02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (3314)

35. mál, samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um samtarf á sviði menningarmála

Frsm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Í sambandi við þetta mál gæti verið ástæða til þess að segja ýmislegt um norrænt samstarf. En vegna þess að margt liggur fyrir þessum fundi, þá mun ég ekki fara langt út í þau efni, en aðeins segja, að það mun vera sameiginleg stefna allra flokka á Íslandi að efla norrænt samstarf af öllum kröftum. Á þessu mun byggjast einróma álit utanrmn. um að mæla með því að þessi þáltill. verði samþykkt.

Norrænt samstarf er orðið æði víðtækt, en í ýmsum greinum þó nokkru losaralegra en vera ætti og mismunandi öflugt eftir því, um hvaða málefnasvið er að ræða. Þessi nýi menningarsáttmáli á að bæta úr í þessu efni á sviði menningarmála og á að efla mjög menningarsamstarf þessara landa frá því, sem það hefur verið. En menningarsáttmálinn er m.a. um það að samræma stefnu landanna í kennslumálum og rannsóknarmálum og um að koma upp, eftir því sem um semst, sameiginlegum stofnunum í þessum greinum. Eru þá einkum hafðar í huga stofnanir til þess að leysa sérstök verkefni, sem er erfitt fyrir þjóðirnar að leysa hverja út af fyrir sig. Tækju slíkar stofnanir ekki sízt til erfiðra og kostnaðarsamra rannsókna og sérnáms af svipuðu tagi. Þá er einnig gert ráð fyrir eflingu samstarfs í almennum menningarefnum.

Nú má segja, að þetta sé allt í samræmi við það, sem menn hafa undanfarið verið að reyna að gera og orðið mjög verulega ágengt í að mínum dómi. Ætlazt er þó til, að á þessu verði öllu fastari tök framvegis.

Í mínum augum er það merkast nýmæli við þennan sáttmála, að nú er ætlunin að efla stórlega sameiginlegt framkvæmdaafl í menningarsamstarfi Norðurlanda. Sameiginleg föst ráðherranefnd Norðurlandanna er komin á fót. Samkv. þessum samningi á ráðherranefndin, þessi sameiginlega ráðherranefnd Norðurlandanna, að sjá um framkvæmdahlið menningarsamstarfsins með stuðningi embættismannanefndarinnar, sem ákveðin er í þessum sáttmála, og með stuðningi hinnar nýju sameiginlegu skrifstofu menningarmála, sem á að koma á laggirnar samkv. þessum sáttmála. Þetta allt til samans mætti kannske nefna eins konar menningar- eða menntaráðuneyti fyrir Norðurlönd.

Þá á að koma upp menningarfjárlögum sameiginlegum fyrir Norðurlönd, og í þau á að raða sameiginlegum verkefnum og ákveða fjárframlög til þeirra. Þessi fjárlög verða gerð af ráðherranefndinni með aðstoð skrifstofunnar eða „ráðuneytisins“, eða hvað við viljum kalla það, og í samráði við Norðurlandaráð og þá einkum menningarmálanefnd Norðurlandaráðs fyrir þess hönd. En fjárveitingar frá einstökum ríkjum til hinna sameiginlegu menningarfjárlaga ákvarðast með samkomulagi í ráðherranefndinni eða samningum í ráðherranefndinni. Fjárhagsskuldbindingar eru því ákvarðaðar jafnóðum með samningum og koma að sjálfsögðu til kasta þjóðþinganna hvers um sig, þegar ráðherrar þeir, sem sjá um Norðurlandasamstarfið, eru tilbúnir að gera till. af sinni hálfu og hafa ráðgazt við Norðurlandaráð, einkum menningarmálanefnd þess. Með þessum vinnuaðferðum á að koma miklu meiri festu og krafti í þetta samstarf en áður hefur verið. Sameiginlegu fjárlögin verða kjölfestan í þessu framvegis, eins og fjárlög eru að jafnaði við þjóðmálastarf af þessu tagi. Það þekkjum við. Í sambandi við þau verða menn að raða verkefnunum og venjast af því að fylla loftið um of af frómum óskum, sem geta verið góðar, en vefst fyrir mönnum að koma niður á jörðina.

Ég geri mér miklar vonir um, að þessir nýju starfshættir allir eigi eftir að verða að góðu liði og efla mjög skynsamlegt samstarf Norðurlanda í menningarmálum í víðtækustu merkingu þess orðs. Ég tel það þýðingarmikið fyrir Íslendinga, að þetta samstarf eflist. T.d. álít ég, að það geti verið til mikilla hagsbóta fyrir okkur, að ýmsar sameiginlegar rannsóknar— og kennslustofnanir komist á fót. Það er svo afar þýðingarmikið, að við gerum okkur glögga grein fyrir því, að hverju við viljum stefna í þessu efni, Íslendingar. Hvaða verkefni viljum við, að verði leyst sameiginlega á vegum Norðurlandanna? Ég vil beina því til hæstv. menntmrh. og hæstv. ríkisstj. að hafa forgöngu í því, að það mál allt verði rækilega skoðað, — hvaða starfræksla það er í þessum greinum, sem við viljum, að verði komið upp á vegum Norðurlandanna, því að það er áreiðanlegt, að ef við höfum fastan vilja í því, getum við haft áhrif á, hvað tekið verður fyrir. Þetta þarf að gera einmitt nú við þessi tímamót, sem óneitanlega verða í menningarsamstarfi Norðurlanda með þessum sáttmála.

Ég endurtek svo, að n. leggur einróma til, að þáltill. verði samþykkt.