15.02.1972
Sameinað þing: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (3398)

21. mál, landhelgismál

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Fyrr á þessu þingi urðu ítarlegar umr. um landhelgismálið. Var það bæði í sambandi við umr. um till. hæstv. ríkisstj. og einnig um þá till., sem við 10 þm. Sjálfstfl. fluttum á þskj. 56 um landhelgi og verndun fiskistofna.

till. fól í sér í fyrsta lagi, að fiskveiðilögsaga Íslands skyldi ná yfir allt landgrunnið og ytri mörk landgrunnsins skyldu talin 400 metra jafndýpislína, þangað til mörk þess yrðu ákveðin með lögum, en þó hvergi nær landinu en 50 mílur frá grunnlínu. Í 2. og 3. lið var rætt um ákveðnar friðunaraðgerðir, bæði innan 12 mílna landhelgi og á landgrunninu utan þeirra, enn fremur um þátttöku í samstarfi þjóða til að hindra ofveiði utan landgrunns og tryggja Íslendingum eðlilega hlutdeild í fiskveiðum á úthöfum og loks um mengunarlögsögu og samstarf við aðrar þjóðir.

Ég skal ekki rekja ítarlega þau rök, sem lágu til þeirra tillagna, sem þar voru fluttar. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að samstaða hefur í meginatriðum tekizt á milli þingflokkanna um þetta mál. Ég tel, að sú brtt., sem utanrmn. flytur, sé að ýmsu leyti til bóta frá till. hæstv. ríkisstj.

Meðal þess, sem ég tel vera til bóta, er í fyrsta lagi 3. liðurinn: að haldið verði áfram samkomulagstilraunum við ríkisstjórnir Bretlands og Sambandslýðveldisins Þýzkalands um þau vandamál, sem skapast vegna útfærslunnar. — Þetta er mjög til bóta, vegna þess að þetta er töluvert á annan veg en sá málflutningur, sem heyrðist hér í fyrra lengi vel og jafnvel fram eftir vetri, að þetta væri algjört einkamál okkar Íslendinga, væri ekki utanríkismál, heldur innanríkismál, og þyrfti ekki við aðra að tala eða semja um það.

Í þessu efni hefur orðið nokkur breyting í framkvæmd, bæði með því, að hæstv. ríkisstj. tók upp viðræður við tvær þjóðir, og enn fremur að nú er því lýst yfir í þessari sameiginlegu till., að þessum samkomulagstilraunum skuli haldið áfram.

Í öðru lagi tel ég mjög til bóta, að í 4. lið er ákveðið, að unnið skuli áfram í samráði við fiskifræðinga að ströngu eftirliti með fiskistofnum við landið, og settar, eftir því sem nauðsynlegt reynist, reglur um friðun þeirra og einstakra fiskimiða til þess að koma í veg fyrir ofveiði.

Það er mjög gagnlegt, að þessi till. kemur hér fram, þar sem þetta efni var ekki í upphaflegri till. ríkisstjórnarinnar. Hér er að vísu nokkru skemmra gengið en í till okkar sjálfstæðismanna og hefði verið æskilegt, ekki aðeins að þetta hefði verið ítarlegra heldur vil ég líka taka fram, að það hefði verið æskilegra og miklu sigurstranglegra fyrir okkur í þeirri baráttu, sem fram undan er, að þegar á s.l. ári hefðu verið ákvarðaðar ýmsar slíkar friðunaraðgerðir, bæði innan 12 mílna og utan 12 mílna, bæði af þeim eðlilegu rökum, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 3. þm. Sunnl., rakti, og einnig vegna málflutnings okkar alls og málafylgju á erlendum vettvangi. En þetta tel ég til bóta frá því sem var.

Í þriðja lagi tel ég till. um mengunarlögsöguna til bóta. Í till. ríkisstj. var miðað við 100 mílna mengunarlögsögu, en það er alveg ljóst, að hún þarf í mörgum efnum að ná miklu lengra og er þetta atriði einnig sem sagt til hins betra. Hinu er ekki að neita, eins og rakið var í ræðu hv. 1. þm. Reykv., að sérstaklega um eitt atriði teljum við, að hér sé of skammt gengið, og það er varðandi hin ytri mörk hinnar nýju væntanlegu landhelgi.

