26.04.1972
Efri deild: 72. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (3222)

98. mál, Þjóðleikhús

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. gat um, þá var menntmn. sammála um það að mæla með þessu frv. Ég sé því ekki ástæðu til þess að bæta neinu við um hin almennu rök, sem frsm. færði fyrir því, að þetta frv. nái fram að ganga. Hins vegar vil ég víkja að því, sem var ágreiningur í n. og hv. frsm. gerði einnig grein fyrir. En mér þykir ástæða til þess að ræða það mál nokkru nánar, vegna þess að ég lít svo á, að það sé ágreiningur um höfuðatriði.

Það er ágreiningur um það, hvernig skul háttað stjórn Þjóðleikhússins. Í undirbúningi þessa frv. var þetta eitt af aðalmálunum, sem til athugunar var. Undirbúningur undir frv. var mjög ítarlegur. Það var skipuð sérstök nefnd til þess að annast þennan undirbúning 6. febr. 1970. Í þessari nefnd áttu sæti Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, formaður, Baldvin Tryggvason framkvæmdastjóri og dr. Þórður Eyjólfsson fyrrv. hæstaréttardómari. Formaður þessarar nefndar kom á fund menntmn. og skýrði þar, hvernig háttað hefði verið störfum þessarar nefndar. Það kom í ljós, að þessi nefnd hafði unnið mjög ítarlegt starf við undirbúning málsins. Nefndin hafði kallað á sinn fund fjölda aðila og málin voru þaulrædd, ekki sízt það atriði, hvernig skyldi háttað yfirstjórn Þjóðleikhússins. Þetta var gert til þess að leita eftir sem víðtækastri samstöðu listamanna og sérstaklega leikara um þetta atriði. Það var gengið út frá því, að eftir því sem víðtækara samkomulag væri fyrir hendi um þetta efni, eftir því mætti gera ráð fyrir, að stjórn stofnunarinnar yrði styrkari. Og mér þykir rétt, með leyfi hæstv. forseta, að vitna hér í grg. með frv. En þar segir um störf þessarar undirbúningsnefndar á þessa leið:

„Nefndin hefur leitazt við að kynna sér viðhorf sem flestra, sem gerst eiga að þekkja til leikhúsmála hér á landi. Í því skyni átti nefndin m. a. viðræðufundi, áður en hún samdi frv., með þjóðleikhúsráði, þjóðleikhússtjóra, stjórn Félags ísl. leikara og sérstakri nefnd á vegum þess, stjórn Bandalags ísl. listamanna, stjórn Félags ísl. listdansara, framkvæmdastjóra Bandalags ísl. leikfélaga (stjórnin gat ekki komið til viðræðna), stjórn Þjóðleikhúskórsins og stjórn Leikfélags Reykjavíkur. Eftir að hugmyndir nefndarinnar höfðu verið felldar í frv.-form., ræddi hún á ný við þá aðila, sem að framan eru nefndir, og leitaðist við að sameina í frv. þær hugmyndir, sem hún og aðrir töldu vænlegastar til þess að verða grundvöllur fyrir starfsemi Þjóðleikhússins með það fyrir augum, að stofnunin mætti sjálf vaxa og eflast og verða um leið öðrum aðilum, sem við sömu listgreinar fást í landinu, til stuðnings. Þess ber að geta, að samstarf við þá aðila, sem við höfum leitað til, hefur verið mjög ánægjulegt og hvergi gætt annarra sjónarmiða en þeirra, sem verða mættu til eflingar þeirri menningarstarfsemi, sem Þjóðleikhúsið sinnir og er ætlað að sinna.“

Þetta segir í grg. með frv. Ég held, að þetta beri þess vott, að það er rétt, sem ég sagði í upphafi, að þetta frv hefur hlotið sérlega vandaðan undirbúning. Árangurinn af þessum undirbúningi er að finna í frv. sjálfu. Og þar er í 5. gr. ákveðið, hvernig þjóðleikhúsráð skuli skipað. Þar segir:

„Í upphafi fyrsta þings eftir hverjar reglulegar alþingiskosningar nefnir hver þingflokkur einn fulltrúa fyrir hverja tíu þm. í flokknum eða brot úr þeirri tölu. Bandalag ísl. listamanna kýs þrjá fulltrúa (einn tónlistarmann, einn listdansara, einn rithöfund). Félag ísl. leikara kýs þrjá fulltrúa. Leikarafélag Þjóðleikhússins kýs einn fulltrúa. Menntmrh. skipar einn fulltrúa. Þjóðleikhúsráð kýs sér sjálft formann.“

