannske vilja ýmsir hverjir láta þetta frv. ganga miklu lengra. En ég hef talið rétt að fara þessa leið, sem þarna er sett á þrykk, til þess að mæta einmitt sjónarmiðum samsölustjórnar, til þess að ganga ekki of langt, til þess að reyna til hins ýtrasta að ná samkomulagi og öðlast skilning yfirvalda á því, að þetta þurfi að lagast. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir því, að mjólkursalan sé frjáls, og það er misskilningur að gefa sér þá forsendu, bæði röng ályktun af þessu frv. og af mínu máli. Enn fremur er það líka röng ályktun að halda því fram, að neytendur vilji ekki endilega þessa breytingu, og hv. 2. þm. Sunnl. nefnir eitthvert ákveðið dæmi um það, að einhverjar ákveðnar húsmæður hafi mótmælt því, að mjólkurbúð yrði lögð niður. Ég skal ekki rengja þetta dæmi. En ég leyfi mér að fullyrða, að það sé ósk og ákveðin krafa neytenda fyrst og fremst, sem veldur því, að það er bráðnauðsynlegt að breyta þessu gamla og úrelta ákvæði. Það liggur fyrir vegna þess þrýstings, sem orðið hefur, bæði í gegnum almenna borgarafundi og almenningsálit og vegna fjölmargra tilmæla, sem til mín hafa borizt, sem flm. að þessu frv. og ég gæti út af fyrir sig rakið hér, og þeirra skoðanakannana, sem fram hafa farið, bæði t. d. á vegum ákveðinna dagblaða hér í borginni og annarra einstakra aðila — þá liggur það alveg ljóst fyrir, að almenningsálitið er eindregið á þeirri skoðun, að það skuli bæta þjónustuna, auka möguleikana á því að kaupa mjólk, og það hlýtur að vera eðlileg krafa, — hvort sem ég get sannað það eða ekki, þá hlýtur það að vera eðlileg krafa í þjóðfélaginu, af neytendum, af borgurunum, að þjónustan sé bætt. Ég held, að það þurfi ekkert að fara neitt í grafgötur um það. Spurningin er sú, hvernig þeir geti bætt hana. Það er kannske ágreiningur um það. Þeir menn, sem halda uppi vörnum fyrir Mjólkursamsöluna, segja kannske sem svo: Þjónustan er eins og bezt verður á kosið í dag. Nú höfum við heyrt hér ræður hv. 12. þm. Reykv. og annarra, sem lýsa því, hvernig vandamál geta skapazt fyrir húsmæður og aðra þá, sem kaupa þessa mjólkurvöru. Að mínu viti er enginn vafi á því, að þjónustan er alls ekki eins og bezt verður á kosið og getur farið mun betur fram með því, að það sé dreift mjólk og hún seld í fleiri verzlunum, í verzlunum, sem bjóða fullkomna þjónustu. Þetta held ég að þurfi ekki að orðlengja frekar.

Það var sagt í upphafi máls hjá hv. 2. þm. Sunnl., að ýmislegt í grg. með frv. væri stóryrt og væri mjög rangt og bæri þess vott, að flm. hefðu ekki kynnt sér málið nægilega vel frá öllum sjónarhólum. Það má vel vera, að hægt sé að kynna sér málið betur. En ég beið alltaf eftir því, að þessi hv. þm. benti á það, sem rangt væri sagt á þessari grg., eða hvað kæmi fram í henni, sem lýsti þessum þekkingarskorti. Því miður sagði hann allt annað. Hann fór í upptalningu á skýrslum, sem forstjóri Mjólkursamsölunnar hér í Reykjavík hefur sent sinni yfirstjórn. En það var varla minnzt á það einu orði, hvað kemur fram í þessari grg. með frv., og alls ekki minnzt einu orði á þau rök, sem flutt eru þessu máli til stuðnings. Það eina, sem bent var á, var það, að í grg. og í máli mínu hefði ég tekið fram og væri tekið fram, að núverandi ástand bryti gegn hagsmunum framleiðenda og neytenda. Það er eðlileg ályktun, þegar því er haldið fram í frv., að það sé hægt að bæta ekki eingöngu þjónustuna, heldur líka auka við sölu þessarar ákveðnu vöru, þá gefur það auga leið, að ef það er hægt að bæta við söluna, þá er verið að brjóta á þessum hagsmunum, ef það er ekki gert.

