09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (3378)

21. mál, landhelgismál

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í till. hæstv. ríkisstj. eru tvö aðalefnisatriði; annað, að fiskveiðilandhelgin skuli ákveðin 50 mílur, hitt, að mengunarlögsaga skuli ákveðin 100 mílur. Á þskj. 56 flyt ég ásamt nokkrum öðrum hv. þm. till. til þál. um landhelgi og verndun fiskstofna, og vegna þess að sú till. snertir mjög þetta mál, sem hér er til umr., vildi ég leyfa mér að gera hana nokkuð að umtalsefni, með leyfi hæstv. forseta.

Varðandi fyrra meginatriðið, hver skuli vera mörk fiskveiðilandhelginnar, hefur hæstv. ríkisstj. tekið þá afstöðu, og stuðningsflokkar hennar höfðu raunar þá afstöðu fyrir kosningar, að hún skyldi ákveðin 50 mílur. Við, sem stöndum að till. á þskj. 56, leggjum til, að fiskveiðilandhelgin verði í stað 50 mílna miðuð við ytri mörk landgrunnsins. Ég skal leitast við að færa nokkur rök fyrir því, hvers vegna við teljum þetta heppilegri aðferð, hagkvæmari fyrir landið og sigurvænlegri í baráttunni út á við.

Í rauninni hefur landgrunnsstefnan verið okkar yfirlýsta stefna, Íslendinga, á þriðja áratug. Þegar lögin voru sett 1948 um verndun fiskimiða landgrunnsins, þá var ekki beinlínis gert ráð fyrir því, að lýst .væri yfir lögsögu okkar, fiskveiðilögsögu, yfir öllu landgrunninu, heldur var okkur áskilinn réttur til þess að taka einstök svæði á landgrunninu og lýsa þau verndar— eða friðunarsvæði. En þegar þessi lög voru sett, lá það auðvitað fyrir, að það var framtíðarstefna okkar, að við tækjum yfirráð yfir öllu landgrunninu. Þessi stefna var ítrekuð og skýrt fram tekin í þál. frá 5. maí 1959, þar sem allur þingheimur stóð saman um það, að afla skyldi viðurkenningar á landgrunninu öllu. Í þeirri þál., sem samþ. var á síðasta þingi um réttindi Íslendinga á hafinu umhverfis landið, er þessi sama stefna mörkuð og ítrekuð. Þegar þau orð falla hjá hæstv. ráðherrum, að þessi till. um landgrunnið allt, sem hér liggur nú fyrir, sé í rauninni yfirboð, þá finnst mér í rauninni vera miklu rökréttara að segja: Till. ríkisstj. er undirboð, hún er afturhvarf frá margyfirlýstri stefnu Alþingis og Íslendinga.

Ein af ástæðunum til þess, að við teljum rétt að slá nú föstum landgrunnsmörkunum. er sú, að við teljum æskilegt, að Alþ. ákveði nú þetta skref, þetta lokaskref getum við sagt, en þurfi ekki að taka þessa baráttu í tveim áföngum, nú 50 mílur, og síðan þurfi einhvern tíma síðar að koma aftur til Alþingis og gera nýja ályktun um, að nú ætlum við að lýsa yfir öllu landgrunninu.

Varðandi ytri mörk landgrunnsins, þá var gert ráð fyrir því í þeirri þál., sem samþ. var á s.l. vori, í aprílmánuði, að sú nefnd, sem þá var kosin, skyldi undirbúa löggjöf um skilgreiningu á landgrunni Íslands, og segir þar svo, að miðað skuli við sem næst 400 m jafndýpislínu, möguleg hagnýtingarmörk eða 50 mílur eða meira frá grunnlínum umhverfis landið eftir því sem frekari rannsóknir segja til um, að hagstæðast þyki.

Það er lagt til í till. okkar, að þessi nefnd hraði störfum. svo að hún geti lagt fram till. sínar fyrir það Alþ., sem nú situr, til meðferðar og afgreiðslu, þannig að til frambúðar geti hin ytri mörk orðið lögfest á þessu þingi. Hins vegar er gert ráð fyrir í till. okkar, að nú sé ákveðið, þangað til slík lög koma, að ytri mörk landgrunnsins skuli miðast við 400 m jafndýpislínu.

