09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (3375)

21. mál, landhelgismál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Í landgrunnslögunum frá 1948 segir skýrum orðum, að íslenzk stjórnarvöld skuli með reglugerð ákvarða fiskverndarsvæði við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skuli háðar íslenzkum reglum og eftirliti. Með lögum þessum mörkuðu Íslendingar grundvallarstefnu sína í fiskveiðilandhelgismálum. Allt landgrunnshafið, sem þá var miðað við 200 m dýptarlínu, átti að falla undir íslenzka lögsögu varðandi fiskveiðar, eftir því sem nánar yrði ákveðið með reglum af hálfu sjútvrn. Samkv. þessum lögum hafa öll stærri spor verið stigin í fiskveiðiréttarmálum okkar síðan þau voru sett. Þannig var um útfærslu grunnlína fyrir Norðurlandi árið 1950 og um ákvörðun grunnlína allt í kringum landið og útfærslu úr 3 mílum í 4 árið 1952 og útfærsluna 1958 úr 4 mílum í 12 mílur allt í kringum landið.

Um þá stefnu, að Íslendingum bæri að keppa að því marki að ná sem fyrst óskoruðum fiskveiðilandhelgisrétti á landgrunnshafinu, hefur verið fullkomin samstaða með öllum stjórnmálaflokkum í landinu og með þjóðinni allri. Deilur hafa hins vegar oft verið um það, hversu stór skref ætti að stíga að þessu marki hverju sinni og hvenær tímabært væri að ráðast í stækkun. Á s.l. vetri var útfærsla fiskveiðimarkanna enn komin á dagskrá og þá með þeim hætti, að ljóst var, að til beinna aðgerða hlyti að draga innan skamms. Eins og kunnugt er, þróaðist málið á þann veg, að tvær till. komu fram á Alþ. um landhelgismálið, og var fjallað um þær hér á hv. Alþ. í aprílmánuði s.l. Önnur till. var flutt af þáv. ríkisstj., en hin var flutt af fulltrúum þeirra þriggja flokka, sem voru í stjórnarandstöðu. Rétt er við þetta tækifæri að víkja með nokkrum orðum að báðum þessum till. og gera sér um leið grein fyrir, um hvað sá ágreiningur var, sem olli því, að till. urðu tvær. Í till. þeirri, sem ríkisstj. Jóhanns Hafstein flutti, var lagt til, eins og hér hefur verið nokkuð rakið í þessum umr. áður, að Alþ. kysi fimm manna nefnd, sem semja skyldi frv. um landhelgismálið og leggja það fyrir næsta Alþ. Frv. átti að fela í sér í fyrsta lagi skilgreiningu á landgrunni Íslands við sem næst 400 m jafndýpislínu. Í öðru lagi ákvæði um óskertan rétt Íslendinga til fiskveiða í hafinu yfir landgrunninu. Og í þriðja lagi ákvæði um ráðstafanir til að tryggja varnir gegn skaðlegum mengunaráhrifum á hafinu kringum landið. Þá var einnig í till. gert ráð fyrir að fela ríkisstj. að undirbúa friðunarráðstafanir gegn öllum veiðum á helztu uppeldisstöðvum ungfisks.

Eins og glögglega kemur fram í þeim útdrætti, sem hér er tilgreindur úr till. fyrrv. ríkisstj., fjallar hún fyrst og fremst um tiltekinn undirbúning að aðgerðum. En hún felur ekki í sér beinar ákvarðanir um tiltekna stækkun fiskveiðilandhelginnar og ekki heldur um, hvenær stækkunin skuli eiga sér stað. Till. gerir ráð fyrir, að nefndin semji frv., sem lagt verði fyrir Alþ. og að sú nefnd skilgreini nánar landgrunnið við Ísland. Ljóst er því, að till. fyrrv. ríkisstj. var við það miðuð, að ekki skyldi á síðasta þingi tekin bein og bindandi ákvörðun um tiltekna stækkun fiskveiðilandhelginnar, heldur beðið með slíka ákvörðun.

Till. þeirra þriggja flokka, sem á síðasta þingi voru í minni hluta á Alþ., fól hins vegar í sér eftirfarandi fjögur meginatriði:

1. Að landhelgissamningunum við Breta og Vestur-Þjóðverja frá 1961 skyldi formlega sagt upp, þar sem þeir gætu ekki talizt bindandi fyrir þjóðina.

