24.04.1972
Neðri deild: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (3152)

242. mál, heilbrigðisþjónusta

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal ekki við 1. umr. þessa máls fara út í efnisatriði þessa frv., sem við nú ræðum hér. Ég hef hlýtt á mál þeirra þm., sem talað hafa, sem og hæstv. ráðh., og ég tel, að ýmislegt í þeirri gagnrýni, sem fram hefur komið, ekki sízt hjá hv. 12. þm. Reykv. og 1. þm. Reykn., sé athyglisvert og beri að skoða nánar, áður en þetta frv. fær sína afgreiðslu. Hitt er rétt, og ég tel það mjög góðan hátt á þessu máli, að leggja málið fram nú með það fyrir augum, að það liggi fyrir sem þskj., sem menn geti haft nægan tíma til athugunar á og afgreiðslu á næsta þingi, þá væntanlega þannig, að bæði þm. og sveitarfélög geti haft aðstöðu til þess að fjalla um málið.

Það er geysilega mikill munur á þeim viðhorfum, sem nú koma fram í heilbrigðismálum þjóðarinnar eða fyrir rúmum áratug síðan. Það hefur verið mikið að þessum málum unnið s. l. áratug, og eins og hæstv. heilbrmrh. gerði grein fyrir, þá mun hafa tvöfaldazt framlagið til heilbrigðismálanna miðað við þjóðartekjur, úr 3.5% upp í 7.7% á þessum áratug, sem mun teljast nokkuð sæmilegt miðað við aðrar þjóðir, sem framarlega standa á þessu sviði. Miklum fjármunum hefur verið varið til heilbrigðismálanna, sjúkrahúsa og annars slíks, og farið hefur fram heildarendurskoðun á lögum um læknishéruð, læknaskipunina í landinu 1965 og svo aftur síðar, þegar tekið var ákvæði í lögin um læknamiðstöðvarnar, sem getið var í lögunum Frá 1965, og ég held, ef ég man rétt, að því breytingarákvæði hafi þá fylgt uppkast að reglugerð, sem sett skyldi um læknamiðstöðvarnar. Hin ýmis nýmæli, sem voru tekin upp á s. l. áratug, voru m. a. í samræmi við nýjar hugmyndir í þessum málum, sem fram komu bæði frá þeim, sem stjórnuðu heilbrigðismálunum, læknum og ráðstefnum, sem haldnar voru um þessi mál.

Þegar læknaskipunarlögin voru til endurskoðunar 1965 eða samþ., þá var það svo að því var aðallega borið við, að læknarnir væru ekki nógu vel settir, þeir hefðu ekki nógu góð launakjör í hinum dreifðu læknishéruðum, sérstaklega minni héruðunum. Þá voru sett ákvæði um staðaruppbætur og þá voru sett ákvæði um styrkveitingar til lækna í ýmsum minni héruðunum til utanfarar með fjölskyldur sínar til þess að endurhæfa sig í starfi, og einnig komu inn í lögin ákvæði um lán til læknastúdenta gegn skuldbindingum um að vinna í héruðum. Þegar þetta og ýmislegt fleira hafði verið sett í lögin, þá var það almennt viðurkennt af læknum, að það væru ekki fjárhagsatriði, það væru ekki fjárhagsmálin, sem stæðu í vegi fyrir því, að menn vildu setjast að í læknishéruðum, því að þeir hefðu mjög góð kjör, eins og komið væri, og það væri bara ekki hægt að bæta þessi mál á fjárhagslegum grundvelli, heldur væri það sósíalgrundvöllur eða félagsleg atriði, sem skiptu meira máli, að læknar veigruðu sér við að starfa einir í læknishéruðum, væru vanir hópmennsku með hópmennskuvinnubrögðum á spítölunum, þegar þeir væru menntaðir, og þetta leiddi m. a. til þess, að þó að í boði væri guli og grænir skógar fjárhagslega séð, þá kviknaði ekki löngun þeirra til þess að fara út í héruðin. Og svona hefur reyndin verið, stöðugir erfiðleikar með að fá læknana til þess að fara út í héruð.

