15.03.1972
Efri deild: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (3270)

211. mál, bygging dvalarheimilis fyrir börn

Flm. (Jón Árnason) :

Herra forseti. Á þskj. 417 hef ég ásamt þrem öðrum hv. þm. Sjálfstfl. leyft mér að flytja frv. til l. um aðstoð ríkisins við byggingu dvalarheimila fyrir börn. Eins og fram kemur í grg. fyrir frv. þessu, er til þess ætlazt, að sú aðstoð, sem hér er lagt til, að veitt verði af opinberri hálfu eða ríkissjóði, nái jafnt til dvalarheimila, sem taka börn til dvalar daglangt, og hinna, sem taka börn til lengri dvalar. Svo sem kunnugt er, hefur Alþ. nú um nokkurt skeið samþ. fjárveitingar til byggingar barnaheimila víðs vegar um landið. Þessar fjárveitingar hafa gengið jafnt til dvalarheimila, sem taka börn til dvalar um lengri tíma, og hinna svo kölluðu dagheimila, sem aðeins taka börn til dvalar yfir daginn. Í frv. þessu er, eins og ég áðan sagði, lagt til, að þessi regla verði einnig framvegis varðandi ríkisstyrkinn.

Það væri ekki óeðlilegt, að á meðan þessi starfsemi hefur verið að þróast og festa rætur í þjóðfélaginu, legðist kostnaðurinn öðru fremur á þau byggðarlög, sem dvalarheimilin eru staðsett í, en með hliðsjón af þeirri reynslu, sem þegar er fengin fyrir nauðsyn og þýðingu dvalarheimilanna frá þjóðfélagslegu sjónarmiði, er ekki óeðlilegt, að um starfsemi þessa sé sett ákveðin löggjöf og þá jafnframt kveðið á um það, hver hlutur ríkissjóðs skuli vera í þátttöku í sjálfum stofnkostnaðinum. Með frv. þessu leggjum við til, að byggingarkostnaðinum verði skipt að jöfnu á milli ríkissjóðs og framkvæmdaaðila. Yrðu það sömu hlutföll og gilda um skólabyggingar í þéttbýli, og er ekki óeðlilegt að hafa það til viðmiðunar. Ég tel óþarft að fjölyrða um það, í hvaða tilfellum eða hvers vegna barnaheimili séu nauðsynleg. Öllum er ljóst, hvaða þýðingu þau hafa fyrir einstæðar mæður eða foreldra með smábörn, sem verða að leita sér atvinnu utan heimilisins til þess að sjá sjálfum sér eða fjölskyldunni farborða. Þá má einnig segja, að sama máli gegni um húsmæður almennt, sem eru með smábörn, en vilja leita sér atvinnu utan heimilisins og auka þannig tekjur fjölskyldunnar.

Í mörgum tilfellum eru dagheimilin eina úrlausnin, sem til greina kemur við barnagæzluna, meðan húsmóðirin er fjarverandi frá heimilinu. Þá tel ég einnig rétt að geta þess, sem enn skiptir máli og ekki er lítill þáttur í sköpun þjóðarteknanna, en það er það vinnuafl, sem hér um ræðir og oft hefur bætt úr brýnni þörf atvinnuveganna á auknu vinnuafli. Það ættu þeir að þekkja bezt, sem búsettir eru í sjávarplássunum, að án þess að unnt sé að nýta til hins ýtrasta allt vinnuafl, sem fyrir hendi er, t. d. þegar vertíð stendur yfir, fara mikil verðmæti forgörðum. Allar þessar staðreyndir, sem ég hef nú vikið að, ber að hafa í huga, þegar afstaða til afgreiðslu þessa frv. verður tekin.

Að sjálfsögðu er allt það málefni, sem hér um ræðir, verulega stærra en sjálfur stofnkostnaðurinn, en það er rekstur dagheimilanna. Í dag styrkir ríkissjóður þá hlið málsins einnig að nokkru leyti, en sá þáttur þyrfti endurskoðunar við og skilst mér, að e. t. v. séu þau mál í athugun nú. Þá þarf einnig að athuga gaumgæfilega, hvaða uppeldishlutverki dagheimilin gegna og hvort ekki kemur til greina að útvíkka starfsemi þeirra á sviði kennslumála. Fóstrumenntun fyrir alls konar barnaheimili er í dag orðin sérfag og ber að fagna því og leggja á það sérstaka áherzlu, að hið opinbera veiti þeirri starfsgrein verðskuldaðan stuðning.

Um frv. í heild og einstakar greinar þess vil ég að öðru leyti aðallega vísa til þess, sem fram kemur í aths. við frv. Eins og fram kemur í 1. gr., er gert ráð fyrir því, að þeir, sem geti notið stuðnings samkv. þessum lögum, verði frv. samþ., séu sveitarfélög, félög áhugamanna og einnig í vissum tilfellum atvinnufyrirtæki. Þar kæmu að sjálfsögðu helzt til greina dagheimili, en þó er fram tekið í 4. gr. Frv., að þegar um önnur heimili er að ræða en þau, sem byggð eru af sveitarfélögum, þá skal menntmrn., áður en það tekur afstöðu sína til byggingarinnar, hafa leitað umsagnar viðkomandi sveitarfélags um málið.

Gert er ráð fyrir, að framlag ríkissjóðs til framkvæmdanna sé greitt á fjögurra ára tímabili, á meðan á framkvæmdunum stendur, og þá miðað við upphaflega kostnaðaráætlun. Fari hins vegar kostnaður fram úr upphaflegri áætlun á byggingartímabilinu, skal því, sem umfram verður, skipt á tvö ár að því loknu. Hér er um hliðstæður að ræða á við það, sem tíðkast um skólabyggingar, sem má telja einnig eðlilegt.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið að þessu sinni, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn. og 2. umr.