18.12.1971
Neðri deild: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft til athugunar þetta frv. til l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, og hefur n. haldið nokkra fundi og átt, eins og fram kemur í nál. okkar sjálfstæðismanna í n., viðræður við fulltrúa stjórnar Efnahagsstofnunarinnar, Seðlabanka Íslands, allra ríkisbankanna, Atvinnujöfnunarsjóðs, Framkvæmdasjóðs, Hagstofu Íslands og fjmrn. En í þeim viðtölum kom það fram, að við samningu þessa frv. hefur ekki verið haft samráð eða samstarf við þessa aðila sem slíka, og fulltrúar allra viðskiptabankanna lýstu yfir því, að til þeirra hefði á engan hátt verið leitað eftir upplýsingum eða eftir samstarfi um gerð þessa frv.

Hvað felst svo í þessu frv., sem hér liggur fyrir? Það felst það í því í stórum dráttum að sameina þrjár stofnanir undir eina stjórn, Framkvæmdasjóð Íslands, Atvinnujöfnunarsjóð og Efnahagsstofnun. Jafnframt gerir þetta frv. ráð fyrir að leggja niður eina stofnun, hagráð, sem sett var á stofn með lögum um Framkvæmdasjóð Íslands, Efnahagsstofnun og hagráð. Hlutverk hagráðs er, að fulltrúar stjórnvalda, atvinnuveganna og stéttasamtakanna komi saman til að hafa samráð um meginstefnu í efnahagsmálum og skiptast á skoðunum. Það er rétt að ræða almennt um verkefni þessara stofnana, eins og þau hafa verið og eru, og þær breytingar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Á það er lögð mikil áherzla í aths. við frv., að með þeirri nýju skipan, sem þar er gert ráð fyrir, sé stefnt að betri samræmingu og samstarfi aðila og stofnana en áður hefur verið. Sannleikurinn er þó sá, að stefnt er í gagnstæða átt að mörgu leyti. Í stjórn Efnahagsstofnunarinnar sitja nú fulltrúar frá Hagstofu Íslands, fjmrn., Seðlabanka Íslands og Framkvæmdasjóði. Þessi skipan á stjórn Efnahagsstofnunarinnar hefur tryggt náið samstarf þessara aðila í áætlana- og skýrslugerð, sem bæði Efnahagsstofnunin og þessir aðilar hafa unnið að. Í gegnum hagráð hefur Efnahagsstofnunin haft beint samband og samráð við fulltrúa atvinnuveganna. Þá hefur Efnahagsstofnunin átt fulltrúa í Rannsóknaráði ríkisins, skipað formann stjórnar Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og oddamann í yfirnefnd verðlagsráðs sjávarútvegsins.

Þegar frv. þetta, sem hér liggur fyrir, var lagt fram hér á Alþ., er ekkert gert ráð fyrir því, hvernig farið verði með þennan þátt mála. En á því hefur verið ráðin bót með því, að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar mun annast úrlausn þeirra verkefna, sem í öðrum lögum eru falin Efnahagsstofnuninni. En forstöðumaður hagrannsóknadeildar eða fulltrúi hans hefur með höndum starf oddamanns í yfirnefnd verðlagsráðs sjávarútvegsins.

Framkvæmdastofnunin er samkv. frv. þrjár deildir. Tvær þeirra eru nú innan sömu stofnunar, Efnahagsstofnunarinnar. Hin þriðja felur í sér sameiningu tveggja sjóða, Framkvæmdasjóðs og Atvinnujöfnunarsjóðs, sem staðið hafa í nánu sambandi við Efnahagsstofnunina og Seðlabankann með því móti, að Framkvæmdasjóður hefur átt fulltrúa í stjórn Efnahagsstofnunarinnar. Um aukið samband eða samvinnu verður því ekki að ræða með tilkomu þessarar nýju stofnunar. Á hinn bóginn er skorið á tengsl, sem nú eru bæði við Seðlabankann, Hagstofu, fjmrn., Rannsóknaráð og samtök atvinnugreina, hvað hagráð snertir. Ákvæði, sem frv. hefur að geyma, um samvinnu lánastofnana fela ekki annað í sér en það, sem þegar eru starfsvenjur þessara stofnana. Ákvæði 35. gr., sem miða að því að komast hjá tvíverknaði í upplýsingasöfnun, eru út í hött, þar sem hlutaðeigandi stofnanir gæta þess vandlega, að um tvíverknað sé ekki að ræða, og engin dæmi er að finna um slíkt.

Þá má loks benda á, að skipulag Framkvæmdastofnunarinnar hlýtur beinlínis að torvelda allt samstarf hennar við aðra aðila. Framkvæmdastofnunin er undir pólitískri stjórn þríggja manna, en ekki undir beinni stjórn ríkisstj. Hvernig eiga rn., sem lúta pólitískri stjórn ráðh., að vinna náið með stofnun, sem lýtur annarri pólitískri forustu? Með svipuðum hætti hafa samtök einstakra atvinnugreina haft náið samband við það rn., sem atvinnugreinin heyrir undir. Lög um Stjórnarráð Íslands gera beinlínis ráð fyrir því að auka verkefni atvinnumálaráðuneytanna með stofnun sérstakra rn. fyrir alla höfuðatvinnuvegi landsmanna, sjútvrn., landbrn. og iðnrn. Þar eru vaxandi verkefni unnin í nánu samstarfi við Efnahagsstofnunina og fjárlaga- og hagsýslustofnunina, hvað snertir gerð og undirbúning fjárlaga. Hvernig eiga þau samtök einnig að hafa náið samstarf í stofnun, sem lýtur annarri pólitískri forustu en rn:? Sannleikurinn er sá, að þess munu engin dæmi í nálægum löndum, að stofnanir, sem eiga að gegna jafn mikilvægu hlutverki og Framkvæmdastofnunin, lúti pólitískri forustu utan ríkisstj. Slíkar stofnanir eru alls staðar mannaðar embættismönnum og sérfræðingum og lúta pólitískri forustu ráðh. innan ríkisstj., sem er ábyrgur gagnvart þingi.

Fyrirmynd þessa frv., hvað stjórn og eðli snertir, er helzt að leita til hinna sáluðu stofnana, fjárhagsráðs, viðskiptaráðs og viðskiptanefnda. Allar þær stofnanir, sem fengust við hvers konar skömmtun á gjaldeyri, innflutningi og vörum á kreppu- og styrjaldartímum og allt fram til ársins 1960, lutu pólitískri forustu utan ríkisstj., enda olli starfsemi þeirra sífelldum árekstrum við ríkisstj. Átti þetta ekki sízt við um fjárhagsráð, er leiddi beinlínis til þess, að þáv. ríkisstj. skerti mjög valdsvið þess ráðs, einkum að því er snerti afskipti af opinherum framkvæmdum.

Rétt er að leggja á það sérstaka áherzlu, hversu óeðlilegt það er frá lýðræðislegu og þingræðislegu sjónarmiði, að pólitískir forustumenn eins og þeir, er þriggja manna framkvæmdaráðið eiga að skipa, skuli ekki vera ábyrgir gagnvart Alþ. og geta svarað fsp. á Alþ., eins og ráðh. geta gert, hvort sem þeir eru alþm. eða ekki. Þingræðislegt stjórnarfar gerir ráð fyrir embættismönnum, sem starfa undir forustu og á ábyrgð pólitískra ráðh., sem aftur á móti eru stjórnarfarslega og pólitískt ábyrgir gagnvart þingi. Það gerir hins vegar ekki ráð fyrir pólitískum kommissörum, sem eru ábyrgir gagnvart stjórnmálaflokkum. Þetta hefði maður haldið, að prófessor í stjórnlagafræði ætti að vera ljóst.

Í flestum löndum er ekki blandað saman eða sett undir eina og sömu stofnun vinna að áætlanagerð og það að hafa jafnframt ákvörðunarvald til framkvæmda. Taka ákvarðana og framkvæmd þeirra er í höndum rn., margvíslegra opinberra stofnana og lánastofnana. Áætlanir um þróun atvinnugreina eða um opinberar framkvæmdir fela í sér yfirlit og leiðbeiningar, sem taka einstakra ákvarðana er siðan byggð á eða miðuð við. Hvergi í nálægum löndum eru áætlanastofnanir eins konar yfirráðuneyti eða yfirstofnanir, sem hafa víðtækt vald til ákvarðana og framkvæmda. Hér er því lagt inn á allt aðra braut með þessu frv. en tíðkazt hefur hér á landi og í öðrum nálægum löndum.

