16.03.1972
Efri deild: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (3275)

214. mál, verkfræðiþjónusta á vegum landshlutasamtaka

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 433 hef ég leyft mér að leggja fram ásamt hv. 1. þm. Vesturl. frv. til laga um verkfræðiþjónustu á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga. Mál þetta eða skyld mál eru ekki ný hér á hinu háa Alþingi. Þessu hefur verið hreyft nokkuð oft. M. a. var lagt fram á síðasta þingi frv. til laga um verkfræðiráðunauta ríkisins á Vestur, Norður-, Austur og Suðurlandi, og fleiri mál mætti nefna svipaðs eðlis. Öll eiga þessi mál rætur sínar að rekja til þeirrar staðreyndar, að verkfræðiþjónustu hefur mjög skort í dreifbýli landsins. Raunar hygg ég, að þeir staðir séu afar fáir utan Reykjavíkursvæðisins, sem hafa verkfræðinga, sem geta veitt þá þjónustu, sem að sjálfsögðu er nauðsynleg, ekki aðeins sérhverju sveitarfélagi, heldur einstaklingum og öðrum framkvæmdaaðilum. Þetta hefur leitt til þess, að ferðir slíkra manna til Reykjavíkur eru mjög tíðar, og fer í það mikill tími og erfiðleikar í sambandi við ferðir að vetrum og tímasóun veruleg.

Ég ætla ekki að hafa langa framsögu um þetta og vísa fyrst og fremst til grg., vil geta þess þó, að í því frv., sem nú er lagt fram, er farið út á nokkuð aðra braut en hefur verið gert í fyrri frv. Upp á síðkastið hafa landshlutasamtök sveitarfélaga mjög eflzt. Ég hygg, að þau séu alls staðar komin á fót í einni mynd eða annarri. Okkur þykir því eðlilegra, flm. þessa frv., að þau fái veg og vanda af því að reka slíka verkfræðiþjónustu. Við teljum, að betur muni farnast á þann veg, að heimamenn séu þarna með í spilinu. Það er því meginbreytingin, sem hér kemur fram, að lagt er til, að komið verði á fót verkfræðiþjónustu í þeim landshlutum, þar sem ekki er fáanleg slík þjónusta, og lagt til, að ríkisvaldið aðstoði landshlutasamtök sveitarfélaga til þess að koma slíkri verkfræðiþjónustu á. Það er gert ráð fyrir því, að þau landshlutasamtök, sem koma á fót verkfræðiþjónustu, fái styrk í eitt skipti fyrir öll, 500 þús. kr., og jafnframt er gert ráð fyrir því, að við opinbera ábyrgist greiðslu á 3/4 hlutum af hallarekstri verkfræðistofu, en þó aldrei meira en nemur 3/4 hlutum af launum og kostnaði við einn verkfræðing.

Það er einnig gert ráð fyrir því, að opinberir aðilar, sem þurfa mjög á verkfræðiþjónustu að halda í dreifbýlinu, notfæri sér slíka verkfræðistofu, ef á fót er komið, og greiði þá að sjálfsögðu fyrir þá þjónustu, sem þeim er veitt, eins og sérhver annar aðili, sem þangað leitar. Það er einnig vakin athygli á því, að opinberir aðilar, sem kjósa að staðsetja eigin verkfræðinga eða tæknimenn úti í dreifbýlinu, geti fengið aðstöðu á slíkri verkfræðistofu, að okkar dómi öllum til verulegs hagræðis. Það vottar þegar fyrir þessu. Vegagerð ríkisins hefur staðsett verkfræðinga, a. m. k. í einum landshluta, sem mér er kunnugt um, og ef til vill fleirum, og það er öllum ljóst, að slíkur maður fær stórum bætta aðstöðu, ef hann getur unnið með fleiri sínum félögum eða „kollegum“ á verkfræðistofu.

Þetta eru meginbreytingarnar, sem fram koma í þessu frv. frá fyrri frv., sem fram hafa verið lögð, og skal ég ekki teygja tímann frekar en ég hef gert, en vísa að öðru leyti til grg.

Ég vil svo leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til félmn. og 2. umr.