18.11.1971
Sameinað þing: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (3327)

49. mál, endurskoðun laga um byggingarsamvinnufélög

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa samstöðu með efni þeirrar þáltill., sem hér er til umr. Eins og kom fram hjá hv. 7. þm. Reykv., hef ég ásamt hæstv. núv. forsrh. allt frá 1966 flutt hér nærri árlega frv. um byggingarsamvinnufélög, en afgreiðsla þeirra hefur verið þannig, að 1967 var frv. vísað til ríkisstj. á þeim forsendum. að yfir stæði rannsókn, heildarathugun húsnæðismálalöggjafarinnar. Og þess vegna var talið, að ástæðulaust væri að samþykkja umrætt frv.

Nú hefur þessi endurskoðun húsnæðismálalöggjafarinnar farið fram, eins og hv. þm. vita, en þessi starfsemi alveg orðið út undan, þannig að það traust, sem meiri hl. heilbr.- og félmn. hv. Ed. sýndi ríkisstj. með því að vísa þessu frv. til hennar, var ekki á rökum reist, því að þessi endurskoðun fór ekki fram. Hennar er engu að síður mjög mikil þörf, eins og hv. frsm. ræddi, og ég get upplýst, að í viðtali við félmrh. tjáði hann mér, að hann hefði þegar rætt við fulltrúa ýmissa byggingarsamvinnufélaga um nauðsyn þessarar endurskoðunar og hann hefði nú ákveðið hana. Ég segi þetta ekki til þess að hafa á móti þeirri till., sem hér er lögð fram. Það er alveg eðlilegt, að þessi hv. þm., sem er nú framkvæmdastjóri Húsnæðismálastofnunar ríkisins og þekkir þessi mál vel, hreyfi þessu máli. En afgreiðsla þessa frv., sem ég var 1. flm. að á síðasta þingi, var þannig, að meiri hl. heilbr.– og félmn. flutti brtt. við mitt frv., brtt., sem meiri hl. Alþ. samþykkti, en sem að mínum dómi gerði frv. einskis virði, þar sem út úr því voru felld þau ákvæði, sem ég tel aðalatriðin, og ég ítreka það, að þau eru aðalatriðin. Það er fjármagnsútvegun þessara byggingarsamvinnufélaga, og það er réttur til lóðaúthlutunar fyrst og fremst, þessi tvö atriði, sem hafa staðið byggingarsamvinnufélögunum fyrir þrifum.

Það er vissulega alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að ýmis önnur atriði þarf að lagfæra, eins og það að taka upp styrkari stjórn þessara félaga og kannske fækka þeim, en ég efa, að það verði gert með lagasetningu. Ég efa það, en hins vegar er það atriði, sem stefna ber að. Það sem þarf að tryggja með lögunum, er það að byggingarsamvinnufélögin geti náð tilgangi sínum á þann hátt, að sala skuldabréfanna sé tryggð, því að fyrr en það er gert ná þau ekki tilgangi sínum. Það er alveg ljóst.

Ég vænti þess, að þessi endurskoðun nái fram að ganga og að hún leiði til niðurstöðu eitthvað svipaðrar þeirri, sem ég gerði ráð fyrir í því frv., sem ég flutti á síðasta þingi. Ég skal ekki segja, að það þurfi að vera frá orði til orðs eins og þar er gert ráð fyrir, en í þá stefnu held ég, að þessi endurskoðun verði að vera, ef hún á að koma að nokkru haldi.