20.12.1971
Efri deild: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. hefur borið fram tvær fsp., sem snerta það mái. sem hér er á dagskrá. Það víll nú svo til, að ráðh. eru hér ekki viðstaddir til að svara þessari spurningu. Það má nú segja, að það væri fyrst og fremst verksvið þeirra, en þar sem ég átti nú sæti í þeirri nefnd, sem undirbjó þetta frv., og hef gegnt störfum formanns fjhn., sem fjallaði um þetta frv. sérstaklega, þá sé ég mér skylt að standa hér upp, þannig að þessum spurningum sé ekki með öllu ósvarað.

Þá er fyrst til að taka fyrri spurninguna, en hún var á þá leið, hvort það væri rétt til getið eða hvort það væri nokkuð hæft í því, að um forstöðumenn deilda hjá þessari stofnun gildi sama regla eins og opinbert er og viðurkennt er, að verði um svo nefnt framkvæmdaráð hjá þessari stofnun, að ætlunin sé að skipta um forstöðumenn deilda jafnóðum og ný ríkisstj. tekur við völdum. Það er hárrétt, sem fram kemur hjá hv. fyrirspyrjanda, að það hefur verið að því stefnt, að þessi háttur verði viðhafður í sambandi við framkvæmdaráðið, því að eins og hæstv. forsrh. upplýsti, þegar málið kom til 1. umr., þá er litið svo á, að framkvæmdaráðsmenn séu eins konar trúnaðarmenn ríkisstj. innan þessarar stofnunar, og það þykir því eðlilegt, að skipt sé um þá, þegar skipti verða á ríkisstj. Og einmitt í þeim tilgangi var sett inn dálítil brtt. að frumkvæði hv. fjhn. þessarar d., sem lesa má í 4. gr. frv., eins og það liggur núna fyrir. En þar segir í 2. málsl.: „Framkvæmdaráð má leysa frá störfum með mánaðar fyrirvara, og eiga þá framkvæmdaráðsmenn rétt til óskertra launa í þrjá mánuði.“

Þetta þótti rétt að setja þarna inn til þess að undirstrika það, að um þessa menn giltu nokkuð sérstæðar reglur, hvað ráðningu snertir, og þeir væru ekki ráðnir til lífstíðar, ef svo má segja, eins og venja er um ríkisstarfsmenn almennt. Ég vildi bæta því þá við, hvað þetta atriði og þessa spurningu snertir, að um forstöðumenn deilda gegnir að sjálfsögðu allt öðru máli, vegna þess að þeir eru venjulegir embættismenn stofnunarinnar, sem verða væntanlega skipaðir til sinna starfa af ríkisstj., eins og fram kemur í 3. gr., og það er einmitt gert ráð fyrir því, að allt starfslið hjá stofnuninni annað en framkvæmdaráðið sé fast starfslið, sem sé alveg óbreytt, án tillits til þess, hvaða ríkisstj. er við völd hverju sinni. Og það er framkvæmdaráðið eitt, sem ætlunin hefur verið, að breyttist með nýrri og nýrri ríkisstj.

Hvað síðari spurninguna snertir, þá var hún á þá leið, hvort gerð hefði verið rekstraráætlun eða starfsáætlun fyrir stofnunina, þannig að fyrir lægi, hve mikill kostnaður yrði við rekstur hennar. Ég held, að ég geti leyft mér að svara þessari spurningu örugglega neitandi. Það hefur engin slík áætlun verið gerð. Það er einmitt verkefni væntanlegrar stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar samkv. 3. gr. að gera slíka rekstraráætlun og starfsáætlun, sbr. 2. og 3. tölul. 3. gr., og ég get leyft mér að fullyrða það, að það hefur enginn tekið sér þau verkefni fyrir hendur.

