16.12.1971
Efri deild: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (3210)

101. mál, vöruvöndun útflutningsafurða sjávarútvegsins

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt á síðasta Alþ., en varð þá ekki útrætt. Frv. var þó vinsamlega tekið af ýmsum aðilum, sem þetta mál varðar, og kom m. a. fram mjög vinsamleg afstaða hæstv. fyrrv. sjútvrh., núverandi 1. landsk. þm., og víða varð maður var við það, að þetta frv. vakti nokkra athygli og hafði, eins og ég sagði, velvild þeirra, sem hér eiga hlut að máli. Með þessu frv. er stefnt að þar tilteknum ákveðnum aðgerðum til að auka vöruvöndun útflutningsafurða sjávarútvegsins, en þær aðgerðir eiga stoð í langri reynslu erlendra fiskveiðiþjóða, og einnig nokkurri reynslu nýlegri hér á landi. Það er áreiðanlega hald margra, sem nokkurt skyn bera á, að með þeim aðgerðum, sem hér er um að ræða og í frv. felast, mætti auka útflutningsverðmæti sjávarafurða um stórfelldar upphæðir, jafnvel að þær væru frekar taldar í þúsundum millj. króna en hundruðum, og auka hagnað allra aðila, sem hlut eiga að því að gera sjávarfang að verðmætri útflutningsvöru.

Þær aðgerðir, sem hér er um að ræða, eru í fyrsta lagi þær, að gera skylt, eftir því sem ráðh. ákveður í reglugerð, að hafa um borð í fiskiskipum sérstaklega gerða fiskkassa til þess að leggja í afla, jafnóðum og hann er innbyrtur. Skal hann geymdur í þeim, þar til hann er tekinn til vinnslu í fiskverkunarstöðvum. Rétt er að benda á í þessu sambandi, að ekki er hér þó gengið lengra en svo, að heimila ráðh. að ákveða slíkt í reglugerð, eftir því sem rétt og framkvæmanlegt kann að þykja við mismunandi aðstæður, en þetta er ekki hins vegar afdráttar laust gert að lagaskyldu. Þetta þykir flm. nauðsynlegt, þar sem ekki er við því að búast, að unnt sé, þó æskilegt væri, að beita þessari geymsluaðferð t. d. í mestu aflahrotum á vetrarvertíð, þó að hins vegar þætti þetta nauðsynlegt og æskilegt undir öðrum kringumstæðum.

Í 2. grein frv. segir, að skylt sé fiskvinnslustöðvum, sem taka fisk til verkunar, að hafa til umráða húsnæði og áhöld, sem geri stöðinni kleift að geyma fisk þannig, að hann skemmist ekki, meðan hann bíður vinnslumeðferðar, og er Fiskmati ríkisins ætlað að framkvæma skoðun á því, hvort slík aðstaða sé fyrir hendi, og gera till. um úrbætur, þar sem þeirra gerist þörf. Enn fremur er sagt, að Fiskmat ríkisins geti ákveðið slíkum fiskvinnslustöðvum tiltekinn frest til að fullnægja ákvæðum þessarar greinar, að viðlagðri rekstrarstöðvun viðkomandi vinnslustöðvar, ef ekki er orðið við tilmælum Fiskmatsins.

Hér er áreiðanlega um mjög veigamikið atriði að ræða, og vil ég t. d. benda á, að í tímariti, sem nú nýlega hefur hafið göngu sína og gefið er út af Fiskmati ríkisins, segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er það líka mjög aðkallandi, að komið verði upp við hraðfrystihúsin hráefnisgeymslu fyrir ísvarinn kassafisk. Þetta þurfa að vera niðurkældar fiskgeymslur, þar sem hita- og rakastigi loftsins er haldið jöfnu með sjálfvirkum búnaði. Þetta er frumskilyrði til þess, að hægt sé að koma fiskvinnslu hraðfrystihúsa okkar yfir á fullkomið iðnaðarstig.“ Enn fremur segir um sama efni: „Með þessu móti á líka nýting á hráefni að geta orðið betri, þar sem það léttist minna, þar sem það liggur hreyfingarlaust, án nokkurs þrýstings í fiskkössum allan geymslutímann. Núverandi fiskmóttökur frystihúsanna, sem jafnframt eru notaðar sem fiskgeymslur fyrir vinnsluhráefni, hafa því næst engin skilyrði til geymslu á nýjum fiski og eru því mjög óhagkvæmar fyrir rekstur frystihúsanna.“

Þetta eru vissulega rök, sem takandi eru með í reikninginn, þegar mál þetta er metið.

