09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (3381)

21. mál, landhelgismál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, tók sér þann kost að flytja framsögu fyrir allt annarri þáltill. en var á dagskrá og flutti hér alllangt mál um þá till. um landhelgismál, sem hann er 1. flm. að og er á þskj. 56. Í tilefni af ýmsu því, sem fram kom í ræðu hv. þm., fannst mér ástæða til að biðja um orðið og segja hér nokkur orð. Það hefði að vísu ekki verið óeðlilegt, fannst mér, að hv. þm. hefði gert nokkuð að umtalsefni þessa till., að því leyti til sem hún fellur beint saman við það dagskrármál, sem hér er til umr., tillögu ríkisstjórnarinnar um stefnu í landhelgismálum, en hitt fannst mér nú nokkuð mikið, sem hann varði af sínum tíma til að tala hér um það efni þessarar till. sem fjallar í raun um allt annað en það, sem hér er til umr.

Hv. þm. sagði, að það mætti í rauninni að hans dómi líta svo á till. ríkisstj„ að hún væri nánast afturhvarf frá yfirlýstri stefnu Alþ. í landhelgismálinu. Sem sagt, þegar lagt er til að færa landhelgina úr 12 mílum út í 50 mílur, þá lítur þessi hv. þm. á það sem afturhvarf. Ætli hann hafi einnig litið á það sem afturhvarf frá yfirlýstri stefnu Íslendinga í landhelgismálum, þegar við færðum landhelgina úr 4 mílum út í 12? Líklega. En þegar hann ásamt öðrum úr hans flokki flytur nú till., sem hann túlkar á þann veg, að hún gangi enn þá lengra en till. ríkisstj., þá ber þó að hafa í huga, að það fannst ekki viðbragð, hvorki hjá þessum hv. þm., — þá var hann utan þings, en hefði nú getað gert vart við sig eigi að síður, — né hjá flokksbræðrum hans hér á Alþ., að þeir fengjust til þess á s.l .þingi að ganga til móts við aðra um það að miða landhelgisstækkunina við enn þá meira en 50 mílur, að nefna ákveðna tölu og vera ekki með neitt dulmál, sem í rauninni var ekki hægt að skilja.

Eins og hér hefur þegar komið fram í þessum umr., þá þurfti ekki að vera um það ágreiningur á milli flokkanna á Alþ., að landhelgin yrði færð meira út en í 50 mílur, ef það var aðeins gert á þeim grundvelli, sem eðlilegt var að rökstyðja og sem líkur voru til að fá þjóðina til að standa saman um. En þegar svo það hefur gerzt, að stefna hefur verið mötuð, till. fluttar, málið flutt fyrir öðrum þjóðum og ríkisstj. tekið sína afstöðu til málsins, þá er léttur vandi að koma á eftir fyrir þá, sem ekki þorðu á sínum tíma að taka ákveðna afstöðu, og koma með till., sem geta litið þannig út á pappír, að þær gangi lengra. Já, og svo koma þau rök hér, að það megi búast við því, að af því að till. ríkisstj: ganga ekki lengra en svo, að miðað sé við að færa mörkin út í 50 mílur, þá megi búast við því, að síðar þurfi að koma til Alþ. og breyta þessum mörkum aftur. Ég vil spyrja hv. 5. þm. Reykv. eða meðflutningsmenn hans að þeirri till., sem hann talaði hér fyrir, hvort það sé þeirra meining, að till. þeirra sé þess eðlis, að hún leysi okkar landhelgismál um alla framtíð og það þurfi ekki að taka þau mörk upp á ný, sem sú till. gerir ráð fyrir? Getur það verið, að það sé meining þeirra? Það væri gott að fá svar við þessari spurningu. Það var líka alveg augljóst á málflutningi hv. þm., að hann efaðist nú um þetta, þegar hann kom lengra út í ræðuna, því að þá var hann farinn að gera ráð fyrir því, að auðvitað væri landgrunnið algerlega óákveðið enn þá og landgrunnsmörkin, og það mætti því búast við því, að það þyrfti að huga að þessum málum aftur síðar.

