06.03.1972
Neðri deild: 46. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (3113)

185. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta dagskrármál úr hófi fram. Fram hafa komið frá okkar hálfu, sem fylgjum eðlilegum breytingum á fyrirkomulagi mjólkur sölumála, flest þau atriði, sem máli skipta í því sambandi. Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir um, hvort núverandi kerfi þjóni bezt hagsmunum neytenda og framleiðenda mjólkurvara. Ég held, að það hafi ekki farið fram hjá neinum, sem þessi mál varða, að svo er. Þess vegna þarf ekki að koma neinum á óvart, þótt rök séu færð fyrir því í grg. frv., sem hér er til umr., að núverandi fyrirkomulag þjóni ekki hagsmunum neytenda og framleiðenda sem skyldi.

Annars eru deilur um orðalag grg, fyrir slíku máli sem þessu með öllu óþarfar. Aðalatriðið er, hvort sú breyting á lögum, sem lögð er til, sé eðlileg og gagnleg, ef samþ. yrði. Ef ég man rétt, lét hv. 2. þm. Sunnl. ekki uppi neina skoðun á því, hvort hann teldi frvgr. sjálfa til bóta eða ekki. Það er auðvitað kjarni málsins og því geri ég ekki aðrar aths. við ræðu hans, en hún er sú eina, sem flutt hefur verið hér um þetta mál fram til þessa, sem túlka má sem andstöðu við frv.

Ég vil leggja á það áherzlu, að fyrir mér sem meðflm. þessarar till. vakti, að sama kerfi ríkti um sölu mjólkurvara um allt land, ef frv. yrði að lögum. Við nánari athugun fannst mér, að þetta væri svolítið óljóst, þar sem tvívegis er rætt um samsölustjórn í frvgr., en Mjólkursamsalan starfar, svo sem kunnugt er, einungis hér á Suðvesturlandi. Ég vil því beina því til þeirrar n., sem fær frv. til meðferðar, að kanna gaumgæfilega, hvort breyta þurfi orðalaginu þannig, að ótvírætt sé, að átt sé við tilhögun mjólkursölu á öllu landinu, t. d. með því að skjóta inn í á eftir: „Skylt er samsölustjórn“ „eða framleiðsluráði landbúnaðarins“ og einnig að skjóta inn í síðari mgr. á eftir „samsölustjórn“ orðunum „eða framleiðsluráði landbúnaðarins“. Ég hef ekki haft tækifæri til þess að kanna þetta mál til hlítar, en vona, að n. athugi það ásamt öðru, sem hún telur við þurfa í þessu máli.

Að lokum vil ég undirstrika eitt atriði, sem mér finnst skipta meginmáli um vinnubrögð í mjólkursölumálinu yfirleitt, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Sunnl. á dögunum, þegar mál þetta var fyrst til umr. Hann sagði, að það væri afstaða stjórnar Mjólkursamsölunnar, að hún vildi ekki taka á sig ábyrgð á breytingu frá því, sem nú er um tilhögun mjólkursölu í þá átt, að sem flestar matvöruverzlanir fengju þessa vöru til sölumeðferðar. Hann sagði, að um þetta ætti löggjafinn að fjalla og ákveða, ef hann hefði áhuga á slíku, þetta væri skoðun stjórnar samsölunnar. Á þessa afstöðu stjórnar Mjólkursamsölunnar er rétt að leggja þunga áherzlu, því að með henni er endanlega innsiglað og staðfest, að sú leið, sem fyrrv. stjórnvöld vildu fara í þessu efni, er þar með ófær. Mér skilst, að þau hafi viljað ná samkomulagi innan ramma núgildandi laga um breytta tilhögun í mjólkursölumálum. Það má öllum ljóst vera, að því verður alls ekki við komið, eftir að sú ákvörðun hefur verið tekin, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Sunnl., að stjórn samsölunnar taki ekki á sig ábyrgð á breytingum á tilhögun mjólkursölu innan ramma núgildandi laga. Þess vegna verður Alþ. að láta málið til sín taka, ef það er skoðun meiri hluta þm., að við núverandi ástand verði ekki unað. Þá skoðun hafa a. m. k. tveir ráðh. látið í ljós, bæði hér á Alþ. og annars staðar á opinberum vettvangi. Full ástæða er til þess að þakka þeim þá raunsæju afstöðu, og verð ég að vænta þess í því ljósi, að málið verði skoðað mjög gaumgæfilega í n. og niðurstaða þess verði sú, að sett verði löggjöf, sem tryggir aukið frjálsræði í sölu mjólkurvara, sem ég tel ótvírætt bæði neytendum og framleiðendum til gagns.