05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (3239)

98. mál, Þjóðleikhús

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að gera langa aths. Það, sem hv. 1. þm. Vestf. bar mér á brýn, að ég væri að snúa út úr og rangtúlka, fær ekki staðizt. Auk þess féll hann sjálfur í þennan pytt.

Það er rétt, að ég las ekki upp alla 9. gr. frv., en það, sem hann vitnaði í, var, að framkvæmdaráðið fjallaði um starfs- og fjárhagsáætlun. En í 6. gr. frv. nú segir, að starfs- og fjárhagsáætlun skuli lögð til grundvallar við fjárveitingar til leikhússins. Og þetta er nú sagt í 6. gr. frv. eftir samþykkt brtt. og er, eins og upphaflega sagði, í 9. gr. frv. varðandi verkefni framkvæmdanefndar. Ætlar hv. 1. þm. Vestf. að halda því fram, að framkvæmdaáætlunin eigi ekki að vinnast af starfsnefndinni eða framkvæmdaráðinu? Mér liggur þá við að segja: til hvers er þá starfsnefndin? Í þeirra eigin till. segir: ,,Starfsnefndin sér um, að staðfestri áætlun og öðrum ákvörðunum þjóðleikhúsráðs sé framfylgt, og fjallar um sérhver þau mál, er leikhúsið varða og upp eru borin á fundum þess.“ Auðvitað er því verkefni starfsnefndarinnar eins og það var hugsað sem verkefni framkvæmdaráðsins.