Hitt er annað mál, að nú er starfandi stofnun, sem ber heitið Efnahagsstofnunin, og ég geri ráð fyrir því, að hún hafi þegar sett sér einhver plön, eins og slíkar stofnanir hljóta alltaf að gera, meðan þær eru ekki lagðar niður, og af plönum þeirrar stofnunar má kannske eitthvað ráða um starfsemi þessarar stofnunar, því að margt er líkt með skyldum. I;g hef nú hins vegar ekki þau plön í höndunum, og get því ekki gefið neinar upplýsingar um þau. Ég vildi hins vegar undirstrika það, að þarna verður um að ræða, að unnið verður að fjöldamörgum verkefnum á vegum Framkvæmdastofnunarinnar, sem raunverulega hvergi er unnið að í dag, og það má segja, að að því leyti sem hægt er að segja, að þetta sé viðbót við það ríkiskerfi, sem við höfum í dag, þá er það einkum það verkefni, sem hér er rætt um, að það er lögð áherzla á það í frv. að hefja mjög víðtæka áætlanagerð. Svo verða menn að meta það bara hver með sér, hvort slík störf séu nauðsynleg eða ekki, og ég geri ráð fyrir því, að þarna verði um töluverðan kostnaðarauka að ræða frá því, sem nú er. Það er rétt að undirstrika það, að þeir aðilar, sem bera eiga kostnað af starfsemi stofnunarinnar, eru samkv.

36. gr. ríkissjóður, Seðlabanki Íslands, Framkvæmdasjóður og Byggðasjóður. Fyrst og fremst þessir aðilar munu standa straum af kostnaði við störf stofnunarinnar. Ég á þess vegna ekki von á því, að þarna verði um neinn feikilegan kostnaðarauka að ræða fyrir ríkisvaldið umfram það, sem nú er. Það kemur sem sagt nokkuð af sjálfu sér, að Framkvæmdasjóður, — það er töluverður kostnaður við rekstur hans í dag, — mun líka að nokkru leyti standa undir kostnaði við þessa stofnun. Það er töluverður kostnaður við starfsemi Atvinnujöfnunarsjóðs í dag, og þó að væntanlegur Byggðasjóður verði á framfæri stofnunarinnar, þá ætti það kannske ekki að hæta svo miklu við. Seðlabanki Íslands tekur þátt í kostnaði við Efnahagsstofnunina í dag, og hann mun taka þátt í kostnaði við þessa stofnun, þannig að ég efast um, að þarna verði um svo stórkostlega viðhót að ræða fyrir ríkissjóð semslíkan vegna þess líka, að það má vænta þess, að þegar þessi sameining á sér stað, þá verði um hagræðingu að ræða og sparnað, sem einmitt fæst við það, að sjóðir eru sameinaðir og verkefni, sem unníð hefur verið að á mörgum stöðum í þjóðfélaginu í dag, eru sameinuð undir einni stofnun.

Úr því að ég er nú staðinn upp og kominn hér í ræðustól, þá vildi ég aðeins láta þess getið og minna á það, að frv. um Framkvæmdastofnunina kemur ekki algerlega óbreytt til meðferðar okkar, eins og reyndar að líkum lætur, því að annars væri það ekki komið til okkar hér öðru sinni. Nd. hefur gert nokkrar breytingar á frv., og vafalaust eru yfirleitt til bóta þær breytingar, sem þar hafa verið gerðar. Það hefur t.d. verið gerð sú breyt. í sambandi við 10. gr. frv., þar sem ætlazt er til þess, að stjórn stofnunarinnar, eins og segir í 1. mgr., ákveði, í hvaða röð skuli unnið að áætlunarverkefnum og hver skuli vera markmið og forsendur hverrar áætlunar, að nú er jafnframt gert ráð fyrir því, að um þetta sé haft samráð við ríkisstj.