Þá sagði þessi hv. þm., að hann teldi og hefði upplýsingar um það, að það væri eins auðvelt að miða landhelgismörk við dýptarlínu eins og beinar línur á milli tiltekinna punkta, eins og hingað til hefur verið miðað við hjá okkur og öðrum, að það væri jafnvel auðveldara og hann hefði um þetta góðar upplýsingar. Ég vildi mjög gjarnan fá að vita það, hver er svo klókur að hafa upplýst hv. þm. um þetta.

Það er auðvitað enginn vafi á því, að það er mjög erfitt fyrir alla, sem eiga hlut að máli, að átta sig á landhelgismörkum, sem eingöngu væru miðuð við 400 m dýptarlínu, því að því fer vitanlega víðs fjarri, að þessi 400 m dýptarlína sé þannig hrein, að það, sem verður fyrir innan þessa línu, eins og hún verður dregin í aðalatriðum, sé eingöngu dýpi, sem er minna en 400 m. Ég er ósköp hræddur um, að það yrðu meira en litlar flækjur, sem út úr því kæmu, þegar ætti að fara að sækja menn til saka fyrir það að hafa lent út af þessum dýptarmörkum á öllu því svæði, sem hér er um að ræða. Auðvitað er það útilokað með öllu, að nokkur sá, sem þekkir sæmilega til þessara mála, haldi því fram, að auðveldara sé fyrir þá, sem eiga hlut að máli, að fara eftir slíkri landhelgislínu. Eða hvernig skyldi standa á því, að við og aðrar þjóðir höfum kosið þá leið að draga ákveðnar grunnlínur og miða okkar landhelgismörk síðan við þær? Skyldi það vera einhver hending, að þannig hefur verið haldið á málum? Nei, enda var það líka svo, og það var eins og annað í málflutningi þessa hv. þm., að hann átti ekki gott með að standa á sínum fullyrðingum nema lítinn tíma, því að svo kom fljótlega að því, að hann sagði, að auðvitað væri út frá því gengið, að dregnar væru ákveðnar grunnlínur, sem miðuðust við þessi dýptarmörk, og því gæti hér alveg eins verið um beina línu að ræða eins og í hinu fyrra tilfelli.

En sú till., sem hv. þm. ræddi hér um, gerir hreint ekki ráð fyrir þessu. Hún segir hér alveg afgerandi um það, hvernig þessu skuli fyrir komið, því að í 1. lið till. segir: „Ytri mörk landgrunnsins skulu vera 400 m jafndýpislína, þangað til mörk þess verða ákveðin með lögum, en þó hvergi nær landi en 50 sjómílur frá grunnlínu.“ Það er þá alveg augljóst mál, að ytri mörkin eiga að vera miðuð við 400 m dýptarlínuna.

Rétt er að gera sér grein fyrir því, að þeir, sem hafa hugsað sér það, að rétt væri nú að stiga það skref að miða ytri mörk fiskveiðilandhelgi okkar við 400 m dýptarlínuna, og ætla sér einnig að miða við línur á milli slíkra útkanta landgrunnsins, þeir eru auðvitað að gera ráð fyrir ekki neinni smávægilegri breytingu, heldur stórkostlegri breytingu. Eins og ég hef bent á áður, þyrfti að færa landhelgina út í um 97 mílur fyrir Suðausturlandi til þess að ná út á yztu mörk 400 m landgrunnsins.

Það er dálítið einkennilegt, að hv. 8. landsk. þm., sem ræðir mjög um þetta, sennilega sem einhverjar leifar af kosningamáli, hann talar í sífellu um það, að skilin séu eftir nokkur svæði hér út af Vesturlandi, Faxaflóa og Breiðafirði með því að miða aðeins við 50 mílna mörkin, en það er eins og hann hafi aldrei komið auga á það, að auðvitað er skilið eftir, ef svo má til orða taka, miklum mun meira og miklum mun þýðingarmeira veiðisvæði fyrir Íslendinga við suðausturhorn landsins. Sannleikurinn er auðvitað sá, að miðað við þau mörk, sem gert er ráð fyrir í till. ríkisstj., þá verður hið friðaða svæði við landið hvergi stærra en einmitt úti fyrir Vesturlandi, út af Faxaflóa og Breiðafirði, því að það er rétt, sem talsmenn Breta benda á, að í þeim tilfellum verður landhelgislína okkar á sumum stöðum um 90—100 mílur frá landi. Það stafar af því, að þar er um stóra flóa að ræða.

