05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í C-deild Alþingistíðinda. (3233)

98. mál, Þjóðleikhús

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls voru greidd atkv. um nokkrar brtt., sem fluttar voru við frv. af hv. þm. Steingrími Hermannssyni, 1. þm. Vestf., Páli Þorsteinssyni, 3. þm. Austf., auk mín. Í þessum till. var m. a. fjallað um skipan þjóðleikhúsráðs og starfsemi þess. Þá var samþ.brtt. frá okkur, sem þessar till. fluttum, að fækkað yrði talsvert í ráðinu, eða úr 16 í 11, og skipan ráðsins þar með gerð allmiklu einfaldari en áður var fyrirhugað. Jafnframt var með þessum breytingum að því stefnt, að ráðið yrði virkara en áður hafði verið gert ráð fyrir. Það var ekki fyrirhugað, að þjóðleikhúsráð kæmi saman nema tvisvar sinnum á ári, en breytingin, sem þarna var gerð, var við það miðuð, að ráðið yrði miklu virkara og það kæmi saman mánaðarlega.

Það var okkar skoðun og er, að þjóðleikhúsráðið geri raunverulega ekki það gagn sem skyldi, ef það er ekki raunverulega virkt og fylgist náið með störfum stofnunarinnar. Þessi brtt. varðandi þjóðleikhúsráðið snertandi nokkrar greinar frv. var síðan samþ., og þessi breyting hlýtur að sjálfsögðu að hafa nokkur áhrif á aðra tilhögun, sem snertir stjórnskipan Þjóðleikhússins. Við höfðum í brtt. okkar gert ráð fyrir því, að þjóðleikhúsráð yrði hin virka stjórnarstofnun Þjóðleikhússins, og höfðum þar af leiðandi gert ráð fyrir því, að hið svo kallaða framkvæmdaráð Þjóðleikhússins félli niður eða yrði ekki sett upp og það yrði fyrst og fremst þjóðleikhúsráðið, sem stjórnaði Þjóðleikhúsinu í samráði við þjóðleikhússtjóra, en að vísu höfðum við gert ráð fyrir því í till. okkar, að þjóðleikhússtjóri undirbyggi fundi ráðsins í samráði við fjármálafulltrúa leikhússins og formann þjóðleikhúsráðs, og mátti því segja, að þar væri nokkur vísir að starfsnefnd innan leikhússins.

Það fór nú svo, að við drógum hins vegar þessar till. til baka, áður en til atkvgr. kom, og þær komu því ekki til atkv., m. ö. o. þær till., sem snertu framkvæmdaráðið. Raddir komu upp um það meðal leikara, að æskilegt væri þrátt fyrir þessa breytingu á þjóðleikhúsráðinu að hafa eitthvert það ráð eða þá nefnd innan leikhússins, sem undirbyggi fundi þjóðleikhúsráðsins, þó að hún væri sem sagt ekki nein valdastofnun í sjálfu sér, og með hliðsjón af ábendingum, sem þá komu fram, höfum við nú endurmótað till. okkar og flytjum að nýju brtt. við frv., á þskj. 680, þar sem gert er ráð fyrir því, að sett verði á stofn svo kölluð starfsnefnd leikhússins, sem í eiga sæti fimm menn, og eru það sömu mennirnir og reiknað var með, að ættu sæti í svonefndu framkvæmdaráði. Það má segja, að þessi nefnd sé um margt með hliðstæðum hætti og framkvæmdaráðið svo kallaða, en þó er þarna sú breyting gerð, að þjóðleikhúsráði er ætlað að starfa með virkara hætti en áður var reiknað með, og því er á samsvarandi hátt gert nokkuð minna úr þessari stjórnarstofnun heldur en ráðgert var í upphafi, í öndverðu. Og til enn frekari undirstrikunar á þessu er nafninu breytt og þessi stjórnarstofnun nefnd starfsnefnd leikhússins. Ég held, að þessi breyting þurfi ekki frekari útskýringar við. Það er rétt að benda á það, að brtt. voru prentaðar upp, brtt. á þskj. 680.

Ég bæti því þá við, að þær till., sem við höfðum áður flutt um framkvæmdaráðið, eru að sjálfsögðu dregnar til baka. en bendi á, að það er ekki hægt að láta frv. standa óbreytt, eins og það er í dag, vegna þess að við þær breytingar, sem gerðar voru seinast við það, að við drógum till. okkar til baka, þá raskaðist frv. talsvert, þannig að jafnvel þó að hv. deild væri nú sem sagt öndverð þessum brtt., sem við flytjum núna, þá yrði ekki hjá því komizt að gera lagfæringar á frv., til þess að það væri ein heild. En ég vænti þess, að deildin fallist á það að hafa þessa skipan á, sem við höfum gert hér till. um á þskj. 680, og þá þarf sem sagt ekki að efast um, að þjóðleikhúsráðið sé ein heild, ef þær verða samþykktar.

Ég vildi bæta því svo við, að við höfum í 5. lið flutt örlitla orðalagsbreytingu við 12. gr. frv.,. en þar stóð eftir 2. umr., að þjóðleikhússtjóra væri heimilt með samþykki þjóðleikhúsráðs að ráða rithöfund til að semja leikverk o. s. frv. Ég þarf ekki að útskýra þá grein frekar, en við gerum þá till., að þarna verði gerð sú bragarbót á, að þetta verði orðað á þann hátt, að heimilt sé að ráða rithöfund til að semja leikverk eða tónlistarverk til flutnings á sviði. Það er að sjálfsögðu aðeins ætlunin, að þarna verði um einn starfsmann að ræða hverju sinni, en heimildin er sem sagt útlistuð á þann hátt, að hún gæti líka náð til manna, sem fengnir væru til að semja t. d. söngleiki eða önnur tónlistarverk, sem flutt eru á sviði. Ég held, að þetta þarfnist ekki skýringa, en ég held, að greinin verði hyggilegri að fenginni þessari breytingu.