27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í C-deild Alþingistíðinda. (3161)

242. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hv. alþm. fyrir mikla þátttöku í þessari 1. umr. um þetta mjög svo mikilvæga mál. Þær umr., sem hér hafa farið fram, hafa verið áreiðanlega mjög þarflegar og gagnlegar og yfirleitt mjög málefnalegar. Og ég tel, að í þeim hafi komið fram ákaflega mörg atriði, sem þær hv. n., sem eiga eftir að fjalla um málið, þurfa að taka til athugunar í störfum sínum. Ég sagði, að umr. hefðu yfirleitt verið málefnalegar, en ég verð þó því miður að undanskilja þar nokkur ummæli hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesen, sem talaði um það hér, að í grg. frv. kæmi fram sýndarmennska og sjálfbirgingur. Síðan fór hv. þm. að reyna að færa rök að þessum orðum sínum, og ég gat ekki orðið var við neinar slíkar röksemdir. Það, sem honum virtist bera vott um sýndarmennsku og sjálfbirging, var það eitt, að þess var getið í grg., að á ýmsum stöðum í frv. væri um nýmæli að ræða, og vissulega er þar um ákaflega mörg nýmæli að ræða, og það hygg ég, að hver einasti maður viðurkenni, sem eitthvað hefur fylgzt með skipulagi og þróun þessara mála. Og í því felst að sjálfsögðu hvorki yfirlæti né sjálfbirgingur. Auk þess sagði þessi hv. þm., að höfundar þessa frv. virtust þekkja lítið til gildandi laga. Ég verð að lýsa alveg sérstakri undrun minni yfir ummælum af þessu tagi. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni, þá er upphaf þessa frv. það, að hér á þingi var samþykkt þáltill. árið 1970, þar sem þáverandi heilbrmrh. var falið að setja á laggirnar nefnd til þess að endurskipuleggja lög um heilbrigðismál. Í þessari nefnd áttu sæti Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, formaður, Ásmundur Brekkan yfirlæknir og Brynleifur Steingrímsson héraðslæknir, tilnefndir af Læknafélagi Íslands, Tómas Helgason prófessor, tilnefndur af læknadeild Háskóla Íslands, og Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga. En Jón Ingimarsson skrifstofustjóri heilbrmrn. var ritari nefndarinnar.

Þessi nefnd vann upp allan meginhlutann af því kerfi, sem felst í frv. Sú endurskoðun, sem síðan var framkvæmd á mínum vegum, vegna þess að ég þurfti að sjálfsögðu að fá ráðrúm til þess að átta mig á kerfi, sem ég þekkti ekki til þeirrar hlítar, sem höfundar þessa frv. gerðu, hún hróflaði ekki við meginuppistöðunum í þessu frv., þannig að það eru þessir menn, sem ég nefndi áðan, sem þessi hv. þm. vænir um vanþekkingu á gildandi lögum á þessu sviði.

Þessi hv. þm. sagði einnig, að það hefði ekki verið haft samráð við sveitarstjórnir, til að mynda í Reykjaneskjördæmi. Þetta er algerlega rangt. Eins og ég gat um, þá var meðal nefndarmanna Magnús Guðjónsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga. Hann átti ekki sæti þarna sem neinn einstaklingur. Hann leit á sig sem sérstakan Fulltrúa sveitarfélaganna. Og hann starfaði sannarlega líka sem sérstakur fulltrúi sveitarfélaganna, því að þegar þessi nefnd var búin að gera sín drög að frv., þá fékk hann á annað hundrað eintök, sem send voru öllum sveitarstjórnum á Íslandi. Þetta gerðist í aprílmánuði í fyrra, fyrir einu ári. Sumar þessar sveitarstjórnir hafa brugðizt vel við og svarað, og þeirra röksemdir hafa verið grandskoðaðar, og það hefur verið tekið tillit til margra þeirra. Aðrir aðilar hafa verið furðulega seinir að svara. Ég vil t. d. geta þess, að Heilbrigðismálaráð Reykjavíkur svaraði ekki fyrr en 7. marz nú í vor, þegar frv. var komið í prentun, og tel ég það ákaflega illa farið, því að sjálfsögðu hefði maður viljað taka tillit til álits jafnmikilvægrar stofnunar, og auðvitað verður það gert, þó að svona illa hafi til tekizt og dregizt svona mikið með vinnubrögðin. En sem sagt, mér finnst það algerlega ómaklegt að vera með ádeilur af þessu tagi á þessa ágætu menn, sem frv. sömdu, mér finnst það vera tilefnislaust með öllu og tilraun til þess að búa þarna til ágreining og úlfúð gersamlega að ástæðulausu.