Eftir hinar ítarlegu viðræður, sem undir búningsnefndin átti við fulltrúa hinna ýmsu listgreina í landinu og aðra aðila, þá varð þetta niðurstaðan og þetta varð samkomulag milli þessara aðila. Að sjálfsögðu er það ekki bindandi fyrir aðgerðir Alþ. En það er augljóst, að í slíku máli sem þessu er það afar áríðandi, að samstaða sé um þessi efni, og vegna þess hve það var áríðandi, þá lagði undirbúningsnefndin svo mjög upp úr þessu atriði. Þetta er gert til þess að efla Þjóðleikhúsið og starfsemi þess. Ég tel, að það sé mjög varhugavert að breyta út frá þessu, sem frv. gerir ráð fyrir. Með því að gera það í einu eða öðru formi, þá er brostinn grundvöllur fyrir þessari samstöðu og ánægju meðal listamanna, sem fyrir hendi er og fékkst með undirbúningi nefndarinnar. Og ég hef hvorki heyrt í menntmn. né af munni hv. frsm. n. nokkur þau rök, sem réttlæti það að hverfa frá þeirri skipan, sem 5. gr. frv. gerir ráð fyrir. Þess vegna lýsi ég algerri andstöðu við brtt. á þskj. 604, sem hv. frsm. n. gerði grein fyrir. Það er rétt, eins og hann sagði, að þær brtt. varða yfirstjórnina, og ég lýsi andstöðu við þær allar. Það er ein till., sem ekki varðar yfir stjórnina, en ég skal víkja að henni nánar síðar.

Eins og frv. er úr garði gert, þá eiga að fá sæti í þjóðleikhúsráði átta menn tilnefndir af stjórnmálaflokkunum og sjö af félögum listamanna, en einn þeirra skipaður af menntmrh. eða samtals 16. Hv. frsm. sagði, eða það mátti skilja það af orðum hans, að þetta væri of fjölmennt ráð til þess að fara með stjórn stofnunarinnar. Ég er honum ósammála um þetta. Til þess að ná hinn víðtæka samkomulagi og til þess að samstilla kraftana um rekstur og viðgang Þjóðleikhússins, þá held ég, að það hafi ekki mátt vera fámennara, þetta ráð, en frv. gerir ráð fyrir. En þegar við tölum um það, hvort eitt ráð er of fámennt eða of fjölmennt, þá verðum við að líta á það, hvaða hlutverk því er ætlað. Samkv. frv. er þessu ráði ekki ætlað að fara með hina daglegu framkvæmdastjórn, heldur er þessu ráði ætlað að marka hinar stærri línur í stefnu og störfum leikhússins. Og það er gert ráð fyrir, að þetta ráð komi til fundar einungis tvísvar á ári, nema sérstakar ástæður séu til. Þetta ráð er augljóslega ekki of stórt til þess að þjóna þessum tilgangi. Það sjá allir. En í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir, að við Þjóðleikhúsið skuli starfa fimm manna framkvæmdaráð og í því eigi sæti formaður þjóðleikhúsráðs, sem er jafnframt formaður framkvæmdaráðs, þjóðleikhússtjóri fjármálafulltrúi Þjóðleikhússins, sá fulltrúi Félags ísl. leikara í þjóðleikhúsráði, sem félagið ákveður, og fulltrúi Leikarafélags Þjóðleikhússins í þjóðleikhúsráði. Þetta er fimm manna framkvæmdaráð, og það er augljóst, að það er ekki of fjölmennt til þess að annast það hlutverk, sem því er ætlað. En till. sú, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. mælti fyrir, brtt., er að mínu viti hvorki fugl né fiskur. Samkv. þeirri till. er þjóðleikhúsráð of lítið til þess að gegna því hlutverki, sem því er ætlað samkv. frv. sjálfu, en það er of stórt til þess að gegna því hlutverki, sem framkvæmdastjórninni er ætlað. Ég tel þess vegna, að þessi till. sé óraunhæf og ekki til bóta. Þvert á móti sé mjög varhugavert að samþykkja þessa till.

Hv. þm. sagði í ræðu sinni hér áðan, að í brtt. hans og félaga hans á þskj. 604 væri að finna eins konar vísi að framkvæmdaráði, eins konar vísi. Ef vel er gáð í þessar till., þá finnst þetta. Þjóðleikhússtjóri undirbýr fundi ráðsins ásamt formanni ráðsins og fjármálafulltrúa leikhússins. Þetta er nú vísirinn að framkvæmdaráði. Öllu má nú nafn gefa, ef það á að kalla vísi að framkvæmdaráði að undirbúa fund eða ef starfsmenn Þjóðleikhússins skipta kannske með sér verkum að tilkynna þjóðleikhúsráði um fund, dagskrá og fundarstað. Það er gjörsamlega fásinna að halda því fram, að þetta komi að nokkru leyti í staðinn fyrir þá skipan, sem frv. gerir ráð fyrir.