Hv. 5. þm. Reykv. sagðist ekki enn hafa áttað sig á því, hvernig stæði á því, að miðað hefði verið við 50 sjómílur. Ég hef þó gert tilraunir til þess, bæði í þessum umr. og fleiri, sem átt hafa sér stað um þetta mál að gera grein fyrir þessu, og ég hélt satt að segja, að allir þeir, sem reynt hefðu að kynna sér þessi mál nokkuð að ráði, hefðu getað gert sér grein fyrir þessu sjálfir. 50 mílna mörkin eru þannig ákveðin, að þau ná nokkurn veginn út yfir allt það landgrunn, sem ekki standa deilur um á milli okkar og annarra þjóða, þ.e. út á ytri mörk eða út að 200 m dýptarlínu, þó ekki alveg fullkomlega og allra sízt út af Vestfjörðum. Þar nær þetta grunn enn þá lengra út, og það hefði auðvitað verið hægt að fara út í nærri 60 mílur, ef mörkin hefðu verið dregin þannig, að maður hefði tekið allra yzta punktinn, sem fannst á 200 m dýptarlínunni, og miðað síðan heildarhringinn, sem dreginn var í kringum landið, við þann allra yzta punkt. En slíkt var vitanlega mjög hæpið að gera, ef halda átti því fram með eðlilegum rökum, eins og við höfum nú fyrir okkar máli, að þetta svæði væri miðað við það landgrunn í aðalatriðum, sem við höfum hingað til staðið á og ekki eru deilur um. Ef við hefðum hins vegar valið þá leiðina að ætla að taka 400 m dýptarlínuna, þá vorum við alveg tvímælalaust komnir út á það svæði varðandi landgrunnsskýringu, sem miklar deilur standa um og við höfum ekki notað hingað til. Þó að við hefðum gert það, hefðum ekki miðað við þær till., sem hér hafa komið fram, þá hefðum við ekki fengið umtalsvert eða þýðingarmikið svæði fyrir okkur. Með 50 mílna mörkunum náum við því, sem langsamlega þýðingar mest er, og með því stöndum við fast á þeim rökum, sem við höfum flutt til þessa. Það er því í rauninni ekkert nema yfirboð hjá þeim, sem koma nú með till. um það að miða þessa útfærslu við annað.

Því er stundum haldið fram, að með því að miða mörkin við 50 mílur komi til með að verða fyrir utan þau mörk ennþá allmikið af fiskimiðum við landið, en það verður bara áfram, þó að miðað sé við 400 m dýptarlínu. Það er engu líkara en ýmsir hv. þm. trúi því, að ekki sé veiddur fiskur fyrir utan 400 m dýptarlínuna eða á dýpra vatni en 200 föðmum. Það er mesti misskilningur. Við Íslendingar og aðrar þjóðir veiðum svo að segja allan þann karfa, sem veiddur er við Ísland, á dýpri sjó, og við veiðum líka mest alla þá grálúðu, sem veidd er við Ísland, á dýpri sjó. Það er því vitanlega ekkert endanlegt mark, þó að miðað hefði verið við 400 m dýptarlínuna. Slíkt tryggir það ekki, að við hefðum tekið undir okkar einkaréttarsvæði öll fiskimið við Ísland. Það eru, eins og hér hefur oft verið bent á áður, sífellt að verða miklar breytingar í þessum efnum, nýir möguleikar til veiða á enn þá dýpra vatni. Þetta eru því engin rök í þessu máli. Spurningin er aðeins þessi: Hvað áttum við að taka stórt skref að okkar setta marki í þessum áfanga, og hvernig gátum við rökstutt það, sem við vorum að gera, á fyllilega frambærilegan máta?

