26.04.1972
Efri deild: 72. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í C-deild Alþingistíðinda. (3224)

98. mál, Þjóðleikhús

Auður Auðuns:

Herra forseti Ég á sæti í menntmn., en var fjarverandi, þegar þetta frv. var afgr. úr n., og stend því ekki að nál. á þskj. 603, en ég vil taka það fram, að ég styð frv., eins og það er fram lagt, og er samþykk þeim brtt., sem n. flytur. Ég skal líka taka það fram, að á fyrri fundum n. hafði ég lýst mig andvíga brtt. á þskj. 604. Ég vil taka það fram, eins og reyndar kom fram hjá hv. 5. þm. Vestf., að ég er þar alveg sérstaklega andvíg þeim breytingum, sem þar er lagt til, að gerðar verði á yfir stjórn Þjóðleikhússins.

Hv. frsm. n. og frsm. fyrir brtt. færði eiginlega þau einn rök fyrir þessum brtt., að þetta væri of mikil yfirbygging á ekki stærri stofnun en Þjóðleikhúsið væri. Það er auðvitað ekki hægt að afgreiða þetta mál með slíkum röksemdum, því að ef vel er að gáð er þarna um að ræða verkaskiptingu milli annars vegar þjóðleikhúsráðs og hins vegar framkvæmdaráðs, sem er fyllilega eðlileg. Eins og áður kom fram hér við umr., er hinu fjölmenna þjóðleikhúsráði ætlað að taka ákvarðanir eða marka aðalstefnu í málefnum leikhússins, þar sem framkvæmdaráðið skal aftur hafa það, sem nálgast að vera frekar eftirlit og afskipti af daglegri stjórn leikhússins, daglegum rekstri leikhússins. Eins og frv. liggur fyrir, er gert ráð fyrir góðum tengslum milli framkvæmdaráðsins og þjóðleikhúsráðs, þar sem í framkvæmdaráði eiga sæti formaður þjóðleikhúsráðs og enn fremur tveir leikarar.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. talaði um, að Alþ. gerði sig hlægilegt, ef það samþykkti þá skipan þjóðleikhúsráðsins og hvernig til þess skuli vera valið, sem í frv. er lagt til. Ég veit ekki, hversu hlátursgjarnt þeim manni kann að vera, en ég sé satt að segja ekkert hlægilegt við það, og þess skal geta, að skapa þarf nokkurt jafnvægi annars vegar milli Alþingis eða þingflokkanna og þeirra, sem þeir velja, og svo aftur fulltrúa listamannanna. Og það er alveg ákveðið markmið, sem þar er haft í huga, að styrkja leikhúsið með slíkum tengslum við Alþ. og þá fyrst og fremst við fjárveitingavaldið á hverjum tíma, því að það er vitað mál, en ekki alltaf auðvelt kannske að gera mönnum það almennt skiljanlegt, hve dýrt það er að reka leikhús, svo að með nokkrum myndarbrag sé og kannske sitthvað vefengt eða tortryggt, þegar um fjárútlát sem einhverju nema er að ræða.

Það er einnig gert ráð fyrir því, og einmitt í þessu sama skyni, að allir þingflokkarnir geti: átt fulltrúa í ráðinu. Í brtt., sem flutt hefur verið, er svo sem ekki verið að þurrka út áhrif Alþingis, en hins vegar er þar till. um að kosnir verði fimm, og þá með hlutfallskosningu, og auðvitað vitum við öll, að það koma ekki allir þingflokkar að fulltrúum í ráðið. Þegar talað er um hið fjölmenna þjóðleikhúsráð, eða 16 manns, finnst mér kannske ástæða til að leiða athygli að því, vegna þess að það er ekki óeðlilegt, að þm. hugsi um kostnað af þeim frv., sem þeir eru að samþykkja, að það er ekki gert ráð fyrir, að um mikla þóknun verði að ræða, heldur yrði þarna fundarþóknun greidd meðlimum þjóðleikhúsráðs, sem gert er ráð fyrir, að komi saman tvisvar á ári; oftar, ef þörf þykir.

