10.11.1971
Efri deild: 11. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (3180)

62. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Breyting sú á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem hér um ræðir, heimilar húsnæðismálastjórn að verja allt að 50 millj. kr. árlega til lánveitinga vegna endurbóta á eigin húsnæði öryrkja. Lánsumsókn skuli fylgja meðmæli viðkomandi sveitarstjórnar, og lánin mega nema allt að 300 þús. kr. og skulu veitt með venjulegum kjörum húsnæðismálastjórnar.

Ekki er vafi á því, að á norðurslóðum er viðunandi húsnæði hin brýnasta lífsnauðsyn, og því verður ekki neitað, að á undanförnum áratugum hefur orðið hrein bylting í þessu landi, þar sem við höfum horfið frá að vera ein verst setta þjóð í Evrópu í þessu efni og getum nú staðið hverjum sem er á sporði. Við höfum á þessum áratugum gjarnan aðstoðað fólk við að tryggja sitt eigið húsnæði, og þetta hefur að sjálfsögðu haft þær mikilvægu afleiðingar, að svo er nú komið eins og ég lýsti áðan. Það eru ekki svo fáir möguleikar, sem þeir, sem ætla að byggja yfir sig, hafa til þess að fá aðstoð til þess. Í fyrsta lagi hin almennu lán Húsnæðismálastofnunar ríkisins. Í öðru lagi lífeyrissjóðirnir, sem hjálpa um það bil þriðjungi þeirra, sem byggja íbúðir. Svo eru sjóðir eins og Byggingarsjóður verkamanna og láglaunamanna, sem er viðbót við húsnæðismálastofnunarlánið, viðbótin til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, skylduspannaður inn fyrir unga fólkið og lán til bygginga á leiguhúsnæði, sem er tiltölulega nýtt ákvæði og hefur komið að miklu liði, og nú loks síðast lán til kaupa á gömlu húsnæði. Allt þetta hefur átt sinn mikla þátt í því að stuðla að þeirri miklu umbót á húsnæði landsmanna, sem orðið hefur á undanförnum áratugum.

Þegar við aftur á móti komum að því að hjálpa fólki til þess að endurbæta sínar íbúðir og halda þeim við, þá er annað uppi á teningnum. Hverjir eru það nú helzt, sem eru eftir í þessu efni? Að mínu viti er langstærsti hópurinn fólk með skerta starfshæfni af einhverjum ástæðum, þar af leiðandi láglaunafólk og yfirleitt þeir, sem efnalitlir eru, og ég tel, að höfuðástæðan þar sé á einhvern hátt skert starfshæfni. Þetta fólk fær nokkra hjálp frá veðdeild Landsbankans, en sú hjálp er bæði ófullkomin og dýr, lánin til stutts tíma. Aðrar lánastofnanir veita að sjálfsögðu einhver lán til viðbótar, en það er tilviljanakennt og einstaklingsbundið og má varla segja, að um neina heildarlausn á þessu sé að ræða. Hvað vinnst þá við það að gera fólkinu auðveldara að endurbæta sitt húsnæði? Ég held, að það sé augljóst, að við getum breytt fjöldamörgum heilsuspillandi íbúðum í viðunandi húsnæði. Í öðru lagi getum við sparað byggingar á nýjum íbúðum og með því sparað fjármagn. Það er nokkurn veginn öruggt, að ef þessir möguleikar, sem ég ræði í þessari brtt., ef þeir væru fyrir hendi, þá mundi fjöldi íbúða endast lengur, breytast úr slæmum í góðar íbúðir, og enn fremur er það nokkuð víst, að þetta mundi bæta heilsu fólksins í landinu, því að þótt ekki sé um stóran hóp hér að ræða, þá er þetta ein mesta hætta fyrir heilsufar manna á Íslandi, þ. e. að búa í lélegu húsnæði. Að sjálfsögðu þarf hér reglugerð til, þar sem kveðið yrði á um það mat á örorku, sem þyrfti að vera til þess að öðlast slík hlunnindi. Það þyrfti að kveða á um mat á verðmæti íbúðanna og það þyrfti að kveða á um það, í hverju tilfelli, hvort íbúðirnar yrðu af endurbótinni virkilega viðunandi húsnæði. En ég lít svo á, að þessi viðbót við húsnæðismálastjórnarlögin væri verulegt átak í þá átt að útrýma lélegu húsnæði í landinu.

Herra forseti, ég legg til, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.