Þau orð hafa fallið hér hjá tveim hæstv. ráðh., að þetta sé óframkvæmanlegt eða lítt framkvæmanlegt. Þetta er byggt á algjörum misskilningi. Ég hef aflað mér upplýsinga um það hjá mjög kunnugum mönnum, og enginn þeirra hefur talið erfiðleika á því að miða fremur við þessa dýptarlínu heldur en 50 mílurnar, og sumir þeirra hafa beinlínis kveðið svo að orði, að það sé miklu auðveldara bæði fyrir varðskip og fiskiskip að átta sig á þessari reglu, 400 m dýpinu, en á 50 mílunum. Ég vil a.m.k. þangað til hæstv. ráðh. leggja fram einhver gögn eða sannanir fyrir þessum fullyrðingum, halda fram gjörsamlega því gagnstæða. Það er sagt, að þessi dýptarlína sé svo hlykkjótt, að það sé ekkert hægt við hana að eiga. Það er öllum mönnum vitanlegt, að frá því að í öndverðu var farið að tala um landgrunn miðað við eitthvert ákveðið dýpi, þá hefur alltaf verið gert ráð fyrir því að draga beinar línur yfir djúpála, og vitanlega verður þetta í framkvæmd þannig, alveg eins og núverandi landhelgismörk, 12 mílur, og þau, sem ríkisstj. leggur til, 50 mílur, eru miðuð við beinar grunnlínur út frá vissum grunnlínupunktum, sem ákveðnir eru í reglugerð. Eins verður það að sjálfsögðu í framkvæmd með 400 m dýptarlínuna, að þar verður að taka nokkra grunnlínupunkta, ákveðna breidd og lengd og draga svo beinar línur þar á milli. Þetta hélt ég, að hefði frá öndverðu verið ljóst.

En spurningin er þá þessi: Hver eru helztu rökin fyrir því, að við leggjum til að nú sé fiskveiðilögsagan ákveðin landgrunnið allt, en ekki aðeins 50 mílur?

Í fyrsta lagi er þetta miklu rökréttara og eðlilegra, því að landgrunnið er hluti af landinu, það er sökkullinn, stöpullinn, sem landið stendur á. Hvort sem maður lítur á þetta frá jarðfræðilegu sjónarmiði, atvinnulegu, efnahagslegu, í rauninni hvaða sjónarmiði sem er, þá eru það miklu eðlilegri mörk okkar landhelgi að miða við landgrunnið en 50 mílur, sem ég veit raunar ekki, hvernig eru til komnar, hvort það er fyrir tilviljun eða ágizkun. Það má þá alveg eins segja 200 mílur, 100 mílur, 75 mílur. Hæstv. félmrh. nefndi hér 70 mílur. Þetta eru eðlilegri mörk, rökréttari.

Í annan stað eru á þessu svæði, landgrunnssvæðinu, utan við 50 mílurnar, mikilvæg fiskimið. Það er kunnugt, og þarf ekki að rekja það frekar, að fyrir öllu Vesturlandi og Vestfjörðum nær landgrunnið miðað við 400 m dýpi töluvert lengra, 10, 20 jafnvel 30 mílum lengra en 50 mílur. Og á þessu svæði eru m.a. mjög mikilvæg fiskimið, sem innlendir og erlendir togarar hafa notað og orðið mjög mikið gagn að á undanförnum árum og í dag. Fyrir hagsmuni landsins er þetta því miklu hagstæðara.