Það hefur verið talað um, að í þessu frv. felist aukið miðstjórnarvald. Það má segja það að vissu leyti, að í því felist það að því leyti til, sem heilbrmrn. er gert að víðtækari og virkari stjórnarstofnun heldur en það er núna. Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir spurði um það, hvernig yrði háttað heilbrigðiseftirliti, ef Heilbrigðiseftirlitið yrði nú deild í rn. En ég vil minna á það í þessu sambandi, að Heilbrigðiseftirlitið er samkv. gildandi lögum ríkisstofnun, þannig að þarna er ekki um aðra breytingu að ræða en þá, að þessi ríkisstofnun yrði deild í rn. til þess að reyna að samhæfa og samræma störfin eins og skynsamlegt er. En áfram mundu að sjálfsögðu starfa heilbrigðiseftirlitsnefndir í öllum sveitarstjórnum, eins og verið hefur. Og héraðslæknarnir, sem fá þarna nýju hlutverki að gegna og eru náttúrlega mjög virkir í sambandi við heilbrigðiseftirlitið, þeir fengju stóraukna aðstöðu til starfa hver á sinni heilsugæzlustöð, þar sem þeir eiga að hafa aðsetur.

En þó að það sé rétt, að þarna sé um að ræða samþjöppun á valdi á vissan hátt, þá er þarna einnig um að ræða mjög veigamikla valddreifingu og það er fólgið í þessari nýju héraðslæknaskipan. Í 10. gr. segir:

Héraðslæknir sér um, að framfylgt sé lögum og reglum um heilbrigðismál í héraðinu. Hann hefur í héraðinu yfirumsjón með öllu heilbrigðisstarfi í umboði rn., bæði á sjúkrahúsum, heilsugæzlustöðvum og annars staðar, þar sem slíkt starf fer fram. Hann annast samræmingu heilbrigðisstarfa í héraðinu og er ráðunautur ríkisvaldsins um öll heilbrigðismál héraðsins.“

Þarna er ákaflega veigamikill þáttur heilbrigðisþjónustunnar fluttur út í héruðin. Í verki hefur þetta verið í höndum landlæknis og rn. að undanförnu, vegna þess að héraðslæknarnir samkv. núverandi skipan hafa haft svo mikið að gera við sín lækningastörf, að þeir hafa ekki getað sinnt embættisstörfum. Það er ósköp skiljanlegt. En þarna eru menn, sem vinna þessi störf úti í héruðunum, og í því er fólgin ákaflega mikil og ákaflega mikilvæg dreifing á valdi, og ég tel, að þetta sé einmitt forsenda þess, að í héruðunum verði skynsamleg og hagkvæm þróun heilbrigðismála.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir minntist einnig á, að í frv. er talað um, að ráðuneytisstjóri í heilbr.- og trmrn. eigi að vera sérmenntaður embættislæknir, og dró það í efa, að þarna væri farið inn á rétta braut, og þetta hafa fleiri menn gert. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að stjórnsýsla á öllum sviðum í nútímaþjóðfélögum verður æ sérhæfðari og flóknari. Við hinir almennu stjórnmálamenn, sem störfum hér á þingi sem fulltrúar hinna almennu þegna og setjumst sumir í ráðherrastóla og gegnum störfum í stjórnarráðinu, við erum sjaldnast sérfræðingar sjálfir á þeim sviðum, sem við eigum að fjalla um. Þess vegna er það ákaflega mikilvægt atriði fyrir okkur að geta haft okkur til ráðuneytis menn, sem hafa sérfræðina gersamlega á valdi sínu. Við erum vissulega hreyknir af því að ráða yfir vel menntuðum og duglegum sérfræðingum og við þurfum á því að halda, en við megum ekki ofurselja okkur sérfræðingunum heldur. Og einmitt þess vegna tel ég, að við, þessir almennu stjórnmálamenn, verðum að geta átt sérstakan aðgang að sérfræðingum, sem aðstoða okkur í viðskiptum við mjög vel hæfa og menntaða sérfræðingastétt. Ég segi fyrir mig, að ég hefði átt í meiri erfiðleikum, enn meiri erfiðleikum en ég hef átt, að annast verkefni mín í heilbr.- og trmrn., ef ég hefði ekki notið þess, að ráðuneytisstjórinn þar var ákaflega vel hæfur og sérmenntaður læknir. Ég er sannfærður um það fyrir mitt leyti, að hér er farið inn á rétta braut, og þetta á ekki aðeins við um þetta rn. eitt. Ég er líka þeirrar skoðunar, að þetta eigi við um fleiri rn. Ég held, að ég hafi látið þess getið við 1. umr., að ég er svo heppinn, að í hinu rn., sem ég starfa við, iðnrn., er einnig sérmenntaður maður ráðuneytisstjóri. Ég held, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hafi líkt þessu við þá kenningu að krefjast þess, að ráðuneytisstjóri í samgrn. hefði meirapróf á bifreið. Mér fannst nú þessi samlíking dálítið langsótt, en ég mundi telja það ákaflega eðlilegt, að ráðuneytisstjóri í samgrn. væri verkfræðingur, og ég er viss um það, að ráðh., sem þar starfaði, hefði ákaflega mikið gagn af því, ef hann hefði sérmenntaðan mann af því tagi í sinni þjónustu.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir taldi, að með þessu frv. væri verið að draga úr heilbrigðisþjónustu þeirri, sem veitt væri í Reykjavík, og taldi, að með þessu væri verið að ganga á hlut Reykvíkinga og það væri verið að fella niður borgarlæknisembættið. Þetta er algerlega rangt. Menn hafa vikið að því margir hverjir, að það sé ákaflega mikill munur á stærð héraða, og það er rétt. Það er ákaflega mikill munur á stærð héraða. Og Reykjavíkurhérað er feiknalega fjölmennt. Engu að síður held ég, að það sé alveg óhjákvæmileg nauðsyn, að Reykjavíkurhéraði í heild, Stór-Reykjavíkursvæðinu, verði stjórnað sem einni heild. Þessi byggðarlög, sem í þessu umdæmi eru, eru orðin svo nátengd, að þau halda áfram að tengjast meir og meir á fleiri og fleiri sviðum, og það verður engin skynsamleg skipan á heilbrigðismálum, nema um þau sé fjallað á þessu svæði sem eina heild. Ég vil t. d. í þessu sambandi minna á það, að á þessu svæði eru helztu sjúkrahús landsins, og þeim er stjórnað af mismunandi aðilum. Það er sjúkrahús, sem heyrir undir ríkisspítalana, það er Landakot, það er Borgarspítalinn. Það er ákaflega mikil og vaxandi nauðsyn, að þessi sjúkrahús taki upp sem allra nánasta samvinnu sin á milli. Við ætlumst til þess, og það gleður okkur ákaflega mikið, að þessi sjúkrahús eru sífellt að auka starfsemi sína, m. a. með því að kaupa dýr tæki. En auðvitað verður að vera um að ræða skynsamlega verkaskiptingu á milli þeirra. Það má ekki reyna að gera sama hlutinn á tveimur stöðum, ef það nægir að gera hann á einum stað. Og það er þetta, sem er hugsunin með því, að þarna verði einn héraðslæknir yfir þessu svæði. Hins vegar liggur það í hlutarins eðli, að þessi héraðslæknir verður að hafa miklu meira starfslið en héraðslæknarnir í hinum héruðunum, og að sjálfsögðu kemur það mjög til álita, að þetta starfslið sé á fleiri en einum stað í þessu afar fjölmenna héraði. En að þarna sé um heildarsamræmingu að ræða held ég, að sé óhjákvæmilegt.