Við höfum lagt á það áherzlu, að miðað yrði við 400 m jafndýpislínu, þó hvergi nær landi en 50 mílur, og ég vil hér vegna ummæla, sem fallið hafa gegn þessari till., aðeins rekja í stórum dráttum, hver helztu rökin eru fyrir þessu. Í fyrsta lagi er þarna, utan 50 mílna en innan 400 m dýptarlinunnar, einkum fyrir Vesturlandi, um mjög mikilvæg fiskimið að ræða. Og ef þau verða ekki innan landhelginnar nú, þá má ætla, að þau séu í mjög mikilli hættu, vegna þess að ljóst er, að þau fiskiskip erlend, sem nú veiða víðs vegar milli 12 og 50 mílna, en verða að hverfa af þeim miðum, munu flykkjast m.a. á þessi mið fyrir Vesturlandi. Þetta er mjög alvarlegt mál, sem er ein helzta röksemdin fyrir till. okkar. En röksemdirnar eru fleiri. Það er ekki vafi á því, að á alþjóðavettvangi mundi þessi landgrunnsstefna vera okkur sigurstranglegri en miðunin við 50 mílur einar. Nefni ég þar m.a. þá viðurkenndu þjóðréttarreglu nú, að ríki eigi hafsbotninn úti fyrir sínu landi, hafsbotninn á landgrunninu og öll þau auðæfi, sem eru í því og á.

Nú er það þannig, að um sum verðmæti okkar, sem við jafnvel hagnýtum okkur nú, má vafalaust segja, að þau séu svo nátengd hafsbotninum, að við munum eiga þau, þótt út fyrir 50 mílurnar sé komið. En þessi röksemd, að ríkin eigi öll verðmæti í og á hafsbotninum, mun verða eða gæti orðið okkur einhver allra sterkasta röksemd á alþjóðavettvangi fyrir þeim málstað okkar, að við teldum þá, að með sama rétti ættum við auðæfin í hafinu á landgrunninu yfir hafsbotninum. Og sérstaklega mundi sú viðbótarröksemd verða þung á metunum hjá okkur, þar sem hægt er að benda á, að þegar aðrar þjóðir margar eiga mikilvægar auðlindir í hafsbotninum. þá er land okkar svo ungt landfræðilega séð, að yfirleitt eru ekki taldar miklar líkur til þess, að í hafsbotninum sé líklegt að finna mikil auðæfi. Okkar auðæfi eru einmitt í sjónum yfir landgrunni, yfir hafsbotninum.

