09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (3387)

21. mál, landhelgismál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Þessar umr. eru nú orðnar alllangar, og það er fátt eitt, sem maður sér ástæðu til að víkja að, af því, sem þar hefur fram komið. Margt er nú þannig, að um það er lítill ágreiningur á milli manna, þó að menn líti nokkuð hver sínum augum á silfrið. En það meginatriði, sem mér finnst ástæða til í lokin að árétta aðeins af minni hálfu hér, er það, að gagnvart umheiminum liggur það fyrir eftir þessar umr., að stjórnarandstæðingar vilja hvergi ganga skemmra en stjórnarliðið í mörkun fiskveiðilögsögunnar.

Hæstv. utanrrh. vék dálítið að aths. mínum um skipun nefnda og sendimanna, sem ég var með aðfinnslur út af, vegna þess að mér fannst að vissu leyti vera sniðgengin sú, hugsun að hafa samráð og samvinnu við stjórnarandstöðuna, lagði þó ekki ýkja mikið upp úr þessu, eins og menn muna, í minni fyrri ræðu. En varðandi það, að landhelgisnefndinni voru gefnar upplýsingar um, að embættismannanefnd yrði send í viðræðurnar við Breta og Þjóðverja og síðan eru það fulltrúar tveggja þingflokka þar fyrir utan, þá verður þetta nú ekki réttlætt með því, sem hæstv. ráðh. sagði, að skipun embættismanna væri með þeim hætti, að hún ætti að fullnægja stjórnarandstöðunni, af því að þeir voru embættismenn í tíð fyrrv. ríkisstj. Sjálfur sagði hæstv. utanrrh. réttilega, að embættismennirnir hefðu verið valdir af hans hálfu og hans ríkisstj. vegna sinnar eigin hæfni, og þá voru þeir náttúrlega fyrst og fremst þar sem fulltrúar þjóðarinnar, og þar af leiðandi gátu þeir verið jafngóðir fulltrúar stjórnarliðsins og stjórnarandstöðunnar. Við megum ekki blanda því saman. Þetta er bæði það, að stjórnarliðið hefur á hverjum tíma allt annan aðgang að embættismönnunum, og svo einkum hitt, að það gefur alveg sérstakan blæ, þegar valdir eru fulltrúar í slíkt mál eins og þetta, sem hefur nú verið gert að pólitísku ádeiluefni í kosningunum af sumum stjórnarflokkunum, stundum ekki öllum en stundum öllum, og stjórnarandstaðan hins vegar sniðgengin eftir að lögð er nú megin áherzla á að ná saman í málinu. Ég vil ekki víkja að þessu fleiri orðum en ég nú hef gert, en menn gera sér grein fyrir því, að það er mikill eðlismunur á störfum embættismanna í slíkum erindum sem þessum eða pólitískra fulltrúa, í tvennum skilningi, eins og ég hef reynt að víkja að.

Hæstv. forsrh. sagði nú í sinni síðari ræðu, að hann hefði sagt í áramótagrein og tekið það fram, að ekki mundi geta orðið samstaða um að gera ekki neitt. Mér þótti vænt um, að hæstv. forsrh. minnir á þetta, því að auðvitað hefur enginn verið að óska eftir samstöðu um að gera ekki neitt. En það er þetta, sem var látið í veðri vaka í kosningunum, að það yrði ekki gert neitt, ef Sjálfstfl. og Alþfl. hefðu aðstöðu í ríkisstj. eins og þeir hefðu áður haft. Þetta náði náttúrlega engu tali miðað við það samstarf, sem var í landhelgisnefnd fyrrv. ríkisstj., þar sem unnið var kappsamlega að því að ná samstöðu um tillögur. Enda þótt okkur lánaðist það ekki, eins og kunnugt er, þá náðum við þó það langt, að efniságreiningurinn var sáralítill. Og ef fyrrv. stjórnarflokkar hefðu farið áfram með völd, þá var þeirra till. þannig og þeirra áform þannig, að þá hefði verið lagt í þing byrjun fyrir frv. til l. um landhelgi Íslands, þar sem ákvörðuð var markalína fiskveiðilögsögunnar og hvergi minni en 50 mílur, en tíminn hins vegar notaður til þess, eins og nefndin átti að gera, sem kosin var í vor, að fóta sig á því, hvar mörkin skyldu sett. Í till. stjórnarsinna á síðasta þingi er notuð sú skilgreining, sem var í landgrunnslögunum frá 1969, 400 m dýptarlína eða hagnýtingarmörk, en þó hvergi minni en 50 mílur. En þetta þurfti að athuga nánar, og þess vegna var búið að stofna til samvinnunefndar, eins og ég vék að, og ég spurðist fyrir um, hver hefði orðið framvinda mála um frekara skipulag á rannsóknum, mælingum og könnun landgrunnsins, sem fyrrv. stjórn hafði hafið á s.l. hausti undirbúning að og gerð var grein fyrir í fskj. með þáltill. á síðasta Alþ.

