10.11.1971
Efri deild: 11. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (3177)

55. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. þessu til breyt. á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 51 frá 10. júní 1964, er ætlað að kveða á um það, að hvert sveitarfélag hafi rétt til álagningar aðstöðugjalds, þegar ræðir um framkvæmdaraðila, sem hefur aðstöðu og atvinnurekstur á afréttum uppi. Enn fremur um það, að hverju sveitarfélagi beri réttur til álagningar útsvara að því er varðar einstaklinga, sem atvinnu stunda og afla tekna með föstu aðsetri á slíkum landssvæðum. Heimild í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til álagningar og innheimtu aðstöðugjalda og útsvara er að höfuðreglu bundin við íbúa og atvinnurekstur í víðkomandi sveitarfélagi. Í löggjöf okkar Íslendinga er ekki talið, að nein bein ákvæði séu um það, hver mörk sveitarfélaga séu, þegar til afrétta kemur og nær dregur hálendi. Í stjórnarskrá okkar segir m. a.:

„Rétti sveitarfélaganna til að ráða sjálf málefnum sínum með umsjón stjórnarinnar skal skipað með lögum.“

Í samræmi við þetta stjórnarskrárákvæði hafa svo verið sett lög um sveitarstjórnir, og lög þau, sem nú gilda, eru frá 1961, nr. 58. Þar segir í 1. gr.

„Ríkið skiptist í sveitarfélög, sem ráða sjálf málefnum sínum undir yfirstjórn ríkisstj. (félmrn.), samkv. því, sem lög ákveða.“ Og í 2. gr. þessara sömu laga, sveitarstjórnarlaga, segir, að með sveitarfélögum sé átt við hreppa og kaupstaði. Enn fremur, að staðarmörk sveitarfélaga skuli vera hin sömu og nú, en ríkisstj. geti breytt þeim samkv. því, sem nánar greini í lögum. Um mörk sýslufélaga eru eigi fremur bein lagaákvæði, en gömul og viðtekin munu mörk þeirra vera og eflaust víðast hvar ljós og óumdeild, nema ef vera skyldi að því er tekur til hálendisins.

„Ríkið skiptist í sveitarfélög,“ segir í þessum lögum. Það mætti því ætla, að enginn væri sá staður eða landssvæði, að eigi félli til einhvers hrepps eða kaupstaðar, þ. e. til sveitarfélags. Þá er það spurningin: Innan hvaða sveitarfélags eða sveitarfélaga eru afréttir? Frá fornu fari eru víða afréttir, sem sveitarfélög telja sig eigi aðeins hafa óbeinan eignarrétt að, svo sem veiðirétt og upprekstrarrétt, heldur einnig beinan eignarrétt, þ. e. eiga sjálfa landeignina og heyri hún til sveitarfélaginu. Svo tengdir hafa hreppsbúar verið oft og tíðum með margvíslegum störfum og umsýslu á afréttum um lengri eða skemmri tíma á hverju ári og um margra alda skeið, að þeim eru þessi landssvæði, afréttir, svo kunn sem heimalönd væru og líta á þau um leið sem sameiginlegt umráða- og eignarsvið. Þá hafa hreppsbúar haft eigi svo lítinn kostnað af rekstri afréttarlanda sinna og átt að öðru leyti margt erfiði við gæzlu þeirra á hverri tíð. Í þessum viðskiptum sínum í tímans rás hafa hreppsbúar tengzt órofa böndum við þessi stórbrotnu og notasælu lönd. Á síðustu áratugum hefur komið í ljós, að afréttir er talið unnt að rækta, ef vel er á haldið, jafnvel upp í 600–700 metra hæð. Er því ekki fráleitt að ætla, að þessi landssvæði geti orðið dýrmæt uppspretta í fóðuröflun, sem bændurnir einir geta staðið að og notfært sér og að sjálfsögðu allri þjóðinni til gagns. Mjög afgerandi dæmi um nauðsyn þess að skipa afrétt til ákveðins sveitarfélags eða sveitarfélaga er Holtamannaafrétt innan Rangárþings. Þar eru hreppar, sem telja sig eignaraðila að þessum landssvæðum. Á þessum slóðum eru svo sem alkunna er hafnar stórfelldar framkvæmdir til undir búnings stórvirkjunum við Sigöldu og Hrauneyjafossa. Þar hafa hundruð manna haft og munu hafa um áraskeið stöðuga atvinnu mikinn hluta árs eða allt árið jafnvel. Þegar svo til kemur, að virkjanirnar eru fullbúnar með öllum hinum tröllauknu mannvirkjum og tilheyrandi mannafla, verða þeir eigi allfáir, sem setjast þar að til langframa eða til fulls. Það er því sannarlega rík ástæða til þess að staðsetja svo mikilvægt landssvæði innan sveitarfélagamarka og eins og skylda sýnist í raun og veru til samkv. lögum, sem ég hef vitnað til.

