15.02.1972
Sameinað þing: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (3394)

21. mál, landhelgismál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Allir Íslendingar eru um það sammála, að brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar í dag sé, að fiskveiðilögsaga hennar stækki. Svo sem kunnugt er, nemur hún nú 12 mílum frá grunnlínum. sem fylgja ekki vogskorinni ströndinni, heldur eru beinni og sniðnar eftir heildarlögun landsins. Fyrr á öldum var fiskveiðilögsagan stærri. Á 17., 18. og hluta af 19. öld var hún fyrst 32 mílur, síðan 24 mílur og var minnkuð í 16 mílur á 19. öld. Á síðari hluta 19. aldar virðist hafa verið miðað við fjórar mílur; en flóar allir höfðu jafnan verið lokaðir erlendum veiðiskipum. Árið 1901 gerði danska stjórnin, sem þá fór með utanríkismál Íslands, samning við Breta um þriggja mílna fiskveiðilögsögu við Ísland og 10 mílna lögsögu í flóum. Samningnum var sagt upp af Íslendingum, og féll hann úr gildi 1951.

Á þessari öld hefur sókn á Íslandsmið aukizt mjög verulega, bæði af hálfu Íslendinga og annarra. Þegar fyrir fyrri heimsstyrjöld var talið, að um ofveiði nokkurra fisktegunda hafi verið að ræða. Meðan á styrjöldinni stóð, sóttu hins vegar nær engin erlend botnvörpuskip á miðin, og styrktust fiskstofnarnir þá verulega. Að lokinni styrjöldinni reyndist afli á Íslandsmiðum mun meiri en hann hafði verið fyrir styrjöldina. Á tímabilinu milli heimsstyrjaldanna minnkaði veiði sumra fisktegunda hins vegar mjög tilfinnanlega. Talið er, að um ofveiði hafi verið að ræða á meiri hluta allra mikilvægra fisktegunda. Í síðari heimsstyrjöldinni hurfu erlend veiðiskip aftur svo að segja alveg af Íslandsmiðum. Afleiðingin varð sú, að fiskstofnarnir efldust á síðari stríðsárunum og fyrstu árunum eftir stríð. En á s.l. aldarfjórðungi hefur sótt í sama horfið og á tímabilinu milli heimsstyrjaldanna. Nú má fullyrða, að fiskstofnarnir við landið séu fullnýttir.

Fyrir 15—20 árum var algengt, að 15 ára gamall fiskur veiddist. Nú er sjaldgæft að veiða eldri fisk en 10 ára. Það er að sjálfsögðu hagsmunamál allra þeirra, sem neyta fisks af Íslandsmiðum og vilja halda áfram að neyta hans, að fiskstofnarnir á þessum mikilvægu miðum séu ekki skertir. En hver á að tryggja, að svo fari ekki?

