10.12.1971
Neðri deild: 25. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör, sem hann veitti við fsp. mínum. Ég tel mig eiga mikið vantalað við hæstv. forsrh., ekki sízt vegna þessarar síðustu ræðu hans hér. Ég bjóst sannast að segja ekki við því, að hann mundi í þessari ræðu gefa tilefni til þess, að hægt væri að halda áfram löngum umr. Ég hef skilið það svo, að ríkisstj. legði áherzlu á, að þetta mál gengi til n. Ég hef hlutazt til um, að sjálfstæðismenn hafa fallið frá orðinu hér í kvöld, og ég mun ekki ræða þetta mál núna á þessum vettvangi meir, en ég vil lýsa því yfir, að við munum að sjálfsögðu fylgja þessu máli til n.