2. Að fiskveiðilandhelgin skyldi stækkuð í 50 sjómílur frá grunnlínum eigi síðar en frá 1. sept. 1972.

3. Að lýsa yfir 100 mílna mengunarlögsögu við Ísland.

4. Að skipuð skyldi nefnd með fulltrúum allra flokka, sem ásamt ríkisstj. skyldi hafa með framkvæmdir málsins að gera.

Till. stjórnarandstöðuflokkanna þriggja var því skýr og ótvíræð og greindi sig frá till. ríkisstj. í því, að hún gerði ráð fyrir bindandi ákvörðunum í málinu þegar á síðasta þingi. Í umr. á Alþ. um landhelgismálið á s.l vori sagði þáv. forsrh., Jóhann Hafstein, að enginn ágreiningur væri um meginkjarna málsins, þ.e. stækkun fiskveiðilandhelginnar, en að deilt væri um leiðir. Eins og kunnugt er, varð landhelgismálið eitt stærsta mál alþingiskosninganna, sem fram fóru á s.l. sumri. Úrslit þeirra urðu þau, að stjórnarandstöðuflokkarnir frá síðasta þingi unnu mikinn sigur í kosningunum og hlutu meiri hluta á Alþ. Stuðningsflokkar fyrrv. ríkisstj. töpuðu hins vegar í kosningunum, og varla fer á milli mála. að afstaða þeirra í landhelgismálinu átti þar sinn stóra hluta að.

Núv. ríkisstj., sem mynduð var 14. júlí s.l., ákvað þegar í upphafi, að stefna hennar í landhelgismálinu yrði sú hin sama og mótuð var í till. stjórnarandstöðuflokkanna á síðasta þingi. Með myndun núv. ríkisstj. var því stefnan í landhelgismálinu ákveðin, og enginn vafi gat því lengur leikið á því, hvað Íslendingar ætluðu sér að gera í fiskveiðilandhelgismálum sínum. Sú till., sem hér liggur nú fyrir til umr., er efnislega hin sama og till. minnihlutaflokkanna frá síðasta þingi, sem þá fékkst ekki afgreidd. Ekki er þörf á að ræða till. í einstökum atriðum. það hefur þegar verið gert, bæði í þessum umr. og í umr. áður hér á Alþ. En strax og núv. ríkisstj. tók við völdum, hóf hún sókn í landhelgismálinu fyrir málstað Íslands. Hún tilkynnti öðrum þjóðum fyrirætlanir sínar, sendi ráðherra og ýmsa fulltrúa sína til margra landa, þar sem rök Íslands voru flutt og engin dul dregin á, hvað Íslendingar ætluðu sér að gera í málinu. Þannig var málið flutt í Bretlandi, Vestur-Þýzkalandi. Sovétríkjunum. á Norðurlöndum, á þingi Sameinuðu þjóðanna, á undirbúningsfundi hafréttarráðstefnunnar í Genf og fyrir fulltrúum fjölmargra annarra þjóða. Enginn vafi er á því, að hin ákveðna og skýra stefna ríkisstj. í landhelgismálinu hefur vakið mikla athygli og hefur orðið til þess að koma af stað mikilli hreyfingu varðandi fiskveiðiréttarmál hjá mörgum þjóðum og mörgum alþjóðlegum stofnunum. sem um þessi mál fjalla. Tilkynning ríkisstj, um ákveðinn útfærsludag fiskveiðimarkanna hefur orðið til þess, að alls staðar, þar sem fiskveiðilandhelgismál eru nú rædd. er rætt um Ísland sem augljóst dæmi um nauðsyn skjótra úrræða í fiskveiðiréttarmálum. Öllum er að verða ljóst, að við getum ekki beðið lengur en við höfum gert með það að tryggja þjóðinni þau undirstöðuverðmæti. sem búseta hennar í landinu hvílir á.