Ég hef bent á það oft í sambandi við þetta mál, að till. um það að miða landhelgismörkin við dýptarlínur mundu leiða það af sér, að landhelgin yrði mjög mismunandi breið á hinum ýmsu stöðum við landið, og ég tel, að slíkt hefði verið mjög óheppilegt, og satt að segja sé ég ekki annað en að við hefðum verið að setja okkur í yfirvofandi hættu með því að halda slíku fram varðandi nokkur þýðingarmikil fiskimið við landið. Oft var á það bent og það með réttu, að þegar landhelgin var færð úr 4 mílum út í 12 mílur 1958, þá stækkaði fiskveiðilandhelgin úti fyrir Vestfjörðum tiltölulega minna en víðast annars staðar við landið, og það var rétt. Víða annars staðar var um miklu meiri útfærslu að ræða, vegna þess hvernig grunnlínur voru dregnar. En nú eru hér á ferðinni till. um það að gera þennan mismun í framkvæmd enn þá meiri, en hann hafði nokkurn tíma áður verið, að hafa á nokkrum stöðum við landið yfir 90 mílna landhelgi, á fáum stöðum 70 eða 75, en á öðrum stöðum hins vegar 50. Ég er sannfærður um það, að þessi leið er óeðlileg og hún er röng og hún þjónar ekki okkar hagsmunum og hún mundi spilla fyrir eðlilegri samstöðu landsmanna, sem þó skiptir meira en allt annað í sambandi við það að koma þessu máli fram.

Ég verð að segja, að mér fannst það sérstaklega koma fram í málflutningi hv. 5. þm. Reykv., sem hér talaði fyrir till. 10 sjálfstæðismanna, að þar væru menn á ferðinni, sem væru að leggja sig fram um það að tína fram atriði, næstum að segja hugsanleg og óhugsanleg, sem í rauninni kæmu þessu máli heldur lítið við, en ættu að sýna einhverja sérstöðu. Í þessum efnum vil ég nefna það, sem hv. þm. sagði, að í 4. lið í till. þeirra væri ríkisstj. t.d. falið að halda áfram og auka þátttöku í samstarfi þjóða til þess að hindra ofveiði og tryggja Íslendingum eðlilega hlutdeild í fiskveiðum á úthöfum, þar sem íslenzkir fiskveiðihagsmunir ná til. Og hann gat þess sérstaklega, að á þetta væri ekkert minnzt í till. ríkisstj. En hvernig stendur á því, að þessi tillöguliður kemur hér fram? Hver er ástæðan? Taka Íslendingar ekki þátt í öllum þeim mögulegu stofnunum, sem hér er um að ræða og fjalla um þessi atriði? Höfum við eitthvað dregið af okkur í þessu samstarfi? Það væri fróðlegt, ef einhver af flm. till. tilgreindi það, hvað þeir ættu við í þessum efnum. Ég veit ekki annað betur en Íslendingar hafi í tíð fyrrv. ríkisstj. og enn verið aðilar að öllum þeim stofnunum, sem um þessi mál fjalla og við eigum kost á að taka þátt í, og við höfum þar reynt að berjast fyrir hagsmunum okkar eins og við höfum getað. En það er sjálfsagt að taka það fram í leiðinni, að í till. ríkisstj. sé ekki á þetta minnzt. Það er hægt að telja upp miklu fleira, sem ekki er á minnzt í till. ríkisstj.