Til þess að skýra betur tengsl sveitarfélags við þessa umræddu afrétt, Holtamannaafrétt, svo að eitt dæmi og það nærtækasta sé tekið, vil ég geta þessa:

Hinn 18. sept. 1917 var stórfellt tilboð gefið af hálfu oddvita hreppsnefndar Ásahrepps til h. f. Titan, erlends fyrirtækis, norsks, og enn fremur eftirfarandi afsal í sambandi við þetta tilboð, með leyfi forseta:

„Guðjón Jónsson, oddviti, Ási, f. h. hreppsnefndar Ásahrepps, gerir h. f. Titan það tilboð að selja því eignarhluta hreppsins, helming í Gljúfurleitarfossi í Þjórsá, ásamt rétti til þess að nytfæra sér á hvern hátt sem vera skal vatnsaflið í fossinum og ánni fyrir neðan fossinn og þúsund metra upp fyrir hann, eftir því sem félaginu kann að þykja hentugt, svo og með rétti til þess að gera í landi hreppsins þar umhverfis öll mannvirki, hverju nafni sem nefnast, sem félagið vill, og nota landið til þeirra, m. a. til áveitu og fráveitu vatnsins, vatnsgeymslustíflur, brautir, vegi o. s. frv., og taka byggingarefni úr landinu að vild. Þó skal félagið greiða hreppnum skaðabætur eftir dómkvaddra manna mati fyrir spjöll á graslendi, sem kynnu að vera gerð lengra frá ánni en 1 km.“

Þá kemur hér afsalið frá hreppsnefnd Ásahrepps frá 1918, 26. janúar:

„Hreppsnefnd Ásahrepps lýsir h. f. Titan réttan eiganda að eignarhluta hreppsins, helmings í Gljúfurleitarfossi í Þjórsá og allra þeirra réttinda, sem til eru tekin í framanrituðu tilboði að engu undanskildu, allt með þeim skilyrðum og skilmálum, sem um getur í tilboðinu.“

Þá kemur hér enn tilboð, sem hreppsnefndin í Ásahreppi gerir 1917, 18. sept., þ. e. sama dag og hitt tilboðið var gefið, og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það tilboð:

Hreppsnefndin í Ásahreppi gerir h. f. Titan tilboð um að selja því: 1. Allan rétt til vatns og vatnsafls í Köldukvísl. 2. Rétt til þess að stífla Þórisvatn og nota það sem vatnsgeymi. 3. Rétt til þess að veita Köldukvísl úr farvegi sínum, eftir því sem félagið vill. Hefur félagið heimild til þess að gera í sambandi við þessi réttindi öll mannvirki á afréttar og öðru landi hreppsins, hverju nafni sem nefnast, eftir því sem félagið telur sér hentugt, og nota landið til þeirra, m. a. til áveitu og fráveitu vatns, vatnsgeymslur, stíflur, brautir o. s. frv. og taka byggingarefni úr landinu eftir vild. Þó hefur hreppurinn [þ. e. Ásahreppur] rétt til veiða í Þórisvatni að svo miklu leyti sem ekki kemur í bága við ráðstafanir og hagsmuni félagsins h. f. Titan.“

Og síðan kemur afsalið á eftir þessu tilboði, sem h. f. Titan gekk að. Og það er á þessa lund: Hreppsnefnd Ásahrepps veitir h. f. Titan afsal í samræmi við framangreint tilboð, og hreppsnefnd Ásahrepps lýsir hér yfir, að hún selur og afsalar fyrrgreindu hlutafélagi til fullrar eignar öll réttindi þau, sem ræðir um í tilboðinu með nánari skilmálum, sem þar eru teknir fram.“

Sams konar viðskipta við hið erlenda félag má geta að því er varðar Landmannaafrétt, sem er afrétt næst fyrir austan Holtamannaafrétt. Á þeim slóðum voru gerð tilboð og afsöl af hálfu hreppsnefndar Landmannahrepps, og ég ætla, vegna þess að það tekur ekki svo mikinn tíma, að lesa upp þau tilboð og afsöl, með leyfi hæstv. forseta. Tilboð frá 2. júní 1916:

„Eyjólfur Guðmundsson, f. h. hreppsnefndar Landmannahrepps, gerir Einari Benediktssyni svofellt tilboð:

Gegn 6000 kr. skal selja nefndum herra Einari Benediktssyni vatnsafl og rétt til notkunar þess í Þjórsá fyrir Landmannahreppsafréttarlandi frá Tungnaárósi til Merkihvolslands og frá Galtalækjarlandi til Skarfaneslands.“

