05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (3238)

98. mál, Þjóðleikhús

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort hv. 5. þm. Vestf. var að gefa okkur verklega leiðsögn í því að snúa út úr og fara með rangt mál, en það mætti ætla. Hann las upp báðar gr., 9. gr. og 11. gr., en sleppti aðalatriðinu — það er furðulegur málflutningur — og segir svo við okkur, að við séum að snúa út úr. Af hverju las hann ekki það, sem er í 9. gr. frv., þar sem segir: „Framkvæmdaráð fjallar um starfs- og fjárhagsáætlun leikhússins og samþykkir hana með þeim breytingum, er það kann að gera, áður en hún er lögð fyrir þjóðleikhúsráð“ Hvers vegna las hann ekki þetta? Þetta er að mínu viti eitt mikilvægasta verksvið framkvæmdaráðs, sem er sleppt í því, sem við leggjum hér fram, og á þessu er gjörbreyting. Ég vil biðja hv. þm. að taka eftir þessu. Hann legði til, að við læsum frv. og bærum það saman. Við skulum lesa það allt.