Í þessari till., sem hv. 5. þm. Reykv. gerði hér að umtalsefni, segir í 2. tölulið, að ákveðin skuli friðunarsvæði á mikilvægum uppeldisstöðvum ungfisks á landgrunninu út að ytri mörkum þess. Og síðan er því slegið föstu, að þessi friðunarsvæði skuli taka gildi 1. marz n.k. Já, ég vil bara spyrja, hvaðan koma þeir hv. þm., sem standa að því að flytja þessa till.? Er það virkilega svo, að l0 þm. Sjálfstfl. hér á Alþ. hafi ekki fylgzt með því sem er að gerast í þessum efnum? Vita þeir ekki, að Íslendingar hafa lagt fram till., sem hafa legið til umr. í þessari nefnd, sem hér hefur verið sérstaklega minnzt á, um friðunarsvæði á ungfisksmiðum, t.d. út af Norðausturlandi? Það liggur fyrir, að ekki hefur orðið samkomulag með þeim þjóðum, sem hér eiga hlut að máli, um þessa till. Íslendinga. Fiskifræðingar hafa verið stórkostlega ósáttir um það, hvað væri rétt að gera í þessum efnum. Og þeir hafa æ ofan í æ tekið sér frest til þess að athuga málið nánar. Nokkrar þjóðir hafa lýst yfir samstöðu með okkur í þessu máli, en aðrar verið alveg þverar á móti. Það má vera, að hv. flm. þessarar till. ætlist til þess, að við Íslendingar lýsum yfir friðun á þessum svæðum, að við bönnum okkar skipum algerlega að veiða á þessum svæðum, þó að það liggi hins vegar fyrir, að þeir aðilar, sem þarna hafa veitt mest samkv. okkar skýrslum, haldi þar áfram óáreittir sínu fiskiríi, af því að lögsaga okkar nær ekki yfir þetta svæði. Það er, eins og ég hef sagt hér áður, fyrst tímabært að taka upp þessi mál, þegar við höfum fært okkar lögsögu út yfir þetta svæði og getum tekið í okkar hendur yfirráðaréttinn á svæðinu. Hitt er vægast sagt varhugavert að leggja það til, að við einir víkjum frá þessum miðum, sem við að vísu höfum ekki notað ýkja mikið sjálfir:

Í 3. lið þessarar till. er lagt til, að tekin verði einnig í framkvæmd 1. marz n.k. sérstök friðun á hrygningarsvæðum og sérstaklega tilnefndur Selvogsbanki. Að því leyti til sem hér er um friðun innan núverandi fiskveiðimarka að ræða, sem aðallega mundi verða, þá höfum við vitanlega lög og reglur til þess að fara eftir í þessum efnum, en okkar lög og reglur eru þannig, að við eigum varðandi slíka fiskfriðun að fara eftir till. okkar fræðimanna. Þeir hafa fjallað um þessi mál ár eftir ár, og eins og hér hefur verið skýrt frá, þá hafa jafnvel í heilan áratug legið hjá þeim till. vissra aðila um ráðstafanir í þessum efnum, en þeir hafa hins vegar ekki viljað á þær fallast. Till. um þetta efni eiga að mínum dómi harla lítið að gera inn í till., sem hér liggja fyrir varðandi okkar landhelgismál eins og það liggur fyrir nú. Vissulega getur komið til þess, að við ákveðum meira en við höfum gert nú í dag að banna tilteknar veiðar eða banna veiðar með öllu á tilteknum svæðum innan okkar fiskveiðilögsögu. Slíkt er vitanlega mál sem alltaf liggur fyrir að meira eða minna leyti, og er eðlilegt, að þeir aðilar, sem mest um þessi mál fjalla þingi um það. En það er næstum að segja einkennilegt að flytja till. um það á Alþ., að 1. marz n.k. skuli ákveðin svæði friðuð, áður en farið er að eðlilegum lögum og reglum um þetta, þ.e. umsagnir okkar fiskifræðinga liggi fyrir og þeirra till., sem eiga síðan að fá staðfestingu stjórnaryfirvalda. En við höfum fullkomnar lagaheimildir til að gera þetta, þegar allt slíkt liggur fyrir.

Það voru auðvitað mörg fleiri atriði, sem voru þess eðlis, að það var full ástæða til þess að ræða um þau hér, af því, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði, þegar hann ræddi hér um þessa till. En ég skal nú ekki ræða um þau öll.

