16.12.1971
Efri deild: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (3211)

101. mál, vöruvöndun útflutningsafurða sjávarútvegsins

Jón Árnason:

Herra forseti Það eru aðeins nokkur orð, sem ég vildi segja í sambandi við þetta mál. Ég vil í fyrsta lagi lýsa yfir fylgi við þetta frv. og tel, að hér sé um mikilsvert mál að ræða í sambandi við betri hagnýtingu á okkar sjávarafla, en það er, eins og fram kom hjá flm., margt, sem þarna er um að ræða og sem sjálfsagt hefur valdið því, að við Íslendingar höfum ekki tekið upp að setja fiskinn í fiskkassa, eins og tíðkast yfirleitt hjá öðrum nágrannaþjóðum í sambandi við þann fiskafla, sem ætlaður er fyrst og fremst til manneldis.

Í fyrsta lagi er hægt að gera ráð fyrir því, að það, sem hefur staðið í vegi í þessum efnum, sé kostnaðurinn. Við vitum, að það kostar mikið að byggja upp stofninn að þessum tækjum eða fiskkössunum. Það er nú eitt, að það er komin meiri tækni í þessum efnum en áður átti sér stað. Það voru mest trékassar hér áður, sem gengu mjög úr sér, og þess vegna urðu þeir mjög kostnaðarsamir í viðhaldi, en nú er aftur farið að búa þessa fiskkassa til úr vandaðra efni, sem hefur lengri endingartíma, og verða þeir því ekki eins kostnaðarsamir í viðhaldi. En það er annað, sem ég veit, að hefur að nokkru valdið því, að þetta hefur ekki komið til framkvæmda hjá okkur hér á fiskibátaflotanum, og það er sú staðreynd, að við þetta er talsvert meiri vinna. Það er miklu meiri vinna, og ég hygg, að frá sjónarmiði sjómanna, þá muni það nú vera svo, út af fyrir sig, að þeir vilja helzt geta komizt hjá því að koma aflanum fyrir í fiskkassa, leggja hann niður þar í ís o. s. frv. til þess að þarna verði um 1. flokks vöru að ræða. Ég veit, að menn hafa viljað í lengstu lög losna við þá auknu fyrirhöfn, sem þessu er samfara. En það er nú sérstaklega hægt að benda á í sambandi við þetta, að íslenzk veiðiskip eru farin að nota þessa fiskkassa við veiðarnar í Norðursjónum, síldveiðarnar, og þar er það svo, að alls ekki tíðkast að leggja á land síld, sem ætluð er til söltunar eða manneldis, á annan hátt en hún sé látin í kassa og henni skipað upp í kössum, og við höfum séð, að íslenzku fiskibátarnir hafa núna, þegar þeir hafa hætt veiðum og stundum á meðan á vertíðinni hefur staðið í Norðursjónum, komið með heila farma hingað til Íslands í þannig ásigkomulagi, að aflinn hefur verið í fiskkössum. Og það sjá allir, sem fylgjast með þessu, að síldin er náttúrlega allt önnur vara en ef hún væri veidd og sett í eina kös í lestina eða á dekkið, eins og átt hefur sér stað yfirleitt með síldveiðar hér hjá okkur Íslendingum. Hér er náttúrlega um atriði að ræða, sem tvímælalaust verður að fylgjast með tímanum, og við verðum að miða okkar aðgerðir í þessum efnum við það, sem bezt á sér stað annars staðar. Það er ekki nóg að geta átt kost á góðu hráefni, ef það er eyðilagt áður en það fær þá meðferð, sem endanlega er um að ræða í sambandi við vinnslu aflans.

Ég vil nú ekki segja, að það gangi svo langt sem hv. flm. sagði hér áðan, að það sé ekki um neina rýrnun að ræða á þeim afla, sem settur er í fiskkassana, en að miklum mun, eins og skýrslan að sjálfsögðu sýnir, sem liggur fyrir um þetta, að miklum mun verður um minni rýrnun að ræða. Það verður náttúrlega alltaf um rýrnun að ræða á þeim fiski, sem bíður meira eða minna. Hann rýrnar visst á hverjum sólarhring, þó að rýrnunin, eins og hann sagði, verði miklu minni í kössunum en þar sem fiskurinn liggur í fiskstöflum í lest eða í kösum á dekkinu eða þá í stíum. Það er enginn vafi á því, að hér er um mál að ræða, sem á að gefa gaum, og því fyrr, því betra, að þetta komi til framkvæmda. En það er margt, sem þarf að athuga í þessu sambandi og ekki hvað sízt kostnaðurinn, hvernig verði greitt fyrir öflun fjármuna til að standa undir þeim kostnaði, stofnkostnaði, sem hér er um að ræða, en eins og gert er ráð fyrir, er Fiskveiðasjóður náttúrlega sá aðili, sem sjálfsagt er að hlaupi hér undir bagga. Ég vil aðeins segja þessi fáu orð og lýsa yfir stuðningi mínum efnislega við þetta frv.