Frv. og aths. þess benda þó til þess, að höfundar þess hafi ekki verið á einu máli um þetta, þar sem ýmist er talað um stofnunina sem venjulega áætlunarstofnun eða sem stofnun með miklu viðtækara valdi. Þetta vald er þó ekki vandlega skilgreint og ekki unnt að átta sig á, hvað felst í hugtaki eins og heildarstjórn fjárfestingarmála eða ákvæðum 3. mgr. 12. gr. frv. Er ætlunin, að stofnunin geti sagt sjóðum og bönkum fyrir um einstakar lánveitingar án tillits til ákvæða þeirra laga, sem um þessa sjóði og banka gilda? Það getur hver og einn gert sér í hugarlund, hvers konar glundroði mundi hljótast af beitingu slíks valds í alvöru, auk þess sem um gerræðislegt stjórnarfar væri að ræða, framkvæmt af pólitískri stjórn, sem þyrfti ekki að gera Alþ. reikningsskil fyrir sínum gerðum.

Eins og frv. var lagt fram fyrir Ed. Alþ., þá segir í 12. gr., 3. málsgr.: „Framkvæmdastofnunin getur sett almennar reglur um, hvers konar framkvæmdir skuli hafa forgang umfram aðrar. Skulu þá opinherir sjóðir og lánastofnanir haga lánveitingum í samræmi við það.“ Svo kemur til viðbótar: „Engri stofnun er þó skylt að veita lán, sem hún ekki telur eðlilega tryggð.“ Það þarf að marka það í lagasetningu að opinberum stofnunum sé ekki skylt að veita lán, sem þær ekki telji eðlilega tryggð. Ed. gerði á þessari málsgr. nokkra breyt. á þann veg, að þessi 3. málsgr. hljóðar svo, eins og hún kom frá Ed.: „Lánastofnanir og opinberir sjóðir veita Framkvæmdastofnuninni almennt yfirlit um lánveitingar til fjárfestingar og framkvæmda eftir nánari reglum, sem stjórn Framkvæmdastofnunarinnar setur. Stjórn stofnunarinnar getur að fengnu samþykki ríkisstj. sett almennar reglur um, hvers konar framkvæmdir skuli hafa forgang umfram aðrar. Skulu þá lánastofnanir og opinberir sjóðir haga lánveitingum í samræmi við það. Engri stofnun er þó skylt að veita lán, sem hún telur ekki eðlilega tryggð.“

Í brtt. meiri hl. fjhn. þessarar hv. d. við þessa grein frv. er enn hætt úr þessu með því að bæta inn í, þannig að á eftir orðunum „að fengnu samþykki ríkisstj.“, komi: og í samráði við banka og stærstu fjárfestingarsjóði. Þetta er mjög mikilvægt spor í rétta átt, þó að við sjálfstæðismenn villjum ganga lengra til að bæta um í þessari gr. Við viljum fella niður, að lánastofnanir og opinberir sjóðir skuli fá bein lagafyrirmæli um að haga lánveitingu í samræmi við það. Við teljum aftur sjálfsagt, að það sé haft samstarf og samráð á milli lánastofnana í landinu.

Á fundi í fjhn., þar sem mættir voru fulltrúar ríkisbankanna allra, spurði fulltrúi Landsbanka Íslands, hvað fælist í ákvæðum 12. gr. Hann sagði: „Ber að skilja þau ákvæði svo, að Framkvæmdastofnunin geti gefið bönkum og sjóðum fyrirmæli um tilteknar lánveitingar með þeim eina fyrirvara, að nægilegar tryggingar yrðu að vera fyrir hendi? Væri þessi skilningur lagður í 12. gr., bryti hún í bága við gildandi lög um Landsbankann og aðra banka og sjóði, og hlyti Landsbankinn að mótmælaslíkri lagasetningu.“ Þessi yfirlýsing var flutt í nafni bankastjórnarinnar allrar. Enginn undanskilinn af hankastjórninni, sagði þessi bankastjóri Landsbankans. Finnst hæstv. forsrh., sem leggur þetta frv. fram, það ekki vera alvarlegt mál, þegar öll bankastjórn eins aðalbanka þjóðarinnar mótmælir ákvæðum þessarar gr. frv. á þeirri forsendu, að frv. brjóti í bága við gildandi lög um Landsbankann og aðra banka og sjóði?

Frv. þetta fjallar að miklu leyti um áætlanagerð. Í aths. við frv. er talað um eflingu atvinnuveganna með skipulegum áætlunarvinnubrögðum og sagt, að stefnt sé að því, að íslenzkur þjóðarbúskapur þróist í framtíðinni með skipulegum hætti. í ræðu fulltrúa ríkisstj. og í greinum stuðningsblaða hennar hefur einnig mikið verið talað um áætlanir og áætlanagerð, sem eins konar allra meina bót. Í frv. sjálfu og aths. við það er þó hvergi að finna neina skilgreiningu á því, hvað áætlanagerð sé eða hvernig eigi að beita henni. Þó er hér síður en svo um einfalt mál að ræða, heldur óvenju flókið. Ekki virðist óeðlilegt að ætlast til þess, að þeir, sem allan vanda telja sig geta leyst á grundvelli áætlana og áætlanagerðar, geri skilmerkilega grein fyrir því, hvað í þessu felst.

Áætlanagerð var mjög rædd hér á landi á árunum 1930–1940 og eftir heimsstyrjöldina, eða á árunum 1945–1950. Þá beitti ríkisvaldið miklum afskiptum af starfsemi hagkerfisins til þess að laga það að nýjum og erfiðum aðstæðum eftir styrjöldina. Á hvorugu þessara tímabila var þó gerð alvarleg tilraun til áætlanageróar, enda má telja, að skortur á hagrænum upplýsingum og reyndum sérfræðingum hafi útilokað þetta með öllu. Á árunum 1950–1960 beindist athyglin hér á landi sífellt að aðkallandi efnahagsvandamálum, og voru ekki gerðar tilraunir til að vinna að áætlanagerð. Ríkisstj. Hermanns Jónassonar hafði að vísu ákveðið að hefja undirbúning áætlanagerðar og sett nefnd manna til að starfa að því verkefni árið 1958, en vegna vaxandi sundurþykkis innan ríkisstj. tók sú nefnd aldrei til starfa. Allt, sem unnið hefur verið að áætlanagerð hér á landi, hefur því verið unnið á síðasta áratug á valdatíma fyrrv. ríkisstj. Þetta starf var fólgið í gerð þjóðhags- og framkvæmdaáætlunar fyrir árin 1963–1966, en hún fór fram á árunum 1961–1962, gerð árlegra framkvæmda- og fjáröflunaráætlana fyrir opinberar framkvæmdir og fjárfestingarlánasjóði frá og með árinu 1963, gerð langtímaáætlunar um samgöngumál og menntamál á vegum Efnahagsstofnunarinnar og hlutaðeigandi rn., gerð byggðaáætlana fyrir Vestfirði, Norðurland og Austfirði og gerð athugana og áætlana um þróun einstakra atvinnugreina á vegum Efnahagsstofnunarinnar og hlutaðeigandi rn., einkum um þróun iðnaðarins í sambandi við inngöngu Íslands í EFTA. Jafnframt var reynt að gera sér sem gleggsta grein fyrir eðli áætlanagerðar, og hvernig unnt væri og skynsamlegt að beita áætlanagerð við íslenzkar aðstæður. Þetta kemur glöggt fram í I. kafla þjóðhags- og framkvæmdaáætlunar fyrir árin 1963–1966, og í skýrslu um framkvæmda- og fjáröflunaráætlun fyrir árið 1967 er gerð grein fyrir þróuninni á áætlunartímabilinu 1963–1966.