Það sem mér finnst skipta mestu máli í sambandi við það stórmál, sem við erum hér raunverulega að fjalla um í dag, það baráttumál okkar að fá fram umtalsverða stækkun á okkar fiskveiðilandhelgi, sem við verðum að knýja fram við harða mótstöðu ýmissa erlendra aðila, spurningin mikla er þessi: Hvernig eigum við að standa að þessu máli? Og eitt það þýðingarmesta til þess að komast eitthvað áfram í málinu er að mínum dómi það, að við þurfum að taka formlega ákvörðun um það að segja upp landhelgissamningunum við Breta og Vestur-Þjóðverja frá 1961. Undan þessu verður ekki vikizt, ef við ætlum okkur að ná fullum sigri í þessu máli. En hvað segir hv. 5. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, um þetta meginatriði þess máls, sem hér er fjallað um? Hvað sagði hann hér í sinni ræðu? Hann minntist ekki á þetta atriði frekar en það væri ekki til. Og það var alveg augljóst á því, sem hv. 1. þm. Reykv., formaður Sjálfstfl., Jóhann Hafstein, sagði hér í sinni ræðu um þetta mál í kvöld, að hann var ekki enn búinn að gera upp sinn hug í því, hvort hann vildi styðja till. um það að segja þessum samningum upp eða ekki, þó að ótvíræðar upplýsingar liggi fyrir um það, að okkar hörðustu andstæðingar í þessu máli, Bretar og Vestur-Þjóðverjar, haldi dauðahaldi í þennan samning og hóti okkur í sífellu því, að þeir muni skjóta þessu ágreiningsmáli til úrskurðar Alþjóðadómstólsins. Það er vitanlega með öllu þýðingarlaust að setja þetta mál upp á þann veg, að við óttumst eðlilega dómsmeðferð í málinu. Ef fyrir hefðu legið að okkar dómi lög, sem hægt var að dæma eftir, þá hefðum við Íslendingar tvímælalaust fallizt á það, að við yrðum að sætta okkur við dóm, sem kveðinn væri upp samkv. lögum. En það er enginn vafi á því, að við erum ekki einir um að halda því fram, að það séu engin alþjóðalagaákvæði til um víðáttu landhelgi. Allar þjóðir eru ásáttar um það, að þannig sé þeim málum varið. Það liggur því í augum uppi. að það er alveg fráleitt að fallast á þá málsmeðferð, þegar rætt er um útfærslu á okkar fiskveiðimörkum, að láta Alþjóðadómstólinn kveða upp einhvern úrskurð um það, hvað við megum ganga langt í þeim efnum.

Það var ekki hægt að heyra annað á því, sem hv. 1. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, sagði varðandi þetta atriði, en hann teldi, að það væri ekki rétt að taka afstöðu til þess, hvort segja ætti upp þessum samningum eða ekki, á meðan enn færu fram samningaviðræður við Breta og Vestur-Þjóðverja, þær sem nú ættu sér stað. Þetta er að mínum dómi alveg háskaleg afstaða, og ég vil vænta þess, að hv. formaður Sjálfstfl. taki þessa afstöðu sína til rækilegrar athugunar. Auðvitað eiga þessi mál ekkert skylt. Það, hvort við náum einhverju samkomulagi fyrr eða síðar við Breta og Vestur-Þjóðverja og aðra, sem veitt hafa hér á okkar miðum, um það, með hvaða hætti útfærsla okkar gengur yfir, það er vitanlega allt annað mál, og slíkt samkomulag verður vitanlega að byggjast á því, sem við teljum okkur fært að gera í þessum efnum. en við eigum ekki að verða knúnir til neinna samninga varðandi þau atriði, vegna þess að við séum bundnir af einhverjum samningsákvæðum, sem í rauninni eru óeðlileg, eins og sakir standa a.m.k. nú. Ég tel, að það sé ómögulegt að víkja sér undan því, að það þarf að taka afstöðu til þess, hvort segja á upp þessum samningum formlega eða ekki. Og ég saknaði þess líka í ræðu hv. 8. landsk. þm., varaformanns Alþfl., að hann minntist ekki heldur á afstöðu síns flokks í þessu mikilvæga atriði málsins. Þetta er þó það, sem mestu máli skiptir, eins og nú standa sakir. Ég tel líka, að það sé ekki við annað unandi, þegar við erum nú komnir á framkvæmdastig með að færa út okkar landhelgismörk, en að það liggi ótvírætt fyrir, hvenær við ætlum okkur að færa út. Og þeir, sem enn þann dag í dag eru á því stigi, að þeir flytja hér till. á Alþ., eins og 10 þm. Sjálfstfl. gera, um það, að enn skuli málið athugað og síðar, einhvern tíma síðar skuli það ákveðið, hvenær eigi að færa mörkin út, þeir virðast ekki að mínum dómi vera enn þá komnir á framkvæmdastig.

