05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (3236)

98. mál, Þjóðleikhús

Fram. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð. Mér finnst nú eiginlega, að við hv. 5. þm. Vestf., Þorv. Garðar Kristjánsson, sé um að deila um keisarans skegg í þessu efni. Það er laukrétt, sem hann segir, að sú starfsnefnd, sem hér er gerð till. um, er stofnun, sem er á margan hátt mjög hliðstæð framkvæmdaráðinu, um margt er hún mjög lík. En hún er ekki alveg eins. Orðalagið er með nokkuð öðrum hætti í nokkrum atriðum. Það er ekki lögð sama áherzla og var í frv. upphaflega á það, að framkvæmdaráðið skuli vinna við og undirbúa og raunverulega ganga frá starfs- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar, eins og gert var ráð fyrir í 9. gr. frv. upphaflega, heldur er eiginlega tekin afleiðingin af því, að hv. Ed. hefur breytt um stefnu hvað þetta snertir eða breytt stefnu frv. með því að gera þjóðleikhúsráð virkara heldur en áður var hugsað. Þar af leiðir, að það verður að reikna með því, að þessi undirstofnun, sem áður hét framkvæmdaráð, verði ekki eins valdamikil og áður var gert ráð fyrir. Eins og ég segi: hún er um margt lík, þessi stofnun, en hún er ekki eins valdamikil, orðalagið er í ýmsum greinum ekki það sama og það þykir því eðlilegt, að nafnið á stofnuninni sé heldur ekki alveg jafnstórt í sniðum og hið fyrra nafn var.

Hv. þm. var að krefjast þess af mér, að ég viðurkenndi hreinlega, að ég hefði haft rangt fyrir mér og að það hefði verið rétt stefna, sem hefði verið mótuð í frv., og þetta hefði ég séð, en væri með einhvern feluleik í þessu sambandi. Ég átta mig alls ekki á þessum ummælum hv. þm., því að ég veit ekki betur en að einmitt þær till., sem við fluttum varðandi þjóðleikhúsráðið, hafi verið samþykktar hér við seinustu umr. málsins, og spurningin er því bara sú, hvort frv. verður endanlega lagfært í þeim anda og gengið frá því í þeim dúr, sem eiginlega verður að segja, að hlýtur að leiða af þeirri breytingu, sem þá var gerð,

Ég var að vísu þeirrar skoðunar hér áður, að fella ætti þessa undirnefnd niður, eða a. m. k. að minnka hana niður í þriggja manna undir búningsnefnd, eins og gert var áður ráð fyrir, en ég hef núna breytt um stefnu hvað það snertir og fallizt á, að þetta verði svolítið stærri stofnun, að þetta verði fimm manna nefnd og að hún gegni þessu hlutverki að undirbúa fundi þjóðleikhúsráðsins.

Ég tel mig ekki þurfa að fyrirverða mig á nokkurn hátt, þótt ég hafi fallizt á að gera þessa breytingu vegna eindreginna tilmæla frá nokkrum starfsmönnum Þjóðleikhússins. Það má vel vera, að þetta sé hyggilegri skipan, þótt ég sé ekki að öllu leyti ánægður með stjórnarfyrirkomulag Þjóðleikhússins, eins og það er þarna orðið. Mér finnst þetta fullviðamikið allt saman, en ég tel, að við getum samt sem áður látið gott heita, eins og þetta er ráðgert.