Á þeim rúmlega þremur árum, sem liðin eru, síðan þessar athuganir voru gerðar, hefur sífellt verið unnið að áætlanagerð í samræmi við þá stefnu, sem mörkuð var. Hinir miklu efnahagsörðugleikar áranna 1968 og 1969 drógu þó nokkuð úr þessu starfi, þar sem einbeita þurfti sér að bráðum aðgerðum til að sigrast á þeim erfiðleikum. Á þessu tímabili hefur verið lokið við gerð almennrar og yfirgripsmikillar samgönguáætlunar, er m.a. var undanfari hraðbrautagerðar. Haldið hefur verið áfram áætlanagerð á sviði menntamála, sem nú fer að mestu fram í menntmrn. sjálfu. Lokið hefur verið áætlun um þróun Háskóla Íslands. Lokið hefur verið áætlun um þróun iðnaðarins á næstu 10 árum á vegum iðnrn. og í samvinnu við Efnahagsstofnunina. Lokið hefur verið víðtækri upplýsingasöfnun og athugun, er miðaði að endurskoðun stefnunnar í landbúnaðarmálum. Gengið hefur verið frá Norðurlandsáætlun og samgönguáætlun fyrir Austfirði og starf hafið að nýju við Vestfjarðaáætlun. Þá hafa miklar framfarir átt sér stað í undirbúningi opinberra framkvæmda, eftir að lög um þetta efni höfðu verið sett. Síðast en ekki sízt hafa lánastofnanir, bæði sjóðir og bankar, tekið upp ný vinnubrögð við meðferð og undirbúning lánsumsókna, er fela í sér miklu víðtækari og nákvæmari áætlanagerð um rekstur fyrirtækja og undirbúning framkvæmda en áður tíðkaðist. Allt eru þetta einmitt þau atriði, sem mest áherzla hefur verið lögð á.

Á því leikur ekki vafi, að undanfarin 10 ár og ekki sízt s.l. 3 ár hafa orðið miklar framfarir í áætlanagerð hér á landi. Þær framfarir eru byggðar á traustum grunni, þar sem þær felast í því, að margir aðilar, bæði opinberir aðilar, lánastofnanir og fyrirtæki, hafa tekið að beita áætlanagerð. Jafnframt hafa rn. og Efnahagsstofnunin mótað áætlanir sem almennt yfirlit um stefnu og þróun, sem orðið hefur hlutaðeigandi stjórnvöldum, stofnunum, atvinnugreinum og fyrirtækjum leiðarvísir, án þess að þurft hafi til þess að beita gerræðisfullu valdboði.

Í 6. gr. þessa frv. um Framkvæmdastofnunina er kveðið á um verkefni hagrannsóknadeildar. Segir þar, að deildin annist gerð þjóðhagsreikninga og almennra þjóðhagsáætlana. Er þetta hið sama og er í 13. gr. núgildandi laga um Framkvæmdasjóð Íslands, Efnahagsstofnun og hagráð. Þá segir, að deildin annist hagfræðilegar athuganir fyrir ríkisstj., Seðlabankann og aðra opinbera aðila, eftir því sem um semst. Þetta er hliðstætt og segir í 13. gr., lið 7 í núgildandi lögum. Mismunurinn samanborið við núgildandi lög er hins vegar fólginn í tvennu: Í fyrsta lagi, að d-liður í 13. gr. núgildandi laga falli niður, þ.e. „að vera ríkisstj. til ráðuneytis í efnahagsmálum.“ Í öðru lagi er nú sagt, að deildin annist þær hagfræðilegu athuganir fyrir ríkisstj. er hún, ríkisstj., kann að óska eftir. Hér virðist vera um veigamiklar breytingar að ræða. Stofnunin er með þessu fjarlægð ríkisstj. Hún virðist ekki hafa skyldu til að vera til ráðuneytis í efnahagsmálum og á ekki að hafa frumkvæði að athugunum fyrir ríkisstj., heldur framkvæma þær aðeins, eftir því sem um er beðið. Ástæða virðist því vera til að spyrja, hvort ætlunin sé, að enginn aðili hafi með höndum reglulega þjónustu fyrir ríkisstj. á sviði efnahagsmála, þ.e. fylgist stöðugt með þróun þeirra og geri ábendingar og tillögur til ríkisstj. í þeim efnum. Slík þjónusta er alls staðar framkvæmd í nálægum löndum, yfirleitt af deildum í fjmrn. eða af sérstökum stofnunum.

Hér á landi var ljós þörf slíkrar þjónustu. Í fyrstu var reynt að leysa vandann með því að kalla til sérstaka sérfræðinga eða nefndir sérfræðinga, er störfuðu takmarkaðan tíma að athugunum og að tillögugerð. Þannig kvöddu báðar ríkisstj. Hermanns Jónassonar, bæði ríkisstj. 1934–1939 og sömuleiðis fyrri vinstri stjórnin á árunum 1956–1958, til erlenda sérfræðinga. Nefndir innlendra sérfræðinga eða einstakir sérfræðingar störfuðu fyrir allar ríkisstj. frá stríðslokum fram til ársins 1959. Ljóst var hins vegar, að æskilegra var að koma þessari starfsemi fyrir í föstu formi hjá ákveðinni stofnun, og var þetta gert, fyrst með tilkomu efnahagsmálarn., sem stofnað var 1959, og siðan Efnahagsstofnunarinnar á árinu 1962.

Nú virðist hins vegar eiga að stíga skref til baka og fella niður reglulega þjónustu af þessu tagi. Að sjálfsögðu mætti halda því fram, að hagrannsóknadeildin gæti eftir sem áður innt af hendi þessa þjónustu eftir ósk ríkisstj., enda þótt ekki væru um þetta bein lagafyrirmæli. Til þess að gera þetta er hagrannsóknadeildin hins vegar illa staðsett og miklu verr en Efnahagsstofnunin er nú. Hún á að vera hluti stofnunar, sem lýtur annarri stjórn en ríkisstj., þ.e. þrír pólitískir framkvæmdastjórar og þingkjörin stjórn. Um það nána og stöðuga samband við ríkisstj., sem er forsenda góðs ráðuneytis í efnahagsmálum,,getur því ekki verið að ræða.

Á þessu er nú gerð töluverð bragarbót, því nú er lagt til í till. meiri hl. fjhn. að breyta 6. gr. á þann veg, að hagrannsóknadeild heyri undir ríkisstj. Hins vegar flytjum við fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn. þá till., að hagrannsóknarstjóri heyri undir forsrh. Við teljum, að slík stofnun eigi að heyra undir forsrh. Forsrh. í stjórnkerfi okkar fer nánast sagt ekki með annað en forustu í ríkisstj., og við teljum, aðslík stofnun eins og hagrannsóknadeild sé betur komin, ef hún heyrir beint undir forsrh. heldur en undir ríkisstj. í heild, alveg eins og fjölda margar aðrar stofnanir heyra undir viðkomandi rn. Á þennan hátt viljum við gera forsrn. í raun og veru sterkara, láta þessa stofnun heyra undir það, og það er auðvitað hrein hugsanaskekkja hjá þeim, sem þetta frv. sömdu, og einnig hjá þeim, sem þetta frv. lögðu fram, að ætla að gera hagrannsóknadeildina háða eða undir stjórn, í fyrsta lagi þingkjörinnar stjórnar og í öðru lagi undir daglegri stjórn þriggja pólitískra kommissara.

En það fór aldrei svo, að hv. stjórnarsinnar tækju ekki á einhvern hátt sönsum í meðferð þessa máls, og ég verð að segja stjórnarsinnum í fjhn. það til hróss, að þeir voru mjög fúsir til að gera þessar breytingar og mér hefði ekki fundizt ólíklegt, að þeir hefðu viljað gera á þessu frv. enn meiri breytingar, að undanskildum einum manni, hv. frsm. meiri hl., sem talaði hér fyrstur við þessa umr., en hann virtist lengi vel vera skotheldur fyrir öllum rökum. En þó hefur hann látið tilleiðast að flytja þessa brtt., eftir að hafa flutt hér svona venjulega pólitíska skammarræðu um Sjálfstfl., en ég ætla ekki að fara ítarlega út í það.