Nú ætti öllum að vera ljóst, að tillögur um að Íslendingar bíði með ákvarðanir í landhelgismálinu fram yfir væntanlega hafréttarráðstefnu, voru rangar. Allar líkur benda til, að hafréttarráðstefnan verði ekki haldin árið 1973, en muni dragast enn um eitt til tvö ár. Litlar líkur benda til, að nægilegur meiri hluti fáist á ráðstefnunni fyrir föstum ákvörðunum um stærð fiskveiðilandhelginnar. Það hélt ég, að hefði komið mjög skýrt fram hjá öllum þeim fulltrúum, sem rætt hafa horfur á komandi ráðstefnu, að þeir væru sammála um það, að litlar líkur væru til þess, að nægilegur meiri hluti, 2/3 atkvæða, næðist fyrir föstum ákvörðunum um þetta mikilvæga málefni. Reynslan hefur því þegar sýnt, að ákvörðunin um útfærslu eigi síðar en 1. sept. 1972 var hyggileg. Hún hefur veitt öðrum þjóðum nægan og sanngjarnan tíma til að aðlaga sig nýjum aðstæðum. en tryggir okkur þá stækkun fiskveiðilögsögunnar, sem við þurfum að fá nægilega tímanlega.

Eitt meginatriðið í þeim ágreiningi, sem til staðar var á síðasta þingi á milli stjórnmálaflokka um aðgerðir í landhelgismálinu, var afstaðan til landhelgissamninganna, sem fyrrv. ríkisstj. gerði við Breta og Vestur-Þjóðverja árið 1961. Á síðasta þingi vildu þáv. ríkisstj.-flokkar ekki fallast á að segja þeim samningum upp, en töldu þó, að Íslendingar hefðu til þess fullan lagalegan rétt. Þá vildum við, sem í stjórnarandstöðu vorum, lýsa því yfir, að samningarnir væru ekki bindandi fyrir Íslendinga og skyldi þeim því formlega sagt upp. Enn er hér um eitt grundvallaratriði landhelgismálsins að ræða. Þegar hefur komið í ljós, að hörðustu andstæðingar okkar í landhelgismálinu, Bretar og Vestur-Þjóðverjar, vilja halda fast í þessa samninga, telja sig eiga rétt á að vísa öllum ágreiningi um stækkun fiskveiðilandhelginnar við Ísland til úrskurðar Alþjóðadómstólsins í Haag. Eins og kunnugt er, eru engin alþjóðalög til um stærð fiskveiðilandhelgi. Gæti því Alþjóðadómstóllinn ekki dæmt eftir neinum slíkum lagaákvæðum. ef til kæmi. Dómstóllinn yrði í slíku tilfelli að starfa sem gerðardómur, og sjá allir, hversu fráleitt það er, að Ísland geti fallizt á, að erlendur gerðardómur úrskurði um slíkt lífshagsmunamál þjóðarinnar sem fiskveiðilandhelgin er.

Samningarnir við Breta og Vestur-Þjóðverja frá 1961 voru um lausn á illvígri deilu, eins og Jóhann Hafstein fyrrv. forsrh. komst að orði í umr. á Alþ. s.l. vor, þegar þetta mál var rætt. Samningarnir gátu aldrei bundið íslenzku þjóðina um alla framtíð. Nú þegar tíu ár eru liðin frá gerð samninganna og algerlega ný og breytt viðhorf hafa skapazt og samningarnir þegar náð þeim tilgangi, sem þeim hafði verið ætlaður, á að segja þeim formlega upp, svo að enginn vafi leiki á, að þeir geti ekki lengur verið í gildi.

Það er von mín, að samstaða geti nú tekizt um það hér á Alþ. að segja samningunum upp. Og þó að enn virðist vera hik í þessum efnum á nokkrum forustumönnum stjórnarandstöðunnar nú, trúi ég því ekki, að við nánari athugun fallist þeir ekki á okkar sjónarmið í þessum efnum og styðji þar með tvímælalausan meirihlutavilja íslenzku þjóðarinnar og ryðji þessari hindrun úr vegi okkar í landhelgismálinu með því að standa að því hér á Alþ., að þessum samningum verði sagt upp.

