27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (3162)

242. mál, heilbrigðisþjónusta

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það var út af ummælum hæstv. ráðh., sem mig langaði aðeins til þess að gera aths., en hann vék að því, sem ég sagði hér í ræðu minni fyrr, er ég benti á tvö atriði í grg. með þessu frv., annað, sem mér sýndist benda til, að hér væri staðið að grg. með öðru hugarfari heldur en ætti að vera, og hitt atriðið, þar sem ég benti á,. að svo virtist sem þeir, sem stæðu að grg., væru ekki kunnugir þeirri löggjöf, sem gilti um heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Ég held, að hver maður, sem les 1. tölul. í II. kafla grg., hljóti að átta sig á því, að þar er ekki farið með rétt mál, því að það er ekki nýmæli þessa frv., að mótuð er almenn stefnuyfirlýsing um, að landsmenn skulu allir eiga kost á eins fullkominni heilbrigðisþjónustu og tök eru á að veita hverju sinni. Þetta hefur verið gert fyrir löngu, og það hefur enginn betur sýnt okkur fram á það en einmitt hæstv. ráðh. sjálfur. Og það gat ég um í minni ræðu, því að hæstv. ráðh. rakti sögu lækninga á Íslandi og þróun heilbrigðisþjónustunnar, og til rökstuðnings fyrir sinni ræðu kom hann hér með ýmsar tölur, og hann sannaði með þeim tölum, að heilbrigðisþjónustan hefur verið með ágætum og fyrir löngu síðan sú stefna mótuð, sem hér er sögð vera nýmæli í þessu frv. Ég hélt því aldrei fram, að það væru ekki ýmis nýmæli í frv. og að þar væri ekki fjölmargt til bóta, ef það næði fram að ganga og, eins og hann réttilega orðaði það sjálfur, næði tilætluðum árangri.

Hitt atriðið, sem ég gagnrýndi í grg., var í 5. tölul. II. kafla. Það er orðað svo að verið sé að koma fastmótuðu skipulagi á hugmyndir, sem uppi hafa verið um læknamiðstöðvar. Þegar þetta er sagt í grg. með frv. og í dag eru í gildi lög frá 1965 um læknamiðstöðvar, þá hefði ég talið eðlilegra og réttara, að sagt hefði verið, að með tilliti til þeirrar reynslu, sem þegar hefði fengizt af læknamiðstöðvum samkv. núgildandi lögum, þá væri hér verið að koma heildarskipulagi á þessi mál, en ekki, að það væri verið að koma fastmótuðu skipulagi á hugmyndir, sem uppi hefðu verið.

Ég gagnrýndi enn fremur í sjálfu frv. að það væri verið að leggja niður héraðslæknisembættin öll í Reykjaneskjördæmi og gert væri ráð fyrir, að Reykjaneskjördæmi yrði eitt umdæmi ásamt höfuðborginni, Reykjavík. Ég tel, að þarna sé stigið spor aftur á bak. Ég skal ekki deila um það, hvort héraðslæknisembættin eigi að vera eitt eða fjögur, — þau eru fjögur í dag, — í Reykjaneskjördæmi. Það má vel vera, að það séu rök fyrir því, að embættið verði aðeins eitt, og ef þau eru á borð borin, þá er ekkert við því að segja. En eins og sveitarfélögin hafa á undanförnum árum skipulagt sína starfsemi, þá teldi ég það margfalt betra, að Reykjaneskjördæmi væri sérstakt héraðslæknisembætti, a. m. k. eitt embætti, þannig að það samstarf, sem sveitarfélögin í Reykjaneskjördæmi hafa sín á milli, gæti haldið áfram og þau þyrftu ekki í einstökum tilfellum, eins og í sambandi við læknaþjónustu, að eiga slík samskipti við Reykjavíkurborg eins og hér er gert ráð fyrir. Vitanlega er hægt að skipuleggja öll þessi mál, allt það samstarf, sem þarf að vera á þessu svæði nákvæmlega eins varðandi heilbrigðisþjónustuna og um aðra opinbera þjónustu, sem skipulögð er á milli sveitarfélaganna í Reykjaneskjördæmi og Reykjavík. Við gætum alveg eins hugsað okkur að lögreglustjóraembættin í Reykjaneskjördæmi yrðu öll lögð niður og það yrði einn lögreglustjóri á öllu þessu svæði. Það þýðir það ekki frá mínu sjónarmiði, að hér séu lögreglustjóraembætti í Reykjaneskjördæmi, að það geti ekki verið fullkomið samstarf á milli þessara embætta og þannig hagnýting eins góð og mögulegt er. Ég held, að við verðum að stefna að því, að ríkið reyni að koma til móts við sveitarfélögin í sambandi við þeirra skipulag, og það væri að mínum dómi í þessu tilfelli mjög rétt í sambandi við héraðslæknisembætti í Reykjaneskjördæmi, hvort sem talið væri rétt, að það væri eitt eða þau væru fjögur. Svo bað ráðh. okkur um það að blanda ekki flokkspólitískum sjónarmiðum inn í það, hvar læknamiðstöðvar væru staðsettar. Ég er honum alveg sammála. Það er ekki flokkspólitískt atriði, heldur skipulagsatriði, og ég benti á það í minni ræðu, að frá skipulagslegu sjónarmiði sveitarfélaganna í Reykjaneskjördæmi væri mun eðlilegra t. d., að Vatnsleysustrandarhreppur sækti til heilsugæzlustöðvar þeirra Suðurnesjamanna heldur en til heilsugæzlustöðvar, sem gert er ráð fyrir að verði í Hafnarfirði.

Ég get nú ekki orða bundizt út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um framkvæmdir heilsugæzlustöðva og um framkvæmd heilbrigðismála hér hjá Reykjavíkurborg, og fannst mér hann bregða þar örlítið út af sinni forskrift, því að vissulega hefur hann rétt að mæla, þegar hann ræðir um það, að slíkt mál sem þetta geti ekki verið flokkspólitískt mál. Menn hafa að sjálfsögðu skiptar skoðanir á mörgu, m. a. ýmsum þáttum frv., en þær eru ekki flokkspólitískar. En hann vék einmitt að og vildi gera mjög lítið úr heilsugæzlu- og heilbrigðisþjónustu yfirvalda Reykjavíkurborgar gagnvart Reykvíkingum. Vel má vera, að hér séu ekki nógu margir læknar. Ég þekki það ekki svo vel. Hitt vil ég leyfa mér að benda á, að Reykjavíkurborg hefur haft forustu í sambandi við heilbrigðisþjónustu. Þar má m. a. benda á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, sem tók til starfa 1950, og Borgarspítalann. Ég veit ekki betur en þessar byggingar séu taldar til fyrirmyndar, og þegar við erum að ræða um heilbrigðismál og heilsugæzlu hér á Norðurlöndum, og vinir og frændur af Norðurlöndum sækja okkur heim, þá séu það einmitt þessar byggingar, þessar framkvæmdir og þessi þjónusta, sem borgarbúum hefur verið veitt hér í Reykjavík, sem talið er til fyrirmyndar, og því er reynt að sýna hinum erlendu gestum þessar stofnanir.

Ég vildi láta þetta koma hér fram, því að eins og ráðh. hefur það rétt að mæla, að heilsugæzla og frv. til laga og löggjöf um heilbrigðisþjónustu sé ekki flokkspólitískt mál, þá eiga menn í hinu orðinu ekki að líta flokkspólitískt á gerðir þeirra manna, sem staðið hafa að þessum málum á undanförnum árum.