Það voru uppi hugmyndir í heilbrmrn. og skrifað æ ofan í æ menntmrn. um að breyta skipan mála við lækniskennsluna með því að taka upp sérstaka kennslu fyrir heimilislækna og lækna, sem ættu að verða héraðslæknar, og hverfa frá þessari einhliða sérhæfingarstefnu, sem væri fylgt og sem ríkti, þegar læknarnir væru menntaðir á spítölunum, og sem m. a. leiddi til þess, að þeir vildu fara í sérnám erlendis eða vera við sjúkrahús, en alls ekki sem embættislæknar í héruðunum. Af þessu leiddi ekki þann árangur, sem æskilegt hefði verið.

Mér kemur það ákaflega undarlega fyrir sjónir, þegar mönnum finnst, að með þessu sé verið að dreifa valdinu í þjóðfélaginu, þegar læknishéruð, sem eru yfir 50, eiga að verða 7–8 talsins, að vísu með öðrum hætti heldur en áður. Sérstaklega kemur mér það mjög einkennilega fyrir sjónir, að úr röðum þm. Framsfl. skuli þetta koma, því að þegar læknaskipunarfrv. var hér til meðferðar á sínum tíma og gert var ráð fyrir að fækka læknishéruðunum, var því haldið fram, að þau yrðu að vera stærri til þess að geta veiti mönnum nægjanleg viðfangsefni, en þá heyrðist úr hópi þm. Framsfl., að svona till., um að leggja niður læknishéruð, er ómögulegt væri að fá eftir margendurteknar auglýsingar lækna í, og sameina læknishéruð í stærri einingar, þessar till. væru verri heldur en hafísinn, þær væru íbúum dreifbýlisins miklu skaðvænlegri heldur en hafísinn, sem þá lá fyrir ströndum þar norður frá. En ég fagna því, að þessi steinrunni hugsunarháttur er horfinn. Mér finnst Framsfl. eða þm. hans hafa tekið nokkuð stórt stökk í þessu máli, eins og reyndar í fleiri málum, því að mér finnst það vera réttmæli, sem talað er um, að hér verði í raun og veru um stóraukið miðstjórnarvald að ræða, vegna þess að héraðslæknarnir eiga að sinna embættislækningum í átta héruðum, svo koma aðrir læknar inn í þessi héruð í sambandi við heilsugæzlustöðvar, sem nú eru kallaðar svo og þá verða þessir menn ekki neinn þáttur í sterkari „administration“ eða stjórnsýslu heima í héruðunum. Það er ekki eðli lækna að vera miklir stjórnsýslumenn og þess vegna tek ég alveg undir það, að það er mjög miður að fyrirskipa það í lögum, að ráðuneytisstjóri heilbrmrn. skuli vera læknir. Ég álít, að þar eigi að vera óráðið um og skipast á hverjum tíma, eftir því sem hagkvæmast er talið. Ég held hins vegar, að það væri ástæða til þess að styrkja landlæknisembættið, sem nú góðu heilli er ekki gert ráð fyrir að leggja niður, en hugmyndir voru um áður, og þar sé að sjálfsögðu læknir í forustu, eins og ætíð hefur verið, en ráðuneytisstjórinn sé fyrst og fremst hugsaður út frá því, hvað hann er mikill stjórnsýslumaður, hefur sérfræðilega menntun á því sviði, en það eru kannske miklu fremur menn eins og lögfræðingar eða viðskiptafræðingar, sem hafa að loknu háskólanámi hér sérmenntað sig í stjórnsýslu erlendis, en við getum ekki kennt sérstaklega hér á landi. Ég man eftir því, að það heimsóttu mig einu sinni miklir framámenn hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni í fylgd með landlækni og voru læknar, enskur og amerískur. Og það var þeirra reynsla, að þeir réðu eindregið frá því, bæði í sambandi við stjórn spítalanna, þegar var verið að tala um spítalastjóra, og yfirstjórn stjórnsýslunnar í heilbrigðismálum, að læknar væru settir í þau mál, — voru þeir þó læknar sjálfir, — því að þeir væru að jafnaði langverstir menn til þeirra hluta, og voru þeir ekki að kasta neinum steinum að læknunum, heldur væri þetta bara samkv. þeirra menntun og eðlisfari, hæfileikar þeirra lægju á öðru sviði. Nú segi ég þetta ekki til þess að kasta neinni rýrð á þann ráðuneytisstjóra, sem er núna í heilbrmrn. og er læknir, og vissulega er það svo að auðvitað getur læknir verið eins góður „administrator“ og hver annar eða betri en hver annar, — þetta er afar persónulegs eðlis, — en að binda það í lög tel ég alveg misráðið, og að jafnaði gæti það verið nokkuð vafasamt. Þetta er nú smáatriði, og eins og ég sagði vil ég ekki tjá mig endanlega um efni málsins fyrr en að miklu betur athuguðu máli, en ég hef ekki haft aðstöðu til né talið ástæðu til heldur að setja mig inn í þetta frv., vegna þess hvernig hugsað er, að háttað verði afgreiðslu þess.