Ég vil þó koma inn á það, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er sennilega flutt og eingöngu flutt, vegna þess að þessir þrír flokkar, sem nú standa að hæstv. ríkisstj., mynduðu þessa stjórn og gerðu sinn margumrædda málefnasamning. En um þetta atriði segir í hinu svo kallaða „Ólafskveri“, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. einsetur sér að efla undirstöðuatvinnuvegina á grundvelli áætlanagerðar undir forustu ríkisvaldsins. Koma skal á fót Framkvæmdastofnun ríkisins, sem hafi á hendi heildarstjórn fjárfestingarmála og frumkvæði í atvinnumálum. Stofnunin skal gera áætlanir til langs tíma um þróun þjóðarbúsins og framkvæmdaáætlanir til skemmri tíma, þar sem greindar eru þær fjárfestingarframkvæmdir, sem forgang skulu hafa. Stofnunin fari með stjórn Framkvæmdasjóðs ríkisins og annarra þeirra fjárfestingarsjóða, sem eðlilegt verður talið, að falli undir hana. Stofnunin skal hafa náið samstarf við aðila atvinnulífsins um það, hvað unnt sé að gera til að búa í haginn fyrir hverja atvinnugrein í því skyni að lækka rekstrarkostnað og gera m.a. mögulegt að bæta kjör starfsmanna, án þess að hækkun verðlags fylgi. Þær stofnanir og nefndir, sem fyrir eru og gegna skyldum verkefnum og þessi nýja stofnun, verði sameinaðar henni, eftir því sem ástæða þykir til. Í tengslum við Framkvæmdastofnun ríkisins skal starfa sjóður undir sérstakri stjórn, sem veiti fjárstuðning til þess að treysta sem bezt eðlilega þróun í byggð landsins. Eignir og tekjur Atvinnujöfnunarsjóðs gangi til þessa sjóðs og aðrar tekjur, eftir því sem ákveðið verður síðar.“

Á því leikur sjálfsagt ekki nokkur vafi, að þegar þessi málefnasamningur var saminn, var ætlun þeirra, sem þá voru að taka við völdum, að sameina alla fjárfestingarsjóði undir eina og sömu stjórn. Ég fagna því, að þau öfl hafa þó ráðið innan ríkisstj., að dregið var úr þessum hugmyndum, og enn þá eru ákveðnir fjárfestingarsjóðir sjálfstæðar stofnanir, sem gegna sínu mikilvæga hlutverki. Sá sjóðurinn, sem ég tel vera langstærstan og veigamestan og hefði sízt af öllu átt erindi inn í þetta bákn, er Fiskveiðasjóður Íslands, og ég fagna því, að frá því hefur verið horfið.

En hvaða breyting halda menn, að verði á áætlanagerð, þó að þetta frv. verði að lögum? Hvaða hagsýni felst í því að koma undir eina og sömu stofnun áætlanagerð og ákvörðunarvaldi í framkvæmdum? Ég sé það ekki.

Ég hef áður í ræðu minni gert að umræðuefni stjórn Efnahagsstofnunarinnar, sem er skipuð fulltrúum frá þeim stofnunum, sem með henni vinna, og er trygging fyrir samræmdum vinnubrögðum, sem skapað hafa sterk tengsl á milli þessara stofnana allra. Ég vil einnig minna á, hvernig stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands er skipuð, en samkv. 6. gr. laga um Framkvæmdasjóð segir, að stjórn Framkvæmdasjóðs sé í höndum sjö manna, kosinna með hlutfallskosningu á Alþ. til fjögurra ára í senn, og jafn margra til vara. Í störfum sínum skal stjórnin hafa samráð við Efnahagsstofnun, Seðlabanka Íslands og viðskiptabankana. Framkvæmdasjóðurinn heyrir undir fjmrh., sem ákveður þóknun stjórnar o.s.frv. Hlutverk Framkvæmdasjóðs samkv. lögum er að efla atvinnulíf og velmegun íslenzku þjóðarinnar. Framkvæmdasjóðurinn veitir annars vegar fé til þeirra fjárfestingarlánasjóða, er veita einstök lán til framkvæmda, og hins vegar til meiri háttar opinberra framkvæmda. Ég held, að fyrir þessum málum hafi með stofnun og tilveru Framkvæmdasjóðs Íslands verið séð á mjög sómasamlegan hátt og það hafi ekki verið nein knýjandi nauðsyn að leggja þennan sjóð niður eða sameina hann öðrum sjóðum.

Þá kem ég að seinni lánasjóðnum, sem á að leggja niður, sem er Atvinnujöfnunarsjóður, en í lögum um hlutverk hans segir:

„Hlutverk Atvinnujöfnunarsjóðs er að veita lán til framkvæmda í þeim landshlutum, þar sem brýn þörf er fjölbreyttara atvinnulífs og skilyrði fyrir hendi til arðbærra framkvæmda, er séu til þess fallnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og koma í veg fyrir, að einstök byggðarlög fari í auðn.“

Það er rétt um leið að athuga einnig, hvernig háttað er kjöri stjórnar þessa sjóðs, Atvinnujöfnunarsjóðs. Stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs skipa sjö menn, sem Alþ. kýs með hlutfallskosningu til fjögurra ára í senn.

Þá komum við að þeim stóra og veigamikla pósti: Hafa þessir sjóðir verið misbrúkaðir í pólitíska þágu? Menn sjá og heyra, að þar hefur stjórnarandstaðan átt aðild að í sambandi við stjórn þessara sjóða. Menn sjá líka og heyra, að það hefur verið náin samvinna og samstarf um áætlanagerð, svo langt sem það getur náð, og samræming á milli lánastofnana, en hvernig hefur svo framkvæmdin verið í reynd við stjórnun þessara tveggja sjóða? Ég veit ekki til, að það hafi verið neinn stórágreiningur í stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands, en mér er enn betur kunnugt um, hvernig stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs hefur hagað störfum sínum. Þar hefur ekki verið hafður neinn pólitískur erindreki til þess að búa lán þau, sem sótt er um til Atvinnujöfnunarsjóðs, fyrir stjórn hans. Það hafa verið hlutlausir starfsmenn, sem hafa unnið þau störf, lagt þau fyrir sameiginlega stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs, og ég held, að það megi treysta því, að ég fari hér með rétt mái. en það hefur aldrei orðið ágreiningur um eina einustu lánsumsókn eða afgreiðslu á einni einustu lánsumsókn úr Atvinnujöfnunarsjóði, því að stjórnin hefur alltaf náð samstarfi um allar afgreiðslur. Það mesta, sem þar hefur gerzt, er, að einn og einn stjórnarmaður hefur látið þetta afskiptalaust, setíð hjá, en það hefur aldrei orðið ágreiningur um eitt einasta mál, sem hefur komið til afgreiðslu í Atvinnujöfnunarsjóði.

Það er líka mjög eftirtektarvert, að í lögunum um Atvinnujöfnunarsjóð segir, að stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs taki ákvarðanir um lán og styrki úr sjóðnum. Og styrki má eigi veita, nema allir stjórnarmenn séu á einu máli um styrkveitinguna. Samþykki allra stjórnarmanna þarf einnig til eftirgjafar eldri lána eða breytinga á lánsskilmálum. Ætli hefði ekki mátt gjarnan taka tillit til þessara vinnubragða, þegar þetta frv., sem hér liggur fyrir, var samið, að koma á slíku öryggi, að um pólitíska misbrúkun væri ekki að ræða? Nei, það var ekki gert og mátti ekki á það líta, enda mátti ekki hafa samráð eða samstarf við einn einasta mann eða stofnun, sem þekkingu hefur. Það varð að vinna þetta mál með pólitískum gleraugum.

