09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (3379)

21. mál, landhelgismál

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég ætla nú aðeins að fá að segja hér örfá orð og víkja að tveimur atriðum. sem snerta mín störf að undanförnu, en ekki að ræða málið að öðru leyti. Í fyrsta lagi ætla ég að ræða um skipun þeirrar samninganefndar, sem fyrir helgina ræddi við brezk stjórnvöld og núna í dag lauk viðræðum við vestur-þýzk stjórnvöld um útfærslu landhelginnar. Þessi skipan hefur verið örlítið gerð hér að umtalsefni, og þar sem hún var gerð í nafni þess ráðuneytis, sem ég veiti nú forstöðu, ætla ég að leyfa mér að segja aðeins örfá orð.

Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að í landhelgisnefnd var frá því skýrt, að nefnd þessi skyldi skipuð embættismönnum. Það var upphaflega till. brezkra stjórnvalda, sem Þjóðverjar tóku síðan upp, að þessi mál skyldu á þessu stigi rædd af embættismönnum. Þess vegna var um það full samstaða innan ríkisstj., að samninganefnd okkar skyldi verða undir forsæti Hans G. Andersen sendiherra, þess manns, sem að öðrum ólöstuðum er færastur íslenzkra sérfræðinga á sviði alþjóðaréttar, manns sem hefur áratuga reynslu á því sviði og nýtur viðurkenningar langt út fyrir landsteinana. Það var einnig full samstaða um það innan ríkisstj., að aðrir sérfræðingar í þessari nefnd skyldu verða Már Elísson fiskimálastjóri og Jón Arnalds ráðuneytisstjóri. Allir þessir menn voru skipaðir af fyrri ríkisstj. til að vera fulltrúar okkar á undirbúningsráðstefnunni í Genf fyrir hafréttarráðstefnuna, sem halda á þar 1973. Fyrrv. ríkisstj. hafði skipað þessa menn í nefndina, áður en hún fór úr stjórnarráðinu, enda þótt fyrsti fundurinn í Genf væri haldinn nokkrum vikum síðar. Þess vegna held ég, að það liggi alveg ljóst fyrir, að þessir þrír menn nutu og njóta, að ég held, enn fyllsta trausts núv. stjórnarandstöðuflokka. Fjórði fulltrúinn, sem skipaður var til fundanna í Genf, Jón Jónsson, dvelur nú erlendis við önnur störf. Ríkisstj. hefur því enga breytingu gert á því, hvaða sérfræðingar halda á þessu máli fyrir okkar hönd. Það eru sömu mennirnir, sem áður höfðu verið tilnefndir af fyrri ríkisstj. Ég skal fúslega kannast við það, að það er fyrst og fremst hæfni þessara manna, sem veldur því, að ríkisstj. felur þeim þessi vandasömu störf, hæfni þeirra og reynsla. En jafnframt ætti þessi tilhögun þó að sýna þá þjóðarsamstöðu, sem við leggjum svo ríka áherzlu á og sem okkur er svo ákaflega nauðsynleg. Ég vona, að á það verði fallizt, að með þessari tilhögun ætti hagsmuna fyrrv. stjórnarflokka einnig að hafa verið gætt og þess samhengis, sem reynt hefur verið að halda í málinu, hafi líka verið gætt. Það var líka full samstaða um það innan ríkisstj., að eðlilegt væri, að þeir tveir ráðh., sem þessi mál heyra öðrum fremur undir í ríkisstj., ég og hæstv. sjútvrh., ættu kost á að tilnefna sérstaka trúnaðarmenn til þess að fylgjast með í þessum þýðingarmiklu málum. Ég vona og treysti því raunar, að þetta atriði verði ekki talið til óvirðingar hvorki við stjórnarandstöðuflokkana né þriðja stjórnarflokkinn, SF. Frá minni hendi var þetta alls ekki þannig hugsað, heldur aðeins til þess að gefa þeim tveim ráðh„ sem sérstaklega fjalla um þessi mál innan ríkisstj„ tækifæri til að eiga trúnaðarmenn á staðnum, sem væru þarna viðstaddir, þegar sérfræðingar þessara tveggja ríkja ræða málin á sérfræðilegum grundvelli. Þetta vildi ég láta koma hérna fram.