Ég held, að það sé misskilningur hjá hæstv. forsrh., að það hefðu verið álitin svik við þeirra kjósendur eða af þeirra hálfu, stjórnarsinna, nú, ef þeir hefðu ekki lagt málið fyrir eins og það er. Auðvitað hefði enginn þeirra kjósandi talið svik hjá þeim, ef þeir hefðu gengið lengra til móts við okkar meginhagsmuni en er gert í þeirra till. nú. Það nær engri átt, og það er líka alveg villandi, þegar menn eru að tala um það, að kjósendurnir hafi í kosningunum í vor staðfest einhverja stefnu, sem felst í þessari þáltill. öðru fremur. Auðvitað voru margir kjósendur í landinu, eins og raun ber vitni um, sem kusu ekki stjórnarflokkana, af því að þeim líkaði betur við landhelgistillögur fyrrv. stjórnarflokka. Framsfl. lagði höfuðkapp á þessa landhelgismálatillögu og 1. flm. var hæstv. forsrh„ og flokkurinn tapaði nærri 10% á Austfjörðum, þar sem hefur verið hans sterkasta kjördæmi. Var það vegna landhelgismálsins? Hæstv. forsrh. tapaði kjördæmakosnum manni í sínu kjördæmi. Ætli það hafi verið vegna landhelgismálsins? Tæplega 8% tapaði Framsfl. í Vestfjarðakjördæmi. Þessir kjósendur hafa a.m.k. ekki örugglega verið að láta landhelgismálið ráða afstöðu sinni, ef ég skil það rétt. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að það getur vel verið, að menn hafi eitthvað skriðið til á milli flokka, en hversu mikil áhrif mismunandi skoðanir í landhelgismálinu hafa haft, skal ég ekki segja um. En það var reynt að afflytja málið, og það er það, sem ég hef átalið, að það var reynt að afflytja okkar afstöðu í málinu, þáv. stjórnarflokka, og hefur kannske tekizt.

En sú till., sem flutt er af sjálfstæðismönnum hér, er þó þannig, eins og ég sagði í minni ræðu, að hér er um að ræða tilraun til að ganga til móts við stjórnarliðið þrátt fyrir vissan ágreining, án þess að það þurfi að slaka nokkuð til. Í fyrsta lagi er tekið af skarið um það, að fiskveiðilögsaga Íslands nær yfir allt landgrunnið umhverfis landið. Þetta segja stjórnarliðar, hæstv. sjútvrh. og ég held hæstv. forsrh. líka, að þeir telji, að felist í landgrunnslögunum frá 1948. Það getur þá ekki verið synd að endurtaka þetta í þáltill., ef það eru þegar að þeirra dómi lög í dag. Svo kemur ágreiningurinn um mörkin, þar sem í till. sjálfstæðismanna er talað um, að ytri mörkin skuli vera 400 m jafndýpislína, þangað til mörk þess verða ákveðin með lögum. Það var gert ráð fyrir því, að menn tækju sér tíma og reyndu með aðstoð sérfræðinga að fóta sig á ákveðinni línu, sem menn þyrftu ekkert að vera hræddir um, að ekki væri hægt að gæta, eins og 50 sjómílna línu. En síðan er sú tilslökun, sem í þessu er og ég skal viðurkenna, að er fyrst og fremst frá mér komin til þess að ganga til móts við stjórnarliðið og okkur sjálfstæðismönnum hefur ekki öllum verið sama um, og það er, að núna meðan ríkisstj. stendur í þessum átökum, þá fylgjum við allir 50 mílunum. Það felst í ákvæðunum, að erlendum fiskiskipum verði heimilað að stunda veiðar í næstu þrjú ár upp að 50 mílna mörkunum frá grunnlínum, nema þar sem sérstök friðunarsvæði kynnu að verða ákveðin utan þeirra marka, sem ekkert liggur nú fyrir um. Þetta þýðir það, að þarna erum við á sömu línunni, en þá höfum við hins vegar lengri frest. Þá höfum við lýst yfir landgrunnsstefnunni, endurtekið hana, ef menn vilja heldur hafa það, og fáum þriggja ára frest til þess að móta landgrunnsmörkin. Ég hygg, að það verði mjög mikið, sem á eftir að ske á þessum þrem árum, einmitt í ákvörðun og jafnvel alþjóðasamþykktum um landgrunnsmörkin.