Þá kem ég að því, hvort mikill fjárhagslegur sparnaður verði af þessari breytingu. Á það hefur ekki verið minnzt hér, að von sé á því, og þess vegna finnst mér rétt að rifja upp og gefa nokkurt yfirlit yfir, hvað hefur kostað að reka þessar stofnanir, sem hafa annazt þessi verkefni, og þá kem ég fyrst að Efnahagsstofnuninni. Heildarkostnaður hennar var á árinu 1967 6 millj. 840 þús., Framkvæmdasjóðs á sama tíma, sama ár 3 millj. 660 þús., og Atvinnujöfnunarsjóðs 1 millj. 369 þús., eða samtals kostnaður við allar þessar stofnanir 11 millj. 869 þús. Á árinu 1968 var heildarkostnaðurinn við rekstur þessara stofnana 13 millj. 246 þús., á árinu 1969 var þessi kostnaður 14 millj. 117 þús., á árinu 1970 16 millj. 358 þús., og á árinu 1971, sem er áætluð tala, 18 millj. 814 þús. Allur rekstrarkostnaður er hér meðtalinn, þar með laun stjórnarmanna. Hins vegar skal ég geta þess, að rekstrarkostnaður Efnahagsstofnunarinnar er greiddur að 1/3 af ríkissjóði, 1/3 af Seðlabanka og 1/3 af Framkvæmdasjóði. Það er mjög eftirtektarvert, þegar við lítum á þessar tölur í sambandi við þennan kostnað, að það getur ekki verið nokkur ástæða til að gera þessa breytingu, vegna þess að hér hefur verið sýnd mikil gætni í að gera rekstur þessara stofnana ekki allt of dýran, og það er mjög athyglisvert í sambandi við rekstrarkostnað Atvinnujöfnunarsjóðs, sem Landsbankinn annast störf fyrir, að heildarkostnaður við Atvinnujöfnunarsjóðinn, að meðtöldum kostnaði við atvinnumálanefnd ríkisins og Norðurlandsáætlun, er aðeins 2 millj. 324 þús. kr., svo að það getur ekki verið þetta, sem gerir það að verkum, að nauðsynlegt sé að gera þessa breytingu.

Hitt finnst mér skipta höfuðmáli, hvernig stjórn og fyrirkomulag og fullkominn lýðræðislegur réttur hefur verið tryggður í þessum framkvæmdasjóðum, og berum það svo saman við þetta frv., sem hér liggur fyrir. Í sjálfu sér er ekki ágreiningur hjá okkur sjálfstæðismönnum um það, ef þetta frv. verður að lögum, að Alþ. kjósi stjórn þessarar stofnunar. Við teljum það eðlilegt og í fullu samræmi við þingræðislegar venjur, en hitt teljum við óeðlilegt, að það sé skipuð þar einhver yfirstjórn, pólitísk yfirstjórn, skipuð eftir tilnefningu þeirra flokka, sem að ríkisstj. standa, og það er furðulegt, að áður en frv. sá dagsins ljós, þá var farið að kvisast, hverjir ættu að vera hinir pólitísku kommissarar samkv. þessu frv., og þar finnst mér farið aftan að siðunum. Ef hæstv. forsrh. hefur ekki heyrt getið um neinn þeirra, þá skal ég ekki neita honum um það að koma hér aftur upp í pontuna og segja honum, hvaða nöfn ég hef heyrt nefnd frá því á s.l. sumri. Ég sleppi því núna í þessari umferð.

Sömuleiðis held ég, að við getum ekki lokað augunum fyrir því, að við erum allir um það sammála, að áætlanagerð er nauðsynleg, og það sýndi fyrrv. stjórn, að hún var reiðubúin að auka og efla áætlanagerð. En þegar við höfum tekið upp áætlanagerð og stofnanir eins og hagrannsóknastofnun, þá verðum við líka að viðurkenna, að það má ekki troða á þeim mönnum, sem mennta sig til starfa við slíkar stofnanir, þó breytingar verði á ríkisstj. í landinu. Ég álít, að hvaða ríkisstj. sem er verði að líta svo á starfsemi sérfræðinga, að þeir vinni hlutlaust að úrlausn þeirra verkefna, sem þeir eiga að vinna lögum samkv. og ríkisstj. á hverjum tíma felur þeim að vinna. En það hlýtur að vera lítillækkun í starfi, gert minna úr þeim störfum, þegar á að setja yfir þessa sérfræðinga þrjá pólitíska kommissara, sem eiga að stjórna störfum þeirra daglega. Það held ég, að fari ekki á milli mála, að það er langt gengið í þessu frv.

Eins og ég sagði áðan, þá tel ég eðlilegt, að þingkjörin stjórn fari með stjórn þessarar stofnunar, yfirstjórn hennar, en ég tel jafnframt eðlilegt, að deildarstjórarnir verði í raun og veru framkvæmdastjórar, hver fyrir sína deild, og hitt er svo aftur eðlilegt, að ríkisstj. sem ráðandi afl í þjóðfélaginu skipi forstjóra fyrir þessa stofnun, en honum til ráðuneytis verði deildarstjórarnir, sem undirbúi mál, sem eiga að leggjast fyrir yfirstjórnina. Á þessu er ekki nokkur vafi, og á því er heldur enginn vafi, að ef þm. almennt vildu fara eftir skoðunum sínum hér í sambandi við þetta mál, þá er þessi skoðun algerlega ofan á hér í sölum Alþ., og maður hefur heyrt það á ýmsum þm. úr stjórnarliðinu, að þeir telja óeðlilegt að lögfesta þessa þrjá kommissara, eins og um getur í 4. gr., en það eru einhver æðri öfl, sem hafa beygt þá til hlýðni við þessa gr., því að það hefur ekki alltaf dugað, þegar menn úr stjórnarliðinu hafa í fullri vinsemd viljað taka þetta til athugunar. En við erum andstæðir því að minnka valdsvið þeirra manna, sem eiga að stjórna eða eiga að vera framkvæmdastjórar eða forstöðumenn þessara deilda, á þann veg, að þeir ráði ekki daglegum störfum deilda sinna og hvaða starfsfólk þeir vilja fá til starfa.

Hv. 4. þm. Reykv. hóf mál sitt á því að tilkynna það, að mesti haftaflokkur á liðnum árum hafi verið Sjálfstfl. og Sjálfstfl. hefði gengið lengra en nokkur annar flokkur í höftum og að gera þá fátækari fátækari, og máli sínu til stuðnings nefndi hann tvær gengisfellingar á siðasta kjörtímabili. Ég sagði áðan, að þessi hv. þm. væri skotheldur fyrir öllum rökum. Ég held, að það sé alveg hárrétt. Hann veit og hver einasti maður, að gengisbreytingar eru ekki gerðar að gamni sínu. Hann veit líka, að fyrri gengisbreytingin var fyrst og fremst gerð vegna falls sterlingspundsins, og hann veit líka, að það varð stórfellt verðfall á svo að segja allri útflutningsframleiðslu okkar Íslendinga á þessum árum, og við blasti stöðvun allra framleiðslutækja í landinu, ef ekki yrðu gerðar ráðstafanir í efnahagsmálum til þess að tryggja hærra verð fyrir þær afurðir, vegna mikils framleiðslukostnaðar hér heima. En hv. 4. þm. Reykv. lærir ekkert og gleymir engu. Hann heldur því blákalt fram, að þetta hafi allt verið gert af eintómri illmennsku hjá fyrrv. stjórn, að lækka krónuna, bara í þeim tilgangi að gera þá fátæku fátækari. Þannig er nú hans andlega ástand enn þá, eða það hefur lítið breytzt frá því, að þessi hv. þm. var í stjórnarandstöðu.

Hann sagði: „Við viljum ekki hafa áhrif á hagrannsóknastofnunina“, en hann var allra manna verstur við að gera þessa skynsamlegu breytingu, að gera hagrannsóknastofnunina sjálfstæðari en var samkv. þessari frumvarpsómynd, eins og hún var fyrst lögð fyrir í Ed. Alþ. Hinir nm. úr stjórnarflokkunum sáu, að þetta gat engan veginn gengið. Þeir gengu til þessa samstarfs, og þá drattaðist hann til þess að vera með að lokum.