Annað atriði, sem mig langar til að víkja að með aðeins örfáum orðum, er í tilefni af ræðu hv. 8. landsk. þm., þar sem hann gerði að umtalsefni málflutning minn og annarra talsmanna ríkisstj., þar sem við höfum í ræðum erlendis lagt ríka áherzlu á það, að Íslendingum bæri réttur yfir landgrunninu öllu og að við höfum í þessu sambandi talað um 50—70 sjómílur. Hv. þm. vitnaði einnig í bók þá, sem út var gefin af núv. ríkisstj., en undirbúin af hinni fyrri, þar sem þessi málflutningur er einnig uppi hafður. Ég vil út af þessu taka fram, að það er alveg rétt, sem hv. þm. segir, að ég hef oft í ræðum mínum erlendis talað í þessa átt. Ég hef talið mér skylt að gera það vegna ákvæða landgrunnslaganna. Í landgrunnslögunum er það yfirlýst stefna Alþ., að Íslendingum beri að ná yfirráðum yfir landgrunninu öllu. Ég hef jafnframt talað um þann áfanga, sem ríkisstjórn Íslands hafi nú sett sér að ná, en það er fiskveiðilögsaga yfir 50 sjómílum frá grunnlínu. Ég held, að enginn geti verið í vafa um það, hvorki innanlands né utan, að enda þótt það sé yfirlýstur ásetningur Íslendinga að ná yfirráðarétti yfir landgrunninu öllu, séu það 50 sjómílur, sem þessi ríkisstj. ætlar að beita sér fyrir nú í þessum áfanga. Og í fyrrnefnda bók var, strax eftir að þessi ríkisstj. tók við völdum, bætt inn ákvæði stjórnarsamningsins um þetta atriði, þannig að ég held, að alveg sé óhætt að fullyrða það, að aldrei hafi verið siglt undir fölsku flaggi að þessu leyti. Það hefur alltaf verið sagt, að landgrunnið væri markmiðið, en 50 mílur áfanginn að þessu sinni. Ég vil, að þetta komi einnig fram.

Nú er talað um, að það sé ekki nægilega stórmannlegt að tala um 50 mílur, það verði svo og svo mikið eftir af landgrunninu, og að sú málsmeðferð að taka nú 50 mílur muni leiða til þess, að það hefjist fljótlega önnur barátta, kannske jafnerfið, ég veit það ekki, til þess að ná yfirráðum yfir því, sem eftir er. Ég vona, að framvindan í heimsmálunum verði þannig, að till. stjórnarandstæðinganna núna reynist framkvæmanlegar, en hingað til hefur mörgum þótt það nægilega erfitt viðfangsefni, sem núv. ríkisstj. hefur tekið sér fyrir hendur, að afla viðurkenningar erlendis á 50 sjómílna fiskveiðilögsögu.

Ég tók ekki betur eftir en að hv. 5. þm. Reykv., sem síðast talaði hér og var að vísu miklu stórtækari í sínum kröfum en ríkisstj., hann talaði samt um áfanga. Ég heyrði hann tala um það, að 400 m dýptarlína væri svo sem ekkert endanlegt markmið. Hefst þá ekki ný barátta, þegar við þurfum að fara að auka þessa landhelgi? Ég er hræddur um það.

Ég tel sjálfsagt, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv., að áfram verði haft náið samráð við landhelgisnefnd. Landhelgisnefnd á að fá skýrslu um þær viðræður. sem nýlega eru afstaðnar, strax og sú skýrsla hefur borizt ríkisstj. Ríkisstj. hefur í dag mjög litlar fréttir umfram það, sem fjölmiðlarnir hafa skýrt frá um það, sem raunverulega fór fram á þessum viðræðufundum. Ég hef átt eitt símtal við formann nefndarinnar, Hans G. Andersen, og það varð að samkomulagi okkar á milli, að öll skýrslugerð um gang viðræðnanna biði, þangað til hann kæmi heim. Og ég segi það hiklaust sem mitt álit í þessu efni, og það hefur í mínum huga alltaf verið sjálfsagt, að þegar þessi skýrsla lægi fyrir, þá yrði hún kynnt landhelgisnefnd, eins og allar þær aðrar skýrslur, sem rn. hafa borizt af viðræðum erlendis hingað til.

Ég vona, að sá samstöðuvilji, sem einkennt hefur ræður manna hér, ráði gerðum manna og flokka í þessu mikilvæga máli. Þessar till. fara til utanrmn., og þar verður vafalaust reynt að samræma þessi sjónarmið. Ég ætla ekki að gera, eins og ég sagði í upphafi, landhelgismálið neitt sérstaklega hér að umtalsefni, en ég vildi aðeins láta þessi tvö atriði koma fram, af því að þau snerta þau störf, sem ég hef sérstaklega verið að vinna að, að undanförnu.