En fyrst vikið er að borgarlækninum í Reykjavík, þá vil ég rétt minna á það, hvernig það kerfi er tilkomið. Fram til ársins 1949 starfaði héraðslæknirinn í Reykjavík með sama hætti og aðrir héraðslæknar. Hinn 1. marz 1946 réð Reykjavíkurborg sér núverandi borgarlækni til þess að vera heilbrigðisfulltrúi Reykjavíkurkaupstaðar og ráðunautur bæjarstjórnar og borgarstjóra um heilbrigðismál, og var hann kallaður borgarlæknir. Um þriggja ára bil, 1946–1949, voru því í Reykjavík tveir eins konar embættislæknar, annars vegar héraðslæknir, sem var ríkisstarfsmaður, en hins vegar borgarlæknir, sem var starfsmaður borgarinnar. Með lagabreytingu 1949 á lögum um skipan læknishéraða og lögum um heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir var ákveðið, að héraðslæknisstörfunum í Reykjavík gegndi borgarlæknir. Það var þá, sem fækkað var um einn lækni í Reykjavík, en ekki núna. Þá var sem sagt ákveðið, að borgarlæknir í Reykjavík skyldi gegna héraðslæknisstörfunum og skyldi hann skipaður af ráðh. samkv. tilnefningu bæjarstjórnar og taka laun úr bæjarsjóði. Þannig var núverandi borgarlæknir settur borgarlæknir 30. des. 1949 frá ársbyrjun 1950 að telja og skipaður sama mánuð í embætti. Og frá 1953 hefur hann jafnframt verið trúnaðarlæknir Reykjavíkurborgar. Það er í sjálfu sér mjög óeðlilegt, að embættislæknirinn á þessu svæði sé ekki starfsmaður ríkisins, en að sjálfsögðu tel ég það miklu máli skipta, að Reykjavík hafi sérstakan lækni í sinni þjónustu. Ég vil minna á það í því sambandi, að því miður hefur orðið hægari þróun í ýmsum heilbrigðismálum í Reykjavík en vert hefði verið. T. d. hefur borgarstjórn Reykjavíkur ekkert hreyft við því allt til þessa dags að koma upp heilsugæzlustöðvum í höfuðborginni, enda þótt till. .um það efni hafi oft verið fluttar. Heilbrigðisyfirvöld landsins hafa aftur á móti byrjað á slíkri starfsemi, eins og menn vita, sbr. heilsugæzlustöðvarnar á Egilsstöðum og í Borgarnesi. En þessi stöðnun í Reykjavík hvað þetta atriði snertir er að minni hyggju æði alvarleg, vegna þess að heimilislæknakerfið hér í Reykjavík hefur smátt og smátt verið að brotna niður á undanförnum árum. Og það hefði þurft að gera sérstakar skipulagsbreytingar á heilbrigðisþjónustunni til að vega gegn þessari þróun.