Öldum saman hefur verið viðurkenndur einkaréttur strandríkis til veiða á tilteknu svæði út frá ströndinni eða frá línu, sem dregin er samkv. einhverjum reglum meðfram ströndinni. Þetta svæði, fiskveiðilögsagan, hefur verið misstórt á ýmsum tímum og hjá ýmsum ríkjum. Á þessari öld hafa þjóðir, sem veiða á miðum fjarri landi sínu, ráðið mestu um stærð fiskveiðilögsögu, og var hún lengi vel aðallega 3 mílur eins og landhelgin. Á síðari árum hefur það sjónarmið þó náð viðurkenningu, að fiskveiðilögsaga og landhelgi þurfi engan veginn að fara saman. Hálfrar aldar reynsla af þessari stefnu varðandi fiskveiðilögsögu á mikilvægustu fiskimiðum Atlantshafs, Íslandsmiðum, hefur reynzt mjög alvarleg. Enginn vafi er á því, að hefði miðunum ekki verið hlíft tvívegis í nokkur ár, meðan styrjaldir geisuðu, hefði verið hætta á því, að þau eyddust. Eftir að samningurinn við Breta um þriggja mílna fiskveiðilög sögu við Ísland féll úr gildi 1951, hefur það verið eitt helzta áhugamál Íslendinga að koma í veg fyrir ofveiði og stækka fiskveiðilögsöguna. Í því skyni voru lögin um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins sett árið 1948. Á grundvelli þeirra hafa Íslendingar fjórum sinnum stækkað fiskveiðilögsögu sína, 1950, 1952, 1958 og 1961. Nú er enn svo komið, að óhjákvæmilegt er að stækka fiskveiðilögsöguna. Veldur því breytt og bætt tækni í fiskveiðum og sístækkandi veiðiskip, en hvort tveggja veldur því, að veiðin eykst og fiskstofnunum er stefnt í vaxandi hættu. Sókn erlendra fiskiskipa, sem fara sístækkandi og beita stöðugt árangursríkari veiðiaðferðum á miðum við Ísland, hefur farið mjög vaxandi. Á síðustu árum hafa jafnvel sótt á Íslandsmið stór skip frá þjóðum, sem fram til þessa hafa ekki veitt þar. Auk þess hefur sókn á miðin við Ísland aukizt, vegna þess að aflamagn á öðrum miðum hefur minnkað vegna ofveiði þar. Hættan á ofveiði á Íslandsmiðum hefur þess vegna aukizt ár frá ári, og er nú svo komið, að óhjákvæmilegt er að grípa til gagnráðstafana.

Auðvitað hafa allar þjóðir, sem stundað hafa veiðar á Íslandsmiðum, hag af því, að fiskstofnarnir á þessum miðum skerðist ekki. Engin þjóð á þó jafnmikið undir því og Íslendingar. Fiskveiðar hafa verið öldum saman og eru enn undirstaða atvinnulífs á Íslandi. Ef ekki væru fiskimiðin umhverfis landið, væri það naumast byggilegt. Þýðing fiskveiðanna fyrir Íslendinga sést bezt á því, að fimmtung þjóðartekna þeirra má rekja beinlínis til sjávarútvegs og miklu hærra hlutfall, ef tekið er tillit til óbeinna áhrifa. Hjá öllum öðrum þjóðum, sem veiðar stunda á Íslandsmiðum, er hlutur fiskveiða í þjóðartekjunum minni en 1 %. Engin þjóð í víðri veröld á jafnmikið undir fiskveiðum sínum og Íslendingar. Fyrir þá væri skerðing fiskstofnanna við Ísland margfalt meira áfall en nokkra aðra þjóð, sem þar hefur stundað veiðar. Þeir eru eina þjóðin, sem bókstaflega mundi ekki þola alvarlegt áfall í þeim efnum.

Þeirri skoðun hefur undanfarið vaxið fylgi á alþjóðavettvangi, að strandríki hafi rétt til þess að gera ráðstafanir til verndunar fiskimiðum við strendur sínar og þeim mun víðtækari rétt sem fiskveiðar eru mikilvægari fyrir það. Þessi þróun mála mun eflaust halda áfram í sömu átt og með vaxandi hraða. Auðæfi í hafsbotni út frá ströndum eru nú talin eign strandríkisins, og er þá yfirleitt miðað við miklu meiri fjarlægð en fiskveiðilögsaga hefur að jafnaði verið miðuð við. Landgrunn Íslands er í aðalatriðum eins lagað og landið sjálft. Í landfræðilegum skilningi er eðlilegt að telja landgrunnið hluta af landinu. Fiskimiðin eru einmitt yfir landgrunninu. Það skapar sérstakar líffræðilegar aðstæður, sem ásamt hafstraumum gerir miðin að ákjósanlegum hrygningar- og uppeldisstöðvum. Aðstæðurnar yfir landgrunninu eru í raun og veru hluti af náttúruauðlindum landsins. Ef verðmæti eins og t.d. olía fyndust í landgrunninu við Ísland, yrði ekki ágreiningur um það á alþjóðavettvangi, að Íslendingar ættu þá olíu. En má ekki með sama rétti segja, að þeir eigi þau verðmæti, sem eru yfir landgrunninu og byggjast á því, þ.e. þann fæðuforða, sem fiskstofnarnir nærast á, og eigi þess vegna að hafa einkarétt til þess að veiða þá?