Í 3.–5. gr. frv. eru svo nánari ákvæði um þessi atriði, en í 3. gr. er gert ráð fyrir, að ráðh. geti ákveðið með reglugerð stærð og gerð þeirra fiskkassa, sem um ræðir í 1. gr., þ. e. að kassarnir verði staðlaðir með reglugerð, og verður það að teljast mjög nauðsynlegt, aðeins út frá tæknilegu sjónarmiði, þar sem bátar leggja upp fiskinn til geymslu og þurfa vitanlega að fá sína kassa aftur, en það geta eftir eðli málsins ekki verið sömu kassarnir og báturinn leggur upp, og enn fremur kemur hér líka til geymslurými, sem verður að innrétta sérstaklega, undir vissum kringumstæðum a. m. k., í skipunum sjálfum, og breyting á lestarbúnaði.

Þá er í 4. gr. mjög veigamikið atriði varðandi fjármálalegu hliðina. Þær aðgerðir, sem 3 frv. ræðir, munu hafa útgjaldaaukningu í för með sér og fjárfestingu fyrir fiskiðnaðarfyrirtækin og útgerðina, og með 4. gr. á að vera tryggt, að Fiskveiðasjóður láni allt að 75% af stofnkostnaði. Eftir að þetta frv. kom fram á s. l. ári, var tekin ákvörðun um það hjá stjórn Fiskveiðasjóðs, að lánað yrði út á þetta 50% af stofnkostnaði, og verður það að teljast verulega til bóta, en vafalaust er það of lítið. Hér er um það mikinn kostnað að ræða, að varla mun veita af því, að Fiskveiðasjóður láni allt að 3/4 af þessum kostnaði.

Í 5. gr. er svo ákveðið, að við verðákvarðanir sé Verðlagsráði sjávarútvegsins skylt að taka fullt tillit til þess kostnaðar, sem útvegurinn ber vegna ákvæða laga þessara. Ég tel að vísu alveg öruggt, að hér sé um hagkvæma ráðstöfun að ræða, en það er alltaf spurning, hvernig þeim hugsanlega hagnaði er deilt á milli útgerðarinnar annars vegar og vinnslustöðvanna hins vegar, og þar sem grundvöllurinn er auðvitað í því, að þetta sé notað um borð í skipunum, þykir eðlilegt, að það sé fullkomlega ákveðið og augljóst, að útgerðin skuli a. m. k. við verðákvarðanir fá þann kostnað greiddan aftur, sem hér er um að ræða.

Eins og ég áðan sagði, þá er örugg og löng reynsla fyrir notkun fiskkassanna, — og reyndar öðrum þeim atriðum, sem í frv. felast, meðal annarra fiskveiðiþjóða og sérstaklega hér á Norðurlöndunum, og þar hefur þetta leyst mikinn vanda um vöruvöndun og reynzt að öðru leyti mjög hagstætt, en það er eftirtektarvert, að þrátt fyrir reynslu annarra í þessum efnum hefur þessi geymsluaðferð ekki rutt sér til rúms hérlendis að neinu marki. Það er kannske nokkuð erfitt að segja um, af hverju þetta stafar. Trúlega er því að nokkru leyti um að kenna, að stofnkostnaður er nokkuð mikill og útvegurinn oft í frekari fjárþröng til fjárfestingar, en vafalaust er hér að verulegu leyti um að ræða venjulegt tómlæti og gróna vanafestu, og ég held, að það sé þess vegna skoðun allra, sem kynnt hafa sér þetta mál og eru þeirrar skoðunar, að hér sé um þjóðþrifaaðgerð að ræða, að ekki dugi minna en að heimildar sé aflað í lögum fyrir því, að rétt yfirvöld geti sett um þetta ákveðnar reglur, sem menn verði nauðugir viljugir að fara eftir.