Um seinustu áramót voru í Reykjavík 17 læknar, sem höfðu fulla tölu sjúkrasamlagsnúmera eða 1750 númer eða fleiri. 11 læknar voru með um 1000 sjúkrasamlagsnúmer og 16 læknar með 500 númer. Svo voru 8 læknar með 100–500 númer, en 110 læknar,. sem hafa 45 sjúkrasamlagsnúmer eða minna. En miðað við fulla tölu lækna í Reykjavík þyrfti í raun og veru 32–34 lækna í fullu starfi. Það má því segja, að það sé rúmur helmingur þeirra lækna, sem þyrfti að vera hér í Reykjavík, sem er hér starfandi núna. Og það er vitað, að hér í Reykjavík eru núna 5–7 þús. manns, sem hafa engan heimilislækni, vegna þess að þeir standa ekki til boða. Ég er þeirrar skoðunar, að ástæðan fyrir þessu sé m. a. sú, að hér hefur ekki verið komið upp heilsugæzlustöðvakerfi, og að því tel ég, að þurfi að vinda bráðan bug. Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég vilji efna til neinna deilumála á milli Reykjavíkurborgar og heilbrmrn., þvert á móti. Ég er mjög áfram um það, að sem allra nánust og bezt samvinna verði milli Reykjavíkurborgar og rn., og ég fyrir mitt leyti mun gera það, sem ég get, til þess að svo megi verða. En ég vil mótmæla því algerlega, að í þessu frv. eða í störfum rn. hafi nokkurn tíma falizt nokkur árás á Reykjavík eða tilraun til þess að gera hlut Reykjavíkur minni en hann ætti að vera, eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir var að gefa í skyn.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir minntist á, að í 16. gr. frv. virtist vanta starfsmann, og spurði, hvort þar ætti ekki að vera ljósmóðir. Ég vil minna á það í því sambandi, að í 20. gr. er gert ráð fyrir því, að heilsugæzluhjúkrunarkonur á heilsugæzlustöðvum hafi sérmenntun í heilsuverndarstarfi, fæðingarfræði eða starfi hjúkrunarkonu á göngu- og slysadeild. Nú er mér það að sjálfsögðu fullkomlega ljóst, að þessar heilsugæzluhjúkrunarkonur eru ekki til menntaðar eins og er. Þetta er ekki kerfi, sem sprettur tilbúið upp, en þetta er það mark, sem að verður stefnt, og heilsugæzluhjúkrunarkonurnar eiga að sjálfsögðu að gegna þessari þjónustu. Sami hv. þm. spurði að því, hvað við væri átt með félagslegri aðstoð í 22. gr., og virtist halda, að þarna væri um að ræða einhvers konar framfærslu eða einhverja þvílíka aðstoð. En hér er að sjálfsögðu eingöngu hugsað um félagsráðgjafastarf, og við höfum að vísu allt af fáum félagsráðgjöfum á að skipa eins og er, en við þurfum að stefna að því, að félagsráðgjafar fáist til starfa á þessum stofunum. Hún minntist einnig á það, hvort ekki þyrfti samráð við hlutaðeigandi sveitar félög um reglugerðir um heilsugæzlustöðvar o. s. frv., og að sjálfsögðu verður slíkt samráð haft. Ég vil sérstaklega á það benda í þessu sambandi, að í 24. gr. er það tekið sérstaklega fram, að í Reykjavík skuli Heilbrigðismálaráð fara með stjórn heilsugæzlustöðvanna.

Það hefur komið fram hjá ýmsum þm. aths. við staðarval heilsugæzlustöðva, eins og ég bjóst við, og mér kemur það sannarlega ekki á óvart. Það er mikið vandaverk að velja heilsugæzlustöðvum stað og eflaust verður ekki kleift að gera það þannig, að öllum líki. Hér hafa þegar komið fram aths. um nokkur slík atriði, og eins og ég sagði í framsöguræðu minni, tel ég, að þm. þurfi að fjalla mjög nákvæmlega um þau mál hver í sínu héraði og reyna að tryggja sem allra bezta samstöðu um skynsamlega lausn hver á sínum stað. Ef menn koma sér saman um það í héraðinu, hvar heilsugæzlustöðvarnar skuli vera, þá verða breytingar frá þessu frv. áreiðanlega ákaflega auðsóttar. En ég vil fara mjög fram á það við menn, að þeir freistist ekki til þess að gera hugsanlegan ágreining út af því, hvar heilsugæzlustöðvum er valinn staður, að flokkspóltísku máli. Þetta getur ekki á neinn hátt verið flokkspólitískt mál, og það væri illa farið með jafnmikilvægt mál eins og heilbrigðisþjónustu, ef menn ætluðu að fara að nota það sér til pólitísks framdráttar á slíkum forsendum.

Hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson minntist í þessu sambandi á Vopnafjörð. Það hafa verið um það tvær kenningar, hvort ætti að vera heilsugæzlustöð á Vopnafirði eða jafnvel Þórshöfn. Í frv. er gert ráð fyrir því, að heilsugæzlustöðin verði á Þórshöfn, og er fylgt till. Læknafélags Íslands. Þegar slíkar till. eru gerðar, er margt, sem þarf að skoða. Það þarf að skoða, hvernig byggð er háttað og hvernig samgöngum er háttað að vetrarlagi o. s. frv. Það, sem þarna mun hafa skorið úr, er það, að þrátt fyrir allt mun auðveldara fyrir fólk á þessum slóðum að komast til Þórshafnar að vetri til en til Vopnafjarðar, sem er oft ákaflega einangraður staður. En samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að læknir sitji á Vopnafirði, og að sjálfsögðu ber að leggja á það mjög þunga áherzlu, ef þessi skipan helzt óbreytt, að það verði jafnan tryggt, að læknir verði á Vopnafirði, og ég mundi telja mjög nauðsynlegt, að þar yrði einnig hjúkrunarkona. En sem sagt, þetta er atriði, sem ég tel, að þm. eigi að halda áfram að fjalla um.

Ég sé, að hv. þm. Jóhann Hafstein er hér ekki viðstaddur, svo að ég skal ekki halda áfram deilum við hann um ritskoðunarsjónarmið gagnvart sjónvarpi eða þess háttar atriði, en ég vil hins vegar láta þess getið, að ég var sammála mörgum atriðum í ræðu hans og fannst hann fjalla um þau á raunsæjan og skynsamlegan hátt. Og ég vil taka mjög undir það sem hann sagði í ræðu sinni, að vissulega er það eitt að búa til kerfi og annað, hvað reynslan kann að sýna. Við getum lagt í slíkt kerfi alla þá þekkingu, sem okkur er tiltæk, og alla þá skynsemi, sem við þykjumst ráða yfir, en samt kann reynslan eftir á að leiða í ljós, að okkur hefur missýnzt, og ég dreg það ekki í efa, að þannig kunni að verða um margt í þessu kerfi einnig.

Hv. þm. Stefán Gunnlaugsson flutti hér býsna einkennilega ræðu, þar sem hann sagði, að nú væri hætt að tala um útgerðarauðvald í landinu og annað þess háttar auðvald, sem tíðkaðist að tala um hér áður fyrr, nú væri risin upp ný auðvaldsstétt, og það væru læknarnir. Ég held nú, að ræða af þessu tagi, sem hv. þm. flutti, sé tízkufyrirbæri og ekki bundin við okkar land. Það var svo til skamms tíma, að læknar voru víða dýrkaðir. Það voru skrifaðir um þá ákaflega fallegir eldhúsreyfarar, þeir voru oft aðalpersónur í kvikmyndum og menn töluðu um þá af ákaflega miklum hlýleik. Upp á síðkastið er orðin tízka að hella sér yfir lækna með fáryrðum. Þetta hefur verið gert hér í löndum umhverfis okkur og þetta gerist einnig hér. Ég legg nú ekki mikið upp úr tízku af þessu tagi. Læknar eru menn eins og við hin og misjafnlega gerðir. Samt hygg ég af kynnum mínum af læknum, að mér sé óhætt að fullyrða, að í þeirra hópi sé meira um félagsleg sjónarmið heldur en er yfirleitt meðal landsmanna.

Þessi hv. þm. taldi, að í þessu frv. væri verið að færa þeim ýmis ný forréttindi, ný leyfi frá störfum o. s. frv..Hv. þm. Ingólfur Jónsson minntist á þetta atriði áðan á þann hátt, að ég þarf svo sem engu við að bæta. Ég er sammála því, sem hv. þm. sagði um þetta. En ég vil benda á það, að þar sem sagt er, að héraðslæknar eigi rétt á sex vikna leyfi annað hvert ár til rannsóknarstarfa og námsferða, þá er aðeins verið að tryggra héraðslæknum þann sama rétt og ríkið er fyrir löngu búið að semja um við yfirlækna og sérfræðinga á sjúkrahúsum. Og ég tel, að í því sé ekkert réttlæti, að héraðslæknar eigi ekki að njóta þessa sama réttar. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Ingólfur Jónsson sagði, að það er lífsnauðsyn fyrir læknana að geta fylgzt með í störfum sínum. Þarna er um ákaflega örar breytingar að ræða, ákaflega öra þróun, og ef menn ekki fylgjast með og reyna að vera lifandi í starfi sínu, þá dragast þeir aftur úr og geta ekki gegnt hlutverki sínu svo sem vert væri.

