14.04.1972
Efri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í C-deild Alþingistíðinda. (3257)

181. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. (Halldór Kristjánsson) :

Herra forseti Þetta frv. fól í sér þá breytingu, að greiðsla á hluta af fæðiskostnaði sjómanna á opnum bátum miðaðist við úthaldsdaga í staðinn fyrir róðradaga. Og sjútvn. sendi þetta til umsagnar Fiskifélagi Íslands, Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands og stjórnar aflatryggingasjóðs.

Það er skemmst af að segja, að afgreiðsla n. var í samræmi við það, sem Fiskifélag og stjórn aflatryggingasjóðs lagði til, en þetta mál var einmitt til meðferðar á Fiskiþingi í vetur. Það varð samkomulag um það að fara hóflega í sakirnar, þannig að sú breyting, sem gerð verður, sé eins og Fiskiþing lagði til. Þá gildir hún frá 1. maí til 30. sept., sem vitanlega er sá tími, sem opnir bátar eru einkum notaðir til sjósóknar og fiskveiða. En auk þess varð samkomulag um það í n. að mæla með því, að sú breyting gilti þó ekki að svo komnu máli nema fyrir það sumar, sem í hönd fer, þannig að ef reynslan af framkvæmd þessa þætti ekki góð, þá féllu þær niður þegjandi og hljóðalaust og giltu ekki lengur, en ef reynslan þykir góð, eins og mér skilst, að menn almennt geri sór vonir um, þá er vitanlega hægt að lögfesta það framvegis.

Í öðru lagi gerði n. þá breytingu á, og það er líka eftir till. Fiskiþings, að fullnægja þurfi, á þessum opnu bátum, kröfum Siglingamálastofnunarinnar um öryggisbúnað og vottorð að liggja fyrir um það. Og í öðru lagi lagði Fiskiþing til, þar sem talað var um smærri báta, lokaða, að það yrði að vera skilyrði, að þeirra úthaldstími væri ekki skemmri en fimm mánuðir, en samkv. till. Fiskiþings leggur n. til, að þar komi til ekki skemmri tími en fjórir mánuðir.