Sami ræðumaður sagði, að það væri skoðun sín, að ráðuneytisstjórar ættu ekki að vera í nefndum, þeir ættu að sinna því starfi að vera forstöðumenn ráðuneyta, og þetta hefði gengið allt of langt á liðnum árum, og þess vegna væri það ekki rétt, að forstöðumenn hinna ýmsu deilda væru í framkvæmdaráðinu, heldur einhverjir, sem fengju blessun þessara stjórnarflokka til þess að vera í því. Ég spyr: Hvernig stendur á því, að þessi mikli áhrifamaður í stjórnarherhúðunum nú, formaður þingflokks Framsfl., lætur þá halda þessu áfram, að skipa ráðuneytisstjóra í flestar veigamiklar og mjög vinnumiklar nefndir? Liggja nú ekki hér fyrir hv. Alþ. tvö frv., annað er frv. um tekjustofna sveitarfélaga, hitt frv. um tekjuskatt? Hverjir voru formenn í þeim nefndum, sem undirbjuggu þessi frv.? Í öðru tilfelli ráðuneytisstjórinn í félmrn. og í hinu tilfellinu ráðuneytisstjórinn í fjmrn. Það er ekki að sjá, að hann hafi hugmynd um, að hér hefur engin breyting á orðið, eða her að taka þetta svo, að þetta sé alveg marklaust hjal. sem frá honum kemur? Sami þm. sagði, að það þyrfti að íhuga betur stöðu og fyrirkomulag hagrannsóknadeildarinnar. Það sér nú hver, hvort það þurfi að íhuga betur. Við fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn. fórum fram á það allra vinsamlegast, bæði við hann og aðra nm. stjórnarflokkanna í n., að þeir ræddu það við ríkisstj. að fresta afgreiðslu þessa máls og freista þess að laga þetta frv. þannig, að þetta gæti orðið eftir allt saman hin sæmilegasta lagasmíð. Þeir lofuðu að taka það til athugunar, og ég skal segja það t.d. hv. 4. þm. Reykn., hæstv. forseta Nd., til lofs, að hann var mjög vinsamlegur í því að vilja fresta afgreiðslu málsins, þannig að málið fengi betri meðferð í Alþ. og það yrði ekki reynt að knýja það hér í gegn rétt fyrir jólin. En það kom til baka, að það væri ekki nokkur leið að bíða, þetta yrði að fara í gegn. Hv. 4. þm. Reykv. telur, að það þurfi að íhuga betur stöðu og fyrirkomulag hagrannsóknadeildarinnar, og það er gert með þeim hætti, að frv. verði afgr., eins og það liggur nú hér fyrir, og hann vill enga frekari breytingu á því gera. (Gripið fram í: Ætli kommissararnir séu komnir á laun?) Þeir eiga að koma á laun 1. janúar, segja þeir, sem gleggst vita. Þess vegna liggur á, þing kemur ekki saman aftur fyrr en seinna.

Mér þótti mjög ánægjulegt að heyra hjá hv. 4. þm. Reykv. tilvitnun í skoðanir og störf fyrrv. forsrh., Bjarna heitins Benediktssonar, í sambandi við lög um Stjórnarráð Íslands. Höfuðtilgangur laganna um Stjórnarráð Íslands var auðvitað sá, að ráðuneytum yrði fjölgað, sérstaklega yrðu stofnuð atvinnuráðuneyti fyrir allar höfuðatvinnugreinar þjóðarinnar, og jafnframt að gera starf ráðuneytanna meira og sterkara en áður var, þannig að undirbúningsvinna og séráætlanagerð gæti einmitt farið fram í þessum ráðuneytum. Það gladdi mig að heyra, að hv. 4. þm. Reykv. metur þau störf og þær skoðanir, sem Bjarni heitinn Benediktsson barðist fyrir, og ég vona, að hann geri það oftar með aldrinum og í fleiri málum og fari eftir þeim skoðunum.

Hvernig væri ástandið í bankakerfinu, ef við tækjum það upp, að þegar ríkisstjórnaskipti verða, þá yrðu í bankastjórnunum þrír nýir kommissarar, sem stjórnarflokkar á hverjum tíma veldu? Við höfum nú ýmislegt, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, sett út á bankakerfið og forustu í því, en þá fyrst held ég, að kastaði tólfunum, ef við færum út í slíka breytingu. Við skulum nú, af því að hv. 4. þm. Reykv. nefndi, hvað stjórnarandstöðu væri tryggður mikill réttur með þessu frv., benda aftur á þann ógurlega órétt, sem fyrrv. stjórnarandstöðu hefur verið sýndur í 12 ár af fyrrv. stjórnarflokkum. Við skulum í þessu sambandi benda sérstaklega á einn ríkisbanka, sem er með þrjá bankastjóra, Útvegsbankann. Þar hafa verið tveir bankastjórar öll þessi ár, sem báðir hafa verið andstæðingar fyrrv. ríkisstj. fyrrv. ríkisstj. var nú ekki verri en það, að hún vildi þar engu um breyta, vegna þess að skoðun hennar var, og það er skoðun okkar sjálfstæðismanna almennt, að við eigum ekki að gera bankakerfið og lánakerfið pólitískara en það er, og ég tel það mjög virðingarvert.

Eitt af því bezta, sem hefur verið gert í sambandi við stöðuveitingar, var það, þegar Bjarni heitinn Benediktsson beitti sér fyrir því, að jafnágætur og hæfur maður eins og Jónas Haralz var gerður að bankastjóra Landsbankans. Eftir þeirri venju, sem veri8 hefur, þá hefði Sjálfstfl. átt að fá að ráða því starfi, en Bjarni Benediktsson taldi, að það ætti að minnka hin pólitísku áhrif í lánastofnunum, og þess vegna taldi hann hyggilegt að fá góðan og vel hæfan mann til þess starfs, eins og Jónas Haralz er. Þessi maður er brautryðjandi í áætlanagerð. Hann var fyrsti forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar, hann var fyrsti trúnaðarmaður vinstri stjórnarinnar um mótun stefnunnar í efnahagsmálum. Ég hygg, að það hafi verið fyrir forgöngu hennar, að hann var beðinn um að koma heim til Íslands til starfa. Eigum við ekki í sambandi við alla áætlanagerð að vera svo þroskaðir í okkur, hvar sem við erum í stjórnmálum, að geta litið á slíkar stofnanir sem hlutlausar stofnanir, sem vinna að þeim verkefnum, sem þær eiga að vinna að lögum samkv. og fyrir þá ríkisstj., sem situr hverju sinni. Þessar stofnanir hafa ekkert að gera í sambandi við lánamálin. Þess vegna er óþarfi að sameina undir eina og sömu stjórn áætlanastofnanir og lánasjóði. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann, hvort hann geti ekki á það fallizt að gera nú eða mjög bráðlega hlé á máli sínu.) Jú, jú, alveg sjálfsagt.

Herra forseti. Ég ætla þá að víkja að þeim brtt., sem við fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn. flytjum við frv. Eins og fram kemur í nál. okkar, erum við andvígir þessu frv. og teljum réttast að fella það. Það er ekki af því, að við séum andvígir þeim verkefnum, sem þetta frv. fjallar um, heldur hinu, að við teljum, að það sé ekki til bóta að breyta löggjöfinni um Efnahagsstofnunina. Við teljum heldur ekki til bóta að breyta löggjöf um Framkvæmdasjóð Íslands eða um Atvinnujöfnunarsjóð. Hins vegar viljum við freista þess að gera á þessu frv. breytingar til hins betra með því að flytja hér nokkrar brtt., en nái engin okkar till. fram að ganga, þá víi ég lýsa því yfir fyrir hönd okkar fulltrúa Sjálfstfl. í fjhn., að við teljum þær till., sem meiri hl. fjhn. flytur, og sömuleiðis till. þær, sem hv. 7. þm. Reykv. flytur sérstaklega á sérstöku þskj., allar til bóta frá því sem frv. er nú. Við leggjum til, að 4. gr. orðist svo:

„Að fengnum tillögum stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar skipar ríkisstj. forstjóra stofnunarinnar, er hefur yfirumsjón með daglegum rekstri áætlunardeildar og lánadeildar hennar. Forstjórinn og forstöðumenn áætlunardeildar og lánadeildar mynda framkvæmdaráð. Stjórn Framkvæmdastofnunarinnar tekur ákvörðun fyrir hönd stofnunarinnar um launakjör forstjóra, forstöðumanna deilda og annarra starfsmanna.“

Í raun og veru hef ég skýrt þetta sjónarmið í ræðu minni, svo að ég þarf ekki að fara um það fleiri orðum. Í sambandi við 6. gr. flytjum við brtt., sem gengur að okkar dómi lengra en brtt. meiri hl. fjhn. að því leyti, að við teljum, að forstöðumaður hagrannsóknadeildar skuli heyra beint undir forsrh., en ekki undir ríkisstj. eins og meiri hl. fjhn. leggur til í sinni brtt. Í raun og veru höfum við orðið sammála um 6. gr. eða um hagrannsóknadeildina, og ég tel þá breytingu langveigamestu breytinguna á frv. hér í Nd. og vera mjög til bóta frá því, sem upprunalega var, því að eins og ég sagði hér áðan, þá á hagrannsóknadeildin að vera sjálfstæð deild, forstöðumaður þeirrar deildar á ekki að heyra undir neina pólitíska stjórn eða pólitíska aðila, en auðvitað á deildin tvímælalaust að heyra undir forsrh. eða forsrn.

