03.12.1971
Efri deild: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (3201)

93. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða fjölorður um þetta mál. Mér finnst, að hv. flm. hafi á réttu að standa, þegar hann heldur fram því sjónarmiði, að það færi vel á því, að hlutur Byggingarsjóðs verkamanna til verkamannabústaða verði ekki minni en hlutur Byggingarsjóðs ríkisins. Þetta liggur í því, að það eru miklu hagkvæmari kjör á lánum Byggingarsjóðs verkamanna en Byggingarsjóðs ríkisins, eins og kunnugt er. Það er bæði hvað varðar vexti og lánstíma. En ég tel rétt að taka það fram hér strax við þessa umr., að ég tel hæpið að fara að eins og hv. flm. leggur til í þessu frv. að ákveða með lögum, að 40% af byggingar kostnaði skuli vera lánuð úr Byggingarsjóði verkamanna og 40% úr Byggingarsjóði ríkisins. Að vísu er ekki óeðlilegt, að þessari hugsun skjóti upp, þegar tekið er tillit til þess, að ef íbúðirnar eru mjög litlar og byggingarkostnaður lágur, eins og dæmi eru tekin af í grg. frv., þá kemur þetta óhagstætt út fyrir byggjendur verkamannabústaða. En þar er reiknað með t. d. íbúð á 850 þús. Það er allt of lágur byggingarkostnaður, að ég hygg, og jafnvel fyrir tveggja herbergja íbúð núna. Þegar við athugum þetta, að ég held á raunhæfari hátt, þá er það vafasamt að festa prósenttöluna, ef ekkert frekar kemur til greina. Þetta er vegna þess, að þegar íbúðin kostar 1.5 millj. kr., þá eru samkv. núgildandi reglum 40% lánuð úr Byggingarsjóði verkamanna, en þegar íbúðin kostar meira en 1.5 millj. kr., sem verður að gera ráð fyrir yfirleitt nú orðið, þá er meira lánað úr Byggingarsjóði verkamanna samkv. núgildandi lögum heldur en Byggingarsjóði ríkisins. Ég held því, að það sé vafasamt og ekki rétt að lögfesta eða samþykkja þetta frv. í þeirri mynd, sem það er, vegna þess að það gengur að mínu viti að verulegu leyti á móti þeirri hugsun, sem liggur að baki flutningi þess. Við verðum að hafa í huga, hver þróunin er, hvað varðar byggingarkostnaðinn, og hver hinn raunverulegi byggingarkostnaður er orðinn nú þegar.

Mér þótti rétt að lýsa þessari skoðun nú þegar.

Ég skal ekki ræða þetta mál frekar. Þar sem hv. flm. talar um að fella niður 1/3% þóknunargjald, þá má að sjálfsögðu færa rök fyrir því. En í raun og veru er þetta lækkun á vöxtum, hinum raunverulegu vöxtum, sem lántakendur þurfa að greiða, en það þýðir náttúrlega, að sjóðurinn hafi minni tekjur. En ég skal ekki sérstaklega vera að mæla á móti þessu, ég bendi aðeins á þessa hlið málsins. Hér er ekki um neitt annað að ræða en að lækka vextina.

Þá er að lokum aðeins að víkja að einu atriði þessa frv., sem veit að rétti eldri hjóna, eins og það er orðað í frv., til þess að fá lán, þó að þau eigi íbúð fyrir. Það er rétt, sem hv. flm. sagði. Það er oft mikil þörf fyrir fólk, og tíðum vegna breyttra aðstæðna, að geta fengið lán út á íbúð, sem það vill byggja sér, hentugri heldur en þá íbúð, sem það á. Ég geri því ráð fyrir, að það sé rétt hjá flm., að þetta komi sérlega hart niður á eldra fólki, eins og útlánareglurnar hafa verið. En í raun og veru kemur þetta hart niður á fólki á hvaða aldri sem það er, þegar raunverulegar ástæður eru fyrir það til þess að skipta um íbúðarhúsnæði.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri.