09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (3382)

21. mál, landhelgismál

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem fram hefur komið hjá ýmsum ræðumönnum í dag, að þær efnislegu umr., sem hér hafa orðið um þetta stóra mál okkar Íslendinga, bera þess greinilega vott, að á Íslandi ríkir enginn verulegur ágreiningur um endanlegt takmark í sambandi við landhelgisbaráttu þjóðarinnar. Sá ágreiningur, sem lítillega hefur gætt í dag, lýtur að minni háttar atriðum, sem ég trúi, að verði á engan hátt til þess að spilla fyrir þeirri samstöðu þjóðarinnar, sem ég tel að nauðsynleg sé, til þess að við getum leitt mál þetta fram til sigurs.

Í fullri hreinskilni sagt tek ég ekki mjög alvarlega þær yfirboðstillögur, sem þm. Sjálfstfl. flytja nú á síðustu stundu, þegar komið er að því að ráðast í sjálfa framkvæmdina, en þá skiptir að sjálfsögðu langmestu, að þjóðin standi sameinuð.

Því hefur oft verið lýst, að stefna okkar í landhelgismálum er sú, sem mörkuð er í lögunum frá 1948, að við Íslendingar teljum okkur hafa rétt til þess að ákvarða fiskveiðilandhelgina innan endimarka landgrunnsins með setningu reglugerðar. Nú eru bæði hér á landi og eins erlendis uppi mismunandi skoðanir á því, hvernig ákvarða eigi landgrunn hinna einstöku ríkja. Og þá sorgarsögu verður að viðurkenna, að því er tekur til okkar Íslendinga, að hafsvæðið og landgrunnið í kringum landið er því miður ekki rannsakað og ekki kortlagt eins vel og skyldi, og veldur það nokkrum óþægindum í sambandi við framkvæmd laganna. Þessar mismunandi skoðanir hér á landi um, hvernig beri að ákvarða eða ákveða sjálft landgrunnið, má m.a. greinilega sjá af þeirri till. til þál., sem samþ. var 7. apríl 1971 og flutt var af þáv. stjórnarflokkum, en samkv. henni var kosin nefnd, sem átti að semja fr., sem lagt skyldi fyrir næsta þing, er kvæði á um óskertan rétt Íslendinga til fiskveiða í hafinu yfir landgrunninu. Í till. þessari er getið um það, að ytri mörk landgrunnsins skuli ákveða annaðhvort miðað við 400 m jafndýpislínu, möguleg hagnýtingarmörk eða 50 mílur eða meira, eftir því hvað hagkvæmast þykir, eins og í tillgr. segir, enda þótt manni finnist einkennilegt, að það skuli ekki liggja þegar í augum uppi, að langhagkvæmast væri fyrir þjóðina, ef framkvæmanlegt væri að miða ytri mörk landgrunnsins við möguleg hagnýtingarmörk.

En það er ekki einasta hér á landi, sem ágreiningur er um það og mismunandi skoðanir, hvernig ákvarða beri ytri mörk landgrunnsins. Þess gætir einnig mjög víða erlendis. Að vísu mun til vera samþykkt frá Genf, er getur um, að ytri mörk landgrunnsins skuli miða við ákveðna dýptarlínu eða hagnýtingarmörk, eins og í þeirri samþykkt segir. En vegna þess, hve tæknin hefur verið á óðfluga ferð áfram, hafa hagnýtingarmörkin stöðugt færzt út á dýpra hafsvæði, þannig að nú er mögulegt að vinna olíu úr jörðu eða málma af hafsbotni á a.m.k. 1.000 m dýpi eða meira.

Þessar mismunandi skoðanir á því, hvar eðlilegt sé að draga ytri mörk landgrunnsins, komu einnig nokkuð vel fram í þeim umr., sem hér hafa orðið í dag. Hv. þm. Benedikt Gröndal talaði m.a. um að ytri mörk landgrunnsins bæri að miða við 400 m dýptarlínu og hvergi skemmra frá grunnlínum en 50 sjómílur, en hann talaði líka um það, að eins væri hugsanlegt að ákvarða ytri brún landgrunnsins við 1.000 m dýptarlínu. Og hv. 5. þm. Reykv.. Gunnar Thoroddsen, sagði í sinni ræðu, að hann teldi eðlilegast og hagkvæmast að miða ytri mörkin við 400 m dýptarlínu. Það er sú staðhæfing, sem gaf mér tilefni til þess að kveðja mér hljóðs, og langar mig til þess að segja um hana nokkur orð.