Það er hins vegar aðalatriðið, sem mér þótti mjög vænt um, að kom fram í ræðu hæstv. forsrh., að hann telur, að í ræðum okkar hafi í meginatriðum komið fram þau sjónarmið, að við ættum ekki að þurfa að stranda á því að koma okkur saman um niðurstöður í þessu máli eða koma okkur saman um endanlega afgreiðslu málsins.

Ég held, að þar sem Jón Skaftason, hv. 2. þm. Reykn„ talaði um, að 200 mílna landhelgin væri að ryðja sér til rúms, þá sé það alveg réttilega athugað hjá honum, en hins vegar hef ég alltaf verið á þeirri skoðun, að við þyrftum að gæta okkar vel að leggja ekki allt of mikið upp úr því, hvort það fæst einhver alþjóðasamþykkt fyrir vissri mílufjarlægð, hvort sem það eru nú 50 mílur eða 200 mílur, vegna þess að við hefðum þessa umræddu sérstöðu, en það er talað um, að við séum einstæðir í heiminum og höfum sérstöðu fram yfir alla aðra sem strandríki, sem land, sem liggur á þessum stöpli, landgrunninu, þar sem uppeldisstöðvar og hrygningarstöðvar eru. Við höfum alltaf frá því í öndverðu lagt megináherzlu á sérstöðu okkar og að það yrði að meta kringumstæðurnar á hverjum stað að verulegu leyti, hver svo sem landhelgislínan væri á hverjum tíma. Þess vegna hefur það verið mín skoðun, að jafnvel þó að ekki verði samstaða um almenna landhelgislínu, víðari en 12 mílur, á ráðstefnu eins og hafréttarráðstefnu, þá gætum við samt sem áður náð sigri í okkar máli að því leyti að fá viðurkennda sérstöðu strandríkisins, fá viðurkennda okkar landgrunnsstefnu.

Varðandi Suður-Ameríkuríkin, sem sum hafa fylgt 200 mílna kröfunni, af því að þau hafa stutt landgrunn o.s.frv. þá er það af ýmsum ástæðum, sem miðað er við þá vegalengd, og það er sérstaða þeirra ríkja, sem þar kemur til. Landgrunnið er lítið, en veiðin er öll langt úti í hafi í straumum, sem koma sunnan úr höfum. Og það er miðað við það að ná til þessarar veiði. Þarna hafa þeir sérstöðu.