Eins og ég sagði áðan, er hér ekki einungis um að ræða erlenda reynslu. Fiskkassar hafa verið notaðir í nokkrum íslenzkum skipum og gefizt það vel, að þeir, sem einu sinni hafa það prófað, munu varla leggja upp með útgerð undir öðrum kringumstæðum en hafa þá í notkun, enda er það sannast mála, a. m. k. við sumar aðstæður hér á landi, eins og t. d. í útilegu að sumrinu til, að ekki er möguleiki á því að framleiða fyrsta flokks vöru með neinu öðru móti en hafa þessa geymsluaðferð, og að sjálfsögðu að ísað sé í kassana jafnharðan, ella myndaðist gerlagróður í fiskinum á örskammri stundu og varan gæti ekki orðið betri en 2. eða 3. flokks vara eða jafnvel þar fyrir neðan. En sú tilraun, sem gerð hefur verið með þetta hér á landi, er sú athyglisverðasta vegna þess að hún var ferð með vísindalegum hætti, var gerð fyrir 2–3 árum í Vestmannaeyjum. Að henni stóðu Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Framleiðnideild frystihúsanna í Vestmannaeyjum, og þessi tilraun sannaði fyllilega, að notkun fiskkassanna, a. m. k. við þau tilteknu skilyrði, sem þessi tilraun var gerð við, er fullkomið þjóðþrifamál.

Það, sem kom þarna fram, var í fyrsta lagi það, að fiskur rýrnaði ekki í fiskkössunum, og þeir spöruðu þess vegna allt að því 5.5% rýrnun, en að meðaltali 3.6% rýrnun, sem kom fram við geymslu fisksins í stíum.

Í öðru lagi reyndist geymslan í kössunum auka nýtingu í neytendapakkningar úr 8.5% miðað við stíugeymslu í 19.8% og pakkanýtingu úr 41.1 í 41.5. En menn geta kannske gert sér nokkra grein fyrir því, um hvaða fjárhæð er hér að ræða, þegar þess er gætt, að neytendapakkningarnar eru tvisvar til þrisvar sinnum verðmætari en vinnsla í blokk, þegar á erlendan markað er komið.

Þá bentu í þriðja lagi kælingar með svo kölluðum „Fish Tester“ til, að geymsluþol ykist um 2–4 daga við geymslu í kössum miðað við stíufisk. Er það ekki lítið atriði hér í okkar fiskiðnaði, þar sem svo mikil nauðsyn er á að dreifa vinnunni, jafna hana í frystihúsunum og losna við verstu hroturnar og geta nýtt vinnuafl, vélar og fjármagn betur en gert er.

Í fjórða lagi sýndu tímamælingar á vinnu og útreikningar á vinnslu- og stofnkostnaði, að beinn hagnaður af notkun fiskkassanna varð allt að 1468 kr. á tonn og aldrei minni en 632 kr. á tonn, miðað við markaðsverð eins og það var í árslok 1969. Vafalaust er hér um talsvert hærri upphæð að ræða nú.

Þá er að geta þess í fimmta lagi, að gæði aflans, þ. e. betra mat, urðu meiri og húsrými við móttöku notaðist betur. Að lokum er svo að sjálfsögðu þess að geta, að við notkun fiskkassanna reyndist vinna og stofnkostnaður nokkru meiri, en til þess hafði verið fullt tillit tekið í öllum hagnaðarútreikningi.

Loks er þess að geta, að þessi tilraun sýndi vitanlega ekkert um það, hver hinn endanlegi þjóðhagslegi hagnaður verður af því að hafa betri vöru á boðstólum, en mér hafa sagt fróðir menn, að oft og tíðum hafi léleg flokkun á fiski til útflutnings ekki aðeins það í för með sér, að sá fiskur, sem þannig fellur í verði, lækki, heldur lækkar þá allt heildarverðið, og a. m. k. er það vel kunnugt í saltfisksútflutningnum, að ef við getum útvegað og lagt á borðið ákveðið magn af fyrsta flokks gæðafiski, þá verður allt verðið hærra, líka á lélegri tegundunum, en ef þær vaxa yfir vissa prósentu, þá lækkar verðið á því yfir alla heildina. Þetta er kunnugra en frá þurfi að segja, og veldur ákaflega miklu um það, að taka þarf þessi mál öll traustari og betri tökum en gert hefur verið.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð, nema sérstakt tilefni gefist til. Ég vona það, að þar sem málið hefur legið áður fyrir hv. deild, þó hún væri þá nokkuð öðruvísi skipuð, og réttir aðilar hafa fjallað um málið og umsagnir þeirra liggja fyrir, þá eigi málið greiða göngu út úr þessari hv. deild.