Í till. þeirri, sem hér liggur fyrir um stefnu ríkisstj. í landhelgismálinu, er við það miðað, að fiskveiðimörkin verði færð út í 50 mílur frá grunnlínu. Svo er að sjá sem ýmsir af forustumönnum núv. stjórnarandstöðuflokka eigi erfitt með að fallast vafningalaust á þessi mörk. Þannig er af þeirra hálfu jöfnum höndum talað um lögsögu yfir öllu landgrunnshafinu út að 400 metra jafndýpislínu eða út að 50 mílna mörkum eða út að mögulegum hagnýtingarmörkum. Jafnframt er því svo haldið fram, að samkv. till. ríkisstj. sé verið að falla frá, að landgrunnið allt falli undir fiskveiðilögsögu okkar. Hér er af núv. stjórnarandstöðu ruglað saman óskyldum málum og auk þess farið rangt með staðreyndir. Landgrunnið við Ísland er ekki nákvæmlega skilgreint eða afmarkað, fremur en við önnur lönd. Mjög breytilegar skoðanir eru um það, við hvaða dýptarmörk eðlilegast sé að miða landgrunn. Flestar þjóðir viðurkenna 200 m dýptarmörkin sem ytri mörk landgrunns. Aðrar halda fram 300 m. sumar 400 m og enn aðrar 600 m. Eitt aðalverkefni væntanlegrar hafréttarráðstefnu er einmitt að setja alþjóðareglur um þetta atriði. Það er því fráleitt að leggja til á þessu stigi málsins, að við ákveðum ytri mörk landgrunns okkar, enda þrýstir ekkert á okkur með skyndiráðstafanir í þessum efnum. Till. 10 þm. Sjálfstfl., sem nýlega hefur verið flutt hér á Alþ., um að fiskveiðilögsaga okkar skuli ná út í ytri mörk landgrunnsins, sem fyrst um sinn skuli miða við 400 m dýptarlínu, en jafnframt skuli heimila erlendum skipum að veiða upp að 50 mílna mörkunum, er að mínum dómi ótímabær og óheppileg tillaga. Samkv. henni er gefið í skyn, að við teljum ytri mörk landgrunns okkar miðast við 400 m dýptarlínu, sem ég tel vera mjög hæpið að gera á þessu stigi málsins.

Þá er með þessari till. lagt til, að fiskveiðilandhelgin fylgi á ýmsum stöðum við landið hinni mjög svo breytilegu 400 m dýptarlínu, en gæzla á slíkri landhelgislínu er augljóslega óframkvæmanleg. Samkv. þessari till. er líka gert ráð fyrir, að fiskveiðilandhelgin við landið verði mjög breytileg að stærð, og brýtur það algjörlega þá meginreglu, sem Íslendingar og flestar aðrar þjóðir hafa bundið sig við í sambandi við ákvörðun landhelgismarka.

Till. ríkisstj. um 50 mílna fiskveiðilandhelgi miðast við það, að svo að segja allt það landgrunnssvæði, sem markast af 200 m dýptarlínunni, og einnig svo að segja allt landgrunnið, sem markast af 400 m línunni, verði innan lögsögusvæðisins. Að sjálfsögðu fer 50 mílna línan alllangt út fyrir þessi mörk á ýmsum stöðum við landið, því að landhelgin er með þessu ákveðin jafnbreið allt í kringum landið. Með útfærslu fiskveiðimarkanna í 50 mílur er stigið stórt skref í landhelgismálinu, en réttur okkar til frekari útfærslu er ekki í neinu skertur. Takist samkomulag um ákvörðun landgrunnsmarka, sem ná lengra út, höfum við opinn rétt til frekari útfærslu síðar. Till., sem fram hafa komið um sérstakar friðunarráðstafanir innan eða utan núverandi fiskveiðimarka, fjalla ekki um fiskveiðilandhelgismálið sjálft. Ég tel því ekki rétt að blanda slíkum till. saman við það stóra mál, sem snertir lögsögu okkar og einkaréttaraðstöðu til fiskveiða á okkar landhelgissvæði.

Auðvitað erum við Íslendingar að framkvæma stórfellda fiskfriðun með því að færa fiskveiðilandhelgina út í 50 mílur. Við ætlum okkur að vísa út af því veiðisvæði mörg hundruð erlendum fiskiskipum, fiskiskipum sem undanfarin ár hafa veitt um helming þess fiskafla, sem veiddur hefur verið á miðunum við Ísland. Þegar við höfum fengið í okkar hendur formlega lögsögu yfir þessu mikla hafsvæði, getum við sett nýjar veiðireglur og ákveðið ný friðunarsvæði. Fyrr getum við það ekki, svo að nokkurt verulegt gagn sé að.

