24.04.1972
Neðri deild: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (3155)

242. mál, heilbrigðisþjónusta

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja þessar umr. úr hófi fram. Hér hefur komið fram, að það frv., sem hér er til umr., er ekki ætlunin að afgreiða að sinni frá hv. d. og það verður hér í skoðun áfram. Auk þess hefur hér verið mikið um frv. rætt almennt, þannig að ég mun ekki orðlengja það frekar.

Það var einkum eitt atriði, sem ég vildi aðeins gera hér að umtalsefni og sem var ástæða til þess, að ég kvaddi mér hljóðs. Það er það, að ég tel, að í þessu frv. sé ekki nægilega vikið að atriði, sem ég benti hér á á fyrstu vikum þingsins, að þyrfti að gera, og fylgdi raunar eftir með sérstöku frv. á þskj. 81, frv. til l. um breyt. á lögum um læknishéraðasjóði. Það er víða mjög brýn nauðsyn á því að geta gert öryggisráðstafanir í læknislausum byggðarlögum, þar sem svo er háttað, að erfiðar samgöngur eru á vetrum og veður válynd, þannig að oft er ekki hægt að komast undir læknishendur eða í sjúkrahús, nema það séu gerðar sérstakar ráðstafanir til þess. Ég sé, að í þessu frv. eru teknar upp ýmsar þær hugmyndir, sem fram eru settar í frv. mínu. Það er m. a. hér gert ráð fyrir í 45. gr. stofnun eða eflingu læknishéraðasjóðanna og sagt fyrir um hlutverk þeirra, og í 43. gr. er svo að orði kveðið:

„Rn. gerir í samráði við samgrn. og dóms- og kirkjumrn. (vegamálastjóra, landhelgisgæzlu, flugmálastjóra) áætlun um, hvernig bezt og öruggast verði séð um, að læknar komist frá heilsugæzlustöðvum til móttökustaða innan starfssvæðis.“

Hér vil ég gera þá aths., að það er raunar auðsætt af þessari grein, að hér eru læknar fyrst og fremst að hugsa um að komast til sjúklinga frá heilsugæzlustöðvunum og vandlega gengið fram hjá því, eins og hv. 3. landsk. þm. komst svo skemmtilega að orði, að nefna orðið sjúkling í þessari grein. Hér er ekki verið að hugsa um, að sjúklingar komist undir læknishendur á þeim stöðum, þar sem engir læknar eru og samgönguleysi er, heldur er eingöngu fjallað um málið frá sjónarhóli læknanna, að þeir komist í reglubundnar vitjanir til fólks. En það er nú einu sinni svo að slys og bráðasjúkdómar fara ekki eftir fyrir fram gerðri áætlun, heldur verða bara allt í einu, og þá er snöggtum eðlilegra að hugsað sé fyrir því, að slíkir sjúklingar komist undir læknishendur, en að læknar komist í reglubundnar vitjanir til þeirra byggðarlaga, sem svo er ástatt um. Ég tel mjög brýna nauðsyn á því að bæta hér við 43. gr. einhverri mgr., sem kvæði á um þetta atriði, ef hv. heilbr.- og félmn. getur ekki fallizt á að afgreiða mitt frv., sem um þetta fjallar.

Ég hef t. d. látið mér detta í hug, að svona viðbót við 1. mgr. 43. gr. gæti komið:

Enn fremur gerir heilbrmrn. áætlun í samráði við framangreinda aðila um ráðstafanir til þess að auðvelda sjúkraflutninga til sjúkrahúsa, einkum frá byggðarlögum, sem búa við læknisleysi. Við framkvæmd slíkra áætlana er heimilt að verja fé úr Læknishéraðasjóði, sbr. 45. gr., samkv. nánari ákvæðum í reglugerð.

Ég tel, að hér sé mjög brýnu máli hreyft og víða geti svo farið þegar á hausti komanda, að gera þurfi þessar ráðstafanir til þess að auðvelda sjúklingum að komast undir læknishendur í þeim byggðarlögum, sem erfiðast eiga um samgöngur og búa við læknisleysi, og ég taldi eðlilegt að hreyfa þessu enn hér, ef hæstv. ráðh. og hv. heilbr.- og félmn. vildu ljá þessu máli lið.