Hv. þm. Stefán Gunnlaugsson minntist einnig á Háskóla Íslands og kom með þá einkennilegu till., að Háskólinn ætti að fara að útskrifa lækna, sem eftir 3–4 ár gætu sinnt almennri heilbrigðisþjónustu úti um landið. Og hann taldi, að þetta væri gert hér í sumum nágrannalöndum okkar. Þetta er alger misskilningur. Mér er kunnugt um, að slíkir læknar, sem læra frumatriði í læknisfræði, eru til í löndum, þar sem heilbrigðisþjónusta er á algeru frumstigi, í löndum eins og t. d. í Kína og í Víetnam. Þar hafa menn farið inn á þessa braut til þess að bæta úr sárustu vandræðum, og það er ákaflega skiljanlegt. En í gjörvallri Vestur-Evrópu er þetta fyrirbæri ekki til, og engum manni hefur dottið það í hug, svo að ég viti. Að vísu tala menn um nauðsyn þess að stytta læknisnámið, og ég hygg, að Bretar hafi náð einna lengst á því sviði. En samt tekur það 5–6 ár í Bretlandi að mennta lækni. Og ég held, að það væri ákaflega einkennilega að farið, ef það ætti að fara að búa til einhverja sérstaka tegund lítt menntaðra lækna til þess að starfa úti um landið, eins og þessi hv. þm. virtist gera sér í hugarlund. Við skulum gera okkur það ljóst, að það er ákaflega mikið og erfitt nám að verða læknir og ná valdi á því verkefni, og það tekur óhjákvæmilega langan tíma, og ég hygg, að það verði ekki fundnar leiðir til þess að stytta það. Hins vegar vil ég benda á það í þessu sambandi, að verkefni hjúkrunarkvenna fara í sífellu vaxandi allt umhverfis okkur og hljóta að gera það hér á landi einnig. Mér hafa sagt merkir læknar í Svíþjóð, að þeir telji menntaðar og reyndar hjúkrunarkonur hreinlega læknisígildi í ákaflega mörgum tilvikum, og þess vegna tel ég það ákaflega mikilvægt, að í þessu frv. hér er gert ráð fyrir því, að hjúkrunarkonur eða hjúkrunarfólk hafi miklu meira hlutverki að gegna eftirleiðis en verið hefur hingað til.

Svo spurði þessi sami hv. þm. mig með allmiklum þjósti, hvort það væri ætlun mín, að læknadeildin yrði lokuð stofnun, sem útskrifaði sér fræðinga. Nú hélt ég, að allir þm. vissu, að læknadeildin á Íslandi útskrifar enga sérfræðinga. Það er ekki hægt að stunda sérfræðinám í lækningum á Íslandi. Hér er aðeins um að ræða almenna kennslu, og ef menn vilja fara í sérkennslu, þá verða menn að fara til útlanda. En ég hef margsinnis hér í vetur lýst því yfir, að ég sé ákaflega andvígur þeirri stefnu, að læknadeildin sé lokuð og þar sé takmarkaður fjöldi lækna útskrifaður á hverju ári. Þetta hef ég tekið skýrt fram svo oft, að ég hélt, að það hefði ekki farið fram hjá neinum manni. Kenningin um að læknadeildin ætti að útskrifa takmarkaðan fjölda af fólki, var tekin upp í tíð fyrrv. stjórnar. Og ég man eftir því, að ég hlustaði einu sinni á þáv. hæstv. menntmrh., Gylfa Þ. Gíslason, þegar hann stóð hér í þessum ræðustól og sannaði það með ákaflega hugvitsamlegum tölum, eins og honum er nú lagið betur en flestum öðrum mönnum, að á Íslandi væru meira en nógu margir læknar. Samt var staðreyndin sú, að það vantaði lækna alls staðar. Það vantaði lækna úti um land, það vantaði heimilislækna í Reykjavík, það vantaði lækna á sjúkrahúsunum. Engu að síður gat hann sannað þetta, að það væri meira en nóg af læknum.

En undirrót erfiðleikanna hvað lækna snertir er alveg tvímælalaust sú, að það eru of fáir læknar á Íslandi og að of fáir læknar hafa útskrifazt úr læknadeildinni á undanförnum árum. Þetta er atriði, sem þarf að breyta. Ég veit, að núverandi menntmrh. er sömu skoðunar og ég um þetta atriði og núverandi stjórn Háskólans er það einnig. Og það er byrjað að gera ráðstafanir í þessu skyni. Eftir svo sem fjögur ár mun verða þarna um að ræða mjög umtalsverða aukningu. Þá munu um 60–70 læknar útskrifast, og það er breyting, sem getur gerbreytt ástandinu hvað þessi atriði snertir hér á landi. En því miður tekur þetta langan tíma, vegna þess að þetta nám er langt.

