02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (3315)

35. mál, samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um samtarf á sviði menningarmála

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Vegna síðustu orða hv. frsm. utanrmn. langar mig aðeins til að bæta við fáum orðum, áður en þessari umr. lýkur. Ég vil taka eindregið undir þau ályktunarorð hans, að við tilkomu hinnar sameiginlegu menningarmálastofnunar Norðurlanda ríður mjög á, að við Íslendingar, menningarstofnanir okkar og stjórnvöld, sem um þau mál fjalla, geri sér grein fyrir, hvaða verkefnum við viljum koma fram með tilstuðlan þessarar nýju stjórnarstofnunar, sem þarna er sett á laggirnar, og þar þurfa ekki aðeins að koma til stjórnvöld. Þar þurfa engu síður að láta til sín heyra samtök og stofnanir og einstaklingar, því að tvímælalaust getur þessi stofnun orðið lyftistöng fyrir menningarstarf á Norðurlöndum öllum, en engir eru í slíkri aðstöðu sem við Íslendingar, svo fámennir, en með svo mörg aðkallandi og merkileg verkefni, og þess vegna eru tvímælalaust tök á því, ef rétt er á haldið, að fá þarna tækifæri til að koma fram málum. sem okkur varða miklu.