Ef við lítum á málflutning okkar út á við, þá tel ég einnig, að miklu auðveldara sé að vinna fylgi okkar málstað, ef við miðum við landgrunnið en 50 mílurnar. Til þess liggja ákaflega margar ástæður. En ég skal fyrst og fremst nefna eina. Og hún er þessi: Varðandi hafsbotninn, sjávarbotninn og auðlindir á honum og í honum er því þegar slegið föstu, að miða skuli við landgrunnið. Og það er orðið viðurkennt, ég vil segja, að það sé orðið viðurkennt í þjóðarétti og það er framkvæmt bæði af stórum ríkjum og smáum, að þau hagnýta sér og helga sér auðlindir á hafsbotninum á landgrunninu öllu, jafnvel þó að það nái langt út fyrir 50 mílur. Nú er svo ástatt með okkur Íslendinga, að við getum e.t.v. ekki vænzt mjög mikilla auðæfa í okkar sjávarbotni á landgrunnssvæðinu af þeirri einföldu ástæðu, að Ísland er jarðfræðilega svo ungt land miðað við flest lönd önnur, að af þeirri ástæðu er ekki búizt við, að við getum átt von á sams konar auðæfum, að því er snertir olíu eða annað, eins og margar aðrar þjóðir fyrir sínum ströndum. Þeim mun meiri nauðsyn er fyrir okkur að eignast yfirráð yfir sjónum á þessu landgrunni, og ef við byggjum á þessum grundvelli, ætla ég, að það verði, þegar til lengdar lætur, harla erfitt fyrir stórþjóðirnar að standa á móti því, að við eignumst auðlindirnar, auðæfin í landgrunninu og yfir því í sjónum, þegar þær sjálfar helga sér öll auðæfi í landgrunninu sjálfu. A.m.k. þó að reynt verði að berjast á móti þessu um stund, þá geta slíkar röksemdir ekki staðizt til lengdar.

Ég hefði vænzt þess og vænti þess enn, að hæstv. ríkisstj. taki það til alvarlegrar athugunar, hvort ekki sé rétt að fallast á það sjónarmið að miða við landgrunnið allt í stað 50 mílnanna. Ég er sannfærður um, að það væri Íslandi heilladrýgra.

Í sambandi við ytri mörk landgrunnsins vil ég þó taka það fram strax og undirstrika, að 400 m dýpið eru engin framtíðarmörk. Ég býst við, að með 400 m dýpinu náist væntanlega helztu fiskimið okkar á landgrunnshallanum, en miðað við hinar stórstígu framfarir í veiðitækni, þá geri ég ráð fyrir að, að því komi, þegar á að ákvarða ytri mörkin til frambúðar, að rétt þyki að miða við meira dýpi en þetta.

Varðandi gildistökudag er svo ákveðið í till. á þskj. 56, að ályktunin komi til framkvæmda þann dag, sem ákveðinn verður af yfirstandandi Alþ. Nú hefur verið reynt að túlka þetta svo, að þar með væri ætlun okkar flm. að slá gildistökunni á frest í óákveðinn tíma. Þetta er misskilningur. Eins og tekið er fram í grg., þótti rétt, vegna þess að ríkisstj. hefur tekið upp samningaviðræður við Breta og Þjóðverja, sem enn standa yfir og eiga að halda áfram í næsta mánuði eða janúar, miðað við það, þótti okkur ekki rétt að ákveða dagsetninguna í þessari till. Hvort dagsetningin verður 1. sept. næsta ár, hvort hún verður 1. júlí, 1. ágúst, 1. nóv., finnst mér ekki skipta neinu höfuðmáli. Í till. er gert ráð fyrir, að það Alþ., sem nú situr, geri það upp við sig, hvaða dag útfærslan skuli ganga í gildi. Og ef hæstv. ráðh. vilja gera það tortryggilegt, að ekki sé ákveðinn dagur í þessari þál., þá beinist sú tortryggni að þeim sjálfum. Hún er hreint vantraust á núv. þingmeirihluta, að honum sé ekki treystandi til þess að ákvarða á þessu þingi gildistökudaginn.