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þótt allir Íslendingar séu sammála um nauðsyn stækkunar fiskveiðilögsögunnar og telji sig færa fullgild rök fyrir afstöðu sinni, er ágreiningur um það, hvort miða skuli við 50 mílur eða landgrunnið skilgreint sem 400 m jafndýpislína, þó þannig, að landgrunnslínan liggi hvergi nær landinu en 50 mílur. Alþfl. tók að boða landgrunnskenninguna þegar á s.l. vori. Þegar eftir að ríkisstj. flutti till. sína, þar sem gert var ráð fyrir 50 mílna fiskveiðilögsögu, var af hálfu þingflokks Alþfl. flutt brtt. um að miða fiskveiðilögsöguna við landgrunnið. Sú stefna hefur hlotið mikinn stuðning. Meginrökin fyrir henni eru þau, að sé ekki miðað við landgrunnið, mundu mjög mikilvæg fiskimið haldast utan við fiskveiðilögsöguna, þótt hún yrði færð í 50 mílur. Af því gætu hlotizt nýjar alþjóðlegar deilur eftir fá ár. Af þessum sökum flytjum við þrír utanrmn. menn brtt. um, að miða skuli fiskveiðilögsöguna við landgrunnið, þó þannig, að hún verði hvergi minni en 50 mílur. Þótt till. þessi verði felld, munum við samt styðja áform ríkisstj. um útfærslu í 50 mílur hinn 1. sept. n.k. Ég lít svo á, að þótt ágreiningur sé um framkvæmdaratriði í þessu lífshagsmunamáli Íslendinga, megi það ekki verða til þess, að Alþ. standi ekki saman um kjarna málsins, sjálfa útfærsluna.

Varðandi samninginn frá 1961 tel ég og, að skynsamlegra hefði verið til styrktar málstað Íslands að taka svo til orða, að sá samningur hafi náð tilgangi sínum og eigi því ekki lengur við. Vilji ríkisstj. segja samningnum upp, nægir að vísa til orðsendingar hennar til ríkisstj. Bretlands og Sambandslýðveldisins Þýzkalands frá 31. ágúst 1971 og þess konar orðalags, sem ég nefndi. En ég tel ekki heldur rétt að láta skiptar skoðanir um slík atriði verða þess valdandi, að alþm. allir hafi ekki samstöðu um aðalatriði málsins, en það er nauðsyn þess, að fiskveiðilögsagan stækki sem fyrst.

Í ályktunartillögunni er gert ráð fyrir því, að haldið verði áfram samkomulagstilraunum við ríkisstj. Bretlands og Sambandslýðveldisins Þýzkalands um þau vandamál, sem skapast vegna útfærslunnar. Allir Íslendingar hljóta að vona, að skynsamlegt og réttlátt samkomulag geti tekizt milli Íslendinga og þessara tveggja miklu vinaþjóða þeirra. Þeir treysta því, að ríkisstj. þessara auðugu og voldugu stórþjóða sýni skilning á þörfum lítillar þjóðar, sem telur sig vera að berjast fyrir framtíðar lífshagsmunum sínum. Þótt þingflokkur Alþfl. hafi einróma ákveðið að fylgja till. við loka atkvgr., þótt fellt hafi verið að taka upp þá stefnu varðandi mörk fiskveiðilögsögunnar, sem Alþfl. telur rétta, landgrunnsstefnuna, jafngildir það ekki því, að hann sé með því að taka ábyrgð á öllum orðum og gerðum ríkisstj. í landhelgismálinu. Ef Alþfl. hefði mátt ráða, hefði að ýmsu leyti verið farið öðruvísi að. En nú er hvorki staður né stund til þess að gera slíkt að umræðuefni. Nú á þingheimur allur að standa saman í stærsta máli þjóðarinnar í dag. Hann á að standa saman, þangað til réttlátur sigur er unninn.