Það er öllum kunnugt, sem fylgzt hafa með þróun þjóðaréttar á þessu sviði, að þar hafa orðið mjög verulegar breytingar hin síðustu árin í þá stefnu, að eðlilegt væri talið, að strandríki hefðu rýmri rétt en viðurkenndur hefur verið til þessa til þess að ákvarða sín fiskveiðitakmörk fjær ströndinni en áður hefur verið. Þessi þróun hefur öll borið eitt einkenni, þ.e. að þjóðirnar hafa í æ ríkari mæli hneigzt að því, að eðlilegast og hagkvæmast væri að miða fiskveiðitakmörkin við ákveðna fjarlægð frá grunnlínum eða frá ströndum viðkomandi landa. Sú kenning, sem einu sinni var uppi og hafði töluvert fylgi, að eðlilegra væri að ákvarða þessa línu, takmörk fiskveiðilandhelginnar, við ákveðna dýptarlínu, á sér æ færri talsmenn á alþjóðlegum vettvangi. Til þessa liggja eðlilegar ástæður, að þjóðirnar eru að hverfa frá því að miða fiskveiðitakmörkin við ákveðna dýptarlínu, en aðhyllast í síauknum mæli að ákveða fiskveiðitakmörkin miðað við ákveðinn mílufjölda frá landi. Þetta stafar fyrst og fremst af því, að margar þjóðir, ekki sízt þjóðir Afríku og Suður-Ameríku, hafa fyrir ströndum sínum mjög lítinn landgrunnsstöpul, þannig að ef alþjóðleg regla yrði tekin í gildi, er ákvæði, að miða skyldi fiskveiðilandhelgina við ákveðna, tiltekna dýptarlínu, mundi það í framkvæmd þýða, að fiskveiðilandhelgi þessara þjóða yrði þegar af þessari ástæðu heldur litil og takmörkuð.

Frá því er greint í blöðunum í dag, og var um það mál viðtal við Hannes Jónsson fulltrúa í stjórnarráðinu í sjónvarpinu í gær, að á ráðstefnu 41 Afríkuþjóðar, vísindaráðs Afríkuríkja, hafði sú ákvörðun orðið ofan á í sambandi við landhelgismál og hvernig þeir ættu að standa að því að ákvarða fiskveiðilandhelgi að miða við 200 mílur frá grunnlínum og síðan ákvarða þar fyrir utan 12 mílna belti, sem strandríki hefðu takmarkaðan yfirráðarétt yfir. Í viðtali við Hannes Jónsson í dag í Morgunhlaðinu er þess getið, að upphaflega hefði ætlunin verið á þessari ráðstefnu að miða fiskveiðilandhelgina við regluna 12 + 12 og 600 m dýptarlínu. Sem sagt, 600 m dýptarlína úti fyrir ströndum Afríkuríkja hefði í flestum tilfellum aðeins gefið 24 mílna fiskveiðilandhelgi. Afríkuþjóðirnar hurfu því frá þeirri kenningu og aðhyllast, eins og lýst hefur verið, reglu um. að strandríki eigi rétt á að ákvarða einhliða fiskveiðilandhelgi, er liggi allt að 200 mílur frá ströndum þeirra. Svipaða sögu væri hægt að segja um það, sem Suður-Ameríkuríkin hafa verið að gera. Þau hafa mörg hver, eins og menn vita, ákveðið stóra fiskveiðilandhelgi hjá sér eða allt upp í 200 mílur. Ég veit ekki um Suður-Ameríku ríki — þó getur verið, að mér skjátlist, — sem miða við dýptarlínu eingöngu.

Þann 18. okt. s.l. var haldin ráðstefna í Washington, þar sem voru staddir bandarískir embættismenn, sem starfað hafa á vegum hinnar svo kölluðu hafsbotnsnefndar, sem undirbýr hina alþjóðlegu ráðstefnu, sem átti að halda 1973, en hún á m.a. að hafa það verkefni að ákveða stærð eða ytri takmörk landgrunnsríkjanna og einnig stærð fiskveiðilandhelginnar. Ég hef hér á borðinu hjá mér frásögn af þessum fundi, en hann sátu ýmsir færustu menn Bandaríkjanna í þessari fræðigrein. Á þessum fundi kom það mjög greinilega fram, að þjóðirnar að langstærstum hluta aðhyllast þá stefnu í framkvæmd að ákvarða ytri fiskveiðitakmörk sín með því að miða við tiltekinn mílufjölda frá grunnlínum. Og það kemur fram í fundargerð þessarar ráðstefnu, að Bandaríkjamenn telja, að fylgi þjóða við 200 mílna fiskveiðilandhelgi sé talsvert meira en þeir vissu fyrir síðasta fund hafsbotnsnefndarinnar. Ég nefni þessi dæmi til þess að sýna fram á það, að í sambandi við þjóðarétt og ákvörðun fiskveiðilandhelgi er yfirgnæfandi meiri hluti ríkjanna, sem aðhyllist þá skoðun, að fiskveiðitakmörkin skuli miða við ákveðinn mílufjölda frá grunnlínum.