Það hefur verið rakið, að mikil vinna var lögð í þetta frv. og að nefndin, sem það samdi, lagði sig mjög fram um að ná samstöðu við listamannasamtökin um frv., sem þau teldu sig geta unað við. Þótt hv. 4. þm. Norðurl. v. hafi áðan sagt, að það mundi ríkja óánægja með frv. meðal listamanna eða leikara, ef ég tók rétt eftir, þá held ég, að óhætt sé að fullyrða, að að því séu lítil brögð. Nú kann ég ekki utanað umsagnir, sem nefndinni bárust, en ekki man ég betur en að umsögn, — þá vona ég, að ég muni það rétt, — frá Leikarafélagi Þjóðleikhússins, undirrituð af Guðbjörgu Þorbjarnardóttur leikkonu, formanni þess félags, hafi lýst yfir eindreginni ánægju með frv. Ég tel mikils virði, að það hefur náðst gott samkomulag við listamannasamtökin um gerð frv. Það má vera, að það séu til einstaka óánægjuraddir, en sáralítið held ég að kveði að því, satt að segja.

Og þegar formaður nefndarinnar, sem frv. samdi, ráðuneytisstjórinn í menntmrn., mætti á okkar fundi, þá heyrði maður á hans afstöðu, að hann væri ragur við, að vikið yrði frá því, sem þeir, listamannasamtökin og listamennirnir, litu á, a. m. k. á því stigi, sem samkomulag.

Svo vil ég koma að því, hve heppilegt það yrði fyrir Þjóðleikhúsið, þetta skipulag, sem hér er lagt til. Halda menn virkilega, að 11 manna þjóðleikhúsráð, sem á að taka við störfum framkvæmdaráðsins, sé heppilegt fyrir eina stofnun, og hvernig verður fyrir þann þjóðleikhússtjóra, sem starfar á hverjum tíma, að búa við slíkt skipulag? Ég efast um, að menn hafi athugað þetta. Ég vil taka það fram, að ég dreg ekki í efa góðan vilja allra í garð Þjóðleikhússins, enda vart annað sæmandi sem einnar okkar helztu menningarstofnunar. Og mér dettur ekki í hug að gera því skóna, að annað en góður hugur í garð leikhússins búi á bak við tillögugerðina, en hitt er annað mál, að mér sýnist hún vera ákaflega vanhugsuð.

Svo vil ég minnast á eitt atriði í þessu sambandi. Ef ég tala um atvinnulýðræði, sem a. m. k. sumir flm. þessarar brtt. taka sér stundum í munn, hvað er nú orðið af blessuðu atvinnulýðræðinu, sem að er stefnt með þessu frv. og framkvæmdaráðinu? Ef samþykkja á brtt. þeirra fimmmenninganna, þá er leikhúsinu stjórnað af ráði, þar sem á sæti einn leikari úr Þjóðleikhúsinu. Framkvæmdaráðið er þannig skipað, að þar á starfslið leikhússins meiri ítök, og af því að ég er nú farin að tala um framkvæmdaráðið, hv. frsm. fyrir brtt. er ekki hér inni, en ég vil leiðrétta samt það, sem bann sagði, að framkvæmdaráðinu væri samkv. frv. eiginlega ekki ætlað annað en að undirbúa fundi og gera till. að fjárhagsáætlun fyrir þjóðleikhúsráð. — Ég vil leyfa mér að lesa hér seinasta málslið 1. mgr. 9. gr. frv., þar sem segir af verkefnum framkvæmdaráðsins:

„Framkvæmdaráðið sér um, að staðfestri áætlun sé framfylgt, og fjallar auk þess um þau mál, er leikhúsið varða og upp eru borin á fundum þess.“

Og þar má hver maður vitaskuld sjá, að það verður aðalverkefni framkvæmdaráðsins. Þessu verkefni er svo 11 manna ráði ætlað að taka við og skipað á þann hátt, sem í brtt. segir. Ég á nú eftir að sjá það, að Bandalag ísl. listamanna sé ánægt með það, að það er fækkað um fulltrúa í hópi þeirra, sem þeir mega tilnefna, sem beinlínis er tekið fram í frv., frá hvaða listgreinum skuli vera, sem sé tónlistarmann, listdansara og rithöfund, en samkv. frv. verður bersýnilega einhver þeirra úti í kuldanum.

Þá sagði frsm. fyrir brtt., að með því væri búið, eins og hann orðaði það, að koma þessu niður í starfrækjanlegt ráð 11 manna. Ég sé nú satt að segja ekki mikinn mun á því, ef þetta á að vera framkvæmdanefnd, sem má segja, að hafi undir smásjá daglegan rekstur leikhússins, hvort þar eru 11 eða 16 menn, því að alla vega er þetta orðið allt of stórt ráð og mun áreiðanlega torvelda störf leikhússins, að ég tali nú ekki um þjóðleikhússtjórans.

Þá skal ég víkja örlítið að þeirri brtt., sem ekki snertir yfirstjórn Þjóðleikhússins. Það er sem sé brtt. í tölul. 6 á þskj. 604, sem við hv. 5. þm. Vestf. flytjum brtt. við. Þessi brtt. er gamall kunningi okkar, sem eldri erum í deildinni alla vega. Ég man nú ekki, hvað mörg ár eru síðan, að hér kom inn afkastamikill varaþm., og ég skal ekkert um það segja, hvort svo mikil afköst koma niður á gæðum afreka manns, en mér leizt nú aldrei á þá till. Hún fór til n., en afgreiðslu hlaut hún ekki hér og líklega hefur ekki verið gefið út um hana neitt nál.

Þar var lagt til á sama hátt, að það væri heimilt að ráða rithöfund til þess að semja ritverk, í eitt ár í senn, ef ég man rétt. Alla vega var það takmarkað við eitt ár. Hér er lagt til, að hann verði ráðinn til að semja leikverk á þeim kjörum, sem þarna greinir, meðan hann vinnur að ritun þess. Frsm. fyrir brtt. sagði reyndar áðan: í nokkra mánuði, en hér stendur skýrum stöfum: „meðan hann vinnur að ritun þess“. Ja, það er nú það. Ég hef einhvern tíma heyrt, að Goethe hafi veríð í 16 ár að fullgera sinn Faust, en það er nú kannske engin hætta á, að þau ósköp dynji á Þjóðleikhúsinu, að það fái annan Goethe til að rita leikverk. Það ber að vísu að harma, en þá væri kröfum stefnt nokkuð hátt, ef ætlazt væri til þess.

Þá sagði hv. frsm. brtt., að þetta væri gert með hliðsjón af því, að rithöfundar hefðu ekki ráð á að verja löngum tíma kauplaust til að semja leikrit. Ég vil taka undir það, sem hér vefur komið fram, að það er ótrúlega mikið, sem kemur fram af íslenzkum leikritum. Ég efast um, miðað við fámennið hér, að annars staðar sé betur gert í þeim efnum. En einmitt eins og hv. 5. þm. Vestf. sagði : Það, sem leikritahöfundar þurfa fyrst og fremst að fá tækifæri til, er að kynnast leikhúsinu innan frá, vegna þess hvílík sérgrein það er að skrifa fyrir leiksvið, og þetta, sem við leggjum til í okkar brtt., að menn séu við skulum segja verðlaunaðir með því að vera á launum þann tíma, sem verið er að setja upp eftir þá leikrit, tel ég, að ætti vissulega að örva menn til leikritagerðar, og það er líklegra til þess að gefa meiri breidd í viðleitni manna til að skrifa íslenzk leikrit. Þetta er atriði, sem mér hefur satt að segja oft komið til hugar, ekki beinlínis í þessu formi, en hve mikil brögð væru að því, að leikhúsin hleyptu rithöfundum inn fyrir sína veggi til að kynnast leikhúsinu innan frá. Ég held, að um það þurfi ekki út af fyrir sig lagafyrirmæli, því að segja má, að það sé frekar framkvæmdaatriði, en vissulega er æskilegt, eftir því sem unnt er, að gera slíkt. En mér er það ljóst, að það er vissulega ekki á allan hátt auðvelt.

Ég þarf út af fyrir sig ekki að hafa fleiri arð um frv. eða brtt., vildi þó gera grein fyrir minni afstöðu, þar sem ég á sæti í menntmn. Ég endurtek það, að mér finnst þessar brtt. vera vanhugsaðar og ég óttast, hvaða afleiðingar þær geti haft fyrir Þjóðleikhúsið. Ég veit auðvitað ekki um afstöðu hv. þm. í d. til þessara till., utan þeirra, sem þær flytja, en ég mætti kannske ljúka þessum orðum mínum með því að segja, að mikil forvitni léki mér satt að segja á því að vita um hug menntmrh. til þeirra.