Ég fagna að sjálfsögðu frv. til nýrrar löggjafar um bætta heilbrigðisþjónustu í landinu, og að þessu hafa unnið ágætir menn, bæði í tíð fyrrv. ríkisstj. og einnig í tíð núv. ríkisstj. En ég held, að allir þessir ágætu menn eigi eftir að átta sig á því, að það er sitt hvað, lagaákvæði um heilbrigðisþjónustuna og heilbrigðisþjónustan í framkvæmd, þegar til kastanna kemur.

Þar sem frv. er nú ekki ætlað að fá afgreiðslu á þessu þingi, þá gefst auðvitað tóm til þess að hafa samband við héruðin í þessu máli, og auðvitað er ég enginn sérfræðingur á þessu sviði, þó að ég hafi eðli málsins samkv. hlotið að kynna mér nokkuð framkvæmd og gang þessara mála á þeim tíma, sem ég fór með embætti heilbrmrh., og skal ekki taka mikið upp í mig, eins og sums staðar er nú gert í þessu frv. af þeim, sem eru sérfræðingar á þessu sviði. En þeir hafa stundum rekið sig á það, hvað þessi sauðsvarti almúgi í okkar ágæta landi vill fara svolítið aðrar götur og hefur talið það ekki verða óheppilegt fyrir sig að fara svolítið aðrar götur heldur en embættismennirnir og „specialistarnir“ í þessum málum sem öðrum. Ég held t. d., að n., sem fær þetta mál til afgreiðslu, þegar á að fara að afgreiða það, hún verði að breyta formi þessa frv. Það getur verið ágætt, þegar maður er með vinnuskjal að tölusetja hverja mgr., 1.1, 1.2., 1.3 o. s. frv. og 2.1, 2.2, 2.3 o. s. frv., en þetta er nú ekki form á lagasetningu hjá okkur og væri alveg einstakt í sinni röð, ef það ætti að fara þannig endanlega afgreitt inn í löggjöfina. Í þessu máli eins og öðrum eigum við að fylgja eðlilegu sniði, löggjafarsniði á frv., og það eru alveg bein fyrirmæli um það í þingsköpum, að svo skuli gert.

Þá held ég, að ég þurfi ekki á þessu stigi málsins að segja fleira um þetta frv. Auðvitað mundi ég óska þess einlæglega, að þær till., sem síðar yrðu samþykktar sem lög um heilbrigðisþjónustuna, bætta heilbrigðisþjónustu í þessu landi og eflingu heilbrigðismálanna, mættu bera góðan árangur, því að sannleikurinn er sá, að þó að á ýmsan hátt hafi verið mikill vilji hjá mönnum til þess að bæta þessi mál og margir góðir menn hafi að þeim unnið, þá er ekki hægt að neita því, að við búum þarna við mikla og margvíslega erfiðleika, sem eru sérstæðir fyrir okkur Íslendinga vegna dreifbýlis okkar, stærðar landsins, en þó er þetta allt saman að færast í það horf, að það ætti að vera betur hægt við það að ráða, bæði vegna aukinna samgangna á landi; sjó og í lofti. Ég vona þess vegna, að þetta frv., þegar það verður að lögum, væntanlega á næsta þingi, verði þá í því formi, að framkvæmdin verði jafnglæsileg eins og vonir manna standa til, og skal ég svo ekki hafa um það fleiri orð að þessu sinni.