Ég ætla ekki að fara að ítreka allan þennan rökstuðning minn hér aftur, en vegna þó ummæla hv. 2. þm. Sunnl. um, að það væri vandamál fyrir Mjólkursamsöluna að þurfa að leggja niður ákveðnar búðir og erfiðleikar á að selja þessar fasteignir, þá vil ég leyfa mér að halda því fram, að það komi vel til greina, að ýmsir kaupmenn væru reiðubúnir til þess að kaupa þessi mannvirki, og ég hef sjálfur heyrt fullyrðingar um, að svo sé mögulegt og ekkert því til fyrirstöðu.

Og þau rök, sem hér eru flutt um það, að það þurfi að segja upp svo og svo mörgu fólki í mjólkurbúðum og selja nokkrar fasteignir, það eigi að vera því til fyrirstöðu, að þarna sé breytt um í réttlætisátt, það finnst mér vera rök, sem dæma sig sjálf.

Aðeins vildi ég líka minnast á annað. Þegar talað er um, að umbúðir hafi batnað hjá mjólkuryfirvöldum, sem bæði kom fram í ræðu hv. 2. þm. Sunnl. og ræðu 12. þm. Reykv., þá vil ég leyfa mér að halda því fram, að einmitt þessar bættu umbúðir hafi til komið vegna þrýstings frá almenningi, vegna þess að á þessum árum, 1967 og 1968, voru þessi mál mjög ofarlega á baugi, mikið um þau talað og sættu mikilli gagnrýni, sérstaklega umbúðir og öll þjónusta, og ég er í engum vafa um það, að þær umr. og sú gagnrýni hefur leitt til þess, að Mjólkursamsalan er mun betur á verði hvað snertir einmitt umbúðir og alla þjónustu. Þarna er gott dæmi um það, hvernig almenningur gætir ákveðins hlutverks einmitt á sviði verzlunar og viðskipta.

Nei, því miður, þó að ég hafi hlustað vel á þá ræðu, sem hér var flutt til varnar núverandi ástandi, þá gat ég ekki séð nein rök, sem mæltu með því, að áfram yrði haldið á þessari sömu braut. Ég spyr enn einu sinni: Hvað er því til fyrirstöðu að breyta þessu ástandi, þegar mjólkursamsölustjórnin hefur það áfram í hendi sinni? Hvað er það t. d. í Danmörku, Svíþjóð og Osló, sem styður það, að núverandi ástand skuli vera áfram hér á Íslandi? Og hvers vegna er verið að halda því fram, að það sé hættulegt að fjölga útsölustöðum og verðið muni hækka á mjólkinni eða það sé slæmt fyrir neytendur, að mjólkursalan sé frjáls, þegar mjólkursamsölustjórnin hefur þetta allt saman áfram í sinni hendi? Þá get ég ekki með nokkru móti skilið þann málflutning, sem mælir gegn þessu, ef menn vilja gæta hagsmuna framleiðenda og neytenda um leið. Þess vegna verð ég að fara fram á það einu sinni enn í þessari ræðu minni, að menn hlusti og tali um þetta á hleypidómalausan hátt, reyni að skilja þau rök, sem hér eru sett fram, skilja þá þróun, sem orðið hefur í verzlun og viðskiptum, og átta sig á, að það er krafa neytenda og það eru hagsmunir framleiðenda, sem réttlæta það, að þetta frv. verði samþ.

Ég vil svo að lokum aðeins taka fram, vegna þess að hv. 2. þm. Sunnl. var að gera því skóna, að það væru rangar upplýsingar, sem ég hefði gefið varðandi ástandið í Danmörku, þar sem ég nefndi, að söluverðmæti mjólkur hefði aukizt á síðasta ári úr 615 millj. dönskum kr. í 675 millj. danskar kr. Þá var því haldið fram eða það gefið í skyn, að þessi hækkun stafaði af hækkuðu verði mjólkur. En þá vil ég geta þess, að þessum upplýsingum fylgdi jafnframt, að magnið hefði aukizt úr 490 millj. kg upp í 494 millj. kg, og þessi aukning, 4 millj. kg aukning í magnsölu leiddi til 60 millj. kr. hækkunar í dönskum kr. á söluverðmæti, þannig að það er rangt að halda því fram, að það sé vegna hækkaðs verðs. Það er þvert á móti vegna aukinnar sölu.