24.04.1972
Neðri deild: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (3151)

242. mál, heilbrigðisþjónusta

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hér er til umræðu viðamikill frv. bálkur varðandi heilbrigðisþjónustuna í landinu. Það er öllum ljóst, að hér er um að ræða viðamikinn málaflokk, og menn vilja að sjálfsögðu leggja sig alla fram um, að sú löggjöf, sem gildir hverju sinni um heilbrigðismálin í landinu, sé þannig úr garði gerð, að landsmenn geti notið sem beztrar heilbrigðisþjónustu. Ef lesin er grg. þessa frv., þá verður maður áþreifanlega var við, með hvaða hætti hún er skrifuð og hverjar eru gefnar forsendur, sem grg. síðar á að túlka. Þegar ég las þessa grg., þá varð ég næsta forviða á ýmsum atriðum, sem þar eru sett fram, og m. a. því, að þeir embættismenn, sem hafa starfað í þeirri vinnunefnd, sem núverandi hæstv. heilbrmrh. skipaði, skuli láta slíkt frá sér fara. Hins vegar, þegar hæstv. ráðh. talaði fyrir frv. hér við þessa umr., þá mátti heyra allt annað um þessi mál, og ég held, að ef hann ber saman þá grg., sem með frv. fylgir, og þá ræðu, sem hann flutti, þá komi allt annað út úr þessu dæmi.

Mig langar aðeins til þess að vekja athygli á tveimur atriðum, sem getið er um í grg. frv. Það er í II. kafla, þar sem talað er um veigamestu nýmæli þessa frv. Og það er fyrsta atriðið, sem talið er, að sé eitt af veigamestum nýmælum frv. En þar stendur, með leyfi forseta:

„Mótuð er almenn stefnuyfirlýsing um, að landsmenn skuli allir eiga kost á eins fullkominni heilbrigðisþjónustu og tök eru á að veita hverju sinni.“

Samkv. þessu á það að vera nýmæli í frv., að landsmenn skuli eiga kost á eins fullkominni heilbrigðisþjónustu og tök eru á að veita hverju sinni. Ræða hæstv. ráðh. sýndi allt annað en það, að það væri veigamikið nýmæli, ef af samþykkt frv. yrði, að þá væri mótuð stefna um eins fullkomna heilbrigðisþjónustu og tök væru á að veita hverju sinni, því að í ræðu sinni gat hann þess mjög skilmerkilega, hvernig heilbrigðisþjónusta landsmanna hefur farið stöðugt vaxandi á undanförnum árum, áratugum, og hann las upp úr skýrslum alþjóðastofnana, sem sýna okkur það, að heilbrigðisþjónusta á Íslandi hefur verið til fyrirmyndar, og þó að það frv., sem hér er nú flutt, yrði samþ., þá er það ekkert nýmæli, að Íslendingar búi við eins fullkomna heilbrigðisþjónustu og tök eru á að veita hverju sinni.

Ég verð að segja, að ég furðaði mig á þessu, þegar ég las það, en það má vel vera, að það sé í samræmi við I. kafla grg., en þar hefur réttilega verið bent á, að ekki þótti annað hlýða, þegar grg. kæmi með þessu frv., en að sögð yrði sköpunarsaga, — það er ekki notuð fyrirsögnin sköpunarsaga frv., heldur einungis orðið sköpunarsaga.

Þá vil ég gjarnan benda á 5. lið í aths. við frv. í II. kafla, þar sem talað er um læknamiðstöðvar, og ætla að leyfa mér að lesa hann upp með leyfi hæstv. forseta:

„Ákveðin er staðsetning 26 heilsugæzlustöðva utan Reykjavíkur, og er gert ráð fyrir, að þær verði miðstöðvar almennra lækninga og heilsuverndarstarfs á nánar tilteknum svæðum.“ Og svo kemur: „Hér er komið fastmótuðu skipulagi á hugmyndir, sem uppi hafa verið um læknamiðstöðvar. En þær hugmyndir telja flestir að geti stuðlað að bættri læknaþjónustu í dreifbýli.“

