15.02.1972
Sameinað þing: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (3393)

21. mál, landhelgismál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það verður að teljast mikið ánægjuefni, að samstaða hefur náðst í utanrmn. um nýja till. í landhelgismálinu. Að vísu er það svo, að við fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í n. áskildum okkur tvenns konar fyrirvara við 1. og 2. tölulið till., sem n. flytur á þskj. 336. Við áskildum okkur rétt til þess að flytja brtt. við 1. tölulið, en hún er á þskj. 337. Efni hennar er að miða fiskveiðilandhelgina nú við landgrunnið, þannig að ytri mörk hennar skuli vera sem næst 400 m jafndýpislínu, en þó hvergi nær landi en 50 sjómílur frá grunnlínu. Hvernig landhelgislínan yrði þá dregin, skilgreinist nákvæmlega í frv. því til laga um landgrunn Íslands og hafið yfir því, fiskveiðilandhelgi. vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins og mengunarlögsögu. sem við 7. þm. Reykv. flytjum á þskj. 318. Með þessum hætti yrði stærð allrar landhelginnar 243 þús. ferkílómetrar í stað 216 þús., ef miðað er aðeins við 50 sjómílur frá grunnlínu. Munar það 27 þús. ferkílómetrum, og innan þeirra marka eru mjög fengsæl fiskimið. Ef þessi brtt. hlýtur ekki nægilegan stuðning hv. þm., en slíkt væri æskilegast, þá munu þm. Sjálfstfl. fylgja 50 mílna tillögunni. Með þessum hætti viljum við tryggja eina og sömu samþykkt Alþ. í landhelgismálinu nú.

Hinn fyrirvari okkar er við 2. tölulið. Fulltrúar stjórnarflokkanna í utanrmn. gera þá grein fyrir skilningi sínum á þessum lið till. í nál. á þskj. 335, að þeir líti svo á, að ríkisstj. hafi samkv. 2. tölulið þáltill. heimild til þess að segja upp samningunum frá 1961 við Breta og Þjóðverja, og telja, að það muni ríkisstj. gera. Eitt er að telja sig hafa heimild til einhvers og annað að nota slíka heimild. Samkv. þessum skilningi fulltrúa stjórnarflokkanna í utanrmn. felst ekki uppsögn á samkomulaginu við Breta og Vestur-Þjóðverja frá 1961 í 2. töluliðnum. Þennan skilning stjórnarflokkanna véfengi ég ekki, en þá er líka rangt það, sem segir í frásögnum stjórnarblaðanna um hina nýju till. utanrmn. í morgun, að með henni sé samningunum við Breta og Vestur-Þjóðverja sagt upp. Það er hins vegar upplýst í nál. af fulltrúum stjórnarflokkanna, að ríkisstj. muni segja þessum samningum formlega upp. Um það vil ég leyfa mér að láta í ljós þá skoðun, að það sé mjög óráðlegt og óviðeigandi að segja þeim upp nú, meðan enn er ekki lokið viðræðum við Breta og Þjóðverja, sem stofnað hefur verið til í þeim tilgangi að finna hagkvæma lausn vandamála, sem upp kunna að koma við útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Meðan slíkum viðræðum er ekki enn lokið, er fyrir hendi sá möguleiki, að nýtt samkomulag taki við af eldra samkomulagi, og væri samskiptum þjóðanna betur komið með þeim hætti.