Þá komum við að brtt. við 10. gr. Við leggjum til, að 2. málsgr. hennar orðist svo:

„Við gerð atvinnumálaáætlana skal stofnunin leita umsagnar aðila vinnumarkaðarins og þeirra ráðuneyta, sem fara með málefni atvinnuveganna. Einnig skal hafa samráð við samtök og stofnanir atvinnuveganna, og er heimilt að fela þessum aðilum einstaka þætti áætlunargerðarinnar.“

Þessi till. okkar við 10. gr. er nokkru fyllri og ákveðnari en till. meiri hl. fjhn. að því leyti til, að það má fela einstökum aðilum einstaka þætti áætlunargerðarinnar. Það er ákveðnara orðalag en í till. meiri hl. fjhn.

Fjórða brtt. okkar er nánari skilgreining á 11. gr., það verður ný gr., — á verksviði forstöðumanns áætlunardeildar. Gr. orðist svo:

„Forstöðumaður áætlunardeildar annast daglega stjórn deildarinnar undir yfirumsjón forstjóra. Hann undirbýr fjárhagsáætlun deildarinnar og fylgist með framkvæmd hennar. Hann gerir tillögur til framkvæmdaráðs um ráðningu starfsfólks. Hann sér um, að þær áætlanir séu undirbúnar, sem ákveðið hefur verið að gera samkv. 3. og 5. gr. og III. kafla, og sér um, að fylgzt sé með framkvæmd þeirra áætlana, sem samþykktar hafa verið.“

Ég tel mjög nauðsynlegt og í raun og veru mjög brýnt að setja slíkt valdsvið og verksvið inn í frv., eins og við leggjum til, að gert verði, og síðar aftur hér það sama um framkvæmdastjóra hinnar deildarinnar, lánadeildarinnar. Og þessar tillögur fjalla í raun og veru um sama efni.

Sjötta till. okkar er við 13. gr. Á eftir orðunum „nýrrar fjármögnunar“ komi: „Skulu þær athuganir lagðar fyrir stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins.“ Við teljum rétt að hafa það í lagagr., að skylt sé að leggja þær athuganir fyrir stjórn Framkvæmdastofnunarinnar.

Þá leggjum við til að 1. mgr. 16. gr. falli niður.

Við 26. gr. í frv. leggjum við til, að í stað orðsins „Byggðasjóður“ í gr. og hvarvetna annars staðar í frv. komi: „Byggðajafnvægissjóður.“ Hlutverk þessa Byggðasjóðs, eins og segir í frv., er mjög áþekkt hlutverki Atvinnujöfnunarsjóðs, enda á hann að taka við stofnfé Atvinnujöfnunarsjóðs og því hlutverki „að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum“, eins og segir í 29. gr., og við teljum því réttara, að nafn þessa sjóðs verði Byggðajafnvægissjóður, en ekki Byggðasjóður.

Þá flytjum við till., sem hv. 4. þm. Reykv. mælti einnig að nokkru leyti fyrir í ræðu sinni, við 28. gr. 2. tölul. hennar orðist þannig:

„Framlag úr ríkissjóði skal vera 2% af árlegum tekjum ríkissjóðs samkv. ríkisreikningi, í fyrsta sinn af tekjum ársins 1972, sem greiðist sjóðnum í byrjun hvers mánaðar, af innheimtum tekjum næsta mánaðar á undan, í fyrsta sinn í byrjun febrúarmánaðar 1972.“

Það er rétt hjá hv. 4. þm. Reykv., að orðalag þessarar till. er úr frv., sem nokkrir hv. framsóknarmenn hafa flutt á undanförnum þingum og hefur 1. flm. þessa máls verið hv. 1. þm. Norðurl. e., Gísli Guðmundsson, en meðal annarra flm. þessa máls, sem enn eiga sæti á Alþ., eru hv. 5. þm. Austf., Vilhjálmur Hjálmarsson, hv. 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldsson, og hv. 3. þm. Vesturl., hæstv. fjmrh. Halldór Sigurðsson.

Hvað sem hv. 4. þm. Reykv. segir eða kann að segja um áhuga og gerðir okkar sjálfstæðismanna í sambandi við málefni strjálbýlisins, þá verður því ekki á móti mælt, að margir af þm. Sjálfstfl. eru komnir úr hinu svo kallaða strjálbýli, eiga þar rætur, eru búsettir þar, og það getur hver og einn spurt sjálfan sig að því, hvort þeir menn hafi ekki áhuga fyrir málefnum strjálbýlisins, fyrir uppbyggingu þeirra byggðarlaga, sem þeir eiga djúpar rætur í og búa og hafa starfað í. Flestir hverjir af þessum mönnum hafa starfað þar allt sitt líf.

Ég ætla ekki að fara í meting við þennan hv. þm. um það, hvort mikið eða lítið hefur verið gert á undanförnum árum fyrir strjálbýlið. Hitt skal ég fúslega viðurkenna, að margt er ógert í málefnum strjálbýlisins, en ég ætla líka að segja það, að margt hefur verið þar vel gert, og á síðustu árum hafa verið unnin stórátök við uppbyggingu í menningar- og félagsmálum, samgöngumálum og atvinnumálum strjálbýlisins, og þar hefur ýmis góð aðstoð komið frá því opinbera. Hitt vitum við einnig, að þótt þessi ríkisstj., sem nú situr að völdum, verði jafnvel lengi við völd, þá verður einnig að þeim tíma loknum hægt að telja upp fjölmörg atriði, sem þarf að gera í strjálbýlinu, alveg eins og það má einnig nefna fjölmörg atriði, sem eru ógerð í þéttbýli, meira að segja hér á höfuðborgarsvæðinu.

Ég tel, að með lögum um Atvinnujöfnunarsjóð hafi framlag til strjálbýlisins hækkað mjög verulega með þeirri hlutdeild, sem Atvinnujöfnunarsjóðurinn fékk í skattgjaldi álbræðslunnar í Straumsvík og við yfirtöku gamla Atvinnubótasjóðsins og þeirra lána, sem hann hafði lánað, og vaxtatekjur af þeim lánum runnu til Atvinnujöfnunarsjóðs. Jafnhliða því var ákveðið með lögum um Atvinnujöfnunarsjóð framlag úr ríkissjóði á tilteknu árabili, að upphæð 150 millj. kr. Frá því að þessi lög voru sett, hefur orðið, eins og allir hv. þm. vita, allmikil breyting á verðgildi peninga, svo að það var kominn tími til að fara að endurskoða þessar fjárhæðir til Atvinnujöfnunarsjóðs. Nú hefur hæstv. ríkisstj. gert það með því að hækka framlag í væntanlegan Byggðasjóð á fjárlögum, sem koma til endanlegrar afgreiðslu hér á mánudaginn, þannig að framlag ríkisins hefur hækkað um 85 millj. kr. En þegar haft er í huga, að heldur megi búast við, a.m.k. nú um hríð, lækkun á tekjum af álbræðslunni vegna samdráttar nú og sölutregðu á framleiðslu hennar, þá var auðvitað þörf á því að auka þetta framlag til Byggðasjóðsins, svo að það kom engum á óvart, að þessi tillaga kemur fram.