Hitt atriðið er mengunarlögsagan, 100 mílur. Í 5. lið till. á þskj. 56 er gert ráð fyrir, að ríkisstj. geri nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir skaðlega mengun sjávar við strendur landsins og hafsins umhverfis það og eiga samstarf við aðrar þjóðir í því efni, eftir því sem þörf krefur. Hér er um að ræða mál, sem allir eru sammála um, að þarf gagngerar og róttækar ráðstafanir í. Og þetta er ákaflega margþætt mál. Þetta mál snýr fyrst og fremst kannske að okkur sjálfum, og við þurfum að líta í eiginn barm, vegna þess að við vitum það öll, að við strendur landsins og inni á höfnum brestur mjög víða á æskilegt hreinlæti. Óhreinkun sjávar er þar allt of mikil. Olíur og úrgangsefni menga sjóinn allt of víða. Í rauninni þurfum við fyrst að gera hreint fyrir okkar dyrum. Við þurfum að setja strangar reglur um það, hvaða úrgangsefnum skip, bæði íslenzk og erlend, sem hingað koma, megi sleppa í hafið eða við strendur landsins eða í höfnum. Annað atriði er svo það að koma í veg fyrir, að sjónum sé spillt á landgrunnssvæðinu og langt út fyrir það, og í rauninni þarf mengunarlögsaga að ná langt á haf út. Í rauninni finnst mér 100 mílurnar einnig nokkuð handahófskenndar.

Nú fyrir skemmstu, var haldin ráðstefna 12 ríkja í Osló borg, ríkja sem eiga lönd að Norðaustur-Atlantshafi. Þar var rætt um sameiginlegar ráðstafanir eða sameiginlegar reglur til þess að koma í veg fyrir skaðlega mengun sjávar. Það svæði, sem þarna er um að ræða, er bein lína dregin frá suðurodda Grænlands suður á móts við Gíbraltarsund og nær svo yfir allt svæðið þar fyrir austan og nokkuð í Norður-Íshafið. Um þær reglur, sem þar var um rætt, varð samkomulag í stórum dráttum, þó að enn sé eftir að ganga frá þeim samþykktum, og er gert ráð fyrir, að næsti fundur um þær verði haldinn í desembermánuði, en að því stefnt, að þessar reglur öðlist gildi á næsta ári. Í þessum samþykktum eða í þessum till. að samþykktum er gert ráð fyrir því, að annars vegar sé saminn svartur listi, þar sem talin eru efni, sem alls ekki má sleppa í hafið, og hins vegar það, sem menn kalla gráan lista, þar sem eru efni, sem ekki eru eins hættuleg og skaðleg, en sem alls ekki má hleypa í hafið á minna en 2.000 m dýpi enn nær ströndum landanna en 150 mílur. Nú hef ég ekki fengið nægar upplýsingar um það frá þessum fundi enn, hvernig þeir, sem á þeim fundi voru, hafa hugsað sér framkvæmd á þessu, að hve miklu leyti hvert einstakt ríki á þar að sjá um framkvæmd þessara reglna. En að því leyti sem mengunarlögsaga er nefnd í þessum samþykktum, þá er ekki gert ráð fyrir 100 mílum, heldur 150.

Nú er það sannast sagna, að eiturefni, sem hleypt er í hafið mörg hundruð mílur frá ströndum, geta borizt með hafstraumum og eyðilagt fiskimið og saurgað strendur okkar. Varðandi mengunarmálin þarf því ákaflega margþætta starfsemi. Í fyrsta lagi, eins og ég gat um, að líta í okkar eiginn barm varðandi strendur okkar og hafnir. Í öðru lagi samstarf við aðrar þjóðir, og það verður vitanlega m.a. að vera fólgið í því, að hver þjóð taki á sig skyldu um að gæta sinna eigin skipa og leggja við því þung viðurlög, ef skip, sem skrásett eru hjá þeirri þjóð, brjóta gegn þessum reglum. Og í þriðja lagi þarf svo mengunarlögsögu fyrir hvert land einhverja vegalengd á haf út, og ég mundi ætla eftir því, sem gerzt hefur og rætt hefur verið í Osló, að 100 mílurnar séu ekki nægar. Í rauninni finnst mér, að hæstv. ríkisstj. ætti að taka þetta hvort tveggja til gaumgæfilegrar athugunar. Hvort nauðsynlegt sé að binda sig og halda dauðahaldi í töluna 50 varðandi fiskveiðilögsöguna og sömuleiðis í töluna 100 varðandi mengunarlögsöguna. Mér virðist hvorugt byggt á svo raunhæfum grundvelli, að ekki megi þar hnika til og endurskoða.