Hv. þm. Bjarni Guðnason talaði einnig um það, að um mjög mikið aukið miðstjórnarvald væri að ræða í þessu frv. Þarna væru sameinaðir þættir, sem hefðu verið hver á sínum stað undanfarið eins og heilbrigðiseftirlit, berklayfirlæknir, skólayfirlæknir o. s. frv., og kerfið væri mjög sterklega uppbyggt og það skorti lýðræði í þetta kerfi. Það vantaði sjónarmið neytandans, þ. e. sjúklinganna. Og hann komst svo að orði, að í þessu frv. kæmi orðið læknir fyrir í annarri hverri grein, en líkast til kæmi orðið sjúklingur aldrei fyrir í frv. Nú er það svo að sjúklingar eru ekki eins varnarlausir á þessu sviði og þessi hv. þm. virðist halda. Á Íslandi eru í gildi læknalög, sem upphaflega eru frá árinu 1932, en voru endur nýjuð árið 1969. Og þessi lög fjalla um skyldur lækna, en réttindi almennings. Þar eru ákaflega mörg ákvæði um réttindi almennings á þessu sviði, og ég vil benda hv. þm. á að kynna sér þessi lög. Þá sér hann, að hlutur sjúklinga er ekki eins fyrir borð borinn og hann virtist ímynda sér og að allir þættir heilbrigðismálanna eru ekki innan þessa frv., sem hér liggur fyrir. Hann virtist einnig halda eða telja, að þau litlu ákvæði um landlækni, sem þarna eru í yfir stjórninni, væru allt sem um landlækni væri að segja í gildandi lögum. Honum fannst landlæknisembættið vera orðinn hálfgerður botnlangi og það væri eins og tvær silkihúfur að hafa landlækni og ráðuneytisstjóra, sem báðir væru sérmenntaðir læknar. En það er að sjálfsögðu ákaflega mikill misskilningur, að lagaákvæðin um landlækni séu einvörðungu í þessu frv. Þarna er um það talað, að landlæknir eigi að starfa samkv. lög m, reglum og venjum, er þar um gilda.

Nú skal ég ekki þreyta menn á því að fara að þylja upp, hvaða lög og reglur og venjur gilda um störf landlæknis. Ég hef hér möppu um það atriði, hún er 13 vélritaðar síður. Það hafa naumast verið sett svo nokkur lög um heilbrigðismál á Íslandi, að landlæknir hafi þar ekki hlutverki að gegna. Og ef afnema á embætti landlæknis, þá þyrfti að sjálfsögðu að breyta allri þessari löggjöf. Hv. þm. Bjarni Guðnason taldi, að landlæknir ætti að vera sérstakur fulltrúi neytendanna, það væri skynsamlegt sjónarmið. En hann er það samkv. læknalögum. Samkv. læknalögum, 14. gr. þeirra, er honum sérstaklega falið að vera fulltrúi almennings gagnvart læknunum og sjúkrahúsakerfinu. Það kemur fyrir annað kastið, að heilbrmrn. berast umkvartanir frá fólki, sem telur, að það hafi ekki fengið rétta meðferð eða eitthvað hafi á skort af hálfu lækna og sjúkrahúsa. Þau mál eru send landlækni, og samkv. lögum á hann að fjalla um þau einmitt frá sjónarmiði hins almenna þegns. Og í sambandi við hinn almenna þegn vil ég einnig minna á það, að við þm. og ráðh. erum í okkar störfum sem fulltrúar almennings. Við erum ekki sérfræðingar nema sumir af tilviljun á vissum sviðum, en við erum ekki að störfum hér í stjórnmálum sem sérfræðingar. Við erum hér sem kjörnir fulltrúar almennings. Og þegar ég gegni störfum mínum í heilbrmrn., þá lít ég á mig sem fulltrúa almennings, sem fulltrúa þess fólks, sem hv. þm. kallaði neytendur í þessu sambandi. Ég lít á það sem verkefni mitt að reyna að stuðla að heilbrigðisþjónustu, sem komi fólkinu í landinu að eins miklu gagni og hugsanlegt er.