En þá verður mér hugsað til baráttumáls hv. þm. Framsfl., að stórauka þessi framlög, sem þeir hafa sýnt lofsverðan áhuga fyrir með því að flytja þetta frv., og þeir hafa ekki gefizt upp við að flytja það einu sinni, ég held, að hv. 4. þm. Reykv. segði, að þeir væru búnir að flytja þetta sjö sinnum, svo að segja má, að það sé heldur úthald í körlum. En nú er sú stóra stund runnin upp, að nú hafa þeir áhrif. Nú eru þeir komnir í stjórn eftir að vera búnir að berjast sjö þing í röð fyrir þessu hugsjónamáli sínu, sem er um leið æskuhugsjón allra þessara manna. Mér finnst hart, að formaður þingflokksins, hv. 4. þm. Reykv., skuli jafnvel boða það, þótt hann geri það ekki beint, heldur óbeint, að þessir skeleggu og ágætu baráttumenn strjálbýlisins væru að heykjast á því að fylgja æskuhugsjóninni eftir, þegar þeir sjá, að úr er að rætast. Ég hélt, að við sjálfstæðismenn og það sér í lagi strjálbýlismenn í Sjálfstfl. fengjum ekki svo kaldar kveðjur frá formanni þingflokks Framsfl., að hann vilji ekki hundsnýta atkvæði okkar til að koma baráttumáli framsóknarmanna og strjálbýlismanna öruggu í höfn.

Ég skal segja hv. 4. þm. Reykv., formanni þingflokks Framsfl., frá því, að ég er alveg staðráðinn í því, þegar þessi till. kemur til atkv., að biðja um nafnakall, því að það er bezt að hafa það svart á hvítu, hvernig menn bregðast við æskuhugsjónum, þegar þær eru að verða að veruleika.

Ég skal svo ekki orðlengja mikið meira um þetta frv. og þetta mái. sem hér liggur fyrir. Ég hygg, að sumum þyki ég hafa verið nokkuð langorður. En ég víl þó, áður en ég lýk máli mínu, koma inn á það, að með þessu nýja stjórnarfyrirkomulagi, með því að efla pólitískt vald yfir lánastofnunum og láta lánaumsóknir fara í gegnum pólitískar hendur þriggja manna, þá er verið að stiga skref aftur á bak. Þá er verið að hverfa til 40 ára gamallar, úreltrar pólitíkur, sem Framsfl. hefur verið sérstaklega hugleikin, en þó ekki öllum framsóknarmönnum, heldur aðeins þeim, sem hafa ekkert lært á þessum tíma, sem liðinn er. Hinir, sem hafa fylgzt með tímanum og hafa skilið rás tímans, — tímans með litlum staf, — skilja, að hér er ekki farið inn á rétta braut með þessu frv. Þess vegna hefði verið hyggilegra fyrir hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar, fyrst þeir höfðu áhuga á að leggja fram frv. um þetta mál, að setja þá þessa löggjöf með sæmilegum friði hér á Alþ., af því að hér er um málefni að ræða, sem allir eru sammála um í raun og veru. Hins vegar liggur ágreiningurinn í því, að við teljum ekki rétt að breyta frá gildandi löggjöf.

Hitt kemur líka inn í þetta mál, sem við setjum út á, að það á að leggja niður hagráð. Það er sagt, að hagráð hafi ekki verið mikil stofnun og hafi ekki haft miklu hlutverki að gegna. Við skulum segja, að svo sé, en því verður ekki á móti mælt, að aðilar atvinnuveganna, stjórnmálaflokkarnir á Alþ. og ríkisstj. og efnahagssérfræðingar hennar mynda þetta hagráð. Þar var skiptzt á skoðunum um heildarstefnu í fjármálum þjóðarinnar. Þar fengu menn tækifæri til þess að gera aths. Og Efnahagsstofnunin hefur gefið út mjög athyglisverðar og fróðlegar skýrslur til hagráðs, sem við höfum allir átt kost á að eignast og lesa og haft gagn af. Og ég tel, að flokkar, sem segja, að þeir vilji auka tengsl við launþegana í landinu, auka tengsl við atvinnuvegina, eigi þá ekki við fyrsta tækifæri að skera á þau einu tengsl, sem þessar stofnanir eiga við fulltrúa vinnumarkaðarins og atvinnuveganna, með því að leggja þessa stofnun niður, sem þó hefur ekki kostað meira en raun ber vitni.

Fyrir síðustu kosningar héldu fulltrúar nýrra stjórnmálasamtaka í landinu, sem þá buðu fram í fyrsta skipti, því mjög að mönnum, að gömlu flokkarnir væru orðnir mjög leiðinlegir og það gerðist eiginlega ekkert nýtt. Þeir héldu allir í það gamla og úrelta, og nú þyrfti fólkið í landinu að velja spánnýja menn, sem væru tilbúnir til stórra breytinga í þjóðfélaginu, hverfa frá þessu úrelta flokkakerfi og flokksvaldi. Hér á ég við flokk frjálslyndra og vinstri manna. Fulltrúar hans héldu þessu mjög ákaft fram fyrir síðustu kosningar. Ég er persónulega sannfærður um það, að þeir eiga í og með og kannske einna helzt þessum áróðri sínum það að þakka, að þeir náðu jafngóðum árangri í síðustu kosningum. En nú eru þeir komnir í ríkisstj., og nú geta þeir ráðið alveg um það, hvort það á að viðhalda þessu gamla og úrelta kerfi, og m.a.s. hvort þeir vilja fara 35–40 ár aftur í tímann, að koma á flokksræði við úthlutun og undirbúning að úthlutun lána eða ekki. Nú reynir á þá, sem voru frjálslyndir fyrir kosningar, hvort þeir verða einnig frjálslyndir við afgreiðslu þessa máls hér á hv. Alþ. Nú ríður á að vita, hvort þessi flokkur ætlar að láta gömlu Framsókn teygja sig 40 ár aftur í tímann til úreltra stjórnarhátta, sem þjóðin er fyrir löngu búin að fá leiða á.

Alþb. hefur mjög höfðað til stuðnings æskufólksins í landinu, sagt, að æskan fylgi því. Æskan vill alls ekki ganga inn á úrelt stjórnskipulag og álræði flokkskerfisins. Nú reynir einnig á fulltrúa Alþb., hvort þeir ætla að láta maddömuna teyma sig einnig 40 ár aftur í tímann eða ekki.

Við þurfum á að halda sérfræðingum á sviði efnahagsmála, áætlanagerða og hagrannsókna. Um það deilum við ekki. Það er kominn þegar mjög álitlegur hópur manna, sem að þessum mikilvægu störfum vinna. Það er stórt og mikið spor í rétta átt, að slíkir starfskraftar séu hér heima í landinu og við þurfum ekki að sækja erlenda sérfræðinga í allt, sem þarf að vinna fyrir þjóðfélagið. En við megum ekki heldur segja við þessa menn, að þeir séu ekki nothæfir nema með því að setja yfir þá pólitíska fulltrúa, sem eiga að stjórna daglegum störfum þeirra. Ég hygg að fyrir flestum mönnum mundi fara á þann veg, að þeir teldu það fullmikla afskiptasemi af pólitísku valdi að setja slíkt yfir þá. Það væri fróðlegt að heyra skoðun hæstv. forsrh. á því, ef flutt væri frv. um það að setja þrjá pólitíska fulltrúa yfir Háskólann, sem deildir hans þyrftu að spyrja daglega, hvað skyldi gera í dag og hvernig ætti að haga sér. Ég er hræddur um, að þeir, sem „akademísku“ frelsi unna, mundu segja eitthvað og syngja allhátt í þeim. Ætli það sé ekki svipað með þá, sem þurfa að sækja um lán til atvinnuvega og atvinnuframkvæmda, að þeir vilja heldur snúa sér að hlutlausum embættismanni en að koma skríðandi fyrir pólitíska kommissara og biðja um náð og miskunn til að geta haldið fyrirtæki sínu eða atvinnu gangandi.

Um hitt deilum við ekki, eins og ég sagði hér áðan, að í þingræðislandi teljum við eðlilegt, að yfirstjórn sé kjörin af Alþ. En yfirstjórn, sem kjörin er af Alþ., tryggir það, að stjórn og stjórnarandstaða fylgjast það vel hvor með annarri, að það verður ekki neitt ranglæti, eins og oft þekktist hér á árum áður, þegar fólk bjó við fátækt og umkomuleysi.

Við eigum ekki, í þjóðfélagi, sem stefnir fram á við, sem stefnir til frjálslyndara og betra lífs fyrir alla þegna sína, að stíga jafnsorglegt skref aftur á bak og á að stíga með þessu frv., hvað þetta snertir.