16.03.1972
Neðri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (3136)

219. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er áreiðanlega full ástæða til að efla landhelgisgæzluna, miðað við þau átök, sem ætla má, að fram undan séu,en ég mun ekki gera það að sérstöku umtalsefni hér frekar en orðið er. Hitt vil ég taka undir, þá aths., sem komið hefur fram hér frá hv. 1. þm. Reykv., að þeir eru mjög margir, sem spyrja um þessar mundir að því, hvers vegna horfið sé að því ráði að vísa Landhelgisgæzlunni út úr nýju lögreglustöðinni. Ég veit ekki betur en að því hafi verið miðað s. l. 10 ár, — eða öll þau ár, sem nýja lögreglustöðin hefur verið í byggingu, — að Landhelgisgæzlunni yrði ætlaður staður á efstu hæð hennar. Það er rétt, sem komið hefur hér fram, að á þakinu er þyrluflugvöllur, sem þegar hefur verið notaður, t. d. í sambandi við breytingu yfir í hægri umferð, en þá var þessi flugvöllur notaður með góðum árangri. Það fer mjög vel á því, að löggæzla til sjós og lands sé þarna í sömu byggingu, eins og fyrirhugað hefur verið.

Það má vera, að það sé of mikið sagt, að Landhelgisgæzlan sé á götunni, eins og hæstv. forsrh. sagði áðan, en það mun þó liggja nærri. Ég heyrði einn af sjóliðsforingjum okkar skýra frá því nýlega, að Landhelgisgæzlan væri í húsnæðishraki. Henni byðust að vísu a. m. k. tveir staðir, báðir utan Reykjavíkur, annar í óbyggðu húsi á Akureyri, hinn einhvers staðar í Hafnarfirði. Hvað sem um þetta er að segja, þá álít ég, að það hafi alls ekki komið fram hér fullnægjandi skýring á þessari ráðabreytni, þannig að þessi spurning heldur áfram að vefjast fyrir mönnum. Það eru ábyggilega mjög margir, sem velta því fyrir sér, hvers vegna horfið er að þessari ráðabreytni. Vitanlega er utanrrn. alls góðs maklegt, sú virðulega og ágæta stofnun, og hún í að búa við gott húsnæði. En svona er ekki rétt að fara að hlutunum, að mínum dómi, þegar slík átök eru fram undan eins og nú eru í vændum hjá Landhelgisgæzlunni.