Hér er enn af hálfu þeirra, sem semja þetta frv., sýnt fram á, hvað þeir þekkja lítið til löggjafarinnar, sem gildir um heilbrigðismál í dag. En í íslenzkri heilbrigðislöggjöf er gert ráð fyrir læknamiðstöðvum, og var sú breyting á læknaskipunarlögunum samþ. á Alþ. 1965 og þar gert ráð fyrir að stofna læknamiðstöðvar, sem gert hefur verið á a. m. k. þremur ef ekki fleiri stöðum í landinu. Það er látið líta út sem hér sé verið að koma skipulagi á einhverjar hugmyndir, sem hafi farið manna á meðal, þeirra manna, sem eru við læknastörf, og ekkert hafi verið í þessum málum gert.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessum tveimur atriðum til þess að sýna, hvað hér er raunverulega á ferðinni að mínum dómi. Hér er verið með mikla sýndarmennsku og sett upp kerfi, sem er mjög flókið og gæti orðið til þess, að sú læknaþjónusta, sem hægt er að veita í landinu í dag, gæti ekki komið að því gagni sem skyldi.

Í þessu sambandi vil ég gjarnan benda á II. kafla frv., þar sem fjallað er um læknishéruð, en þar er gert ráð fyrir því að leggja niður á einu bretti fjögur læknishéruð í Reykjaneskjördæmi og setja þau öll undir Reykjavíkur hérað. Ég mundi telja, að þetta væri spor aftur á bak og það mikið spor aftur á bak, þegar t. d. Suðurnesjabúar þyrftu að sækja til héraðslæknisins í Reykjavík, Kópavogsbúar, Hafnfirðingar eða þá ofansveitarmenn. Ég held, að þetta atriði m. a. sýni það, að hér hafi ekki verið haft neitt samráð við þær sveitarstjórnir, sem starfa á þessu svæði, eða samtök þeirra, því að ég er sannfærður um, að þær mundu hafa mótmælt þessu og talið, að hér væri um að ræða mikið spor aftur á bak. Þessu til sönnunar má líta á 17. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir heilsugæzlustöðvunum. Þar er í 1. liðnum gert ráð fyrir því, að Þingvallahreppur sæki til heilsugæzlustöðvar að Reykjalundi, og í 4. liðnum, að Vatnsleysustrandarhreppur sæki til heilsugæzlustöðvar í Hafnarfirði. En fyrir örstuttu síðan höfum við hér á hinu háa Alþingi samþ. till. þess efnis að breyta lögsagnarumdæmi þessa kjördæmis út frá því sjónarmiði, að Suðurnesin hafa reynt að koma fram þeirri ósk sinni, að lögsagnarumdæmafyrirkomulagið væri með þeim hætti, að embættismaður í Gullbringusýslu ætti sæti á Suðurnesjum, en ekki í Hafnarfirði eins og nú er. Þetta er mjög eðlilegt af þeirra hálfu, og það er a. m. k. samstaða innan þingmannahóps þessa kjördæmis að gera allt, sem hægt er, til þess að fá þessu breytt, og það skýtur þess vegna skökku við, ef Vatnsleysustrandar hreppur, eitt af þeim sveitarfélögum á Suðurnesjum, sem myndað hafa sinn samstarfshóp, ætti svo allt í einu að sækja til heilsugæzlustöðvar í Hafnarfirði, en ekki suður til Keflavíkur eins og annað, sem þeir eiga sameiginlegt með sveitarfélögunum þar suður frá.

Það hafa þegar verið fluttar brtt. við þetta frv. varðandi önnur kjördæmi. Ég tel út af fyrir sig ekki ástæðu til þess nú, að við þm. Reykjaneskjördæmis flytjum brtt. Við munum hins vegar beita okkur fyrir því, að sveitarfélögin í kjördæminu láti í sér heyra og komi fram sínum ábendingum, þannig að það verði hægt að lagfæra þessa þætti og koma þeim í það horf, sem kemur því fólki, sem byggir þessi svæði, bezt. Ég er sammála því að það þarf að vanda til löggjafarinnar um heilbrigðisþjónustuna. Það hefur verið gert eins og hægt hefur verið, og ég held, að það séu allt aðrar starfsaðferðir, sem við eigum að nota, heldur en að slá fram grg., sem eru fullar af sjálfbirgingi. Miklu fremur eigum við að reyna að hafa samráð við þær sveitastjórnir og við þau samtök fólksins í landinu, sem gerst þekkja þessi mál, til þess að slík löggjöf geti komið að sem mestu gagni.