Þetta tilboð er gefið Einari Benediktssyni, og nokkru síðar samþykkir sýslunefndin af sinni hálfu, að þetta tilboð megi gera og síðan megi fylgja eftirfarandi afsal, og það er á þessa lund og dags. 14. febrúar 1919:

„Hreppsnefnd Landmannahrepps afsalar réttindum til h. f. Titan. Með því að fyrrv. sýslumaður, Einar Benediktsson, hefur með skjali frá 11. febr. 1917 framselt h. f. Titan öll réttindi sín samkv. framanrituðu kauptilboði, og með því að h. f. Titan hefur fyrir lok s.l. árs greitt Landmannahreppi eftirstöðvar kaupverðs, 4000 kr., þá lýsir undirrituð hreppsnefnd Landmannahrepps í Rangárvallasýslu hér með yfir því, að h. f. Titan er réttur eigandi allra réttinda þeirra, sem ræðir um í hinu framanritaða kauptilboði.“

Öll þessi kaup, sem ég hef lítillega vikið hér að, voru á sínum tíma, a. m. k. er ekki annað vitað, gerð með fullri vitund stjórnvalda og með aðstoð færustu lagamanna. En árið 1951 mun það hafa svo verið, að ríkissjóður leysir til sín þau réttindi, sem hrepparnir á sínum tíma seldu í hendur hinum erlenda aðila. Þá vil ég geta þess, að svipuð viðskipti um afréttir við erlenda aðila eða menn á vegum slíkra aðila átti t. d. Gnúpverjahreppur í Árnessýslu um vatnsréttindi að því er varðaði afrétt hreppsins. Af þessum fáu dæmum tel ég, að það megi ljóst vera, að tengsl viðkomandi sveitarfélaga við afréttir sínar hafa verið ærið traust og eigi að fundið af opinberri hálfu, að slík kaup væru gerð.

Í þessum mánuði, nóv., verður þingfest eignardómsmál, þar sem ríkisvaldið sjálft krefur til dóms alla þá, sem tilkall telja sig eiga til Holtamannaafréttar. Þetta er að sjálfsögðu gert til þess, að enginn vafi leiki á því, hver eigi beinan eignarrétt að þessari afrétt og samkv. því að sjálfsögðu munu dómar ganga um málið. En hvað sem hví líður, hvort þessir hreppar eigi þarna beinan eignarrétt eða aðeins afnotarétt, þá verður að minni hyggju að telja það fráleitt, að óvissa ríki um greiðsluskyldu þess fólks og þeirra framkvæmdaaðila, sem eiga atvinnustöðvar sínar á afréttum, greiðsluskyldu sína til viðkomandi sveitarfélags eða sveitarfélaga, þ. e. þess sveitarfélags, sem sá landshluti, afréttin, heyrir til. Auk þess er það svo bein skylda í lögum, eins og ég hef áður sagt og ítrekað, að hverju landssvæði skuli skipt til sveitarfélags. Um það er ekki að villast. En að því hefur ekki verið hugað fram á síðustu tíma, vegna þess að það voru ekki neinar sérstakar aðstæður fyrir hendi eins og þær í dag, þegar nú á að taka til að nýta þessi landssvæði með öðrum hætti en áður var. En vissulega hafa bændur viðkomandi sveitarfélaga, sem hafa talið sig eiga eignarheimild á þessum slóðum, hverju sinni nýtt sína aðstöðu eins og unnt hefur verið. Þessi landssvæði eru þannig nýtt enn þá af bændum viðkomandi sveitarfélaga, og mun það ekki síður verða í framtíðinni. Auk þess munu þar rísa fyrirtæki og hafðar uppi framkvæmdir, sem hafa mikilvæga þjóðfélagslega þýðingu sem uppspretta ljóss og hita fyrir íbúana víðs vegar í þessu landi. Auk þess munu þessi svæði ekki síður hafa þýðingu fyrir landbúnaðinn sem fóðuröflunarstöðvar auk annarrar öflunar verðmæta á landi og úr landi og úr vötnum. Ég tel það nokkurn veginn einsætt, að í nefndum lögum um tekjustofna sveitarfélaga sé nokkurn veginn nægileg stoð fyrir hendi þeim sveitarfélögum, sem afréttir hafa nýtt eða eiga með einum eða öðrum hætti, til þess að leggja á sveitargjöld og innheimta hjá fyrirtækjum og því fólki, sem á því landssvæði starfar. En til þess að koma í veg fyrir hugsanlegan ágreining, þá hefur mér þótt rétt að skerpa á tilheyrandi ákvæðum laganna að þessu leyti, og fyrir þá sök hef ég leyft mér að flytja þetta frv.

Ég ætla svo ekki í þetta sinn að hafa fleiri orð um frv., en leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni og til heilbr.- og félmn.