18.12.1971
Neðri deild: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég teldi betur fara, að málum væri þannig skipað, sem þessi till. mælir fyrir um, og þess vegna vakti ég máls á því við 1. umr. málsins, að þessi háttur væri á hafður, en ég kom ekki með till., því að ég taldi, að það væri ekki gerlegt, nema samkomulag næðist um það í n., að svipað fyrirkomulag væri og þessi till. gerir ráð fyrir. Hins vegar er það ljóst, að með því að samþykkja þessa till. verður málið tafið og gengur e.t.v. ekki fram á þessu þingi, og ég tel meira virði að koma málinu í höfn heldur en þó að einhverju þurfi síðar að breyta. Þegar búið er að samþykkja frv., þá er alltaf opin leið að breyta einstökum ákvæðum, ef hagkvæmara þykir, síðar. Þess vegna segi ég nei við till.