03.12.1971
Efri deild: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (3200)

93. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég hef á þskj. 106 flutt frv. til l. um breyting á lögum nr. 30 12. maí 1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Frv. er aðeins tvær greinar, og skal ég í stuttu máli gera efni þeirra skil.

Húsnæðismálin eru, eins og öllum er kunnugt, mjög mikilvægur þáttur í lífi hverrar fjölskyldu og því ekki óeðlilegt, að fram komi á Alþ. oft till. um úrbætur í því efni, og að því miðar þetta frv. m. a. Þetta eru minni háttar breytingar, en skipta þó vissan hóp manna allmiklu máli, í sumum tilfellum verulegu máli.

1. gr. frv. stefnir að því að tryggja eldri hjónum íbúðarlán til kaupa á minni íbúð, ef þau vilja skipta um, en eins og allir vita, er gangur mála þannig í fjölskyldulífi flestra manna, að þeir byrja með litlar íbúðir, síðan er þörf fyrir stærri íbúð, þegar börnin koma, og svo seinast á aldursskeiðinu er eðlilegt, að þau hafi möguleika að skipta um og fá sér nýja íbúð. Því miður hefur húsnæðismálastjórn ekki talið sér skylt að veita fyrirgreiðslu, þegar um minnkun er að ræða, og það hefur gengið erfiðlega að fá slíkt í gegn. Frvgr. stefnir að því að taka af öll tvímæli í þessu efni, hafa það á hreinu. En jafnframt er henni ætlað að tryggja það, að ekkill og ekkja geti fengið íbúðarlán til kaupa á íbúð, ef kringumstæður viðkomandi hafa breytzt við fráfall maka og íbúð dánarbúsins verður af þeim sökum seld. Í lögum eða reglugerð um lánveitingar húsnæðismálastjórnar eru engin ákvæði, er tryggja jákvæða meðferð slíkra hluta. Það er skoðun mín, að rétt sé að reyna að bæta úr þessu og hafa allt á hreinu, eins og ég sagði áðan.

Í 2. gr. frv. segir, að tryggja skuli öllum þeim, er íbúðir eignast í hinu nýja verkamannabústaðakerfi, hlutfallslega jafnhá lán úr Byggingarsjóði ríkisins og verkamannasjóðnum. Þetta er ekki svona í dag. Byggingarsjóður verkamanna skal hins vegar brúa ákveðið bil byggingarkostnaðar íbúðar. Þetta verður til þess, að lán úr Byggingarsjóði verkamanna til smíði minnstu íbúðanna verður afar lágt, auðvitað hlutfallslega miklu minna en sjóðurinn veitir til smíði á stærri íbúðum, þegar það er bundið við ákveðið hlutfall. Ég tel, að íbúðaeigendur eigi að fá jafnhátt hlutfall úr báðum sjóðunum. Það er eðlilegt vegna þess, að við sölu á íbúðum úr Byggingarsjóði verkamanna eru ákveðnar kvaðir, sem gera endursölu miklu erfiðari. Það er því eðlilegt að breyta þessu í það form, sem frvgr. gerir ráð fyrir.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því, að ég tel óeðlilegt það ákvæði, að í lögum skuli alltaf standa 1/3% í svo kallaðan lántökukostnað eða rekstrarkostnað, og legg ég því til, að það sé aðeins 2%, föst tala alltaf. Ég vek athygli á því, að ef maður tekur lán í dag, eða 1970, þá er hann látinn greiða þessa vaxtaprósentu, 1/3%, til ársins 2012. Ég vil fella þetta út og láta standa aðeins 2% ákveðið. Í þessu sambandi má benda á, að fyrirkomulag þetta er einnig á íbúðarlánum þeim, sem veitt eru úr Byggingarsjóði ríkisins, nema þar eru vextirnir 1/4%, sem ætlaðir eru til greiðslu kostnaðar af hálfu veðdeildar Landsbankans vegna rekstrar Byggingarsjóðs ríkisins. Auðvitað kostar þetta allt eitthvað, en þetta form er næsta hæpið að mínu mati.

Ég hef sett hér fram með frv. ljós dæmi um, hvað vakir fyrir mér í sambandi við skiptingu lána úr þessum sjóðum, og þarf ég ekki að rekja það nánar. Það er öllum ljóst, sem vilja leggja vinnu í að lesa það, og ég tel óþarfa að hafa þessa framsögu lengri fyrir þessu frv., en legg til, að þessu verði vísað að lokinni umr. til heilbr.- og félmn.