Varðandi þau ummæli hæstv. félmrh. nú í ræðu hans hér, að þjóðin hafi í kosningum ákveðið 50 mílurnar og m.a. þess vegna sé ekki hægt að taka landgrunnið allt, þá er þetta alger misskilningur og röng túlkun á vilja þjóðarinnar. Ef þjóðin væri spurð um það í dag, hvort hún vildi heldur, að fiskveiðilögsagan væri ákveðin 50 mílur eða landgrunnið allt, þá er ég ekki í neinum vafa um svarið. Yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar mundi kjósa landgrunnið allt. Það er að vísu rétt, að þeir flokkar, sem héldu fram 50 mílunum, sigruðu í kosningunum. Hæstv. félmrh. skýrði það svo, að það hefði nú kannske verið vegna þess, að ályktun síðasta Alþ. og stefna stjórnarinnar hefði ekki verið eins ljós og skýr í einstökum atriðum og till. núv. ríkisstj. En hitt held ég, að sé alveg heimildarlaus túlkun á úrslitum síðustu kosninga, að íslenzka þjóðin vilji heldur fara skemmra en lengra.

Í þáltill. á þskj. 56 er einnig í 2. og 3. lið gert ráð fyrir friðunarsvæðum. Og það er mál, sem er að sjálfsögðu náskylt og eiginlega hluti af öllu þessu máli, sem við ræðum hér. Í 2. lið er sagt, að ákveðin skuli friðunarsvæði á mikilvægum uppeldisstöðvum ungfisks á landgrunninu út að ytri mörkum þess. Það er gert ráð fyrir því, að þetta þurfi ekki að vera algert bann, heldur megi það verða tímabundið og það megi miða við ákveðin veiðitæki og veiðiaðferðir og við stærð fiskiskipa. Og í þessu sambandi er vert að geta þess, að á sumum þeim svæðum, sem mest nauðsyn er að veita vernd, stunda íslenzkir fiskibátar veiðar, sem ekki væri rétt að meina þeim. Hins vegar væri hægt að ná tilgangi verndunar og friðunar með því að friða á ákveðnum árstímum miðað við ákveðin veiðarfæri, miðað við ákveðna stærð skipa, en vitanlega þarf að ganga þannig frá þessum verndarreglum, að ekki valdi tilfinnanlegu tjóni fyrir íslenzk veiðiskip. Það svæði, sem einkum hefur verið nefnt hér og minnzt er á í grg., er fyrir Norðausturlandi, og ástæðan til þess, að í grg. er á það minnzt, er sú, að á undanförnum árum hefur hvað eftir annað verið rætt á fundum Norðaustur-Atlantshafsráðsins, sem ræðir um fiskifriðun, um verndun þeirra, verndun fiskstofnanna. Það hefur alveg sérstaklega verið rætt um þessi svæði fyrir Norðausturlandi, sem væru svo mikilvæg fyrir ungfiskinn. Og af þessum uppeldisstöðvum njóta svo aðrir landsmenn góðs, ekki sízt hér sunnan— og vestanlands. En vitanlega koma ýmis önnur svæði her til greina.

Í 3. lið till. er svo gert ráð fyrir friðunarsvæðum innan núv. 12 mílna landhelgi, og er það í framhaldi af margítrekuðum óskum m.a. frá útvegs- og sjómannafélögum í Vestmannaeyjum og í framhaldi af till., sem fluttar hafa verið hér á Alþ. á undanförnum árum, m.a. og sérstaklega af hv. 3. þm. Sunnl., um að friða hrygningarsvæðin, sérstaklega á Selvogsbanka og vissum svæðum umhverfis Vestmannaeyjar. Það er gert ráð fyrir því, að þessar friðunaraðgerðir bæði utan og innan 12 mílna komi til framkvæmda strax á þessum vetri og gangi í gildi 1. marz. Við flm. teljum, að þetta sé mjög aðkallandi mál. Og í þeirri ályktun, sem samþ. var um réttindi Íslendinga á hafinu í apríl s.l., er lögð á það áherzla, að nú þegar sé hafinn undirbúningur að slíkum friðunarsvæðum.