Miklar umr. hafa farið fram hér á Alþ. og einnig utan þess, í blöðum og útvarpi og á mannfundum. um nauðsyn okkar Íslendinga á stækkun landhelginnar við landið. Ég mun því ekki ræða hér ítarlega um rök okkar í þeim efnum, en eitt mikilvægt atriði vil ég þó minna á. Við nefnum oft þá staðreynd, að um 85–90% af andvirði alls útflutnings okkar fáist fyrir útfluttar sjávarafurðir. Fyrir fimm árum var um helmingur útfluttra sjávarafurða síldarafurðir í einni eða annarri mynd. Nú hefur þessi síldarafurðahelmingur horfið svo að segja með öllu. Síldarstofnarnir eru ekki lengur til staðar á fiskimiðunum, og enginn ágreiningur er um það meðal fiskifræðinga margra landa, að síldarstofnarnir hafi verið stórlega ofveiddir. Síldarleysið hefur valdið okkur miklum efnahagserfiðleikum. Við höfum orðið að snúa skipaflota okkar að öðrum veiðum og þá fyrst og fremst að þorskveiðum. Mjög hagstæð markaðsskilyrði erlendis hafa komið okkur til hjálpar í þessum efnum.

Í dag undirbúum við enn af brýnni nauðsyn verulega aukna sókn okkar í þorsk–, ýsu–, karfa– og ufsastofnana við landið. Þessir fiskstofnar eru þó sennilega fullnýttir eða að því hámarki, sem hagkvæmt getur talizt. Þegar við Íslendingar hugsum til þess, sem gerzt hefur með síldarstofnana, og höfum jafnframt í huga, að sókn erlendra stórra fiskiskipa fer vaxandi á miðunum, óttumst við skiljanlega hættulega ofveiði á þýðingarmestu fiskstofnum okkar.

Öllum má vera ljóst, að við slíkar aðstæður getum við Íslendingar ekki beðið í óvissu eftir hugsanlegum fundahöldum erlendis eða hugsanlegu samkomulagi einhvern tíma á komandi árum. Við verðum óhjákvæmilega að taka í okkar hendur umsjá með fiskstofnunum við landið og tryggja þannig skynsamlega og hagkvæma nýtingu þeirra. Við verðum að tryggja lífshagsmuni þjóðarinnar, undan því verður ekki vikizt, þó að við mætum mótmælum og þó að við verðum að glíma við erfiðleika af hálfu annarrar þjóðar vegna þessara ráðstafana okkar. Einhliða útfærsla er okkar eina leið. Alþjóðareglur hafa ekki fengizt fram til þessa um stærð landhelgi. Við verðum því að nota okkur sama rétt og aðrar þjóðir hafa tekið sér og ákveða einhliða stærð fiskveiðilandhelginnar við landið. Við höfum í rauninni þegar tekið okkar ákvörðun í málinu. Þjóðin staðfesti í almennum kosningum til Alþ. þá stefnu, sem mörkuð hefur verið. Fjöldi samþykkta hefur verið gerður í félögum og landssamtökum til stuðnings stefnu ríkisstj. í þessu máli. Stjórnmálaflokkarnir standa líka allir saman um meginatriði málsins. Ágreiningur um minni háttar framkvæmdaratriði ætti að hverfa, svo að hinir erlendu aðilar, sem gegn okkur standa, þurfi ekki að efast um samstöðu okkar og ákveðinn vilja til þess að fylgja málinu eftir. Við höfum lýst yfir vilja okkar til þess að ræða um það við þær þjóðir, sem hagsmuna eiga að gæta í þessum efnum, með hvaða hætti útfærslan yrði gerð. Grundvöllur samninga af okkar hálfu við aðrar þjóðir um nokkurn umþóttunartíma fyrir þær er, að þær viðurkenni óskoraðan rétt okkar til fiskimiðanna og lögsögu okkar á því svæði, sem um er rætt. Ég tel að staða okkar í þessu mikla baráttumáli sé sterk. Við eigum marga stuðningsmenn einnig í þeim löndum, sem harðast standa gegn stefnu okkar í málinu. Við þekkjum afstöðu skozku heimafiskimannanna, sjómannanna í Norður-Noregi, sjómanna og útgerðarmanna í Nýja-Englandi í Bandaríkjunum og víðs vegar annars staðar. Við vitum, að þjóðir Afríku og Suður-Ameríku og margar þjóðir í Asíu hafa svipaða afstöðu til fiskveiðiréttarmála og við höfum. Við teljum ástæðu til að ætla, að flestar þjóðir, sem veiðar stunda hér við land, muni virða í framkvæmd útfærslu okkar. Ég á erfitt með að trúa því, að Bretar reyni hliðstæðan leik og þeir léku hér á miðum okkar árið 1958. Það er skoðun mín, að þeir hafi gert sér ljóst, að slíkan leik geta þeir aldrei unnið gegn samstilltri andstöðu Íslendinga. Við skulum muna vel reynslu okkar frá 1958, þá reynslu, að útlend skip geta ekki stundað hér árangursríkar fiskveiðar í banni okkar. Þó að þær geti í valdi herskipa haldið veiðiskipum á afmörkuðum svæðum innan landhelgismarkanna, nægir það ekki til að veiða með árangri, og slík lögbrot koma í veg fyrir, að hin erlendu skip geti leitað íslenzkra hafna til þess að sækja þangað viðgerðir eða koma þangað með veika menn. Reynslan hefur sýnt, að við slíkar aðstæður getur enginn stundað fiskveiðar á miðunum við Ísland. Sá, sem reynir slík lögbrot, er dæmdur til að tapa. Í þessum efnum skulum við líka muna, að okkar sterkasta vopn er samstaða okkar allra. Það vopn mun reynast sterkara en öll herskip.