Þau gagnrök, sem talin hafa verið gegn þessu, finnst mér heldur léttvæg. Fyrsta röksemdin var sú, að það væri óframkvæmanlegt að miða við 400 m jafndýpislínu. Það hefur verið gjörsamlega afsannað, og kemur það m.a. í ljós í því frv., sem hér var lagt nýlega fram um fiskveiðilandhelgi Íslands. Sjómælingastofnun Íslands hefur beinlínis sýnt það og sannað, að það er auðvelt að ákvarða þessa dýptarlínu. Vitanlega hefur alltaf verið gengið út frá því og margsinnis tekið fram og í rauninni allt frá 1948, að ef miðað væri við dýptarlínur, verður auðvitað að draga beinar línur yfir djúpála, að sumu leyti eins og er gert með grunnlínupunktana, sem nú er við miðað, og það hefur verið sýnt á kortum sem fylgja því frv., sem flutt er af hv. 1. og hv. 7. þm. Reykv„ sýnt svo greinilega sem verða má, að hér er enginn vandi á höndum. Röksemdin um að þetta sé óframkvæmanlegt eða erfitt fær ekki staðizt. Önnur röksemdin er sú, að það sé þegar búið að kynna svo ítarlega 50 mílurnar, að það mundi rugla allt fyrir okkur, ef við miðuðum nú að einhverju leyti við dýptarlínu. Þessi röksemd fær heldur ekki staðizt, vegna þess að eins og margsinnis hefur verið bent á hér áður þá hafa bæði hæstv. utanrrh. og formaður sendinefndar okkar í þessum málum. Hans G. Andersen sendiherra, hvað eftir annað í sínum ræðum hjá Sameinuðu þjóðunum og á Genfar ráðstefnu einmitt byggt fyrst og fremst á landgrunninu og talað um 50 til 70 mílur. Þannig hefur málið sem betur fer og réttilega verið kynnt, svo að sú röksemd fær ekki staðizt, að það mundi skaða okkar málstað, þó að við miðuðum nú við landgrunnið allt að 400 m dýpi í staðinn fyrir 50 mílur. Þriðja röksemdin er sú, að allar aðrar þjóðir miðuðu við ákveðna mílnatölu, en ekki við dýptarlínu, og þess vegna megum við ekki út frá því bregða. Þetta er líka byggt á algjörum misskilningi. Við höfum alltaf haldið því fram og höldum því fram, að við höfum algjöra sérstöðu meðal þjóða varðandi okkar fiskimið, því að engin þjóð önnur sé jafnháð fiskveiðum eins og við og einmitt þess vegna, vegna okkar algjöru sérstöðu, væri líka æskilegt, að við miðuðum þá ytri mörk landhelgi okkar á annan hátt en aðrir og einmitt við landgrunnið, sem er frá öllum sjónarmiðum séð, landfræðilega, sögulega, efnahagslega, atvinnulega, varðandi uppeldi fisksins og fiskimiðin, er að öllu leyti hin eðlilegu mörk. Ég tel þvert á móti því, sem hér er haldið fram, að það væri sterkara fyrir okkur á alþjóðavettvangi, einmitt að miða ekki endilega við ákveðna mílutölu, heldur við landgrunnið í heild og það mundi marka enn betur en áður okkar algjöru sérstöðu meðal þjóða heimsins.

Vegna þess að hér liggur fyrir brtt. í þessa átt frá minni hl. hv. utanrmn. og vegna þess að þetta er í rauninni það eina ágreiningsefni, sem kemur til atkv. hér á þingi, þá hefði ég viljað rekja aftur rök og gagnrök í þessu máli. Annað atriði, sem hér hefur borið á góma og sem fyrirvari er gerður um af hv. minni hl. n., eru samningarnir við Breta og Þjóðverja 1961, og ég sé ástæðu til þess aðeins að víkja að því efni, að alveg sérstaklega gefnu tilefni frá hæstv. sjútvrh., því að hér er reynt að halda að þjóðinni að mínu viti algjörlega röngum skilningi á samningnum frá 1961. Það hefur verið reynt lengi að útbreiða meðal þjóðarinnar þann misskilning, vil ég segja, að samningarnir frá 1961 séu þröskuldur í vegi útfærslunnar og að ekki sé hægt að færa út landhelgina nema segja þeim samningi upp fyrst. Ég tel, að þetta sé byggt á algjörum misskilningi. Í fyrsta lagi er það ljóst, að við getum fært út okkar landhelgi, hvort sem það er í 50 mílur eða miðað við 400 m jafndýpislínu, þannig að það kemur til framkvæmda og verður í framkvæmd, þó að Bretar og Þjóðverjar vilji fara með málið fyrir Alþjóðadómstólinn. Meðan dómurinn fjallar um málið, sem stendur yfir í nokkur ár, þá yrði þessi útvíkkun í framkvæmd. Þetta er alveg ljóst. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það.

Árið 1961 var þetta mál alveg sérstaklega rætt í umr. á Alþ. og það var spurt um þetta. Það komu ákveðnar yfirlýsingar frá þáv. utanrrh. og frá frsm. meiri hl. utanrmn., hv. 1. þm. Reykv., um þennan skilning. Það var að vísu af einum hv. þm. borin fram brtt. um að bæta þessu ákvæði inn í samninginn skýrt og skorinort. Þetta var talið óþarft og undirstrikað sem sagt af þáv. ríkisstj. og þingmeirihluta, að þessi skilningur hlyti að vera sá eini og rétti. Þannig hefur það aldrei verið dregið í efa í rauninni fyrr en nú af núv. stjórnarflokkum, að það væri einhver vafi á því, að útfærslan kæmi í framkvæmd og yrði framkvæmd, þó að málinu yrði skotið til dómsins. Ég lít einnig svo á, að jafnvel þó að slík útfærsla færi fyrir dóminn og þess yrði krafizt, að við yrðum stöðvaðir í útfærslunni þá þegar, þá lít ég alveg hiklaust svo á, að Alþjóðadómstóllinn hafi ekki heimild til þess að fyrirskipa okkur að bíða með útfærsluna.

