15.02.1972
Sameinað þing: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (3399)

21. mál, landhelgismál

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. hefur nú lokið máli sínu. Hann vill greinilega stofna hér til deilna um meðferð landhelgismálsins. Ég ætla ekki að taka þátt í því, en vegna þess að minn málflutningur var sérstaklega gerður að umtalsefni í ræðu hans, þá vil ég leyfa mér að endurtaka það, sem ég sagði í umr. um þetta mál einhvern tíma seint á síðastliðnu ári.

Það er vissulega alveg rétt, að ég hef alltaf erlendis og reyndar hérlendis líka, þar sem ég hef rætt þetta mál, reynt að flytja það á grundvelli landgrunnslaganna frá 1948 til þess að undirstrika það, að það væri samræmi þrátt fyrir allt í stefnu Íslendinga í landhelgismálinu og að réttur okkar væri byggður á landgrunnslögunum frá því ári. Jafnframt hef ég ávallt látið það koma skýrt fram. — ég held, að mér sé alveg óhætt að segja það,— að það væri 50 mílna áfangi, sem við stefndum að, að þessu sinni, og ég vil óska þess, að hv. alþm. hafi það, sem sannara reynist í þessu.

50 mílur er það, sem hefur verið túlkað sem krafa Íslendinga í þessum áfanga síðan þessi ríkisstjórn tók við. Nú segja menn hér og eru búnir að segja það í eitthvað á annan mánuð, að þetta sé allt of lítið, núna eigum við að taka landgrunnið allt, eins og það heitir, og að hluta til er það rökstutt með því, að þá þurfum við ekki alltaf að vera að þessu. Það sé helzt að taka þetta allt bara í einum áfanga, og málið er þar með búið. En er það þá þar með búið, þó að brtt. hv. stjórnarandstöðumanna yrði samþykkt? Er það þar með búið, þó að frv. hv. 1. og 7. þm. Reykv. væri samþykkt? Ég veit það ekki. en ég veit það, að í því frv. segir, að fiskveiðilögsagan skuli, þangað til Alþ. ákveði annað, ná yfir landgrunnið, þannig að ytri mörk hennar skuli vera sem næst 400 m jafndýpislínu o.s.frv. Þetta sýnist mér benda til þess, að málið sé þá þrátt fyrir allt ekki búið og þá sé a.m.k. ein lota enn eftir í þessu máli, þannig að mér sýnist, að þau rök, sem hér hafa verið flutt fyrir því, að réttast væri að taka bara nógu mikið núna og miða við 400 m jafndýpislínu, mundu þrátt fyrir allt ekki binda endi á kröfur Íslendinga í landhelgismálin, þannig að það er þá bitamunur en ekki bagga, hvort farið er. Hitt er rétt, að það eru auðvitað nokkur svæði, sem verða fyrir utan, ef till. ríkisstj. verður samþ., sem allar líkur benda nú til. En ég skal ekki orðlengja frekar um þetta.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að það væri algjörlega ótvírætt, að útfærsla fiskveiðilögsögunnar mundi gilda, þangað til Haag dómur hefði fjallað um málið. Rökstuðningurinn fyrir því er sá, að Alþingi Íslendinga hefði samþykkt þetta og það hefðu einhverjir tilteknir alþm. sagt þetta 1961. En er þetta skilningur viðsemjenda okkar, og er þetta skilningur Haagdómstólsins? Það er það, sem máli skiptir, en ekki það út af fyrir sig, hvaða óskir við létum í ljósi um þetta atriði á sínum tíma. Það má vel vera, að þetta hafi verið eitt af samningsatriðunum. en ekki segir þetta nú í nótunum. sem gengu á milli ríkisstjórnanna 1961, og ég er anzi hræddur um. að það geti orðið a.m.k. álitamál, þó að ekki sé meira sagt.

Svo er sagt hér, að málsmeðferð okkar hafi ekki verið eins og vera ber. Það má auðvitað vel vera, að svo hafi ekki verið. Æskilegast væri þá að fá ábendingar um það, í hverju henni hefur verið svona áfátt, til þess að hugsanlega mætti þá bæta úr því, en ég held þó, að þessi ríkisstj. hafi haldið á þessu máli svona allvel, svo að ég segi nú ekki meira, og m.a. hefur það staðfest, sem trúlega verður niðurstaða Alþ., að það hafi verið rétt að leita samningaviðræðna við Breta og Vestur-Þjóðverja. Við höfum unnið að því. Við höfum reynt að kynna málið út frá því sjónarmiði, sem við settum okkur, þ.e. 50 mílum. og nokkur árangur hefur náðst, þó að vitanlega sé mjög mikið eftir óunnið í þessu mikla máli.

Ég vona, að svo fari, sem menn hafa lýst ánægju yfir hér allir, að Alþ. geti náð samstöðu um þetta mál, og ætla ég ekki að eyða lengri tíma Alþ. í umr. um það, en ég vildi aðeins, að menn vissu það, að þótt ég hafi ávallt talað um landgrunnið allt sem lokamarkmið, þá hef ég þó jafnframt tekið það fram, að 50 mílur væri sá áfangi, sem við að þessu sinni stefndum að.