Ég sagði, að ég teldi, að staða okkar í málinu nú væri sterk. Það kemur m.a. að mínum dómi fram í því, að ýmsar þjóðir, sem verið hafa okkur andstæðar í þessu máli, og þar á meðal stórveldin, virðast nú nokkuð vera að breyta um afstöðu. Fréttir, sem borizt hafa frá Bandaríkjunum, benda til þess, að þau hugleiði nú allverulegar breytingar á afstöðu sinni til fiskveiðiréttindamála. Og afstaða Sovétríkjanna gagnvart Íslandi er líka hagstæðari en við höfðum áður talið. Það er þó enginn vafi á því, að þessi tvö stórveldi munu halda áfram að berjast fyrir því að fá 12 mílna regluna setta sem alþjóðalög, ef þau eiga þess kost. En það er með þau eins og aðra, að þau verða stundum að láta undan, þegar þau sjá það, að þau fá ekki allt sitt fram. Það er einarður málflutningur okkar Íslendinga og samstaða með þeim þjóðum, sem keppa að sama marki og við gerum, sem hefur haft áhrif í þessum efnum.

Að lokum vil ég svo draga saman í nokkrum setningum þau atriði málsins, sem ég tel, að hér skipti mestu máli:

1) Stækkun fiskveiðilandhelginnar við landið er okkar innanríkismál. Ákvörðun um stækkunina tökum við Íslendingar óbundnir af öðrum.

2) Rök okkar fyrir útfærslunni eru augljós. Ofveiðihættan hangir yfir okkur, og við verðum að treysta okkar efnahagslegu undirstöður.

3) Samningarnir um landhelgismálið frá 1961 þurfa endanlega að verða úr sögunni. Þeim á að segja formlega upp.

4) Sjálfsagt er að ræða um eðlilegan umþóttunartíma við þá, sem veitt hafa á miðum okkar, enda viðurkenni þeir óskoraðan lögsögurétt okkar yfir 50 mílna fiskveiðisvæði.

5) Ástæður okkar fyrir útfærslunni eru bæði friðunarlegs eðlis og efnahagslegs eðlis.

6) Nú erum við að stækka fiskveiðilandhelgi okkar, þ.e.a. auka einkaréttarveiðisvæði okkar, en við erum ekki fyrst og fremst að skilgreina landgrunnið sem slíkt.

7) Allt hik, allur útúrboruháttur og allt þref um aukaatriði á að hverfa. Samstaða þarf að verða um aðalatriði málsins.

8) Stefna okkar vinnur á, og við hljótum stuðning fleiri og fleiri.

9) Á fiskimiðunum við Ísland getur enginn fiskað með árangri í fjandskap við íslenzku þjóðina.

10) Samstaða okkar allra um þetta lífshagsmunamál þjóðarinnar mun reynast sterkari en öll herskip, komi til átaka um framkvæmdir málsins.