Ég hef látið í ljós þá skoðun, að enda þótt ekki séu bein uppsagnarákvæði í samkomulagi framangreindra ríkja og Íslands frá 1961, þá mundi það ekki álítast af þjóðarétti, að slíkir samningar séu gerðir til eilífðarnóns og óuppsegjanlegir. Brostnar forsendur og verulega breyttar kringumstæður geta leitt til þess, að hvor aðilinn sem er teljist laus af þeim skuldbindingum, sem í slíkum samningum felast. Það er og rétt, sem fram hefur verið haldið, að samningarnir frá 1961 hafa náð tilgangi sínum og markmiði. Engu að síður kynnu fleiri tilvik en að framan getur að vera þess eðlis, að rétt væri, að þau kæmu til álita við ákvörðun um formlega uppsögn. Það er deginum ljósara og alviðurkennt, að mjög mikilvægt þróunarskeið í þjóðarétti hefur staðið og stendur yfir okkur í vil varðandi fiskveiðilögsögu þjóða almennt og sérstæðan rétt strandríkis eins og Íslands. Er skynsamlegt að hafa hafnað þeirri liðveizlu, sem tíminn einn mun óneitanlega veita stefnu og málstað Íslendinga í landhelgismálinu? Lífshagsmunir þjóða mælast ekki í mánuðum, heldur í framtíðinni.

Það er að sjálfsögðu á ábyrgð ríkisstj., hvort hún notar og hvenær hún notar heimild, sem hún telur sig hafa til þess að segja upp samningum við önnur ríki. Þótt við sjálfstæðismenn höfum ekki talið tímabært að ákveða í fyrra útfærsludag fiskveiðilögsögunnar, m.a. vegna þess, að slíkt gat ekki talizt skipta máli og hagkvæmara þá, að opið stæði, þá höfum við samstöðu nú um gildistöku og útfærslu fiskveiðilandhelginnar 1. sept. 1972. Margir hafa verið í þeirri villu, að ekki væri hægt að færa út mörk fiskveiðilandhelginnar, nema búið væri að segja upp samningum við Breta og Þjóðverja. Það fær ekki staðizt, þó ekki væri nema vegna þess, að í sjálfum samningnum er fólgin yfirlýsing Íslendinga um það, að þeir muni halda áfram að vinna að framgangi þeirrar stefnu, sem mótast af því, að þeir telja sig eiga rétt til fiskveiðilögsögu á öllu hafsvæðinu yfir íslenzka landgrunninu. Þetta felst m.a. í landgrunnslögunum frá 1948.

Herra forseti. Ég lýk nú máli mínu. Samstaða allra þingflokka á nú að nást um till. utanrmn., sem komi í stað þáltill. ríkisstj. á þskj. 21. Þessu ber vissulega að fagna, en gefur þetta ekki vísbendingu um það, að rétt hafi verið gagnrýni okkar sjálfstæðismanna á vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. í þessu máli, þegar hún lagði fyrir þingið í haust alveg óbreytta till. frá því í fyrra, sem bæði var gölluð að efni og formi? Er þetta ekki hreinlega vísbending um það, að samkomulag hefði getað náðst strax í haust, ef þess hefði verið freistað innan landhelgisnefndar, en til þess var engin tilraun gerð af ríkisstj. hálfu? Það leiddi m.a. til þess, að þm. Sjálfstfl. töldu sig knúna til þess að flytja á þessu þingi í haust sérstaka till. til þál. um landhelgi og verndun fiskstofna. Hin veigamiklu ákvæði þeirrar till. og fyrri yfirlýsinga, sem m.a. felast í þál. frá síðasta þingi, frá 7. apríl 1971, um það, að landgrunn Íslands og hafsvæðið yfir því sé hluti af íslenzku yfirráðasvæði, eru nú ítrekuð samkv. hinni nýju till. utanrmn. Um þessa grundvallarstefnu Íslendinga er enginn ágreiningur. Eins eru tekin inn í till. utanrmn. nú ákvæði fyrrnefndrar till., sem einnig er í ályktuninni frá 7. apríl 1971, um verndun fiskstofna og friðun einstakra fiskimiða. Samstaða er og um ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir mengun sjávar og halda áfram samstarfi við aðrar þjóðir um nauðsynlegar ráðstafanir.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt okkur alla fram um það, að samstaða næðist á Alþ. í landhelgismálinu. Sama verður sagt um Alþfl.–menn. Því miður tókst ekki á Alþ. í fyrra að ná samstöðu við þáv. stjórnarandstöðu.

Við treystum nú á farsæla framvindu málsins. Við sérhverja framkvæmd þess skyldi farið með gát, en einurð og festu.