Ég skal nú ekki vera að tefja umr. allt of lengi. Það eru ákaflega mörg atriði, sem hefði verið gaman af að fjalla frekar um, en það getur beðið síðari tíma. Ég vil aðeins minna á eitt atriði, sem hv. þm. Bjarni Guðnason vék að. Hann talaði um það, að héraðslæknar hefðu ekki skyldu til almennra læknisstarfa, nema svo væri fyrir mælt í skipunarbréfi, en heimild hafa þeir til slíkra starfa, ef sérstaklega stendur á og leyfi landlæknis kemur til. Hv. þm. þóttu það firn mikil, að héraðslæknir þyrfti að óska eftir leyfi landlæknis í hvert skipti, sem honum dytti í hug að lækna einhvern sjúkling. En hér er að sjálfsögðu um algeran misskilning að ræða. Í 8. gr. læknalaga, sem ég hef áður vitnað til, er sérhverjum lækni lögð sú skylda á herðar að veita fyrstu nauðsynlegu læknishjálp í skyndilegum sjúkdómum eða hættutilfellum. Þetta er skylda allra lækna, hvaða störfum sem þeir gegna í þjóðfélaginu. Það, sem átt er við í frv., er að sjálfsögðu leyfi til þess að hafa almennan „læknapraxis“. Það er allt annað mál. Menn þurfa leyfi landlæknis til þess að geta starfað á þann hátt. En að veita hjálp í einstökum tilvikum, það er hreinlega skylda lækna samkv. íslenzkum lögum.

Hv. þm. Lárus Jónsson vék að mál, sem við höfum báðir áhuga á, tengslum heilbrigðisþjónustunnar við samgöngumálin. Það er alkunna, að hinar erfiðu samgöngur á Íslandi eru einn versti þröskuldur í vegi þess, að við getum haldið uppi góðu heilsugæzlukerfi um land allt. Í V. kafla frv. er reynt að byggja upp kerfi, sem gerir ráð fyrir samvinnu samgrn. og dóms- og kirkjumrn. við heilbrmrn. um áætlanir til þess að tryggja það, að læknar komist frá heilsugæzlustöðvum til móttökustaða innan starfssvæðis, og hv. þm. minntist á, að á sama hátt þyrfti að reyna að tryggja það, að sjúklingar gætu komizt til heilsugæzlustöðva, og að sjálfsögðu erum við sammála um það atriði. Ef menn vilja einhverja orðalagsbreytingu hvað það varðar, þá hef ég sannarlega ekkert við það að athuga.

Hér hafa komið fram tvær raddir um það frá Vesturlandi, að það þyrfti að vera heilsugæzlustöð í Búðardal, og ég skil það sjónarmið ákaflega vel. Þarna er einnig um að ræða svæði, sem af samgönguerfiðleikum á erfitt með að sækja til heilsugæzlustöðvar í Stykkishólmi. En það er gert ráð fyrir því í frv., að læknir sitji í Búðardal, og að sjálfsögðu ber að leggja áherzlu á það, að unnt verði að framkvæma það ákvæði laganna, og ég mundi telja mjög æskilegt, að þar væri hjúkrunarkona einnig. Hins vegar vil ég ítreka það, sem ég hef áður sagt, að ég vil, að um þessi mál verði fjallað á sem opnastan hátt og að ég er ákaflega fús til samvinnu um þessi atriði og raunar um öll önnur atriði í þessu frv. og hef lagt áherzlu á það við undirbúning málsins að reyna að kynna það sem allra flestum og hlusta á sem allra flesta og mun halda áfram að starfa þannig að málinu.

Ég vil svo ítreka þakkir mínar til hv. þm. fyrir áhuga á þessu máli, og ég vil ítreka það, sem ég sagði hér í framsöguræðu minni, að ég mundi telja það ákaflega æskilegt, að heilbr.- og félmn. beggja þd. héldu sameiginlega fundi um þetta frv. Í heilbrmrn. liggja fyrir ákaflega mikil gögn um þetta mál, sem ég tel, að nefndirnar hefðu mjög mikið gagn af að kynna sér, og starfsmenn rn. eru að sjálfsögðu reiðubúnir til þess að leggja fram hverja þá aðstoð, sem eftir er óskað. Ég hefði hins vegar mikinn hug á því, að hægt yrði að afgreiða þetta mál á þinginu í haust, og mér þætti mjög vænt um það, ef menn sæju sér fært að mynda sér skoðanir um málið og gera það upp svo tímanlega, að hægt væri að taka mið af því við lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Hv. þm. Bjarni Guðnason vék að því í ræðu sinni, hvort ekki væri skynsamlegra að koma upp 6–7 heilsugæzlustöðvum og fá þá dálitla reynslu af þeim í stað þess að koma upp 26 stöðvum. Það hefur náttúrlega aldrei verið meining mín, að 26 heilsugæzlustöðvar yrðu byggðar í einu vetfangi. Þetta er verkefni, sem verður auðvitað að vinnast í áföngum. Þetta verða heilsugæzlustöðvar, sem verða byggðar stig af stigi, eftir því sem fé verður til þess veitt á fjárlögum. Og í frv. er gert ráð fyrir því, að gerð verði sérstök áætlun um framkvæmdir á þessum sviðum, og eins og ég hef áður greint frá, þá er unnið á vegum rn. að áætlunargerð fyrir næstu 10–20 árin. En framkvæmdir og framkvæmdahraði fara að sjálfsögðu eftir fjárveitingum Alþ. hverju sinni.