04.11.1971
Sameinað þing: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (3417)

23. mál, félaga- og firmaskrár

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Með því að 1. flm. þessarar þáltill., sem liggur hérna fyrir til umr., hefur vikið af þingi, vil ég leyfa mér að fylgja henni úr hlaði með örfáum orðum. Till. er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að koma á fót félaga– og firmaskrá fyrir landið í heild.“

Samkv. nýgildandi lögum eru haldnar slíkar skrár í hverju einstöku lögsagnarumdæmi, en engin allsherjarskrá er til. Þetta hefur oft valdið óþægindum og margs konar fyrirhöfn og hefur jafnvel leitt til málaferla, sem að öðrum kosti hefði verið komizt hjá, ef heildarskrá hefði verið til staðar. Ákvæðin um firmaskrá er að finna í lögum nr. 42 1903, um verzlunarskrár, firmu– og prókúruumboð. Þau lög, sem eru svo gömul, allt að 70 ára, áttu við þarfir þess tíma, þegar til þeirra var stofnað og þau samþ., en eru að sjálfsögðu á margan hátt úrelt í dag. Svo eru enn fremur í ýmsum sérlögum ákvæði um sérstakar félagaskrár, svo sem eins og í lögum um samvinnufélög og hlutafélög, en þar er ekki heldur gert ráð fyrir neinni heildarskrá.

Við flm. þessarar till. álítum. að stofnun allsherjar firma— og félagaskrár sé þannig mjög aðkallandi. Aðili, sem ætlar að skrásetja nýtt fyrirtæki, gæti þá á einum stað fengið allar þær upplýsingar, sem honum væri þörf á. t.d. hvort fyrirtæki með sama eða líku nafni væri einhvers staðar til í landinu. En æði oft hefur viljað við bera, þegar félag eða maður kemur fram með firmaheiti, að til sé líkt eða sams konar heiti annars staðar í landinu, og hefur það náttúrlega orðið til þess, að viðkomandi hefur orðið að breyta um nafn. En það hefur að sjálfsögðu haft mikinn kostnað og ég tala ekki um óþægindi í för með sér.

Í þessari ályktunartill. er ekki tekin afstaða til þess, hverjum aðila yrði falið það hlutverk að hafa með höndum þessa heildarskráningu. En benda mætti þó á tvær stofnanir, annars vegar Hagstofu Íslands og hins vegar viðskrn., sem mætti ætla, að gæti haft slíka skráningu á hendi. Í till. er ekki heldur gert ráð fyrir því, hvor skráin yrði rétthærri, heildarskráin eða skrá innan lögsagnarumdæmis. En það virðist vera eðlilegra, að þegar til kæmi, væri heildarskráin rétthærri og sá, sem hefði forstöðu heildarskrár, hefði þá ákvörðunarvald um það atriði, hvort t.d. mætti skrásetja fyrirtæki eða ekki.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þessa þáltill., en óska þess að lokum, að henni verði vísað til allshn., þegar þessari umr. verður frestað.