03.12.1971
Efri deild: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í C-deild Alþingistíðinda. (3219)

98. mál, Þjóðleikhús

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vildi aðeins mega vekja athygli þeirrar n., sem fær þetta frv. til meðferðar, á tveim atriðum þess. Bæði þessi atriði varða áhugaleikfélögin, en ég hef einmitt leyft mér að flytja till. til þál. um endurskoðun laga varðandi þau og teldi ég vel fara, ef sú endurskoðun og lagasetning þessi gætu á einhvern hátt farið saman.

Þessar greinar frv. eru 18. og 19. gr. þess. Í 18. gr. þess, sem fjallar um leikmunasafn, er vikið að möguleikum leikfélaganna til þess að hagnýta sér það og fá þar leigða búninga og sviðsbúnað eftir föngum. Ég vil leggja sérstaka áherzlu á það, að þetta safn geti orðið sem öflugast og því sé þannig .stjórnað, að leikfélög, sem á því þurfa að halda, eigi þar sem greiðastan aðgang að og með sem hóflegustum kjörum. Nú veit ég, að Þjóðleikhúsið hefur oft hlaupið undir bagga og aðstoðað leikfélög úti um land, einkum með búninga, enda er í lok greinarinnar gert ráð fyrir, að svo verði, þar til safnið verður stofnað. En ég vil benda á það, að í stjórn safnsins þyrfti einmitt að vera fulltrúi áhugaleikfélaga, bæði til þess að fylgjast sem bezt með þeirri aðstoð, sem veitt yrði, og eins til þess, að leikfélögunum verði gert ljóst, hversu mikilvægan stuðning þau gætu haft af safni sem slíku, ef farið yrði eftir seglum þess.

19. gr. vildi ég, að athuguð yrði nánar með tilliti til þess, að þar væri um ákveðnari og bundnari ákvæði að ræða. Það kann að vera, að það sé nokkrum erfiðleikum bundið að gera ákvæðin um gistileikara og leikstjóra til leiðbeiningar betur úr garði, og eins hitt, þar sem stendur, að gera þurfi leikfélögum áhugamanna kleift að fylgjast með starfi Þjóðleikhússins. Á hitt vildi ég leggja áherzlu, að þessi ákvæði eru bæði ákaflega mikilvæg, ef þau yrðu framkvæmd. Það væri mikils virði fyrir þá mörgu áhugamenn, sem hafa raunverulega mikinn vilja á því að gera vel og gera betur, að mega kynna sér innra starf leikhússins, fylgjast með æfingum og kynnast vinnubrögðum, þó að um stuttan tíma yrði að ræða. Ég veit, að þetta mundu margir vilja notfæra sér, en þó því aðeins, að þetta yrði sjálfsagður þáttur í starfi leikhússins og menn þyrftu ekki að læðast þar um sali sem hverjar aðrar boðflennur þrátt fyrir falleg ákvæði í lögum.

Hitt atriðið, um gistileikarana og leikstjórana, held ég, að væri ekki einungis til góðs fyrir áhugaleikfélögin. Ég held nefnilega, að þeir, sem í þetta færu, yrðu dýrmætri reynslu ríkari, og hef þar fyrir mér orð eins virtasta og bezta leikara Þjóðleikhússins, Vals Gíslasonar, sem stjórnaði og lék sjálfur í leikriti austur á Egilsstöðum fyrir nokkrum árum. En þetta starf þarf að skipuleggja, og ég er í engum vafa um, að eina leiðin til þess væri náið samstarf áhugafélaganna og leikhússins um framkvæmd þessa mikilvæga atriðis.

Það er oft farið háðulegum orðum um leiklistartilburði áhugafélaganna, og sem áhugamaður í hálfan annan áratug veit ég vel, að þar gengur á ýmsu og ekki er allt á bezta veg hjá öllum. En margt er þar líka betur gert en ýmsir halda, og leikurum Þjóðleikhússins væri hollt að kynna sér þessa starfsemi, sem mundi a. m. k. víkka sjóndeildarhring þeirra, þó að ekki væri annað. Um mikilvægi þessa atriðis fyrir minni leikfélögin þarf tæpast að ræða, svo augljóst sem það er.

Ég vildi því aðeins koma því að, hvort mögulegt væri, að ákvæðin þar að lútandi yrðu meira bindandi, og um leið mega vænta þess, að verði frv. þetta að lögum, verði við framkvæmd þeirra farið eftir þeim góðu fyrirheitum, sem í lögunum yrðu hvað leikfélögin úti á landsbyggðinni snertir.