Þá sagði hv. þm., hann lét orð liggja að því, að það hefði kannske mátt ganga enn lengra en gengið er í brtt. og fella algerlega niður kjörna fulltrúa Alþ. Þetta væri ekki hans skoðun, að það hefði átt að ganga lengra. Í þessum orðum má skilja, að 3 brtt. felist, að það sé verið að efla hlut listamannanna frá því sem frv. gerir ráð fyrir. Þetta er algjör misskilningur. Hér kem ég að einu aðalatriði málsins. Lítum nánar á 8. gr. frv., sem fjallar um framkvæmdaráðið. Það er fimm manna ráð. Í þessu fimm manna ráði eiga sæti tveir leikarar. Formaður þjóðleikhúsráðs er sjálfkjörinn í framkvæmdastjórnina og samkv. frv. á þjóðleikhúsráð að kjósa hann. Hann getur líka verið leikari, þannig að það er vel til í því, að það séu þrír af fimm mönnum í framkvæmdastjórn starfandi leikarar. Það sjá allir hvílík fásinna er, að till., sem hv. 4. þm. Norðurl. v. var að mæla fyrir, efli hlut listamanna, frá því sem þarna er gert ráð fyrir. Nei. Ég held, að það mæli allt með því, að það sé mjög varhugavert að breyta þeirri skipan, sem gert er ráð fyrir í frv. sjálfu um yfir.stjórn Þjóðleikhússins. Og það sé ekki Þjóðleikhúsinu eða starfsemi þess til framdráttar. Þvert á móti er hætta á því, að það stofni til ófriðar og úlfúðar og vonbrigða með, að ekki skuli komast í framkvæmd það samkomulag, sem búið var að ná og undirbúningsnefndin lagði svo mikið kapp á.

Þetta er um yfirstjórn Þjóðleikhússins. Ég sagði áðan, eins og raunar hv. frsm. n. tók fram, að það væri ein brtt. á þskj. 604, sem varðar ekki yfirstjórnina. Það er till. í 6. tölulið. En hún er um það, að við 12. gr. frv. bætist ný málsgr. svo hljóðandi:

„Með samþykkt þjóðleikhúsráðs er þjóðleikhússtjóra heimilt að ráða rithöfund til að semja leikverk, og skal hann ráðinn með kjörum leikara í hæsta launaflokki meðan hann vinnur að ritun þess. Eftir sem áður á höfundurinn fullan höfundarrétt að verki sínu, og ber honum sérstök þóknun, ef ákveðið er að taka verkið til sýningar.“

Ég er sammála því, að það sé ástæða til þess að vinna að því að efla íslenzka leikritagerð. En ég er algjörlega ósammála því, að það verði leitazt við að gera það með þeim hætti, sem þessi till. gerir ráð fyrir, vegna þess að ég hef enga trú á því, að nokkur trygging sé fyrir því, að þetta verði til nokkurs framdráttar fyrir íslenzka leikritagerð.

