03.12.1971
Efri deild: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í C-deild Alþingistíðinda. (3202)

93. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti Það eru aðeins örfá orð. Þetta er eðlileg og rétt ábending, en bæði í þessu frv. og svo mörgum lögum er því miður oft miðað við ákveðnar prósentur, sem verða óraunhæfar vegna hreyfingar á krónunni, og miðað við það, sem framundan er, get ég vel fallizt á, að það verði skammt í það, að verkamannaíbúð verði búin að ná tveimur milljónum í krónutölu eða orðin jafnvel dýrari, — þess vegna er kannske óeðlilegt að vera að binda þetta svona fast. Dæmin voru sett fram til þess að sýna, hvernig þetta er og hefur verið, en ég er auðvitað alveg opinn fyrir því að gera þetta hreyfanlegra. Ég vildi aðeins undirstrika það, að með ákveðnum forsendum þá liggur dæmið svona fyrir, en því miður er verðhækkun á íbúðum nokkuð árvisst fyrirbrigði og þarf löggjafinn að vera vakandi yfir því, eins og ég drap á í upphafi ræðu minnar. Þá er ekki óeðlilegt að nokkrar breytingar á húsnæðismálalöggjöfinni, eða að minnsta kosti viðleitni í þá átt, komi fram jafnvel á hverju þingi.

Svo er það spurningin með vextina. Það er auðvitað alveg ljóst mál, að ég legg til hér vaxtalækkun, og mér finnst óeðlilegt, að það sé árlega tekin í svo mörg ár ákveðin þóknun í vöxtum fyrir rekstrarkostnaði. Það má kannske taka hann meira í upphafi, en síðan ætti þetta form varla að vera, ég tel það óeðlilegt.