26.04.1972
Efri deild: 72. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (3221)

98. mál, Þjóðleikhús

Fram. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Merkilegustu nýmælin, sem fólgin eru í frv. til l. um Þjóðleikhús, sem menntmn. hefur haft til athugunar, eru tvímælalaust þau, að breytt er verulega skipan þjóðleikhúsráðs. Starfstímabil þess, sem áður var ótímabundið og raunverulega miðað við æviskipan manna í ráðið, er nú gert tímabundið, og fulltrúum er jafnframt fjölgað í ráðinu. Í öðru lagi er reiknað með því, að þjóðleikhússtjóri verði ráðinn til fjögurra ára í senn hverju sinni, það megi endurráða hann einu sinni, en enginn geti gegnt því starfi lengur samfellt en átta ár.

Önnur nýmæli, sem er að finna í þessu frv., eru þau, að það á að ráða að Þjóðleikhúsinu sér stakan bókmennta- og leiklistarráðunaut, listdansstjóra og tónlistarráðunaut. Það er lögfest, að blandaður kór starfi við leikhúsið, og það er lögfest, að Þjóðleikhúsið taki þátt í að koma upp leikmunasafni í samvinnu við leikfélög víðs vegar um land. Og loks er gert ráð fyrir því á meðal margra nýmæla, sem í þessu frv. eru, að komið verði á fót sérstökum leiklistar, sönglistar og listdansskóla ríkisins, án þess að ákvæðin um slíkan skóla séu að vísu mjög ítarleg. Því er aðeins slegið föstu, að slíkum skóla skuli koma upp.

Án þess að orðlengja frekar um efni þessa frv., þá er það kjarni málsins, að menntmn. telur frv. almennt horfa til framfara og mælir eindregið með því, að frv. verði samþ. Nefndin gerir þrjár till. um breytingar á frv., eins og kemur fram á þskj. 603. Ein af þessum till. er fram komin eftir ábendingu frá Bandalagi ísl. leikfélaga, 1. a-liður, önnur er fram komin eftir ábendingu sjónvarpsdeildar Ríkisútvarpsins, 1. b-liður, og ég tel mig ekki þurfa að rökstyðja þær neitt nánar. Þar er um lítilfjörleg fyrirkomulagsatriði að ræða, sem þó skipta máli fyrir viðkomandi stofnanir. Nefndin var sem sagt algerlega sammála um það að mæla með frv. með þessum breytingum, og hefur gefið út nál. á þskj. 603.

Hitt er, svo annað mál, að í n. var ágreiningur um ýmis atriði málsins, sem birtist í því, að fimm nm. flytja brtt. við frv. á sérstöku þskj., 604. Þar er fyrst til að taka ákvæðin um stjórnskipunarmál Þjóðleikhússins. Í því frv., sem lagt var fyrir d., er gert ráð fyrir tvenns konar stjórnum, sem settar yrðu yfir Þjóðleikhúsið, fyrir utan framkvæmdastjórann sjálfan, þ. e. þjóðleikhússtjóra.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir fimm manna framkvæmdaráði, sem á að koma saman hálfsmánaðarlega. Í öðru lagi er gert ráð fyrir 16 manna þjóðleikhúsráði og þar af er miðað við, að átta fulltrúar í þjóðleikhúsráði séu kjörnir beint af þingflokkunum, þannig að eftir núverandi skipan Alþingis fengi Sjálfstfl. þrjá fulltrúa í þjóðleikhúsráði, Framsfl. tvo og aðrir flokkar einn fulltrúa hver flokkur. Þetta skipulag þykir okkur tillögumönnum vera heldur óeðlileg yfirbygging á ekki stærri stofnun en Þjóðleikhúsið er. Við leggjum því til, að framkvæmdaráðið svo kallaða sé ekki starfandi og því ekki til, en þjóðleikhúsráð sé skipað 11 fulltrúum, sem komi saman til fundar mánaðarlega í stað þess, að gert var ráð fyrir því, að þjóðleikhúsráðið kæmi saman tvisvar á ári. Hins vegar er gert ráð fyrir því í till. okkar á þskj. 604, að þjóðleikhússtjóri undirbúi fundi ráðsins í samráði við fjármálafulltrúa Þjóðleikhússins og formann þjóðleikhúsráðs, og má því segja, að með því ákvæði sé um að ræða eins konar vísi að framkvæmdaráði, ráði til stuðnings sjálfum framkvæmdastjóranum, þjóðleikhússtjóra.

