26.04.1972
Efri deild: 72. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í C-deild Alþingistíðinda. (3228)

98. mál, Þjóðleikhús

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að gera nema örstutta aths., og það voru aðeins síðustu orð hæstv. menntmrh., sem gáfu mér tilefni til þess að gera aths. Hann segir, að það sé ofrausn að tiltaka í lögum, að sýna skuli þrjú íslenzk leikrit árlega, því að það — (Menntmrh.: Þrjú ný.) Þrjú ný, þrjú ný. Það sé ekki víst, að það fáist svo mörg sýningarhæf. Ég gerði grein fyrir því, að í till. felst ekki, að það sé skylda að sýna þessi leikrit í Þjóðleikhúsinu, og ég benti sérstaklega á, að það gæti farið vel á því og ekki síður að sýna þetta í tilraunaleikhúsi eins og í Lindarbæ. Og það kemur líka vel til greina, að Þjóðleikhúsið leggi sinn skerf fram í þessu efni jafnvel með því að sýna slíkt leikrit úti á landi. Ég held, að þetta sé algerlega raunhæft og það sé auk þess, eins og ég hef áður bent á, bezta leiðin til þess að efla íslenzka leikritagerð, að fara þá leið, sem till. okkar hv. 6. þm. Reykv. gerir ráð fyrir.

Ég vil aðeins segja nokkur orð út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að það hefði verið aðalatriði hjá leikurum, að stjórn Þjóðleikhússins sé ekki skipuð ótakmarkaðan tíma og þjóðleikhússtjóri verði ekki ráðinn alla starfsævina út. Þetta eru stór atriði. En eftir því sem ég veit, þá held ég, að það hafi ekki verið neinn ágreiningur um þessi atriði við endurskoðun laganna, það hafi öllum þótt þetta sjálfsagt mál. Ágreiningurinn var um önnur atriði og fyrst og fremst um yfirstjórnina.