Við erum sannfærðir um það, flm., að þetta er nauðsynlegt vegna fiskstofnanna og þar með fyrir líf og framtíð íslenzku þjóðarinnar. Ef við lítum á baráttu okkar út á við, þá er ég einnig sannfærður um, að þetta mundi hafa mikla þýðingu. Eins og tekið er fram í grg., eru þegar í gildi ýmsar friðunarreglur hér við land. Ég er sannfærður um það, að svo mikil samúð, svo mikill skilningur, svo mikill áhugi er á náttúruvernd, á friðun, slík alda í heiminum fyrir að berjast gegn rányrkju og ofveiði, að slíkar friðunaraðgerðir okkar á landgrunninu mundu mæta samúð og skilningi hjá fjölda þjóða, sem ekki hafa undir neinum kringumstæðum viljað fallast á 50 mílurnar. Ég held enn fremur, að í okkar málflutningi og baráttu hljóti það að vera mikill styrkur, að við Íslendingar sýnum það bæði í orði og verki, að við viljum ekki aðeins taka yfirráð yfir 50 mílum eða landgrunninu öllu, heldur viljum við vernda fiskstofnana, eftir því sem nauðsyn krefur, og jafnvel leggja hart að okkur sjálfum í því efni. Slíkar ráðstafanir yrðu okkur gott veganesti á alþjóðlegum vettvangi.

Í 4. lið þessarar till. er svo lagt til, að ríkisstj. verði falið að halda áfram og auka þátttöku í samstarfi þjóða til að hindra ofveiði og tryggja Íslendingum eðlilega hlutdeild í fiskveiðum á úthöfum, þar sem íslenzkir fiskveiðihagsmunir ná til. Við vitum það ákaflega vel. að við höfum á undanförnum árum og enn í dag gert út á erlendar veiðistöðvar, erlend fiskimið, langt fyrir utan okkar landgrunn, jafnvel á fjarlæg mið. Einna nærtækast dæmi eru veiðar íslenzkra fiskiskipa í Norðursjó, sem hafa fært íslenzka þjóðarbúinu miklar tekjur að undanförnu. Stundum höfum við notið góðra fiskimiða við austurströnd Norður-Ameríku, við Grænland, að ég tali nú ekki um veiðarnar, einkum síldveiðarnar í hafinu milli Íslands og Noregs. Það er okkur Íslendingum ákaflega þýðingarmikið að líta ekki .á okkar fiskiveiðihagsmuni og fiskveiðimál aðeins sem fiskveiðilandhelgina, 50 mílur eða landgrunnið, heldur líta á þetta á víðtækara sviði, líta lengra. Og það eru hagsmunir okkar sjálfra að reyna með öðrum þjóðum að koma í veg fyrir ofveiði og rányrkju á þessum fjarlægu miðum, sem geta orðið okkur að verulegu gagni eins og öðrum. Ef til þess kemur, eins og oft er rætt á alþjóðlegum ráðstefnum, að taka upp skömmtun eða svokallað kvótakerfi víðs vegar á úthafinu, er okkur nauðsynlegt að hafa þar hönd í bagga og tryggja okkur eðlilega hlutdeild í slíkri skömmtun. Um hvort tveggja þetta, eðlilega hlutdeild okkar í fiskveiðum úthafanna og ráðstafanir til að koma í veg fyrir ofveiði og eyðileggingu fiskstofnanna, um þetta þarf að sjálfsögðu samstarf, samráð við aðrar þjóðir. Að þessu miðar 4. liður í þessari þáltill. á þskj. 56. 2., 3. og 4. liður í þeirri till. eru um friðun út að ytri mörkum landgrunnsins, friðun hér við strendurnar, á fiskimiðunum eða hrygning-arstöðvunum innan 12 mílna og samstarf við aðrar þjóðir varðandi fiskveiðarnar á úthöfunum. Ekkert þessara atriða er nefnt í till. hæstv. ríkisstj. Ég vænti þess, að þessi atriði öll fái góðar undirtektir.

Ég vil að lokum láta í ljós þá eindregnu ósk og von, að þegar þessar till. báðar, sem ég vænti, fara til hv. utanrmn., þá verði málið tekið þar fyrir fordómalaust, hleypidómalaust og reynt að ná samstöðu um sem hagstæðasta till. og ályktun fyrir íslenzku þjóðina.