Það er rétt, sem hér hefur verið sagt, að ég tel að enn þá hafi ekkert það komið fram, hvorki í þessum umr. né þeim sem hér hafa farið fram áður, sem ætti út af fyrir sig að torvelda það, að núv. stjórnarandstaða og núv. stjórnarsinnar hér á Alþ. geti orðið fullkomlega sammála um meginatriði þess vandamáls, sem við erum nú við að glíma. Stjórnarandstaðan hefur lýst því yfir alveg eins og stjórnarsinnar, að hún vilji standa að því að stækka okkar fiskveiðilandhelgi, og eftir því sem ég fæ bezt skilið a.m.k. út í 50 mílur. Og um það mikilvæga atriði, sem ég hef hér minnzt á, uppsögnina á samningunum við Breta og Vestur-Þjóðverja, hafa þeir ekki heldur í mín eyru sagt neitt það, sem ætti að halda þeim frá því að geta orðið okkur samferða í þeim efnum. Ég vil því vænta þess, að samkomulag geti tekizt, en ég tel, að það dragi nokkuð úr því, að eðlileg samstaða geti myndazt um meginatriði málsins, á meðan stjórnarandstæðingar hér flytja æ ofan í æ ýmiss konar till. um ýmsa þætti fiskveiðimála, sem í rauninni hljóta að vera til hliðar við það megin verkefni. sem hér liggur fyrir okkur til úrlausnar.

Ég hef sagt það hér áður í þessum umr., að ég tel, að okkar staða í málinu sé sterk. Við höfum byggt upp okkar málflutning gagnvart útlendingum á sterkan hátt. Og við byggjum það alveg á viðurkenndum reglum. Við höfum líka haldið þannig á málinu, að það er ekki hægt að halda því fram með nokkurri sanngirni, að við höfum ekki gefið þeim, sem hér eiga hlut að máli af hálfu útlendinga, nægilegan fyrirvara um hvað til standi að gera, og við höfum einnig haldið þannig á málinu gagnvart þeim, að við höfum lýst okkur fúsa til þess að ræða við þá um það, með hvaða hætti hægt væri að veita nokkurn umþóttunartíma fyrir þá, sem hér verða fyrir mestum breytingum, en við höfum sett fram mjög eðlileg skilyrði fyrir slíkum samningum, skilyrði um það, að þá viðurkenni þeir aðilar, sem við semjum við, lögsögurétt okkar yfir þessu svæði og rétt okkar til þess að taka þá til refsingar, sem brjóta þær reglur, sem við setjum um fiskveiðar á þessu svæði.

Ég efast auðvitað ekkert um, að við getum haldið hér uppi löngum umr. um marga þætti þessara mála, sem þarf að leysa og mætti kannske leysa á annan veg en gert hefur verið. En ég get ekki séð, að ástæða sé til þess að rugla það mál, sem hér liggur fyrir, með löngum umræðum um það, en vegna þess, sem hér kom fram í ræðu hv. 5. þm. Reykv., þegar hann talaði fyrir þeirri till., sem ég hafði sagt um í minni ræðu, að ég teldi óheppilega, þá gat ég ekki stillt mig um að gera þessar aths., og ég vil vænta þess, að hv. þm. sjái þegar þeir athuga það mál betur, að tillöguflutningur af þessu tagi gerir ekki neitt til að styrkja málstað okkar í landhelgismálinu.