03.02.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (3330)

49. mál, endurskoðun laga um byggingarsamvinnufélög

Frsm. (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar till. til þál. um endurskoðun á lögum um byggingarsamvinnufélög, og er till. svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar semja frv. til nýrra laga um byggingarsamvinnufélög. Skal hraða samningu þess sem mest og leggja það síðan fram á næsta þingi.“

Í grg. fyrir þessari till. er m.a. bent á, að margsinnis hafi verið stefnt að því að endurskoða þessi lög, bæði af hálfu nefnda, er settar hafa verið í það verkefni af hálfu félmrn., og einnig með tiltögu flutningi á Alþ. Og enn fremur er á það bent, að frv. hafi verið flutt á Alþ. til nýrra laga um byggingarsamvinnufélög, en þau mál ekki náð fram að ganga hér á hinu háa Alþingi til þessa. Enn fremur er á það bent í grg., að á síðasta ári hafi farið fram viðamikil endurskoðun á gildandi lögum um flesta aðra þætti húsnæðismálanna en þá, sem þessi þáltill. fjallar um. M.a. með hliðsjón af því sé orðið meira en tímabært að taka lögin um byggingarsamvinnufélög nú til endurskoðunar.

Allshn. leitaði umsagnar ýmissa aðila um þetta mál og fékk umsagnir frá Húsnæðismálastofnun ríkisins, Byggingarsamvinnufélagi Reykjavíkur, Byggingarsamvinnufélagi atvinnubílstjóra, Byggingarsamvinnufélagi símamanna, Byggingarsamvinnufélagi Kópavogs og Byggingarsamvinnufélagi starfsmanna ríkisstofnana. Voru allar þessar umsagnir á þann veg, að mælt var með samþykkt till., og m.a. með hliðsjón af því varð allshn. sammála um að mæla með samþykkt till.