Hæstv. heilbrmrh. vék að mér nokkrum vinsamlegum orðum að vanda, — hann gerir það oft, þegar hann stígur hér í ræðustólinn, — og var að finna að því, að ég hafði fundið að því, að það væri nokkuð auglýsingakennd starfsemi af hans hálfu í sambandi við málið, og taldi, að það væri nú bara vegna þess, að ég væri með einhverja vanmetakennd, væri ekki búinn að átta mig á því, að ég væri ekki lengur ráðh. o. s. frv. Já, það má vel vera, að einhver vanmetakennd leynist hjá mér, en hún gerir það þá ekki hjá hæstv. heilbrmrh. nú, það er eitt, sem víst er. Ég skal ekki fara fleiri orðum um það, um þá gagnrýni, sem ég kom fram með hér áður utan dagskrár, en ég veit ekki betur en Ríkisútvarpið hafi hér fréttamann til þess að segja frá og kynna þingmál, og þess vegna er það ekki ráðh. verk að fara í sérstakar dagskrár, þó að Íslandskortið sé í baksýn, til þess að kynna þingmálið. Það hefur verið kynnt, bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi, eins og önnur mál, og það er fjöldi mála, sem aðrir ráðh. hafa lagt fram, en alls ekki verið með neitt slíkt brambolt eins og hér átti sér stað. Um sama mund og þetta frv. var lagt fram, þá lagði menntmrh. fram hér fleiri en eitt frv. um mikilvæg málefni, sem ekki þótti ástæða til þess að auglýsa sérstaklega í sjónvarpi af hálfu þessa hæstv. ráðh.

En ég vil aðeins segja það að lokum, að mér varð á, þegar ég gerði aths. við málið, nokkur missögn, sem ég vil nú nota tækifærið til þess að leiðrétta. Ég sagði, að hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. hefðu komið fram í sjónvarpi og hljóðvarpi sama dag og frv. um skattamálin hefðu verið lögð fram hér í þinginu. Þetta var ofmælt að því leyti, að þeir komu aðeins fram í hljóðvarpinu, þessari annarri grein Ríkisútvarpsins. Það var einmitt sjónvarpið, sem tók sig fram um það að gefa stjórnarandstöðunni kost á því að láta sín sjónarmið í ljósi tveimur kvöldum síðar, en hljóðvarpsviðtölin voru samdægurs og frv. voru lögð fram. Þessu hefur Eiður Guðnason fréttamaður vakið athygli mína á í bréfi, sem hann skrifaði mér, og ég vil leiðrétta það hér, sérstaklega vegna þess að þessi fréttamaður átti hlut að þessu máli, að þessir sjónvarpsþættir með fulltrúum stjórnarandstöðunnar einnig voru haldnir tveimur kvöldum síðar, svo að það er mjög ómaklegt, ef einhver hefði skilið það þannig, að ég væri að gagnrýna starfsemi hans og hans fréttaflutning. Það var mér sízt af öllu í huga. Ég vil einnig taka það fram, að mér var ekki þessi fréttamaður sjónvarpsins í huga, þegar ég talaði um misvitra fréttamenn í sjónvarpinu. Annars er það forvitnilegt, ef hæstv. heilbrmrh. vildi upplýsa þingheim um það, hver átti upphafið að þessum sjónvarpsþætti hans, hann sjálfur eða fréttastofa Ríkisútvarpsins, og sem þá yrði væntanlega skrifað fréttastofan á reikningi fréttastjórans. Um þetta skal ég svo ekki hafa fleiri orð, en þessi fáu orð síðustu segi ég af því tilefni, sem ég er búinn að skýra, svo að það komi fram á sama stað, að hér var ekki um hárnákvæmni að ræða. Sannast að segja er mér tamara að tala um útvarpið heldur en þetta hljóðvarp og sjónvarp, og stundum lítur maður eiginlega á þetta eins og bróður og systur, en ég veit ekki, hvort ríkjandi er sá hugsunarháttur innan Ríkisútvarpsins, sem þó ætti að vera, og ætti að mega tala um báðar greinarnar nokkurn veginn sem eitt.