18.12.1971
Neðri deild: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Félmrh. er ekki viðstaddur, ég ætlaði að spyrja hann einnar spurningar. Það mál, sem hér er til umr., er búið að ræða mikið, og ég ætla ekki að lengja þær umr. mjög, en ég kvaddi mér hljóðs hér til þess að beina aðallega tveim spurningum til hæstv. ráðh., annars vegar til forsrh. og hins vegar til hæstv. félmrh.

Í fyrsta lagi vildi ég spyrja að því, hvernig beri að skilja ákvæði 5. gr., þar sem fjallað er um verkefni framkvæmdaráðs, þess ráðs, sem mönnum er nú mestur þyrnir í augum hér af eðlilegum ástæðum og skiljanlegum, þar sem það er einstakt í sinni röð hér á landi. Hér stendur í frv. um verkefni þessa ráðs, að það geri tillögur um árlega heildaráætlun fyrir Framkvæmdasjóð og Byggðasjóð, svo og um einstakar lánveitingar úr þessum sjóðum. Ég vil spyrja í þessu sambandi: Verða engir aðrir aðilar, sem gefa umsagnir til stjórnar stofnunarinnar en umræddir þrír kommissarar stjórnarflokkanna? Veita deildarstjórar deilda stofnunarinnar umsagnir um einstök lán? Í 13. gr. stendur, að lánadeild skuli annast rannsóknir á arðsemi og þjóðhagslegu gildi nýrra atvinnugreina og fyrirtækja, en það stendur ekkert um, að þessar athuganir skuli lagðar fyrir stjórn stofnunarinnar, heldur bara að lánadeildin geri þetta. Verða þessar athuganir lagðar fyrir stjórn stofnunarinnar, þannig að stjórnin geti tekið afstöðu til lána einstakra fyrirtækja á grundvelli þessara athugana?

Það, sem ég vildi víkja að í sambandi við þetta mál og ætlaði að spyrja hæstv. félmrh. um, ef hann vildi vera svo góður að hlýða á mál mitt, er það, að mig minnir, að sá ungi flokkur, sem hann er í, hafi talað um það í kosningabaráttunni og þegar hann var að vaxa úr grasi, að hann legðist eindregið gegn pólitískri spillingu og flokksræði, í hvaða mynd sem væri. Og mig langaði einfaldlega til þess að spyrja hæstv. félmrh., hvort hann telji, að þetta frv. sé vel til þess fallið að framkvæma þessi stefnumið.