Ég tel að hér sé sem sagt um algjörlega rangan og villandi skilning að ræða. Ég skal ekki fara frekar út í það hér, en í annan stað held ég að sé alveg rétt að það komi hér fram, að ég fyrir mitt leyti er ekki sérstaklega hræddur við efnisdóm Alþjóðadómstólsins í þessu máli, eins og margir og a.m.k. allir stjórnarliðar virðast vera. Ef þetta mál, útfærslan, færi fyrir alþjóðadóm, þá tæki það væntanlega 3-4 ár. Á þeim tíma mun margt gerast. Við vitum það öll og erum sammála um það, að tíminn vinnur fyrir okkur, og að þeim sjónarmiðum, að strandríki eigi að fá miklu stærra svæði undir sína lögsögu en áður og nauðsynlegt sé að vernda rétt strandríkjanna til sinna fiskimiða, að þessari skoðun vex sífellt fylgi, ekki aðeins ár frá ári, heldur mánuð frá mánuði. Þetta hefur skýrt komið fram m.a. í þeim fregnum, sem okkur hafa verið fluttar af alþjóðaráðstefnum, undirbúningsráðstefnum undanfarið.

Hafréttarráðstefnan verður væntanlega haldin annað hvort á árinu 1973 eða 1974, og það eru yfirgnæfandi líkur til þess, að meiri hluti þjóða á þeirri ráðstefnu muni telja, að okkar sjónarmið og fjölda annarra þjóða séu rétt, þannig að þau verði ofan á með meiri hluta á þeirri ráðstefnu. Nú er það að vísu þannig, að á slíkum alþjóðaráðstefnum er yfirleitt gert ráð fyrir því, að til þess að einhver samþykkt sé bindandi þjóðréttarregla fyrir allar þjóðir, þurfi 2/3 að samþykkja. Ég skal ekki fullyrða, hvort sá aukni meiri hluti næst, en ég held, að ef nokkuð er að marka þær fregnir, sem bæði hæstv. ríkisstj. og aðrir hafa flutt okkur um þróunina í þessum efnum og viðhorf einstakra ríkja og vaxandi fylgi við okkar málstað, þá megi telja yfirgnæfandi líkur fyrir því, að á þessari ráðstefnu yrði meiri hluti þjóða fylgjandi okkar málstað. Og hverjum dettur í hug, að eftir að slíkt lægi fyrir færi alþjóðadómstóll, þvert ofan í vilja meiri hluta á slíkri alþjóðaráðstefnu, að dæma útfærslu okkar ólöglega? Auk þess er það vitað, að alþjóðadómurinn breytist frá ári til árs. Það er endurnýjun í þeim dómi, og vitanlega hlýtur sú þróun, sem er að verða að þessu leyti í þjóðaréttinum, að hafa áhrif þar m.a. við val og skipun nýrra dómenda.