Eins er það í 12. gr. frv., þar sem rætt er um, að settar séu almennar reglur um, hvers konar framkvæmdir skulu hafa forgang umfram aðrar, að þar hefur verið skotið inn setningu, sem felur það í sér, að höfð skulu samráð við banka og stærstu fjárfestingarsjóði. Ég býst við, að allir geti verið sammála um þessar breytingar, enda má hiklaust fullyrða, að þetta hefði verið gert, jafnvel þótt ekki hefðu verið nein lagaákvæði um þetta.

Eins var gerð breyting hér á ákvæðunum um Byggðasjóð, — ég held, að það hafi verið 29. gr., — en þar er gert ráð fyrir því, að það sé m.a. eitt af hlutverkum stofnunarinnar að styðja lífvænleg byggðarlög, sem eiga á hættu að fara í eyði.

Þetta voru helztu breytingarnar, sem gerðar voru, en auk þess var gerð breyt. á 6. gr., sem er í öllu falli töluvert mikilvæg. Þar var skotið inn svo hljóðandi setningu, sem kemur í staðinn fyrir þá 3. gr., sem áður var: „Deildin er ríkisstj. til ráðuneytis í efnahagsmálum og heyrir beint undir ríkisstj.“ Þarna er um breytingu að ræða, sem er dálitið meira en bara efnisbreyting, þó að kannske megi segja, að einhver vafi geti leikið á um það, hvað raunverulega felst í þessari breytingu. Eins og ég hef rakið, þá er hér sagt skilmerkilega, að deildin heyri beint undir ríkisstj., en áður hefur það komið fram og er tekið fram í 1. gr. frv., að stofnunin öll heyri undir ríkisstj. Þarna er sagt, að þessi ákveðna deild heyri undir ríkisstj. og það beint. Ég ætla nú ekki að fara að fjölyrða um það, hvað þessi breyting hefur í för með sér. Ég held, að það liggi í augum uppi, að þetta felur það í sér, að margumtalað framkvæmdaráð stofnunarinnar, sem fjallað er um í 4. gr., hefur þá ekki með málefni hagrannsóknadeildar að gera. Hún er óháð því ráði með öllu, og má segja, að hún falli ekki undir starfssvið stjórnar stofnunarinnar heldur að öllu leyti, eins og ótvírætt var áður. Þó sýnist mér nú, að þarna geti verið um einhvern svolítinn vafa að ræða. Í 3. gr. frv. segir, að það séu verkefni stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar, m.a. í 2. tölul., að ákveða rekstraráætlun fyrir stofnunina til eins árs í senn, að ákveða starfsáætlun fyrir stofnunina og að samþykkja allar áætlanir, sem stofnunin gerir. Og ég geri ráð fyrir því, að þar sem þessum ákvæðum hefur ekki beinlínis verið breytt, þá standi þau í sjálfu sér áfram, enda þótt það liggi í augum uppi, að ríkisstj. hefur æðsta vald, hvað þessi atriði öll snertir, og getur auðvitað tekið að sér að ákveða þessa hluti eða reyndar falið stjórninni að gera það. Ég vil nú ekki fjölyrða sérstaklega um þetta atriði. Ég er þeirrar skoðunar, að þessi breyting, sem þarna var gerð, sé ekki örugglega til neinna bóta. Ég er hræddur um, að þetta ákvæði geti valdið einhverjum vafa, en ég er hins vegar sannfærður um, að það veldur ekki vandræðum. Ég held, að stjórn stofnunarinnar muni ekki eiga í vandræðum með að eiga góða samvinnu við ríkisstj., og það er ríkisstj., sem vill nú eiga úrskurðarvald um það hverju sinni, hvert er verksvíð stjórnarinnar og hvað ætti örugglega að fjalla um á ríkisstj.- fundum, og ég er ekki í neinum vafa um það, að það verður vandalaust að komast að niðurstöðu um það, þannig að öllum megi vel líka.

Ég stóð nú hér fyrst og fremst upp til þess að svara þessum tveimur spurningum, sem hér voru bornar fram, og hef ekki ástæðu til þess að eyða fleiri orðum að þessu frv. að sinni.