Ég veit ekki, hvað mörg af þessu 41 Afríkuríki, sem sagt hefur verið frá hér, eru í Sameinuðu þjóðunum, en ef þau eru það flest, þá finnst mér, að okkar staða sé nú að verða nokkuð sterk með fylgi við okkar málstað, þar sem þessi vísindaráðstefna hefur hallazt að 200 mílum, en þegar maður heyrir fréttir af svona ráðstefnu, dettur manni í hug, að vissara sé nú að fá betri skýringar á þessu öllu saman. Ráðstefnan kemur saman, og þar liggja fyrir till. og hugmyndir um að samþykkja 12+ 12 mílur. Ég veit ekki, hvernig þessi tala 12+ l2 er til komin, kannske í einhverjum tengslum við 600 m. Svo koma tveir Íslendingar, Hannes Jónsson og Steingrímur Hermannsson, og halda ræður fyrir þeim, og þá snúa þeir við blaðinu og samþykkja bara allt í einu, að þeir vilji hafa 200 mílna landhelgi. Ég veit ekki heldur, hvað það eru mörg ríki af þessum, sem liggja að sjó eða hafa kannað vel þessi mál. Við erum auðvitað þakklátir fyrir alla, sem vilja styðja okkur, þakklátir fyrir það, að svona ríki taka vel á móti okkar mönnum og meta málflutning þeirra, en það væri æskilegt, og ég vildi mjög mælast til þess, að við gætum fengið dálítið nánari skilgreiningu um svona ráðstefnu en maður getur fótað sig á í þeim fréttum, sem fram eru bornar. Ég efast ekkert um það, að við getum fengið hana hjá hæstv. forsrh„ bæði í landhelgisnefnd, ef við innum eftir því, og í viðræðum við þessa menn sameiginlega, sem getur verið mikils virði fyrir okkur að tala betur við, til þess að finna, hvað raunverulega er þarna á ferðinni og hvers má vænta af þessum ríkjum, t.d. á hafréttarráðstefnunni hjá Sameinuðu þjóðunum.

Loksins er svo eitt atriði, sem ég ætla að minnast á, og það er það, að hæstv. sjútvrh. komst svo að orði, að hann teldi það háskalega afstöðu, sem fram hefði komið hjá mér, að vilja bíða eftir niðurstöðum samningaviðræðna nú við Breta og Vestur-Þjóðverja, og vonaðist eftir, að ég breytti þeirri afstöðu minni. Því miður get ég ekki orðið við þeim óskum hans að breyta þeirri afstöðu minni, því að ef við erum að ræða við Breta og Vestur-Þjóðverja, þá hljótum við að vera að gera tilraun til þess að ná einhverju samkomulagi við þá. En hér held ég, að komi fram töluverður skoðanamunur á milli hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. Hæstv. sjútvrh. hefur skilmerkilega gert grein fyrir þeirri stefnu sinni, að við eigum að færa út 1. sept. 1972 og þá gegn mótmælum, sem við vitum, að við munum fá frá Bretum og Þjóðverjum. Þá eigum við að bjóða þeim upp á sættir, að þeir megi veiða í vissan tíma með vissum skilyrðum á umþóttunartímabili innan 50 mílna markanna, ef þeir vilji viðurkenna 50 mílna fiskveiðilögsöguna. En ég hef skilið afstöðu hæstv. utanrrh. þannig, að hann sé að freista þess í sínum viðræðum, hvort nokkur möguleiki sé til þess með vissum umþóttunartíma eða á annan hátt að fá Breta og Þjóðverja til þess að viðurkenna 50 mílna mörkin fyrir fram, þegar við færðum út í þau 1. sept. 1972, ef þeir fengju svona eða hinsegin umþóttunartíma eða önnur skilyrði uppfyllt í sambandi við veiðar hér á einhverju takmörkuðu tímabili. Ég hallast alveg eindregið að þeirri stefnu, sem ég held, að hæstv. utanrrh. fylgi, og mér finnst hún auðvitað miklu meira virði fyrir okkur og rétt að reyna til hins ýtrasta að fá viðurkenninguna fyrir fram í viðræðunum. Og það er af þeim sökum, sem ég tel vera ákaflega óhyggilegt og ekki réttmætt að ætlast til þess af okkur eða öðrum hv. þm., að þeir taki afstöðu til uppsagnar samninganna frá 1961, áður en við vitum um niðurstöður slíkrar samningagerðar. Það finnst mér liggja í eðli málsins, að væri sú rétta meðferð á málinu hér, en um það munum við að sjálfsögðu frekar ræða og kannske hafa betri aðstöðu til umr. um það hér í utanrmn., sem fær þetta mál til meðferðar.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að taka undir orð hæstv. forsrh. um það, að okkur skipti mestu máli að standa saman, og við eigum ekki aðeins að reyna það til hlítar, heldur eigum við að ná þeim árangri a.m.k., að samstaðan sé það sterk, að hún geti ekki vakið neinar efasemdir í hugum erlendra þjóða um hið raunverulega takmark okkar Íslendinga, að við teljum okkur eiga rétt til landgrunnsins alls.