Menn kunna að spyrja í þessu sambandi, hvort yfirleitt sé ástæða til þess, að fulltrúar kjörnir af Alþ. komi nærri stjórnun Þjóðleikhússins, og hvort ekki væri eðlilegt að ganga enn lengra og fella algerlega niður aðild Alþ., eða stjórnmálaflokka að þjóðleikhúsráði. Ég vil taka það fram hins vegar, að það er persónuleg skoðun mín og væntanlega þeirra, sem standa að þeirri till., sem er hér á þskj. 604, að það sé eðlilegt, að fleiri eigi sæti í þjóðleikhúsráði en leikarar og listamenn þjóðarinnar, þó að að sjálfsögðu sé eðlilegt, að þeir séu þar einnig. Starfsemi Þjóðleikhússins er málefni, sem snertir þjóðina alla og þá ekki sízt hina mörgu áhorfendur og aðdáendur Þjóðleikhússins, og það er því eðlilegt, að í þjóðleikhúsráði eigi sæti fulltrúar, sem kjörnir séu af Alþ. Við gerum því ráð fyrir því, að í þjóðleikhúsráði séu 11 menn: fimm, sem tilnefndir séu af listamönnunum, þar af þrír leikarar og tveir tilnefndir af öðrum listamannahópum, en fimm fulltrúar séu kjörnir í þjóðleikhúsráð af Alþ., og þar sé einnig einn fulltrúi ríkisvaldsins eða ríkisstj. skipaður án tilnefningar af menntmrh. og hann sé formaður ráðsins.

Það er hægt að fara fljótt yfir sögu og bæta því við, að allar aðrar brtt. á þskj. 604 eru afleiðing af þessari meginbreytingu, þessari einföldun á skipun þjóðleikhúsráðsins, allar nema ein, þ. e. 6. brtt. á þskj. 604. En þar segir:

„Við 12. gr. bætist ný mgr., svo hljóðandi: Með samþykkt þjóðleikhúsráðs er þjóðleikhússtjóra heimilt að ráða rithöfund til að semja leikverk, og skal hann ráðinn með kjörum leikara í hæsta launaflokki, meðan hann vinnur að ritun þess. Eftir sem áður á höfundurinn fullan höfundarrétt að verki sínu, og ber honum sérstök þóknun, ef ákveðið er að taka verkið til sýningar.“

Ég held, að þessi till. þarfnist ekki mikils rökstuðnings. Við, sem flytjum þessa till., teljum, að meira þurfi að gera til þess að örva íslenzka leikritun. Við Þjóðleikhúsið starfa allmargir tugir manna við túlkun leikrita og við fjöldamörg önnur störf, og við teljum æskilegt, að a. m. k. einn starfsmaður við Þjóðleikhúsið vinni við það á hverjum tíma að semja leikverk. Rétt er að taka það fram að lokum, að leikhúsið er að sjálfsögðu ekki skyldað með þessu til þess að ráða slíkan mann í sina þjónustu. Það er aðeins gert ráð fyrir því, að þjóðleikhússtjóra sé heimilt að ráða menn til slíkra starfa með samþykki þjóðleikhúsráðs, og í till. segir ekkert um það, hve lengi höfundur skuli vera við slík störf. Því verður þjóðleikhúsráð að sjálfsögðu að ráða eftir atvikum hverju sinni.