Ég hef nú talið, að rétt væri, að þessi tvö sjónarmið komi hér fram, annars vegar að samningurinn frá 1961 er ekki þröskuldur í vegi fyrir útfærslu, vegna þess að útfærslan kæmi til framkvæmda, þó að málið færi fyrir alþjóðadóminn, og í öðru lagi, að ég lít persónulega svo á, að við þurfum ekki að óttast málalok, þó að efnisdómur yrði kveðinn upp í máli fyrir alþjóðadómi. Um þetta er auðvitað aldrei hægt að fullyrða. Þetta er mín persónulega skoðun. Í sambandi við þetta er vissulega líka rétt að hafa þetta í huga: Við höfum nú einu sinni gengizt undir það 1961 með gildum og bindandi milliríkjasamningi, að ágreiningur um þetta mál skyldi hlíta úrlausn Alþjóðadómstólsins, og í því sambandi er vissulega ekki ástæðulaust að minna á það, sem hæstv. núv. forsrh. sagði í mjög góðri ræðu 14. nóv. 1968 hér á hv. Alþ., því að þau rök og þau sjónarmið standa vissulega í gildi. Hann talar um það, hvort rétt hafi verið, að Íslendingar hafi neitað að bera útfærslu landhelgi undir alþjóðadóm eða fallast á það, og hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Vissulega er það svo, að smáþjóð verður að varast að ganga svo langt, að hún geti ekki alltaf verið við því búin að leggja mál sín undir úrlausn alþjóðadómstóls, því að sannleikurinn er sá, að smáþjóð á ekki annars staðar frekar skjóls að vænta en hjá alþjóðasamtökum og alþjóðastofnunum, af því að hún hefur ekki valdið til að fylgja eftir sínum ákvörðunum eins og stórveldin. Þess vegna hefði að mínu viti hvert eitt spor í þessu máli átt að vera þannig undirbúið, að við hefðum verið við því búnir að leggja þau undir úrlausn alþjóðadómstóls.“

Þetta voru viturleg orð. Hitt er svo annað mál, að af, ég vil segja pólitískum ástæðum, þá hefur hæstv. forsrh. fallið frá þessari skoðun sinni og hefur nú um alllangt skeið boðað annað. Að gefnu alveg sérstöku tilefni frá hæstv. sjútvrh., þar sem hann gefur villandi mynd af þeim samningi, sem gerður var 1961 og staðhæfir ranglega, að hann sé algjör þröskuldur í vegi fyrir útfærslu, vildi ég láta þessi sjónarmið koma hér fram.

Ég skal, herra forseti, ekki fara um þetta mál fleiri orðum. Ég vil lýsa ánægju minni að nýju yfir þeirri samstöðu, sem hér hefur náðst. Ég tel, að það hefði verið betur farið, ef stjórnarflokkarnir hefðu fallizt á till. okkar um 400 m dýptarlínuna. Sýnt er, að það gera þeir ekki, svo að sú till. nær hér ekki samþykki. Þá er það auðvitað ætlun okkar og ákvörðun allra, að greiða atkv. með till. óbreyttri, eins og hún kemur frá hv. utanrmn. Hér er um stórmál að ræða, sem allur þingheimur á að standa saman um. En sá einhugur, sem hér á að vera í atkvgr. um þetta mál, hann má ekki verða til þess að þagga niður þá gagnrýni eða ábendingar, sem nauðsynlegar eru. Það er nauðsynlegt að hafa hér hreinskilni og bersögli um þetta mál, þannig að menn geti haft þau sjónarmið einnig í huga um leið og við undirstrikum samstöðu okkar að lokum með atkvgr. hér á eftir.

Ég vil líka taka það fram. að ég tel, að ýmislegt í málsmeðferðinni hafi hjá núv. hæstv. ríkisstj. ekki verið eins og það átti að vera. Ég tek fram, að margt hefur hún vel gert í þeim efnum, en ýmislegt hefur verið á annan veg en æskilegt væri, og nú er það von mín, að þetta mál verði borið fram til sigurs, en eins og hæstv. forsrh. sagði áðan, þá má búast við, að sú leið verði löng og ströng. Vissulega þarf þar á samstöðu allra að halda, en þá ætlumst við líka til þess, sem höfum að sumu leyti aðrar skoðanir í þessum efnum en hæstv. ríkisstj., að ríkisstj. fari fram í þessum efnum með einurð, en með gát og að hvert spor sé rækilega hugsað, viturlegt og af ábyrgð stigið. Þá mun vel farnast í þessu máli og þá mun þessi dagur, þegar við væntanlega með atkvæðum alls þingheims greiðum þessari till. í heild atkvæði, marka stórt spor. Spor, sem ég vænti, ef vel og viturlega er á framkvæmd haldið, verði þjóðinni til mikillar gæfu.