Ég hef flutt á undanförnum þingum ásamt fleiri þm. úr Framsfl. till. um það, að við Íslendingar hefðum sem nánast samstarf við þær þjóðir á erlendum vettvangi, sem berðust fyrir sem rýmstri fiskveiðilandhelgi. Við eigum hagsmunalega samstöðu með þessum þjóðum og því tel ég það mikið atriði, að við reynum að haga málflutningi okkar og baráttu fyrir okkar fiskveiðilandhelgi í sem mestu samræmi við hagsmuni þessara þjóða, að svo miklu leyti sem það fer ekki beint gegn okkar eigin hagsmunum. Þegar af þessari ástæðu tel ég einsýnt, að við hljótum að fylgja þeirri meginreglu, sem þjóðir heims aðhyllast að langsamlega stærstum hluta, að miða fiskveiðilandhelgi okkar við ákveðinn mílufjölda frá grunnlínum. Hér kemur svo annað til, sem gerir þetta eðlilegt. Eitt af verkefnum hafréttarráðstefnunnar 1973, sem nú er vitað, að verður ekki haldin fyrr en í fyrsta lagi 1974 og kannske ekki fyrr en 1975, er það að ákvarða, hvar skuli vera endimörk landgrunns ríkja og hvar skuli taka við hið alþjóðlega hafsbotnssvæði, sem á að setja undir alþjóðlega stjórn og nytja fyrst og fremst til hagsbóta fyrir þróunarlöndin í heiminum. Þarf að ákvarða, hvað hið alþjóðlega hafsbotnssvæði er stórt, og gerir það nauðsynlegt, að einhver regla, almenn regla gildi um það, hvernig ákvarða skuli landgrunn einstakra ríkja. Það liggur í augum uppi, að það verður að keppa að því að setja um það eins almenna reglu og mögulegt er. Og þá er, af ástæðum, sem ég vék að áðan, ekki hægt að miða við dýptarlínur, því að hafsbotninn fyrir ströndum hinna einstöku ríkja er svo misjafnlega djúpur.

Ég skal nú ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vil bara taka undir þá skoðun, sem hér hefur komið fram, að ég er því sammála að fara ekki lengra í næsta áfanga útfærslu en í 50 mílur. Er það að mínu viti hagkvæmt og eðlilegt og líklegra til þess, að við komumst í gegn með það, heldur en það að ætla sér að vera með einhverjar yfirboðstillögur og ætla sér að ganga enn þá lengra. Við höfum unnið okkar landhelgis sigra í áföngum, og ef við getum á næsta ári fært fiskveiðilandhelgi okkar úr 12 sjómílum í 50 sjómílur, þá er það árangur, sem ekki ber að gera lítið úr. Með því aukum við það hafsvæði í kringum landið, sem við höfum einkalögsögu á, meira en við höfum áður gert í einu skrefi.

Ég vil taka undir skoðun, sem ég sá í Fiskaren í dag, að vísu í gömlu blaði, en í viðtali, sem norskur hlaðamaður á við Jóhann J. Kúld um fyrirhugaða útfærslu Íslendinga á fiskveiðilögsögunni, segir hann, að með því að stíga skrefið í þetta skiptið ekki lengra en í 50 sjómílur sýnum við þó öllum þeim þjóðum. sem kunna að berjast á móti okkur Íslendingum í þessu, að við fylgjum okkar stefnu fram með fyllstu aðgætni. Við förum hvergi lengra en við höfum ótvíræðan rétt til samkvæmt okkar eigin lögum með því að stíga skrefið ekki lengra.

Ég held, eins og aðstæður eru í heiminum í dag, að það sé hyggilegt að miða við þetta skref, og ég trúi vart öðru en því, að hv. alþm. geti við nánari yfirvegun og íhugun fallizt á það, að hagkvæmast sé fyrir okkur að standa saman um það á næsta ári. Ég trúi því, að á alþjóðavettvangi eigi eftir að verða mjög verulegar breytingar á þjóðarétti í þá stefnu að viðurkenna enn stærri fiskveiðilandhelgi ríkja eins og okkar, en sem nemur 50 sjómílum. Þetta verður kannske ekki næstu fimm árin, en mér er nær að trúa, að á 5—10 ára tímabili hér í frá muni verða komin alþjóðleg regla, sem heimili okkur á grundvelli alþjóðalaga að stíga skrefið út í 200 sjómílur með ákvörðun fiskveiðilandhelginnar umhverfis Ísland.