18.12.1971
Neðri deild: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Skilningur hv. 1. þm. Sunnl. á þessu ákvæði er réttur. Ég vil að vísu benda honum á, að þetta hefur tekið ofurlitlum breytingum í Ed. En hann er réttur. Þegar um er að ræða áætlanir, sem ákveðnar eru af Framkvæmdastofnuninni, þá eru þær að sjálfsögðu að öllu leyti kostaðar af henni. En ef starfsmaður hjá einstökum landshlutasamtökum vinnur að gerð þeirrar áætlunar, þá er heimild til þess að greiða 3/5.

Hv. 7. þm. Reykv. beindi fsp. til mín varðandi 16. gr., en þar er gert ráð fyrir því sem aðalreglu, að afgreiðslustörf og bókfærslustörf í sambandi við þá sjóði, sem hér er um að tefla, séu falin banka. En heimild er þó til þess, ef hagkvæmt þykir, að stofnunin taki þetta í eigin hendur. Ég get nú ekki svarað þessu öðruvísi en svo, að hjá ríkisstj. eru áreiðanlega engar fyrirætlanir um það, að stofnunin taki þetta í sínar hendur, þannig að hún setji upp sérstaka afgreiðslustofnun. Hins vegar er það stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, sem fer bæði með stjórn Framkvæmdasjóðs og Byggðasjóðs. Það verður hennar hlutverk að meta þetta og ákveða, og ég get náttúrlega ekki hér gefið yfirlýsingu, sem bindur hendur þeirra í þessu efni. Ég veit ekki, hvort þetta nægir hv. þm. til þess að hann geti tekið sina till. aftur, en ég get endurtekið það, að það eru sem sagt engar ráðagerðir af ríkisstj. hálfu um að breyta til í þessu efni.

Og þá er það loks í þriðja lagi fsp. frá hv. 2. þm. Vestf., sem ég vildi víkja að, en það var varðandi skilning á 12. gr. Þá grein ber auðvitað ekki að skilja svo, að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar geti gefið bönkum fyrirmæli um einstakar lánveitingar, þannig að landsbankamennirnir geta verið rólegir að því leyti til, ef þeir hafa ekki vitað það áður. (Gripið fram í: Og líka við útibússtjórarnir?) Já, bæði þeir, sem eru og væntanlegir. Og þetta held ég, að sé nú alveg ljóst, ef greinin er lesin. Ég ætla ekki að lengja þessar umr., og ég held, að það hafi ekki komið fram til mín aðrar beinar spurningar, sem ég þarf að svara.