Ég tel, að það sé mjög varhugavert fyrir Alþ. að fara út á þá braut að ráða sem starfsmenn ríkisins einstaka menn til þess að skapa hugverk á borð við leikrit. Ég veit ekki til, að það séu dæmi þess, að slíkt sé gert eða hafi verið gert með löggjöf hér á landi. Þetta þykir góð latína á öðrum stöðum, þar sem listamenn, rithöfundar og aðrir andans menn eru ríkislaunaðir starfsmenn. Við þekkjum, hvar það tíðkast, og við vitum líka ofurvel, að þar fylgir böggull skammrifi. Þar verða þessir menn að skapa sín hugverk í samræmi við fyrirmæli og reglur yfir valdanna. Ég er ekki að gera því skóna, að það mundi verða í þessu tilfelli, þó að þessi till. yrði samþykkt, en það gæti kannske orðið einhver smávísir að slíku. Hv. frsm. n. var að tala um vísi í öðru sambandi, hann var anzi smár. Ég hygg, að það mætti með sama rétti telja, að þetta gæti verið vísir að því, sem tíðkast í löndum austan við járntjaldið. En aðalástæða mín fyrir því að vera á móti þessari till., er sú, að ég tel hana ekki til þess fallna að efla íslenzka leikritagerð. Þó að einhver maður sé ráðinn á föst laun til þess að semja leikrit, held ég, að það sé ekki nokkur vissa fyrir því, að út úr því komi nokkuð, sem máli skiptir til þess að efla leikritagerð í landinu. Það kann að vera, að svo geti viljað til. Ég hygg, að það verði líka nokkur vandi að velja þennan mann, sem á að vera fastur starfsmaður til þessara verka. Nei, hvernig sem við veltum þessu fyrir okkur, er augljóst, að það eru aðrar leiðir mun líklegri til þess að þjóna þeim tilgangi að efla íslenzka leikritagerð. Það mætti t. d. hugsa sér, að það geti eflt íslenzka leikritagerð, ef þjóðleikhúsráð hefði heimild til þess að verðlauna bezta íslenzka leikritið á hverju ári. Það mætti líka hugsa sér, að það væri ein leið, að þjóðleikhúsráð hefði heimild til þess að efna til samkeppni um leikritagerð og veitti verðlaun. Þetta eru leiðir, sem við þekkjum vel í okkar þjóðfélagi, en ég er ekki að mæla með þessum leiðum. Ég held, að það geti verið enn betri leið, og í samræmi við það höfum við hv. 6. þm. Reykv. borið fram brtt. við þessa brtt. á þskj. 625, og hún er, með leyfi forseta, á þessa leið:

„Við 12. gr. bætist ný málsgr. svo hljóðandi: Heimilt er þjóðleikhúsráði að greiða laun sem svarar hæsta launaflokki leikara til höfunda nýrra íslenzkra leikrita, meðan verið er að vinna að æfingum og uppfærslu leikrita þeirra. Skulu laun þessi greidd auk höfundalauna. Á vegum Þjóðleikhússins skulu flutt að minnsta kosti þrjú ný íslenzk leikrit á hverju leikári.“

Hér er farið inn á nýja braut. En það er ekki að ófyrirsynju. Öllum er ljóst, að það er annað að skrifa leikrit en að skrifa skáldsögur eða annað þess háttar ritverk. Það skiptir ákaflega miklu máli fyrir leikritahöfund að þekkja starfsemi leikhússins sjálfs, hafa aðstöðu til þess að vinna með leikurunum og skilja þannig og nema þau atriði, sem varða svo miklu í sambandi við leikritagerðina sjálfa. Ég hef ástæðu til þess að ætla, að það sé einmitt þetta, sem íslenzkir leikritahöfundar telji, að þá vanhagi mest um nú. Með till. okkar hv. 6. þm. Reykv. viljum við bæta úr þessu og teljum þetta heppilegustu leiðina til þess að efla íslenzka leikritagerð.

Till. gerir ráð fyrir, að höfundar nýrra íslenzkra leikrita hafi álitleg laun meðan þeir eru að vinna að æfingum og uppfærslu á leikritum sínum. En auk þess skulu þeim greidd höfundalaun. En í till. er einnig gert ráð fyrir, að á vegum Þjóðleikhússins skuli flutt a. m. k. þrjú ný íslenzk leikrit á hverju leikári. Það kann kannske einhverjum að finnast, að hér sé of í lagt og það sé ekki rétt eða eðlilegt að binda þetta í löggjöf. En við teljum, að þessu sé ekki svo háttað. Þrátt fyrir allt er mikil gróska í íslenzkri leikritagerð. Það er af ýmsu að taka og verður væntanlega. En það er ekki þar með sagt, að það þurfi að sýna þessi leikrit öll á aðalsviði leikhússins, í Þjóðleikhúsinu sjálfu. Það segir í till. okkar, að á vegum Þjóðleikhússins skuli a. m. k. flutt þrjú ný íslenzk leikrit á hverju ári. Við höfum í huga, að á vegum Þjóðleikhússins er annað leiksvið, leiksviðið í Lindarbæ, nokkurs konar tilraunaleikhús, og það kemur náttúrlega ekki siður til greina, að á því sviði séu sýnd þessi leikrit, sem um er að ræða í till. okkar 6. þm. Reykv.

Ég leyfi mér að vona, að brtt. þessi, brtt. okkar við brtt. í 6. tölulið á þskj. 604, verði samþ. Ég vil láta það verða mín síðustu orð að ítreka aðvaranir mínar um það, að ekki verði horfið frá þeirri skipan um æðstu stjórn Þjóðleikhússins, sem frv. sjálft gerir ráð fyrir. Ég óttast, að slíkt verði ekki til þess að efla starfsemi Þjóðleikhússins. Það yrði til þess að gera óvinafagnað og veikja starfsemi Þjóðleikhússins.